Umhverfismál
Framsókn
Grunnstef í stefnu Framsóknar er virðing fyrir náttúrunni. Íslendingar byggja sína tilveru á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar. Mikilvægt er að arður af nýtingu auðlindanna renni til samfélagsins og að nýting sé ávallt út frá viðmiðum hringrásarhagkerfisins. Hreint loft, land og haf, ásamt fjölbreytni íslenskrar náttúru, ber að vernda til framtíðar. Framsókn leggur mikla áherslu á umhverfismál og sjálfbæra þróun.
Framsókn telur veruleg tækifæri liggja í útflutningi á þekkingu í formi ráðgjafar og fjárfestinga á erlendum vettvangi þar sem menntun og þekking á hlutum eins og endurnýjanlegri orku skipta miklu máli.
Framsókn styður aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og vill að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegum aðgerðum á þessu sviði. Framsókn hvetur til samstarfs við atvinnulífið um aðgerðir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að sjálfbærni í framleiðsluferlum.
Framsókn vill einnig efla innviði, svo sem flutningskerfi fyrir orku, til að tryggja nýtingu innlendra, grænna orkugjafa. Flokkurinn leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð og vill að bæði einstaklingar og fyrirtæki taki þátt í að vernda náttúruna og draga úr umhverfisáhrifum. Framsókn vill að innviðir séu hannaðir með umhverfisvernd í huga, þar sem sjálfbærni og græn orka eru í forgrunni. Þetta felur í sér að nýta endurnýjanlega orku og draga úr kolefnislosun.
Viðreisn
Stærstu áskoranir samtímans eru á sviði umhverfismála. Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því neyðarástandi sem vofir yfir heimsbyggðinni. Leið Viðreisnar í ríkisstjórn er að koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga. Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við nýtingu, er lykillinn að grænni framtíð. Öll mál eru umhverfismál.
Móta þarf heildstæða stefnu, í samráði við sérfræðinga, um sjálfbæra landnýtingu sem byggir á vernd vistkerfa- og jarðminja, tekur tillit til bættrar vatnsverndar, og rýrir ekki náttúrugæði landsins. Draga þarf almennt úr losun frá landi og stórauka bindingu í jarðvegi og gróðri.
Náttúra Íslands, með sína líffræðilegu og jarðfræðilegu fjölbreytni, er ein okkar dýrmætasta auðlind. Okkur ber því skylda til að vernda villta íslenskra náttúru og fjölbreytni landslagsins fyrir komandi kynslóðir. Besta leiðin til að halda utan um vernd og nýtingu villtrar náttúru er markviss auðlindastjórnun.
Sjálfstæðisflokkurinn
Mikilvægt er að Ísland innleiði hringrásarhagkerfi hratt til að breyta auðlindum úr úrgangi í verðmæti. Þótt Íslendingar hafi náð árangri í nýtingu sjávarafurða, er þörf á markvissum aðgerðum til að bæta úrgangsstjórnun á öðrum sviðum. Það krefst nýrrar hugsunar og betri úrgangsstjórnunar sem styður við nýsköpun og býður upp á heildstæðar lausnir.
Markvisst þarf að finna nýjar lausnir til að nýta úrgang, virkja íslenskt hugvit og skapa aukin verðmæti. Sérstaklega þarf að hætta að urða lífúrgang og nýta hann betur, til dæmis sem áburð. Við getum lært af árangri Sjávarklasans og stofnað hringrásarklasa til að efla þessa þróun. Mikilvægt er að loka ekki á nýjar lausnir varðandi úrgangsstjórnun, til dæmis með löngum samningum sem takmarka nýtingarmöguleika úrgangs og hindra verðmætasköpun. Opin og frjáls markaður með úrgang, þar sem besta lausnin fær hæsta verð, er æskilegur til að hvetja til nýsköpunar og betri nýtingar.
Náttúruvernd hefur alltaf verið hornsteinn í stefnu Sjálfstæðisflokksins og hefur fengið aukið vægi undanfarið. Vernd náttúrulegra landsvæða, bæði lífríkis og landslags, er mikilvæg til að tryggja líffræðilega fjölbreytni og vistkerfaþjónustu. Einnig er mikilvægt að við og komandi kynslóðir getum notið ósnortinnar náttúru, sem stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan.
Flokkurinn hefur lagt áherslu á aukna aðkomu heimamanna við stjórnun þjóðgarða, sem hefur leitt til frumkvæðis um stofnun nýrra þjóðgarða á svæðum eins og Langanesi, Vestfjörðum, Dalabyggð og Þórsmörk. Þessi stefnubreyting er farsæl og stuðlar að sjálfbærri náttúruvernd til framtíðar.
Verndun náttúrunnar útilokar ekki nýtingu; innan friðlýstra svæða eru mörg dæmi um þetta. Mikilvægt er að standa vörð um frelsi landsmanna til að ferðast um landið og njóta náttúrunnar. Til að finna jafnvægið milli verndar og nýtingar þarf að stunda rannsóknir og eiga samtal við alla hagsmunaaðila. Samstarf stjórnvalda við landeigendur á viðkvæmum og fjölsóttum svæðum er lykillinn að árangri, eins og sýnt hefur verið í Fjaðrárgljúfri. Með sameiginlegu átaki getum við tryggt sjálfbæra nýtingu og vernd náttúrunnar fyrir komandi kynslóðir.
