Orkumál

Framsókn

Orkuöryggi er ein grunnstoða samfélagsins. Framsókn leggur mikla áherslu á að við séum sjálfum okkur nóg þegar það kemur að orkuframleiðslu og að mæta eftirspurn heimila og atvinnulífs. Það gerum við með aukinni orkuframleiðslu, bættu dreifikerfi orkunnar og sjálfbærri nýtingu hennar. Flokkurinn vill auka framleiðslu á endurnýjanlegri orku, svo sem vatns- og vindorku, til að tryggja orkuöryggi og draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti. Markmiðið er að Ísland verði sjálfbært í orkuframleiðslu og geti mætt fjölbreytilegum þörfum samfélagsins um allt land.

Framsókn styður orkuskipti í samgöngum og atvinnulífi með því að hvetja til notkunar á rafmagns- og vetnisbílum og efla innviði fyrir hleðslu og dreifingu grænna orkugjafa. Flokkurinn vill sjá Ísland ná sínum metnaðarfullu markmiðum um kolefnishlutlaust Ísland, eigi síðar en árið 2040.

Framsókn leggur einnig áherslu á að nýta innlenda, hagkvæma og græna orkugjafa og tryggja að nauðsynlegir flutningsinnviðir séu til staðar. Framsókn vill stuðla að nýsköpun og fjárfestingu á sviði endurnýjanlegrar orku, sem er grundvöllur hagvaxtar í jafnvægi við umhverfið.

Vindorkan á að vera viðbót við í sameiginlegum orkuauðlindum landsmanna, en beislun vindsins þýðir ekki að við þurfum ekki að virkja meira hvað varðar hefðbundna orkukosti, þ.e. vatnsafl og jarðvarmi. Vindorkuna þarf t.d. að sveiflujafna með stöðugum orkukostum, sem getur reynst erfitt skv. umfjöllun Landsvirkjunar. Mikilvægt er að vindorku sé búið gott lagaumhverfi sem liðki fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfi um leið til umhverfisins og framtíðarþróunar. Samhliða því þarf að vinna áfram að skýrari stefnu um eignarhald og auðlindagjald í vindorku. Mikilvægt er að skýra hvar á landinu verði heimilt að koma fyrir vindorkuveri.

Tryggja þarf að auðlindir okkar séu nýttar á skynsaman og sanngjarnan hátt og að ábati þeirra renni til samfélagsins.

Viðreisn

Til að orkuskipti geti orðið að veruleika þarf að tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði. Viðreisn styður aukna framleiðslu endurnýjanlegrar orku, græna atvinnuuppbyggingu og framleiðslu rafeldsneytis.

Tryggja þarf orkuöryggi um allt land með uppbyggingu og styrkingu flutningskerfis raforku og koma í veg fyrir að orkuskortur hamli byggðaþróun. Auka þarf gagnsæi og skilvirkni á raforkumarkaði til að skapa jafnvægi á milli eftirspurnar og framboðs og koma í veg fyrir offjárfestingu í raforkuvinnslu.

Skoða verður einföldun laga og reglna til að flýta ákvarðanatöku um virkjanakosti og legu háspennulína.

Fjárhagslegur ávinningur af nýtingu orkuauðlinda á að renna til samfélagsins í ríkara mæli en tíðkast hefur. Nýting vindorku er kjörið tækifæri til þess að skilgreina og tryggja að gjaldtaka sé á þann hátt að samfélagið sjái hag í nýtingu auðlindarinnar. Vindorkuver geta nýst til að auka orkuöryggi einstakra svæða og unnið gegn hættu á að orkuskortur hamli byggðaþróun

Mikilvægt er að taka ferli rammaáætlunar til gagngerrar endurskoðunar svo hún virki sem skyldi og eyða þarf óvissu um reglur og lög sem gilda um uppbyggingu vindorku.

Sjálfstæðisflokkurinn

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki.
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins vill tryggja að Landsvirkjun verði ævarandi þjóðareign. Við viljum ráðast í enn frekari uppbyggingu á flutnings- og dreifikerfinu svo að landið allt fái notið okkar grænu orku. Við viljum virkja meira, en við viljum ekki að hér spretti upp, eins og gorkúlur, vindmyllugarðar í eigu einkafjárfesta.

