Húsnæðismál
Framsókn
Meginmarkmiðið er langtímajafnvægi á húsnæðismarkaði. Framsókn leggur áherslu á að allir hafi aðgang að öruggu og hagkvæmu húsnæði með viðráðanlegum kostnaði, með markvissum stuðningi.
Framsókn setti fram á Alþingi fyrstu heildstæðu stefnu í húsnæðismálum á Íslandi. Áhersla er lögð á að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti eftirspurn. Húsnæðisstefnan hefur því ekki einungis áhrif á lífsgæði fólks, ráðstöfunartekjur og húsnæðisöryggi, hún hefur áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar.
Framsókn leggur áherslu á að skoða allar leiðir til að auka framboð lóða, t.d. með endurskoðuðu svæðisskipulagi, hvötum sem ýta undir framboð byggingarhæfra lóða. Land í eigu ríkisins verði nýtt til að hraða uppbyggingu íbúða með reglubundunum útboðum til að tryggja sem breiðasta þátttöku verktaka og stuðla að minni sveiflum. Framsókn leggur áherslu á skilvirka stjórnsýslu, bætt regluverk, aukinn rekjanleika og bætta neytendavernd.
Framsókn vill áfram styrkja almenna íbúðakerfið og auka framboð af óhagnaðardrifnu og öruggu leiguhúsnæði. Framsókn hefur einnig sett af stað aðgerðir til að auka hlutfall óhagnaðardrifins leiguhúsnæðis, sem nú er aðeins 2-3% af markaðnum í um 6%. Ásamt þessu hvetur Framsókn lífeyrissjóði til að nýta sér rýmkun á fjárfestingarheimildum þeirra til kaupa í leigufélögum, og taka þannig þátt í uppbyggingu leiguhúsnæðis
Tryggja þarf fjölbreytt búsetuúrræði fyrir eldra fólk með ódýru fjármagni og lóðum fyrir óhagnaðardrifin byggingafélög.
Framsókn leggur áherslu á að hærri fasteignagjöld verði sett á íbúðir sem ekki eru nýttar til búsetu og stuðlað verði að því að íbúðir í þéttbýli sem ekki eru nýttar til búsetu verði nýttar sem slíkar.
Viðreisn
Ein mikilvægasta efnahagsaðgerðin felst í að koma á jafnvægi á húsnæðismarkaði.
Á framboðshlið hafa verktakar ekki byggt nóg. Verð fasteigna hefur rokið upp. Erfiðara er nú að komast inn á markaðinn en oftast áður, sérstaklega fyrir ungt fólk. Til að vinna gegn þessu þarf að tryggja að byggingarmagn anni eftirspurn og jafnvægi sé á markaðnum. Verðbólgu verður að hemja og koma á stöðugleika, sem eykur fyrirsjáanleika. Við eigum að hafa vissu um hverjar afborganir verða næstu árin.
Viðreisn styður að fólki verði áfram gert kleift að ráðstafa séreignarsparnaði inn á íbúðalán og fyrstu kaupendur geti ráðstafað séreignarsparnaði við útborgun á fyrstu eign.
Í ríkisstjórn mun Viðreisn hafa forgöngu um eftirfarandi aðgerðir til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði:
- Fjölga lóðum á eftirsóknarverðum stöðum Ríkið á fjölda lóða sem Viðreisn vill selja til framkvæmdaaðila. Þar má byggja 2.000 – 2.500 íbúðir. Við gerðum þetta síðast þegrar við vorum í ríkisstjórn og munum gera það aftur.
- Lækka vexti Viðreisn leggur höfuðáherslu á jafnvægi í ríkisfjármálum. Til að Seðlabankinn geti lækkað vexti verður að reka ríkissjóð með afgangi. Lægri vextir lækkar kostnað framkvæmdaaðila og eykur framboð á húsnæðismarkaði. Samhliða því minnkar greiðslubyrði heimila með húsnæðislán og fjölgar þeim sem fá greiðslumat.
- Einfalda byggingareglugerð Kröfur til húsnæðis eru orðnar of strangar og ítarlegar. Byggingareglugerðir verða í samstarfi við fagfólk endurskoðaðar með það fyrir augum að lækka byggingarkostnað, án þess það komi niður á gæðum húsnæðis. Þetta gerir fleirum kleift að komast í eigið húsnæði.
- Séreignarsparnaður Viðreisn styður að fólki verði áfram gert kleift að ráðstafa séreignarsparnaði inn á íbúðalán og fyrstu kaupendur geti ráðstafað séreignarsparnaði við útborgun á fyrstu eign.
Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öruggt íbúðahúsnæði, hvort sem er til eignar eða leigu. Að hafa þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum mannsins og leggja ber áherslu á fjölbreytt og hagkvæm húsnæðisúrræði. Sjálfstæðisflokkurinn vill fjarlægja hindranir og auðvelda ungu fólki að eignast eigið húsnæði enn frekar, en einnig stuðla að virkum leigumarkaði eins og þekkist víðast hvar í nágrannalöndunum með hagkvæmum úrræðum. Þannig verður til valkostur og valfrelsi enda vill Sjálfstæðisflokkurinn tryggja frelsi einstaklingsins til að ákveða ráðstöfun sinna fjármuna. Lögð skal áhersla á að brjóta nýtt land með því að skylda sveitarfélög til að tryggja nægt framboð á lóðum í takt við fjölgun íbúa. Þá vill Sjálfstæðisflokkurinn víkka út vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins, breyta skipulagslögum og fella niður neitunarvald Reykjavíkurborgar. Með því að einfalda byggingarreglugerð og hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað er unnt að lækka byggingarkostnað á nýju húsnæði.
Að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins var lögfest til 10 ára skattfrjáls ráðstöfun séreignasparnaðar vegna fyrstu íbúðakaupa. Sjálfstæðisflokkurinn vill að tímabundin heimild annarra til að ráðstafa séreignasparnaði inn á íbúðalán verði til frambúðar, samkvæmt sömu reglum og gilda um fyrstu kaup.
Byggingarkostnaður íbúðarhúsnæðis á Íslandi er mjög hár. Sú umgjörð sem yfirvöld hafa mótað fyrir byggingariðnaðinn er óskilvirk, tímafrek og dýr. Allar hindranir sem hamla því að framkvæmdaaðilar geti brugðist tímanlega við markaðsaðstæðum magna sveiflur, ýta undir óstöðugleika og auka þannig húsnæðiskostnað sem getur svo valdið ólgu á vinnumarkaði. Fasteignaverð hér á landi er hærra en það þyrfti að vera. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leiða útgönguna út úr frumskógi reglugerða og hamlandi opinberra afskipta af byggingariðnaðinum.
Flokkur Fólksins
Flokkur fólksins hefur sett sér nýja húsnæðisstefnu þar sem stefnt er að því að íbúðalánakjör verði sambærileg því sem gildir í nágrannalöndum okkar, þ.e. lán með viðráðanlegum föstum vöxtum til allt að 30 ára. Við viljum brjóta land og byggja til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf. Nauðsynlegt er að hefja strax uppbyggingu á Keldnalandinu og hraða uppbyggingu í Úlfarsárdal og Blikastaðalandi. Við viljum byggja upp nýtt eignaíbúðakerfi á félagslegum grunni. Við viljum afnema verðtryggingu á neytendalánum.
Sósíalistaflokkurinn
Sósíalistaflokkur Íslands lagði fram tillögu undir heitinu Stóra húsnæðisbyltingin fyrir síðustu Alþingiskosningar, sú nálgun gildir enn og mikilvægt að framtíðaruppbygging verði unnin á þeim forsendum þar sem m.a. er gert ráð fyrir stofnun húsnæðissjóðs almennings.
Lýðræðisflokkurinn
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.
Miðflokkurinn
Miðflokkurinn styður séreignarstefnu í húsnæðismálum en leggur um leið áherslu á að hér þróist virkur leigumarkaður þannig að fjölskyldur geti valið sér það búsetuform sem best hentar. Miðflokkurinn leggur áherslu á að húsnæði sé hluti af grunnþörfum hverrar fjölskyldu og stjórnvöld verði að tryggja þessa þörf. Miðflokkurinn telur að of mikið bil á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði hafi leitt til síhækkandi húsnæðisverðs. Þá hefur óvenjumikil fjölgun íbúa landsins með innflutningi fólks aukið enn frekar á vandann. Miðflokkurinn leggur áherslur á aðgerðir sem auka framboð lóða og auðvelda byggingaframkvæmdir. Það þarf að ráðast í aðgerðir svo allir geti eignast þak yfir höfuðið. Ástandið nú stafar ekki síst af skorti á lóðum, óþörfum kröfum hins opinbera sem endurspeglast í óskilvirkni í afgreiðslu leyfa og óþjálum byggingareglugerðum. Mikilvægt er að aðgerðir stjórnvalda ýti undir framboð hentugra byggingarlóða af hendi sveitarfélaga og vinni gegn þeim alvarlega lóðaskorti sem hér hefur ríkt. Miðflokkurinn vill leggja áherslu á aðgerðir sem auðvelda ungu fólki að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Það verður ekki gert með þeirri áherslu á þéttingu byggðar sem höfuðborgin hefur innleitt á liðnum kjörtímabilum, með tilheyrandi hækkun húsnæðisverðs. Heimatilbúinn vandi stjórnvalda er nú að ýta almenningi til baka í verðtryggð lán, eftir að mikil aukning hefur orðið um árabil á vinsældum óverðtryggðra lána. Stjórnvöld þurfa með ábyrgum aðgerðum að sigla samfélaginu aftur í átt til lágra vaxta og stöðugleika í efnahagslífinu. Miðflokkurinn telur að ráðast verði í fjölmargar aðgerðir til að styðja við uppbyggingu húsnæðis á svæðum þar sem byggingakostnaður er hærri en markaðsverð og skal hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað í 100%. Liður í því væri að almenn endurgreiðsla virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað verði 60%. Breytt útfærsla hlutdeildarlána kemur til greina í til að tryggja fólki innkomu inn á húsnæðismarkaðinn. Miðflokkurinn leggur til að stimpilgjöld verði aflögð við kaup á fyrstu íbúð.
