Stjórnarskrármál

Framsókn

Framsókn leggur áherslu á endurskoðun stjórnarskrár Íslands og telur hana vera samfélagssáttmála þeirra sem byggja landið. Flokkurinn vill að stjórnarskráin endurspegli sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og sé í takt við nútímann. Framsókn leggur áherslu á að ferlið við endurskoðun stjórnarskrárinnar sé gagnsætt og byggt á skýru lýðræðislegu umboði, þar sem grunngildi þjóðarinnar eru í forgrunni.

Framsókn vill tryggja að stjórnarskráin verndi mannréttindi og lýðræðislegar stofnanir landsins. Framsókn leggur til að ítarlegri ákvæði um dómsvaldið verði fest í stjórnarskrá til að tryggja betur sjálfstæði dómsvalda. Sjálfstæði dómsvaldsins er talið mikilvægt til að tryggja réttlæti og réttaröryggi í samfélaginu. Með því að festa þessi ákvæði í stjórnarskrá er markmiðið að styrkja stoðir réttarríkisins og tryggja að dómsvaldið sé óháð öðrum greinum ríkisvaldsins.

Framsókn vill að auðlindaákvæði verði fest í stjórnarskrá Íslands. Slíkt ákvæði ætti að tryggja að auðlindir landsins séu í þjóðareign og að sanngjarn arður af nýtingu þeirra renni til samfélagsins.

Forseti gegnir mikilvægu hlutverki í stjórnskipan Íslands. Hann hefur vel skilgreind og virk úrræði til að þjóna sem öryggisventill í þágu almennings, til dæmis með því að skjóta umdeildum málum í atkvæði þjóðarinnar.

Forseti þarf að hafa skýrt umboð meirihluta þjóðarinnar sem meðal annars væri hægt að ná fram með tveimur umferðum kosninga eða varaatkvæðiskerfi. Endurmeta ætti ákvæði um lágmarksaldur forseta. Framsókn vill að meðmælafjöldi vegna forsetaframboðs verði endurskoðaður..

Flokkurinn styður áframhaldandi stuðning við trú- og lífsskoðunarfélög, en telur mikilvægt að stjórnarskráin tryggi trúfrelsi og réttindi allra trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Framsókn vill að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og að handhafar valdsins stjórni í umboði hennar. Með því að endurskoða stjórnarskrána vill Framsókn tryggja að hún sé í takt við nútímann og endurspegli sameiginleg grunngildi þjóðarinnar. Þetta felur í sér að stjórnarskráin verði skýr, aðgengileg og auðskilin fyrir alla borgara, þannig að hún geti þjónað sem raunverulegur samfélagssáttmáli.

Viðreisn

Stjórnarskrá skal tryggja eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum til framtíðar.

Með breytingum á stjórnarskrá skal tryggja jöfnun atkvæðavægis og einnig jafnræði meðal trú- og lífsskoðunarfélaga með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju.

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins. Stjórnarskráin kveður á um grundvallarreglur lýðveldisins og mannréttindi borgaranna og hefur tekið nauðsynlegum breytingum á lýðveldistímanum. Tilefni er til endurskoðunar ákveðinna þátta stjórnarskrárinnar en hyggja þarf vel að þeim breytingum og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan, til að gaumgæfa tillögur að breytingum á henni. Heildarendurskoðun sem umturnar öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi og fyrirsjáanleika. Mikilvægt er að fylgja ákvæðum stjórnarskrár um hvernig standa skuli að breytingum á grunnlögum landsins. Að sama skapi telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að breytingar á stjórnarskrá séu gerðar í víðtækri pólitískri sátt.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins vill fá auðlindaákvæði inn í stjórnarskránna sem tryggir að greiða þurfi fullt verð fyrir aðgang að auðlindinni. Flokkur fólksins vill virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýja stjórnarskrá og að lagt verði fram frumvarp þess efnis af næstu ríkisstjórn.

Sósíalistaflokkurinn

Þjóðaratkvæðagreiðslur ber að nýta í mikilvægum málum er varða almannaheill og skal Alþingi virða þær eins og krafist er í nýrri stjórnarskrá. Ný stjórnarskrá skal taka gildi strax samkvæmt því ferli sem hófst með kosningu til stjórnlagaráðs árið 2010, sem lagði fram drög sem kosið var um og samþykkt með 66.9% greiddra atkvæða. Þá ber í framhaldinu að virða stjórnarskrána en jafnframt að umgangast hana sem lifandi samfélagssáttmála, sem getur tekið breytingu með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lýðræðisflokkurinn

Lýðræðisflokkurinn telur ekki aðkallandi að breyta stjórnarskránni.

