Atvinnumál
Framsókn
Framsókn leggur áherslu á að byggja upp fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf með nýsköpun, græna atvinnusköpun og öflugt innviðakerfi í fyrirrúmi. Flokkurinn vill tryggja jafna dreifingu atvinnutækifæra um landið, stuðla að betri tengingu menntunar og atvinnulífs og skapa hagstætt skattaumhverfi fyrir fyrirtæki. Framsókn styður einnig sjálfbæra ferðaþjónustu, sterkan landbúnað og aðgengi að fjármagni fyrir sprotafyrirtæki, með það að markmiði að efla efnahagslífið í öllum landshlutum.
Framsókn vill stuðla að einföldu og hagkvæmu skattaumhverfi sem hvetur fyrirtæki til vaxtar og nýráðninga.
Framsókn vill styðja nýsköpun og þróun í atvinnulífinu með skattaívilnunum, fjárhagslegum stuðningi og þjálfun fyrir nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla. Flokkurinn leggur áherslu á öflugt atvinnulíf í öllum landshlutum og fjölgun atvinnutækifæra á landsbyggðinni fyrir ungt fólk. Til þess þarf m.a. að fjárfesta í grunninnviðum eins og samgöngum, fjarskiptum og orkuframleiðslu og - dreifingu, en betri innviðir styðja atvinnulíf á landsbyggðinni og bæta samkeppnishæfni landsins í heild.
Við viljum tryggja áframhaldandi vöxt í ferðaþjónustu og markmiðið er að ferðaþjónustan skapi arð fyrir samfélagið án þess að raska náttúrunni. Flokkurinn vill efla lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki, markaðssetja Ísland sem áfangastað fyrir sjálfbærar ferðir, og þróa innviði til að mæta auknum ferðamannastraumi.
Framsókn vill efla sjálfbæran íslenskan landbúnað og styðja við bændur til að tryggja matvælaöryggi landsins og fjölbreytt atvinnulíf á landsbyggðinni. Landbúnaður er mikilvægur hluti af sjálfstæði landsins og velferð samfélagsins. Bændur eiga að geta aukið arðsemi sína með því að framleiða hágæða matvæli og nýta afurðir sínar á skilvirkari hátt. Framsókn vill setja upp hvata fyrir framleiðendur sem hyggja á framleiðslu matvöru sem skortur er á hér á landi. Þetta getur falið í sér fjárhagslegan stuðning eða aðstoð við að þróa nýjar vörur.
Framsókn leggur áherslu á mikilvægi hugverkaverndar, þar sem það er grundvöllur fyrir nýsköpun og sköpun verðmæta. Flokkurinn vill tryggja að íslenskt hugvit, hönnun og framleiðsla njóti verndar bæði innanlands og á alþjóðamarkaði.
Viðreisn
Viðreisn leggur áherslu á samkeppni, sjálfbærni, nýsköpun og jafnrétti í öllum atvinnurekstri og treystir frjálsum markaði almennt til að skila mestum ábata fyrir Ísland. Hlutverk stjórnvalda er að búa fyrirtækjum hagstæð rekstrarskilyrði og draga úr efnahagssveiflum. Í því ljósi þarf að einfalda regluverk, tryggja virka samkeppni og minnka flækjustig í leyfisveitingum á vegum hins opinbera.
Ísland er þekkingarland. Uppbygging alþjóðlegs þekkingariðnaðar og atvinnulífs er leiðin að aukinni hagsæld. Móta þarf atvinnu- og iðnaðarstefnu til lengri tíma þar sem skýrt kemur fram í hvaða atvinnu og grænum iðnaði sækja skal fram og hvernig verður stutt við þá sókn.
Viðreisn styður aukna framleiðslu endurnýjanlegrar orku, græna atvinnuuppbyggingu og framleiðslu rafeldsneytis.
Leyfum bændum að blómstra. Draga þarf úr miðstýringu í landbúnaði og auka frelsi, bæði neytendum og bændum til hagsbóta. Losa þarf um krafta nýsköpunar og auka fjölbreytni í landbúnaði. Endurskoða þarf styrkjakerfi landbúnaðarins til að efla hag bænda og gera greinina sjálfbærari.
Við þurfum að byggja upp faglega og trausta ferðaþjónustu. Fjárfesta þarf í innviðum á ferðamannastöðum um allt land til verndar umhverfi og náttúru og tryggja jafnari dreifingu ferðamanna um landið.
Viðreisn vill að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindum okkar og að samningar séu tímabundnir. Með afnotasamningum til langs tíma yrði óvissu eytt og fyrirsjáanleiki mikill, á sama tíma og eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindum sé staðfestur.