Píratar
Píratar ætla að:
- Tryggja næga uppbyggingu húsnæðis með því að skilyrða að lífeyrissjóðir fjármagni að jafnaði þriðjung af uppbyggingarþörf.
- Draga úr skammtímaleigu eins og Airbnb með því að skilyrða heimagistingu við íbúðir þar sem einstaklingar eru skráðir til heimilis og herða eftirlit.
- Innleiða lögheimilisskyldu, takmarka veðsetningarhlutfall aukaíbúða við 60% og bæta 0,7% aukafasteignargjöldum á aukaíbúðir.
- Setja kvaðir um að öll sveitarfélög bjóði upp á ákveðið lágmark af félagslegu húsnæði.
- Ráðast í sérstakt átak í byggingu íbúða fyrir fatlað fólk til að vinna á allt of löngum biðlistum eftir viðeigandi íbúðarhúsnæði. Vinna með rekstraraðilum að nauðsynlegri aðlögun atvinnuhúsnæðis svo þátttaka fatlaðs fólks á vinnumarkaði eða í samfélaginu í heild strandi ekki á aðgengi.
- Efla réttindi leigjenda, innleiða hvata til fjölgunar langtímaleigusamninga og verja leigjendur gegn hástökki í upphæðum leigusamninga.
- Tryggja að byggingarreglugerð skilyrði gæði eins og birtu, vistlegt umhverfi og nægan gróður við uppbyggingu.
- Endurvekja rannsóknir á myglu í Rannsóknarmiðstöð byggingariðnaðarins og standa með réttindum mygluveikra með skýrum ramma í kringum tryggingar vegna mygluskemmda.
- Auka gagnsæi og setja skorður á ófyrirsjáanleg lánakjör eins og breytilega vexti og verðtryggingu.
Húsnæðisstefna Pírata miðar að því að tryggja öllum öruggt og viðráðanlegt húsnæði. Með aukinni uppbyggingu, félagslegri blöndun og vernd réttinda leigjenda viljum við skapa stöðugan og sanngjarnan húsnæðismarkað. Píratar leggja áherslu á að húsnæði sé nýtt sem heimili, ekki fjárfesting, og að bæta gæði byggðar með vistvænum og aðgengilegum lausnum sem þjóna þörfum allra. Markmið Pírata er réttlátt húsnæðiskerfi sem mætir þörfum fjölbreytts samfélags. Með aukinni félagslegri uppbyggingu, eflingu leigjendaverndar og skýrari reglum um lánakjör er hægt að tryggja öllum heimili við hæfi. Píratar vilja stuðla að sjálfbærni, félagslegu réttlæti og velferð í húsnæðismálum, þar sem öryggi og lífsgæði eru í forgrunni fyrir alla landsmenn.
Samfylkingin
Samfylkingin hefur lagt fram framkvæmdaplan í húsnæðismálum sem finna má inni á http://xs.is/framkvaemdaplan. Þar eru settar fram tillögur að bráðaaðgerðum í húsnæðismálum og kerfisbreytingum til lengri tíma til að stuðla að betra jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði. Á sama tíma og húsnæðisuppbygging hefur ekki haldið í við fólksfjölgun hefur orðið samþjöppun á húsnæðismarkaði þar sem sífellt fleiri íbúðir hafa ratað í hendur fjárfesta og fyrirtækja.
