Skattamál
Framsókn
Framsókn leggur þunga áherslu á að auka tekjuöflun ríkisins með auknum vexti og verðmætasköpun í stað þess að auka skattheimtu á fólk og fyrirtæki. Í því samhengi skiptir meðal annars máli að fyrirsjáanleg, fjármögnuð og skilvirk hvatakerfi til aukinnar verðmætasköpunar verði fest í sessi, má þar nefna endurgreiðslur vegna rannsókna, þróunar og kvikmyndagerðar og fjármunum til markaðssetningar á Íslandi sem áfangastaðar verði tryggðir.
Framsókn leggur áherslu á að skattkerfið sé skýrt, réttlátt og samkeppnishæft ásamt því að það sé nýtt til að tryggja öflugt velferðarkerfi og jöfn tækifæri fyrir alla í samfélaginu.
Flokkurinn vill skapa hagstætt skattaumhverfi fyrir fyrirtæki með frekari stuðningi við nýsköpun og þróun í atvinnulífinu með skattaívilnunum, fjárhagslegum stuðningi og þjálfun fyrir nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla. Markmiðið er að skapa ný störf og styrkja samkeppnishæfni Íslands. Flokkurinn vill stuðla að einföldu og hagkvæmu skattaumhverfi sem hvetur fyrirtæki til vaxtar og nýráðninga. Þetta felur í sér skattaívilnanir fyrir smærri fyrirtæki og frumkvöðlastarfsemi.
Framsókn styður þrepaskipt tekjuskattkerfi einstaklinga til þess að stuðla að sanngjarnri tekju- og eignaskiptingu líkt og tíðkast í helstu samanburðarlöndum Íslands. Þá styður Framsókn að skattkerfið og fyrirkomulag persónuafsláttar sé áfram nýtt til tekjujöfnunar. Skattaumhverfi þarf að vera skýrt, réttlátt og samkeppnishæft við nágrannalönd. Mikilvægt er að skattkerfið vinni með hagsveiflunni.
Efla þarf skilvirkt skattaeftirlit til að draga úr svarti atvinnustarfsemi og stuðla að eðlilegri samkeppni og þátttöku í uppbyggingu samfélagsins. Mikilvægt er að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga með það að markmiði að auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra.
Viðreisn
Í núverandi vaxta- og verðbólguumhverfi kemur ekki til greina að auka skatta á einstaklinga og lítil og meðalstór fyrirtæki.
Tekjuöflun ríkissjóðs á að byggja á réttlátri og hóflegri skattlagningu, þar sem allir bera réttlátar byrðar. Viðreisn leggur áherslu á að við endurskoðun skattlagningar fjármagnstekna sé mikilvægt að taka tillit til raunávöxtunar.
Unnið skal markvisst gegn skattaundanskotum bæði innanlands, jafnt sem erlendis í formi skattaskjóla. Efla þarf skattrannsóknir og styðja alþjóðlegt samstarf til að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki greiði sanngjarna skatta þar sem tekjur verða til.
Finna þarf leiðir til að skattleggja erlend tæknifyrirtæki sem selja þjónustu, áskriftir eða auglýsingar hér á landi.
Sjálfstæðisflokkurinn
Við lofum lækkun skatta – í þágu heimila og fyrirtækja. Skattakerfisbreytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um allt frá 2013, samanlagt um 300 milljónir, hafa miðað að því að létta byrðar launafólks og auka kaupmátt, styrkja afkomu fyrirtækja, hvetja þau til fjárfestinga og byggja undir nýsköpun og þróun. Sjálfstæðisflokkurinn talar fyrir einföldu og sanngjörnu skattkerfi sem ekki treystir á sértækar ívilnanir til að viðhalda alþjóðlegri samkeppnishæfni. Tillögur Sjálfstæðisflokksins fela í sér endurskoðun tekjuskatts samhliða barnabótakerfinu til að skapa gegnsætt kerfi og innleiðingu eins skattþreps. Flokkurinn vill einfalda virðisaukaskatt með sameiningu skattþrepa og niðurfellingu skatts á nauðsynjavörur, eins og matvæli. Einnig er lögð áhersla á að afnema sértæka skatta á fjármálafyrirtæki til að bæta lánskjör.