Flokkur Fólksins
Flokkur fólksins vill að Ísland nýti þá sérstöðu sem við búum við, og felst í okkar grænu orku og hreina vatni, til að stórefla gróðurhúsarækt. Við viljum niðurgreiða rafmagnskostnað og hitunarkostnað við grænmetisræktun í stað þess að verið sé að fljúga til landsins með grænmeti, sem myglar eftir nokkra daga í búðinni. Við viljum að horfið verði frá áformum um stórfellda niðurdælingu efna í Straumsvík á vegum Carbfix.
Sósíalistaflokkurinn
Að litið sé á umhverfis- og loftslagsmál sem mannúðarmál er varðar réttindi komandi kynslóða til lífs. Það skal því vera skylda stjórnvalda að vernda náttúru og lífríki og löggjafinn nýttur til þessa í hvívetna.
Að lýst sé yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og skulu íslensk yfirvöld bregðast við þeim vanda hratt og örugglega og í samvinnu við umheiminn. Að náttúran og lífríki hennar sé ávalt í fyrirrúmi í öllum ákvarðanatökum sem hana varða og að réttur komandi kynslóða til heilsusamlegs lífs sé ávalt sett ofar sjónarmiðum um fjárhagslegan gróða einstaklinga og fyrirtækja. Að róttæk skref séu tekin til að hætta notkun á einnota plasti og koma í veg fyrir plastmengun og ofpökkun með öllum tiltækum ráðum.Að stöðva frekari stóriðju og auka eftirlit með þeim stórfyrirtækjum sem fyrir eru með því markmiði að draga úr mengun. Ekki skal hleypa að í stofnun og rekstur,þeim fyrirtækjum innlendum sem erlendum sem sýnt hafa af sér virðingaleysi gagnvart náttúrunni.
Lýðræðisflokkurinn
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.
Miðflokkurinn
Miðflokkurinn leggur áherslu á að nýta gæði landsins með sjálfbærni og hreinleika sem markmið. Þannig verði gert átak í meðhöndlun úrgangs og fráveitumál efld þannig að þau sæmi matvælaframleiðsluþjóð. Miðflokkurinn leggur áherslu á að það er umhverfisvænna að framleiða matvæli nálægt heimamarkaði í stað þess að flytja þau um langan veg. Aukin vinnsla á endurnýjanlegri, grænni orku skapar ótal tækifæri í matvælaframleiðslu sem getur í framtíðinni starfað í hátækniumhverfi hér á landi. Hér eru kjöraðstæður fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu.
Um leið er mikilvægt að gerbreyta stefnu Íslendinga í sorpmálum en Miðflokkurinn hefur talað fyrir því að hér verði reist hátæknisorpbrennslustöð. Hingað til hefur langmest af því sorpi sem fellur til verið urðað eða sent til útlanda og óljóst er hvað verður um það þar. Það er ólíðandi. Miðflokkurinn telur brýnt að könnuð verði hagkvæmni þess að við Íslendingar sjáum um okkar sorp sjálf og hættum urðun, endurvinnum þess í stað eins og unnt er og brennum það sem út af stendur á eins umhverfisvænan hátt og unnt er.
Ríki heimsins leita nú að grænum hagvexti. Miðflokkurinn styður skynsamar lausnir sem í senn auka velferð og lífsgæði og draga úr gróðurhúsalofttegundum. Það hefur gefist mannkyninu best til þessa. Miðflokkurinn leggur áherslu á að verndun og stjórnsýsla umhverfismála sé sem mest hjá heimamönnum, sé það unnt.
Píratar
Píratar ætla að:
- Setja á fót þjóðgarð á hálendi Íslands.
- Gera vistmorð refsivert.
- Tryggja réttlát umskipti fyrir almenning og bændur.
- Efla nýsköpun í landbúnaði.
- Setja ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá.
- Friða heimskautaref, lunda, sel og hval.
Náttúruvernd, loftslagsaðgerðir og verndun líffræðilegs fjölbreytileika haldast í hendur. Aðgerðir í þágu loftslagsmála mega ekki ganga á líffræðilegan fjölbreytileika eða skaða náttúruna. Gera þarf raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar, þar sem þær samfélagsbreytingar framtíðarinnar eru hafðar að leiðarljósi. Píratar leggja ríka áherslu á dýravernd og vilja að vistmorð verði refsivert. Vinna við stofnun þjóðgarðs á að fara fram í lýðræðislegu ferli og á að vera sameiginlegt verkefni samfélagsins, enda mikilvægt að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem standa með náttúruvernd. Tryggja þarf fjármagn til að standa að uppbyggingu þjóðgarðsins og halda þar uppi öflugri landvörslu. Ráðist verður í stórátak í friðlýsingu á landi og í hafi til að ná alþjóðlegum skuldbindingum. Villidýralög verða endurskoðuð til að þau verndi betur þau dýr sem lifa í náttúru Íslands. Hvalir verða friðaðir samhliða því. Píratar ætla að innleiða rétt til viðgerða. Við munum auðvelda aðgengi fólks að viðgerðaþjónustu og varahlutum, bæði með breytingum á skattkerfinu og í formi hringrásarstyrkja. Almenningssamgöngur þurfa að vera raunverulegur kostur um allt land. Píratar ætla að byggja upp öruggt vegakerfi um land allt, efla vistvæna ferðamáta svo fólk geti notað hjól og strætó hvar sem það býr og tryggja aðgengi að rafhleðslu við alla þjóðvegi.