Sjálfstæðisflokkurinn
Stefna Sjálfstæðisflokksins í atvinnumálum byggir á frelsi einstaklinga til að nýta hæfileika sína, ásamt ábyrgð á eigin athöfnum. Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og stoð velferðarkerfisins. Flokkurinn leggur áherslu á að stjórnvöld skapi heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru burðarás íslensks hagkerfis.
Áhersla er lögð á einfalt og sanngjarnt skatta- og regluverk til að bæta samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa verið tekin markviss skref til að einfalda regluverk, efla samkeppnishæfni og stuðla að nýsköpun, þó enn sé verk að vinna.
Þannig eigi að vera einfalt að stofna og reka fyrirtæki, ráða starfsfólk og tryggja jafnræði í opinberri gjaldtöku milli atvinnugreina. Stjórnvöld skulu styðja stöðugleika í rekstrarumhverfinu og hvetja til nýsköpunar, sem er forsenda aukinnar framleiðni og hagvaxtar. Einfalt og skilvirkt eftirlit, auk bættra leyfisveitinga, er einnig lykilatriði til að ýta undir frekari framþróun atvinnulífsins.
Flokkur Fólksins
Við viljum að atvinnuvegum þjóðarinnar séu búin góð skilyrði, ásamt því að heimilum sé tryggð örugg afkoma. Heilbrigð verðmætasköpun er undirstaða velferðar. Flokkur fólksins vill efla atvinnumál í brothættum sjávarbyggðum með því að gefa handfæraveiðar frjálsar. Við viljum efla gróðurhúsarækt með því að tryggja gróðurhúsum raforku á kostnaðarverði. Efla þarf fjölbreytni í atvinnuvegumþjóðarinnar, fjölga eggjunum í körfunni.
Sósíalistaflokkurinn
Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Fólk skal njóta virðingar, mannsæmandi kjara, góðra vinnuaðstæðna og öryggis á vinnustað. Styrkur launafólks felst í einingu þess í gegnum öflug verkalýðs- og stéttarfélög. Setja þarf fram framfærsluviðmið og tryggja að grunntaxti lágmarkslauna og skattleysismörk fari aldrei undir það viðmið. Sósíalistar leggja áherslu á að hið opinbera leiði með góðu fordæmi í kjaraviðræðum og komi í veg fyrir kennitöluflakk og launaþjófnað með öflugri lagasetningu og viðurlögum. Koma skal í veg fyrir að ríki og sveitarfélög útvisti störfum (t.d. þrifum og mötuneyti) sem keyrir niður kjör og réttindi starfsfólks. Sósíaistaflokkurinn leggur áherslu á að vinnustaðir og stjórnir fyrirtækja verði lýðræðisvæddir. Þá þarf að endurskoða tryggingargjald sem leggst þyngra á smáfyrirtæki og meðalstór þar sem launakostnaður er almennt hlutfallslega stærri hluti útgjalda þeirra en hjá stórfyrirtækjum. Til að ýta undir sköpun starfa er skynsamlegt að lækka mjög tryggingargjald hjá fyrstu starfsmönnum hvers fyrirtækis. Slík ráðstöfun væri í reynd nýsköpunarframlag til smárra fyrirtækja og hvati til einstaklinga um að stofna sín eigin fyrirtæki. Eyða þarf samkeppnisforskoti stórfyrirtækja og vernda smærri fyrirtæki fyrir ásælni þeirra. Það er mikilvægt að atvinnulífið hafi seiglu og hana má byggja upp með styrkingu smárra fyrirtækja og fjölgun samvinnufyrirtækja. Sósíalistaflokkurinn er með ítarlega stefnu í vinnumarkaðsmálum og einnig er fjallað um þennan málaflokk í öðrum stefnum flokksins.
Lýðræðisflokkurinn
Lýðræðisflokkurinn stendur vörð um atvinnufrelsi manna og vill auka það á öllum sviðum. Bæta þarf rekstraraðstöðu og samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja einfaldara regluverki og með því að draga úr eða fella niður álögur.
Lýðræðisflokkurinn vill efla innlenda atvinnustarfsemi m.a. með því
…að stuðla að aukinni framleiðni hérlendis, efla hagvöxt og tryggja þar með hagsæld og framfarir á Íslandi. Á vettvangi ríkisfjármála leggur Lýðræðisflokkurinn áherslu á hófsemi í útgjöldum og sköttum. Útþensla ríkisins verði stöðvuð, dregið verði úr ríkisumsvifum og kostir einkaframtaksins nýttir. Með skattalækkunum verði fólk hvatt til aukinnar atvinnuþátttöku og nýsköpunar.