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn styður endurskoðun stjórnarskrárinnar enda hefur slík endurskoðun með einum eða öðrum hætti verið á stefnuskrá allra ríkisstjórna Íslands frá árinu 2009. Enn sem fyrr virðist skorta á samstöðu meðal þings og þjóðar um hverju á að breyta og jafnvel hvernig standa á að breytingum. Þó hefur verið ákveðin samstaða um ýmsar endurbætur er varðar stjórnarskrána og hefur Miðflokkurinn ávallt stutt að leita að því sem menn gætu náð saman um og ráðast í breytingar í samræmi við það. Miðflokkurinn leggst gegn byltingarkenndum breytingum á grunnriti stjórnskipunar okkar enda getur slíkt skapað réttaróvissu. Mikilvægt er að vel sé staðið að breytingum á þeim lögum sem ríki setja sér um grundvallarreglur varðandi skipulag og æðstu stjórn ríkisins og valdmörk þeirra sem fara með ríkisvald.

Mikilvægt er að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar í sátt og eftir þeim leiðum sem stjórnarskráin sjálf kveður á um. Ísland er í fremstu röð í heiminum þegar kemur að réttindum borgaranna og þá sérstaklega réttindum minnihlutahópa og því verður að ætla að núverandi stjórnarskrá hafi reynst vel.

Píratar

Píratar ætla að:

  • Samþykkja nýja, uppfærða stjórnarskrá.
  • Setja ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá.
  • Uppfæra ákvæði í stjórnarskrá til að ná yfir kyntjáningu, kynvitund og kyneinkenni.
  • Beita sér fyrir því að frjósemisfrelsi kvenna og kvára verði tryggt í stjórnarskrá.
  • Tryggja að þjóðin haldi eignarhaldi sínu á sjávarauðlindinni, sem hægt er að gera með því að samþykkja almennt auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands.

Píratar vilja nýja stjórnarskrá Íslands á næsta kjörtímabili. Sú stjórnarskrá skal byggja á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs og þeim ábendingum sem fram hafa komið síðan þá. Allar viðbætur eða breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi yrðu gerðar í víðtæku samráði við almenning og sérfræðinga, til dæmis með borgaraþingi eða öðrum þjóðfundi. Píratar telja að dýr verði að njóta vafans og að velferð þeirra skipti máli. Það er gert með því að setja varúðarákvæði í löggjöf þannig að við ákvarðanatöku er varðar dýrahald, sé hagur dýranna ætíð hafður að leiðarljósi. Uppfæra þarf ákvæði í stjórnarskrá um að öll séu jöfn fyrir lögum sem nái ekki aðeins til kynhneigðar, heldur líka kyntjáningar, kynvitundar og kyneinkenna.

Samfylkingin

Samfylkingin telur nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á núgildandi stjórnarskrá. Ákvæði um þjóðareign auðlinda, þjóðaratkvæðagreiðslur, framsal valds, atkvæðavægi og náttúruvernd eru á meðal þeirra fjölmörgu atriða sem m.a. tillögur stjórnlagaráðs frá árinu 2011 fjalla um og brýnt er að bundin verði í stjórnarskrá sem fyrst. Að auki þarf að gera breytingar á köflunum um Alþingi, forseta og dómstóla sem tiltölulega breið sátt ríkir um en þar er um að ræða breytingar sem snúa fyrst of fremst að því að færa ákvæði stjórnarskrárinnar nær nútímanum og í mörgum tilvikum lögfesta áratugalanga stjórnskipunarvenju sem hefur viðgengist og algjör sátt ríkir um án þess þó að fyrir því sé skýr stoð í stjórnarskrá. Nauðsynlegt er að koma af stað vinnu innan þingsins um breytingar á stjórnarskrá, sú vinna ætti að sjálfsögðu að byggja á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram en aukin aðkoma þingsins er nauðsynleg til þess að unnt verði að ná fram breytingum. Til þess að ná fram breytingum á stjórnarskrá þarf skýra verkstjórn, breiða aðkomu þingsins og samstöðu. Á þetta hefur skort verulega síðastliðin ár og því hefur ekki tekist að koma fram breytingum á stjórnarskrá þrátt fyrir að þverpólitísk sátt ríki um fjölmargar breytingartillögur. Samfylkingin telur „allt eða ekkert“ nálgun ekki farsæla í umræðu um breytingar á stjórnarskrá, reynslan hefur kennt okkur að með slíkum hugsunarhátt nást engar breytingar fram.

Vinstri Græn

Vinstri græn vilja að lokið verði við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar til að þjóðin eignist framsækna stjórnarskrá.

  • Vinstri-græn leggja sérstaka áherslu á að ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd og þjóðareign á náttúruauðlindum verði innleidd í stjórnarskrá.
  • Þá er tímabært að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.
  • Hér eftir sem hingað til leggur VG áherslu á að byggja á fyrri vinnu, þar á meðal tillögum stjórnlagaráðs, en telur um leið að eðlilegt sé að vinna að breytingum í áföngum og taka sjálfstæða afstöðu til einstakra álitamála.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna um lýðræðismál: https://vg.is/stefna/lydraedismal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki.
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.