Flokkur Fólksins
Flokkur fólksins vill hækka skattleysismörk í 450.000 kr. með upptöku fallandi persónuafsláttar. Við viljum afnema virðisaukaskatt af hjálpartækjum, hvort heldur hjólastólum eða heyrnatækjum. Við munum aldrei skattleggja fátækt. Við viljum alls ekki hækka nefskatta og krónutölugjöld þegar við erum í baráttu við verðbólgu og reynum að ná niður okurvöxtum.
Sósíalistaflokkurinn
Setja ber í lög að óheimilt sé að innheimta tekjuskatt eða útsvar hjá fólki sem er með lægri tekjur en sem nemur eðlilegum framfærslukostnaði. Breyta þarf skattkerfinu með því að lækka lægsta skattþrepið og hækka persónuafslátt en hækka skattprósentuna í efri þrepum á móti svo skattalækkun til fólks undir fátæktarmörkum lækki ekki skattbyrðina upp eftir öllum skattstiganum.Tilboð sósíalista er að vinda ofan af skattabreytingum nýfrjálshyggjuáranna og lækka skattbyrði tekjuskatts á miðlungs og lægri tekna um 700 þús. kr. á ári. Þetta er ekki byltingarkenndari hugmynd en svo, að hún myndi aðeins færa okkur til þess réttlætis sem ríkti fyrir þrjátíu árum og hafði ríkt þá áratugum saman. Eitt af einkennum nýfrjálshyggjuáranna var niðurbrot barnabóta. Það kostar um 52,9 milljarða króna að veita öllum börnum á landinu persónuafslátt sem væri útgreiðanlegur ef foreldrarnir nýttu hann ekki. Þangað eigum við að stefna í fáum öruggum skrefum svo öll börn fái barnabætur upp á rúmlega 50 þús. kr. á mánuði, sömu upphæð og fullorðnir fá í persónuafslátt. Að hluta til yrði hækkunin fjármögnuð með brattari skattstiga og hátekjuþrepum, svo að foreldrar með tekjur í þriðja skattþrepi væru jafnsett á eftir en allar barnafjölskyldur með góðar miðlungstekjur og þar undir væru mun betur settar. En gjaldfrjálsir innviðir eru líka mikilvægir fyrir atvinnulífið. Þeir ýta undir samkeppni með því að lækka stofnkostnað fyrirtækja, þar sem öll fyrirtæki hafa jafnt aðgengi að innviðum. Gjaldfrjáls opinber þjónusta útvegar fyrirtækjum menntaðra og heilsubetra starfsfólk og gætir barnanna meðan foreldrarnir eru við vinnu. Það var reynsla allra landa í okkar heimshluta að kröftug uppbygging gjaldfrjálsra opinberra innviða og þjónustu var forsenda aukinnar velmegunar. Niðurbrot þessara innviða á tímabili nýfrjálshyggjunnar er ógn við samfélagið. Að börn fái ekki á sig skattaálagningu innan 18 ára aldurs, mörk séu sett á eignir þeirra svo ekki sé hægt að misnota kennitölur þeirra í fjárhagslegum tilgangi. Þá verði dregið úr hvata til að borga ofurlaun t.a.m. með skattkerfi.
Lýðræðisflokkurinn
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.