…með það að markmiði að Ísland sé sjálfbært í matvælaframleiðslu. Standa ber vörð um íslenskan landbúnað, þ.m.t. framleiðslu á kjöti og grænmeti. Leysa ber íslenska bændur undan forsjárhyggju og miðstýringu. Stuðla ber að nýliðun í landbúnaði.
…með því að bændum verði gert kleift að nýta sóknarfæri á hverjum stað, stuðla að nýbreytni í heilnæmri búvöru á öllum sviðum, m.a. með því að selja vöru sína beint frá býli. Neytendum verði tryggðar öruggar upplýsingar um uppruna og innihald allrar búvöru.
…með því að leiðrétta valdaójafnvægi milli stórútgerðar og almannahagsmuna. Búa sjávarútvegi skilyrði til að sækja fram, á jafnræðisgrunni. Allur fiskur sem veiddur er á Íslandsmiðum verði seldur á fiskmarkaði.
…með því að skapa ferðaþjónustu skilyrði um land allt til áframhaldandi atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar. Erlendir ferðamenn greiði komugjald sem nýtt verði eingöngu til innviðauppbyggingar og til að vernda viðkvæma staði í ríkiseigu fyrir átroðningi. Að auki verði kröfur um ráðstöfunarfé ferðamanna hækkaðar.
…með því að náttúruperlur verði verndaðar og vatns- og jarðvarmaorka verði nýtt í jafnvægi við náttúruna.
Miðflokkurinn
Minnka þarf ríkisbáknið, einfalda regluverk og draga úr kerfisræði á Íslandi. Þannig er hægt að draga úr álögum á almenning og lítil og meðalstór fyrirtæki fá aukið frelsi til að skapa ný störf og ný verðmæti. Stjórnvöld eiga að þjónusta almenning, ekki öfugt.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að rekstrarstaða og samkeppnisstaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði bætt með skattalegum hvötum og einfaldara regluverki þannig að ekki séu lagðar sömu kvaðir á lítil fyrirtæki og þau stærri.
Miðflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi fjölbreyttrar atvinnustarfsemi um land allt. Miðflokkurinn styður hvers konar framþróun og nýsköpun til að efla fjölbreytta atvinnustarfsemi og útflutning hátæknivara. Mikilvægt er að stjórnvöld sinni því hlutverki sínu að tryggja fyrirtækjum stöðugt og gott rekstrarumhverfi, þannig að verðmætasköpun í samfélaginu geti aukist í takt við auknar þarfir samfélagsins.
Píratar
Píratar ætla að:
- Efla nýsköpun um land allt
- Byggja upp græna og örugga innviði
- Gera Ísland að miðstöð þekkingar og grænnar nýsköpunar
- Gera sjálfbæra ferðamála- og iðnaðarstefnu
- Gera Ísland tilbúið til þess að takast á við gervigreind
- Frelsa handfæraveiðarnar og styðja við atvinnutækfæri víða um land
- Stuðlum að sjálfbærari ferðaþjónustu svo samfélagið í heild njóti góðs af ferðaþjónustunni
Sjálfvirknivæðing, gervigreind og aðrar tækninýjungar breyta bæði samfélaginu og atvinnulífinu hratt. Með öflugri, sjálfbærri og grænni uppbyggingu innviða í öllum sveitarfélögum landsins viljum við skapa framtíð sem byggir á fjölbreytni og samfélagslegri nýsköpun. Það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi með því að bjóða upp á nýjar leiðir, efla nýsköpun og fjölga undirstöðum íslensks iðnaðar. Píratar munu stuðla að aukinni verðmætasköpun og styrkja tekjuöflun ríkissjóðs með fjölbreyttum atvinnustoðum. Þær munu byggja á hugviti ferkar en auðlindum. Aukin framleiðni, bæði á sviði hins opinbera og í atvinnulífinu, næst með áherslu á nýsköpun og rannsóknir. Einnig þarf að byggja þarf upp fjölbreytta atvinnustarfsemi í sjávarplássum, með áherslu á frumkvæði íbúa. Píratar telja mikilvægt að líta á menningu og skapandi greinar sem eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, og sem efnahagslega og samfélagslega fjárfestingu fyrir framtíðina en ekki sem kostnað líðandi stundar.
Samfylkingin
Í útspili Samfylkingarinnar Krafa um árangur setti flokkurinn fram kröfu um íslensk kjör og atvinnustefnu fyrir Ísland. Samfylkingin boðar framsækna atvinnustefnu um allt land með áherslu á sjálfbæran vöxt atvinnugreina, háa framleiðni, vel launuð störf og sterkt velferðarkerfi. Atvinnustefnu sem stendur undir íslenskum kjörum. Mikilvægt er að tryggja fyrirtækjum á Íslandi aukinn fyrirsjáanleika og auka á samfellu milli hinna ýmsu ríkisstofnana.