Þær bráðaaðgerðir sem flokkurinn leggur til í húsnæðismálum snúa að því að tryggja að fleiri íbúðir nýtist sem heimili fólks, það gerum við með því að taka stjórn á Airbnb-væðingu húsnæðismarkaðarins og heimila sveitarfélögum að leggja á fasteignaskattsálag á heimili þar sem enginn hefur lögheimili og enginn greiðir þar af leiðandi útsvar til sveitarfélagsins. Í sveitarfélögum þar sem húsnæði skortir endurspeglast kostnaðurinn af tómum íbúðum í aukinni þörf til að brjóta upp nýtt land til nýbygginga og uppbyggingu innviða í nýjum hverfum. Það er því eðlilegt að sveitarfélögum þar sem skortur er á húsnæði verði gert heimilt að leggja fasteignaskattsálag á tómar íbúðir. Þá þarf að liðka fyrir uppbyggingu færanlegs húsnæðis ásamt því að skapa hvata til að breyta vannýttu atvinnuhúsnæði í íbúðir og fjölga þannig íbúðum hraðar til að bregðast við þeim bráðavanda sem blasir við á húsnæðismarkaði.
Til lengri tíma litið þarf ríkið að styðja betur við sveitarfélögin þegar kemur að innviðauppbyggingu í nýjum hverfum, t.d. með því að bjóða hagstæð innviðalán, afslátt eða niðurfellingu á virðisaukaskatti við byggingu leikskóla- og skólahúsnæðis. Færa þarf skipulagslöggjöf sveitarfélaganna til nútímans með einfaldari ferlum, styttri tímafrestum og skýrari undanþáguheimildum. Setja þarf heildstæð lög um lóðarleigusamninga í þágu jafnræðis og fyrirsjáanleika við lóðarúthlutun, skerpa á tímabindingu bygginga- og framkvæmdaleyfa til að koma í veg fyrir lóðabrask og frestun framkvæmda. Síðast en ekki síst þarf að innleiða framboðshvetjandi stuðning sem gagnast íbúðakaupendum og ívilnanir til uppbygginga leiguíbúða og fjölbreytts búsetuforms. Veita ætti óhagnaðardrifnum bygginga- og húsnæðisfélögum 60% endurgreiðslu á virðisaukaskatti og tryggja slíkum félögum byggingarétt á ríkislóðum. Að lokum mun Samfylkingin styðja við uppbyggingu félagslegs eignaríbúðakerfis eins og verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir og liðka fyrir aðkomu lífeyrissjóða að slíkum verkefnum.
Vinstri Græn
Það er grundvallar réttur hvers einstaklings að hafa öruggt þak yfir höfuð. Ráðast verður í átak í húsnæðismálum til að auka framboð á húsnæði um leið og venjulegt fólk er varið fyrir samkeppni fjárfesta.
- Íbúðarhúsnæði á að vera fyrir fyrir fólk, ekki fjárfesta. Skattaafslættir af sölu aukaíbúða verði þrengdir og gildi fyrir venjulegt fólk en ekki fjárfesta. Settar verði frekari takmarkanir á skammtímaleigu (t.d. Airbnb).
- Nauðsynlegt er að bregðast við áhrifum hávaxtastefnu á almenning með sérstökum vaxtastuðningi samhliða endurskoðaðri útfærslu séreignasparnaðarleiðar, með aukinni uppbyggingu leiguhúsnæðis með auknum stofnframlögum og með leigubremsu. Efla þarf óhagnaðardrifin leigufélög Með því að auka aðgengi þeirra að lánsfé og fjölga stofnstyrkjum innan almenna íbúðakerfisins.
- Koma þarf á fót raunverulegu félagslegu eignaíbúðakerfi í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar og stórauka þarf framboð á íbúðarhúsnæði um allt land.
- Ráðast verður í átak í húsnæðismálum, auka þarf möguleika ríkisins á að styðja við innviðauppbyggingu samhliða auknu lóðaframboði sveitarfélaga.
- Fyrirkomulag hlutdeildarlána þarf að endurskoða til að tryggja að það nái markmiðum sínum, að gefa tekjulágum, þ.m.t. örorkulífeyrisþegum, kost á því að eignast heimili.
- Endurskoða þarf greiðslumat þannig að metið sé með raunhæfum hætti greiðslugetu einstaklinga til að greiða af fasteignalánum sínum.
- Standa þarf vörð um Húsnæðissjóð, sem stofnaður var að norrænni fyrirmynd, til að fjármagna húsnæði á samfélagslegum grunni.
- Tryggjum gæðahúsnæði fyrir öll án tillits til efnahags. Hverfi og skipulag taki mið af mannlífi, fjölbreytni og virkum ferðamátum.
Vinstri græn vilja húsnæði fyrir fólk en ekki fjárfesta! Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í kjara- og húsnæðismálum: https://vg.is/stefna/kjara-og-husnaedismal/
Ábyrg Framtíð
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.