Miðflokkurinn
Miðflokkurinn berst gegn óhóflegri og ósanngjarnri skattheimtu og telur að í skattkerfinu séu alvarlegar brotalamir sem verði að ráðast gegn.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að lækka þurfi skatta en skatthlutfall á Íslandi er með því hæsta sem þekkist á meðal OECD-ríkja þegar tekið hefur verið tillit til þess hvernig lífeyriskerfi þjóðanna eru byggð upp. Því er nauðsynlegt að endurskoða skattkerfið með það fyrir augum að einfalda það og ná fram heilbrigðara jafnvægi hvað útgjöld heimila, ríkis og sveitarfélaga varðar. Sérstök áhersla er lögð á að lækka jaðarskatta, sem eru vinnuletjandi og ósanngjarnir séu þeir háir. Miðflokkurinn leggur áherslu á að lækka tryggingagjald og þá sérstaklega fyrir tíu fyrstu starfsmenn. Með því er komið til móts við minni og fámennari fyrirtæki sem eru að fóta sig á markaði.
Miðflokkurinn vill lækka erfðafjárskatt, verði hann ekki afnuminn með öllu. Skatturinn er ósanngjörn tvísköttun. Álagningu fasteignaskatta þarf að endurskoða. Núverandi fyrirkomulag er tilviljunarkennt og mætir ekki sjónarmiðum um að horft sé til þess að verið sé að greiða raunverð fyrir þjónustu. Miðflokkurinn leggur áherslu á aðhald í fjármálum ríkisins, forgangsröðun opinberra fjármuna og að fjármunir hins opinbera séu sem best nýttir. Þannig megi koma í veg fyrir að þyngri byrðar séu lagðar á íbúa landsins.
Píratar
Píratar ætla að:
- Taka á spillingu, loka skattaglufum og tryggja sanngjarnt, einfalt og réttlátt skattkerfi.
- Slá á þensluna þar sem hún er mest með því að hækka skatta á háar fjármagnstekjur og draga úr þeim skattaafslætti sem ferðaþjónustan býr við.
Píratar eru í forystu í baráttunni gegn spillingu. Þeir vilja loka skattaglufum, auka traust og skapa sanngjarnt og réttlátt skattkerfi sem færir byrðar af þeim sem minnst hafa yfir á þau sem meira hafa. Píratar leggja áherslu á að opinbert eftirlit virki fyrir almenning gegn starfsemi sem svindlar á fólki. Efla þarf lögreglu, skattrannsóknir og samkeppniseftirlit, slíkt verndar heiðarlega starfsemi og almenning. Píratar vilja létta skattbyrði af þeim sem minnst hafa, af barnafjölskyldum og skuldsettum. Endurskoða þarf fjármagnstekjuskatt, að ekki sé hægt að nota hann til að komast hjá því að greiða hátekjuskatt. Píratar vilja að hann sé þrepaskiptur með tilliti til tegundar fjármagnstekna. Setja skal á fót auðlindagjald fyrir hagnýtingu á sameiginlegum auðlindum, vinna gegn skattasniðgöngu stórfyrirtækja með því að taka betur á þunnri eiginfjármögnun og taka á lóðréttri samþættingu í sjávarútvegi með því að aðskilja veiðar og vinnslu. Skattkerfið má ekki hafa íþyngjandi áhrif á þau sem eiga nú þegar erfitt með að ná endum saman. Píratar ætla að tryggja lágmarksframfærslu. Létta skattbyrði af þeim sem minnst hafa, hækka persónuafslátt og greiða fólki út þann persónuafslátt sem það nýtir ekki. Ísland er ríkt land sem getur upprætt fátækt því mega lágmarkslaun aldrei vera undir lágmarksframfærslu á hverjum tíma. Til lengri tíma vilja Píratar skoða kosti þess að koma á fót skilyrðislausri grunnframfærslu á Íslandi. Tryggja þarf að stærra hlutfall skatttekna svæðisbundinnar starfsemi renni beint til sveitarfélaganna. Píratar vilja að skattar á borð við gistináttagjald og hlutfall af fjármagnstekjuskatti og virðisaukaskatti renni til sveitarfélaganna. Skatttekjur sem myndast vegna seldrar vöru og þjónustu eiga að efla samfélagið sem skapaði þær.