Sósíalistaflokkurinn

Stefna Sósíalistaflokksins snýr m.a. að því að orkuframleiðsla landsins verði ekki aukin að óþörfu umfram orkuþörf almennings, með tilheyrandi náttúruspjöllum og jarðraski. Að einkavæðing í orkuframleiðslu landsins verði lögð af með öllu. Gripið sé til ráðstafana svo að sú orkuframleiðsla sem nú er í einkaeigu sé færð í eigu þjóðarinnar. Að yfirvöld tryggi að orkuveita um landið allt sé í lagi og skilgreini raforku sem grunnþörf til búsetu á Íslandi.

Uppbygging Hitaveitu Reykjavíkur er eitt af afrekum Íslendinga. Í stað þess að brenna kol var borað eftir heitu vatni og byggt upp nýtt hitakerfi um allan bæ og síðar í nágrannabyggðum. Þetta var samfélagslegt verkefni sem af stærð, framsýni og getu var langt umfram það sem einkafyrirtæki réðu við. Hitaveitan sparaði gjaldeyri og losaði Reykjavík við óhollustu kolaryks og kolareyks. Uppbygging Hitaveitunnar ætti að vera landsmönnum fyrirmynd um frábæra auðlindanýtingu með samfélagsleg markmið. Samhliða Hitaveitunni voru byggðar upp vatnsveitur og rafmagnsveitur með sama hætti og sömu markmiðum. Almenningur tók sameiginlega lán og greiddi viðunandi verð fyrir orkuna svo veiturnar stæðu undir lánunum. Framtíðarsýnin var sú að með tíð og tíma væri framkvæmdakostnaðurinn greiddur niður og Reykvíkingar og nærsveitafólk gæti þá búið við ódýra, örugga og umhverfisvæna orku til allrar framtíðar. Sósíalistar vilja hverfa aftur til fyrri hugmynda; um að auðlindirnar séu notaðar til að byggja upp gott samfélag en séu ekki settar inn í opinber hlutafélög sem hegða sér eins og þau væru arðsemisdrifin fyrirtæki í eigu kapítalista með gróðann einan að markmiði. Sósíalistar hafa líka markað þá stefnu að allar orkuauðlindir skuli vera almenningseign og í opinberum rekstri ef frá eru skyldar borholur og smávirkjanir sem fólk byggir til eigin þarfa. Orkukerfið er grunnkerfi samfélagsins og uppbygging þess og rekstur skal vera á samfélagslegum grunni og með samfélagslegum markmiðum. Meginnýting orkunnar skal fara í að byggja hér upp sterkt samfélag með skýrum samfélagslegum áætlunum. Eins og til dæmis stórfelldri matvælaframleiðslu til að skapa störf, treysta byggðir, spara gjaldeyri, draga úr mengandi flutningum landa á milli og auka lífsgæði. Eins og til dæmis orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýtanlega hreina orku í samgöngum, flutningum, fiskveiðum og öðrum þeim atvinnugreinum sem enn nýta olíu, kol eða gas. Markmið þessa er að draga úr mengun, verjast loftslagsbreytingum, spara gjaldeyri, skapa störf og auka lífsgæði.

Lýðræðisflokkurinn

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki.
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn leggur áherslu á að rjúfa kyrrstöðu í orkuvinnslu og koma í veg fyrir yfirvofandi orkuskort. Miðflokkurinn telur að breytingar þurfi að gera á regluverki orkuframleiðslu þannig að orkukostir, sem hafa verið samþykktir í nýtingarflokki rammaáætlunar, komist til framkvæmda.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að vinna þarf gegn yfirvofandi orkuskorti sem er heimatilbúið vandamál sem skrifast á andvaraleysi stjórnvalda gagnvart þeirri stöðu sem birtist okkur nú.