Samfylkingin
Samfylkingin styður stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í nánu samráði við nærsamfélög og alla hagaðila um framkvæmd og útfærslu. Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun) er lykilverkfæri stjórnvalda við ákvarðanir um orkuöflun, hvort sem um er að ræða nýtingu vatns, jarðvarma, vinds eða annarra orkukosta. Endurheimt vistkerfa er bæði mikilvæg náttúruverndar- og loftslagsaðgerð en ljóst er að stórefla þarf rannsóknir á vistkerfum hér á landi. Stofnanir skulu vinna í samræmi við samþykkta náttúruverndaráætlun.
Aukin þátttaka og aðkoma ungs fólks í málefnum sem varða umhverfis- og loftslagsmál er grundvallaratriði til að vinna að hagsmunum komandi kynslóða og verða orkumál og náttúruvernd að taka tillit til réttinda framtíðarkynslóða. Loftslagsbreytingar valda súrnun sjávar sem auk áhrifa á vistkerfin geta haft neikvæð áhrif á nýtingu sjávarauðlinda sem eru mikilvægar efnahag þjóðarinnar. Samfylkingin vill beita sér fyrir stórauknum rannsóknum á þeim hættum er steðja að lífríki sjávar og strandsvæða, í samstarfi við aðrar strandþjóðir. ástandi sjávar og fiskistofnum á miðum Íslands.
Vinstri Græn
VG stendur vörð um ósnortna náttúru. Þau sem nýta auðlindir í þjóðareign, hvort sem það er land, orka, sjávarauðlindin eða annað, eiga að greiða sanngjarnt gjald af þeirri nýtingu.
- Alþingi þarf að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá ásamt skýru ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd.
- Festa þarf mengunarbótaregluna betur í sessi.
- Banna þarf olíuleit og -vinnslu innan lögsögu Íslands og vinna áfram að banni við flutningi og bruna svartolíu á Norðurslóðum.
- Ísland getur náð einstökum árangri í náttúruvernd á alþjóðavísu með því að vernda óbyggð víðerni. Stefna ber að verndun a.m.k. 30% lands og hafsvæða fyrir árið 2030.Til þess þarf m.a. að efla þarf stjórnsýslu náttúruverndarmála og landvörslu.
- Stofna ber þjóðgarð á miðhálendi Íslands og á Vestfjörðum. Slíkir þjóðgarðar eru mikilvægir einkum til að tryggja vernd jarðfræðilegrar og líffræðilegrar fjölbreytni.
- Endurskoða þarf löggjöfina um rammaáætlun með náttúru- og minjavernd að leiðarljósi, alþjóðlegar skuldbindingar um líffræðilega fjölbreytni og landslagsheildir og byggja jafnframt á mati á framkvæmd gildandi löggjafar í samráði við hagaðila og sérfræðinga.
- Endurskoða þarf stærðarviðmið virkjanaframkvæmda þar sem megavött eru ómarktækur mælikvarði á umhverfisáhrif og halda þarf áfram vinnu við endurskoðun á regluverki vegna vindorku.
- Almenningur, sér í lagi ungt fólk, á að hafa beina aðkomu að ákvörðunum um umhverfis- og auðlindamál og tryggja þarf réttarstöðu náttúruverndarsamtaka samkvæmt Árósarsamningnum.
- Koma þarf á heildstæðri lagaumgjörð um lagareldi, fjölga friðuðum svæðum, þ.m.t. Í Eyjafirði, Seyðisfirði og Öxarfirði, setja inn hvata til umhverfisvænni framleiðslu og tímasetja útfösun á eldi í opnum sjókvíum.
- Bændur eru vörslumenn landsins. Styrkja þarf möguleika þeirra til að byggja afkomu sína á náttúruvernd, t.a.m. með varðveislu og endurheimt landgæða og umsjón friðaðra svæða.
- Landnýtingarstefna Íslands á að byggjast á sjálfbærri nýtingu þar sem vernd og endurheimt vistkerfa spilar stórt hlutverk, þ.m.t. skóglendis og kjarrlendis, mólendis og votlendis.
Ísland á að vera í forystu um róttækar, raunhæfar og réttlátar aðgerðir í umhverfismálum á alþjóðavettvangi.Náttúran er friðhelg og skal alltaf njóta vafans! Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna um loftslagsvá og náttúru: https://vg.is/stefna/loftslagsva-og-nattura/
Ábyrg Framtíð
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.