Samfylkingin
Samfylkingin vill koma á réttlátara skattkerfi á Íslandi. Tilgangur skattkerfisins er annars vegar að skapa svigrúm til sameiginlegra útgjalda og hins vegar að draga úr ójöfnuði og aðstöðumun í íslensku samfélagi. Til að hvort tveggja takist með sem minnstum tilkostnaði er mikilvægt að skattkerfið sé skilvirkt.
Grundvallarafstaða jafnaðarfólks í skattamálum er sú að öll greiði til samfélagsins eftir getu þannig að þau sem bera mest úr býtum leggi hlutfallslega mest af mörkum. Reynslan sýnir að það er ekki aðeins réttlátt heldur einnig sú aðferð sem hefur gefist best í farsælustu samfélögum heims.
Samfylkingin vill halda aftur af skattbyrði almenns launafólks og auka þess í stað hlutdeild skattlagningar á fjármagn. Við viljum draga úr hlutfallslegu vægi flatra skatta og gjalda sem leggjast þyngra á fólk eftir því sem það hefur lægri tekjur en innheimta gjöld fyrir nýtingu náttúruauðlinda í þjóðareign. Síðast en ekki síst kallar réttlátara og skilvirkara skattkerfi á að tekið sé á skattaundanskotum af alvöru og að við skrúfum fyrir skattaglufur þannig að allir sitji við sama borð. Til þess þarf pólitískan vilja.
Vinstri Græn
Vinstri græn telja að skattar eigi að þjóna markmiðum um öflugt velferðarsamfélag og aukinn jöfnuð. Framsækið skattkerfið á að færa fjármuni til þeirra sem þurfa frá þeim sem geta. Velferðarsamfélag byggir á því að sanngjarnir skattar fjármagni öflug heilbrigðis- og menntakerfi og öryggisnet sem grípa þau sem hrasa.
- Fjármagnstekjuskattur á að vera þrepaskiptur þannig að stóreignafólk greiði hærra hlutfall heldur en venjulegt fólk af hóflegum sparnaði.
- Hin efna- og eignameiri leggi meira af mörkum.
- Framfærsla eldra fólks og fólks á örorkulífeyri á aldrei að vera lægri en lágmarkslaun.
- Innleiða skal hóflegan auðlegðarskatt á eignir ríkasta eina prósentsins, að undanskildu íbúðarhúsnæði.
- Tryggja þarf aukið jafnræði með því að loka leiðum til að fela tekjur og einkaneyslu í einkahlutafélögum.
- Stórauka þarf skatteftirlit en skattaundanskot hafa verið metin yfir100 milljarðar á hverju ári.
- Skattkerfið þarf sífellt að vera til skoðunar og í víðtæku samráði stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og ýmis heildarsamtök.
- Tilfærslukerfin þurfa að tryggja að fólk með lægri laun geti lifað með reisn. Persónuafsláttur á að nýtast lág- og millitekjuhópum sem best og fylgja þróun verðlags..
- Hækka þarf veiðigjöld á stórútgerðina.
- Grænar skattaívilnanir geta nýst til að ná markmiðum í umhverfismálum. Nýfjárfestingar eiga að uppfylla loftslagsmarkmið og ekki skulu gerðir frekari ívilnandi fjárfestingasamningar um mengandi starfsemi. Skattaívilnunum ætti að beita til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum sem og til matvælaframleiðslu sem uppfyllir loftslags- og sjálfbærnimarkmið.
- Ísland á að leggja sitt lóð á vogarskálar í alþjóðlegri viðleitni til að koma böndum á fjölþjóðafyrirtæki og auðhringa sem koma sér undan eðlilegum skattgreiðslum og taka þátt í samstarfi um upplýsingaskipti og aukið gagnsæi í skattamálum.
Skattamál eru réttlætismál. Jöfnuður næst aðeins með réttlátri skattbyrði. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í efnahagsmálum: https://vg.is/stefna/efnahagsmal/
Ábyrg Framtíð
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.