Tryggja þarf með óyggjandi hætti að nýtingarréttur og umráðaréttur yfir orkuauðlindunum verði hjá þjóðinni til allrar framtíðar. Um leið þarf að tryggja að þjóðin geti áfram átt Landsvirkjun sem og þannig nýtt arðinn af nýtingu auðlindanna til samfélagslegra verkefna og um leið haft ákvörðunarrétt um verðlagningu á raforku bæði til heimila og fyrirtækja.

Miðflokkurinn telur að ráðast þurfi í endurskoðunar á þegar gerðum samningum sem tengjast orkustefnu Evrópusambandsins og tryggja að ekki verði gengið lengra á þeirri braut að afsala valdi til erlendra stofnana. Óska þarf þegar í stað eftir endurskoðun á þegar gerðum samningum, þar með talið orkupakka þrjú. Evrópusambandið hefur þegar kynnt fjórða orkupakkann til leiks og sá fimmti er einnig á teikniborðinu. Verði þeir samþykktir er ekki aftur snúið og því mikilvægt að taka málið föstum tökum.

Píratar

Píratar ætla að:

  • Gera raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar
  • Tryggja aðgengi almennings að áreiðanlegri og endurnýjanlegri orku
  • Sjá til þess að orkuvinnsla á Íslandi nýtist til orkuskipta og til uppbyggingar á grænni nýsköpun

Gera þarf raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar. Sú áætlun þarf að taka tillit til nauðsynlegra samfélagsbreytinga og hverfa frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Virkjað hefur verið nóg í þágu mengandi stóriðju á Íslandi og draga þarf úr vægi hennar. Tryggt verður að ný orkuvinnsla nýtist til orkuskipta og að orkan verði nýtt til uppbyggingar í þágu grænnar nýsköpunar. Píratar munu standa með almenningi, að fólki sé tryggt aðgengi að áreiðanlegri endurnýjanlegri orku á viðráðanlegu verði og að það sitji við sama borð hvar sem er á landinu. Þetta á við um hita jafnt sem rafmagn hjá öllum íbúum landsins. Þannig forgangsraða Píratar almenningi og smærri fyrirtækjum. Ný orkuvinnsla á að nýtast til orkuskipta og orkan til uppbyggingar á grænni nýsköpun. Píratar vilja tryggja varúðarsjónarmið svo nýir orkukostir séu ekki þróaðir á kostnað umhverfis og náttúru. Vindorka krefst þess að settur sé skýr lagarammi þar sem tryggt sé að saman fari hagsmunir almennings, náttúru og nærsamfélags.

Samfylkingin

Í útspili Samfylkingarinnar Krafa um árangur er sett fram krafa um framfarir í orku- og samgöngumálum. Samfylkingin vill öryggi og öflugt atvinnulíf um alla land. Forsendur þess eru sterkir innviðir. Þar hefur hið opinbera mikilvægu hlutverki að gegna. Orka og samgöngur eru dæmi um grunninnviði sem stjórnmálafólk ber ábyrgð á að viðhalda og byggja upp. Til þess þarf stefnu um stöðugar framfarir, opinbera fjárfestingu og vilja til verklegra framkvæmda.

Samfylkingin styðja við verðmætasköpun og orkuskipti með sjálfbærri nýtingu innlendrar orku í almannaþágu. Tryggja þarf orkuframleiðslu sem stendur undir fólksfjölgun og orkunotkun fyrirtækja og heimila. Hvers kyns ákvarðanir um orkuvinnslu eiga að byggjast á heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja og til hagkvæmni ólíkra nýtingarkosta með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Með rammaáætlun, sem lögfest var í stjórnartíð Samfylkingarinnar, voru skapaðar leikreglur um þetta. Þau lög og annað regluverk þarf að bæta með langtímasjónarmið og rétt komandi kynslóða í huga.

Samfylkingin vill að markmið verði sett um orkuöflun sem byggt er á við afgreiðslu rammaáætlunar, og við höfum sett fram 10 ára markmið um að auka raforkuframleiðslu í landinu um 5 TWh til að standa undir markmiðum okkar um orkuskipti og uppbyggingu í atvinnulífi. Styrkja þarf stjórnsýslu orkumála og gera hana skilvirkari. Samfylkingin vill að meginhluti raforkuframleiðslu á Íslandi verði áfram á hendi ríkis og sveitarfélaga og leggst gegn hvers kyns hugmyndum um einkavæðingu eða uppskiptingu Landsvirkjunar.