Á Íslandi hefur hagvöxtur á mann verið minni en gengur og gerist á Norðurlöndunum og Evrópu frá árinu 2017, þrátt fyrir vöxt hagkerfisins í heild. Þunginn í hagvextinum hefur orsakast af hröðum vexti vinnuaflsfrekra greina og mikilli fólksfjölgun án þess að nauðsynlegir innviðir hafi haldið í við þá þróun – slíkur vöxtur er ekki sjálfbær. Þessi mikli munur milli vaxtar hagkerfisins og hagvaxtar á mann hefur leitt af sér gríðarlegt álag á innviði og er ein helsta ástæða þess að fólk hér á landi upplifir ekki endilega aukin lífsgæði vegna hagvaxtar heldur þenslu, sem birtist í hárri verðbólgu, vöxtum, hækkandi húsnæðisverði og álagi á aðra innviði. Þessu vill Samfylkingin breyta og byggja hagvöxt fyrst og fremst á aukinni framleiðni.
Þá verður það forgangsmál hjá Samfylkingunni að taka fast á félagslegum undirboðum. Samfylkingin styður eindregið nýsköpun á öllum sviðum atvinnulífsins og vill ýta undir vöxt atvinnugreina sem byggja á hugviti og sköpunargáfu, tækni og verkkunnáttu enda er nýsköpunar- og frumkvöðlastarf lykill að samkeppnishæfni fyrirtækja og þjóða.
Vinstri Græn
Markmið VG í atvinnumálum er að umbreyta atvinnulífinu í átt að sjálfbærni og stuðla að fjölbreyttri og félagslega réttlátri atvinnuuppbyggingu um land allt, sem borgi góð laun sem duga til að fólk geti lifað með reisn.
- Grunnatvinnuvegir eiga að byggja á sjálfbærri nýtingu auðlinda og samfélagslegri ábyrgð í takt við loftslagsaðgerðir. Stuðla skal að því að fyrirtæki innleiði skýr, mælanleg viðmið sem tryggja umhverfis-og náttúruvernd, kolefnishlutleysi og jákvæð áhrif á nærsamfélagið.
- Atvinnulífið á að þróast í átt að sjálfbærni með áherslu á græn störf, skapandi greinar, sjálfbæra þróun og hringrásarhagkerfið. Opinbert fé skal styðja við græn verkefni og samfélagslega ábyrg fyrirtæki.
- Stefnt skal að kolefnishlutleysi innan atvinnulífsins með því að draga úr losun, hvetja til orkuskipta og virkja betur sköpunarkraftinn
- Áhersla skal lögð á tæknimenntun, rannsóknir og þróunarstarf svo Ísland verði í fararbroddi í nýsköpun og tækni framförum til framtíðar.
- Til að tryggja fjölbreytt atvinnulíf um allt land þarf að bæta innviði svo sem samgöngur, háhraðanettengingar, menntunartækifæri og aðra grunnþjónustu.
- Fjölga skal opinberum störfum um land allt með tilliti til byggðajafnréttis og skapa staðbundin störf.
- Menningar- og listgreinar eru mikilvægar stoðir fjölbreytts atvinnulífs. Leggja skal áherslu á að styrkja stöðu Íslands í þessum greinum og styðja við menntastofnanir og rannsóknarverkefni sem miða að nýsköpun og þróun í hugverkagreinum.
- Umbætur verði gerðar á byggða- og atvinnukerfum ásamt því að tryggt sé að strandveiðar skiptist á réttlátan hátt milli byggða landsins.
- Tryggt verði að nýtt stuðningskerfi landbúnaðar virki fyrir bændur og fjárfestingarstyrkir og styrkir til nýliða verði auknir.
- Þau sem fá heimildir til að nýta auðlindir landsins verða að greiða stærri hluta af ágóðanum í sameiginlega sjóði. Gagnsæi um eignatengsl í sjávarútvegi verði eflt samhliða því að veiðigjöld á stórútgerðina séu hækkuð.
- Umfangsmikil áætlun um endurmenntun og hæfniuppbyggingu skal til að tryggja öllum jöfn tækifæri til að þróa nýja hæfni í breyttu atvinnulífi vegna áhrifa tæknivæðingar og sjálfvirknivæðingar.
- Tími með okkar nánustu er ein af undirstöðum vellíðunar. Höldum áfram að vinna að því að stytting vinnuvikunnar nái til allra og bætum samspil atvinnuþátttöku og fjölskyldulífs.
Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í atvinnumálum https://vg.is/stefna/atvinnumal/
Ábyrg Framtíð
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.