Styrkja þarf flutnings- og dreifikerfi raforku til að auka afhendingaröryggi og aflgetu um allt land og tryggja að innviðir standi undir þeim orkuskiptum sem fram undan eru í samgöngum og iðnaði. Setja þarf upp nýja byggðalínu og útrýma einföldum tengingum við þéttbýlisstaði. Samfylkingin telur nauðsynlegt að setja í lög ákvæði um að almenningur og almenn fyrirtæki hafi aðgang að forgangsorku frá orkuveitum. Einnig er eðlilegt að sett verði þak á arðsemi raforkusölu til heimila, á sama hátt og um sölu heits og kalds vatns.

Það er réttlætismál að orkufyrirtæki greiði fyrir aðgang að auðlindum og að hluti af tekjum renni til nærsamfélags vegna staðbundinna áhrifa af nýtingunni, óháð eignarhaldi og hvort sem orkuvinnslan nýtir vatnsafl, jarðvarma, vind eða aðra orkugjafa. Ein leið til að greiða fyrir uppbyggingu á flutningskerfi raforku er að afnema undanþágu frá fasteignasköttum til sveitarfélaga af orkumannvirkjum.

Vinstri Græn

Vinstri græn telja að orkuauðlindir og orkuinnviðir eigi að vera í almannaeign og að greiða eigi auðlindagjald til þjóðarinnar fyrir notkun orkuauðlinda.

  • Greiða ber sanngjarnt gjald af nýtingu auðlinda í þjóðareign, hvort sem það er land, orka, vindur, sjávarauðlindin eða annað.
  • Styrkja þarf flutningskerfi raforku þannig að allir landsmenn búi við gott aðgengi að raforku, fullnægjandi afhendingaröryggi, jafnan dreifingarkostnað og jafnt aðgengi til orkuskipta með það að markmiði að draga úr losun. Setja skal lög um ábyrgð orkufyrirtækja til að uppfylla orkuþörf fólksins í landinu. Stórnotendur skulu greiða tilhlýðilegt verð fyrir orkuna, kostnað við flutning og afhendingu. Lækka skal raforkukostnað innlendrar matvælaframleiðslu.
  • Orkuvinnsla í almannaeigu á að fá forgang fram yfir orkuvinnslu á vegum einkafyrirtækja og draga verður úr eignarhaldi erlendra fyrirtækja í orkufyrirtækjum á Íslandi.
  • Gæta þarf þess að íslenskum vistkerfum, óbyggðum víðernum, náttúruminjum og ásýnd landsins sé ekki fórnað að óþörfu í nafni grænnar orku. Bæta þarf nýtingu í virkjunum sem fyrir eru.
  • Vinna skal gegn öllum hugmyndum varðandi orkusölu um sæstreng til annarra landa.
  • Banna skal rafmyntargröft og takmarka nýja orkufreka starfsemi, s.s. gagnaver.
  • Nýta skal orku til orkuskipta innanlands og flýta útfösun á jarðefnaeldsneyti með það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
  • Marka þarf stefnu hið fyrsta um nýtingu vindorku á landi og hafi í íslenskri lögsögu og setja þarf skýrar reglur um innheimtu auðlindagjalds af vindorkuvirkjunum sem renna á til samfélagsins alls. Vindorka skal áfram heyra undir rammaáætlun.
  • Koma ætti í veg fyrir að erlendir aðilar fái að nýta vind til raforkuframleiðslu í hagnaðarskyni.
  • Vindorkuver á landi eiga aðeins heima á þegar röskuðum svæðum með tengingu við orkuinnviði sem fyrir eru í almannaeigu.

Náttúran er friðhelg og nýting hennar er undantekning ekki sjálfsögð regla. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna um orkumál: https://vg.is/stefna/orkumal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki.
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.