Evrópumál

Framsókn

Framsókn telur hagsmunum Íslands best borgið með því að vera áfram sjálfstæð og fullvalda þjóð utan Evrópusambandsins. Stefnumótun í utanríkismálum skal ætíð taka mið af hagsmunum lands og þjóðar hverju sinni.

Framtíðarskipulag Evrópu mun taka breytingum á næstu misserum og stefnumótun í utanríkismálum skal miðast að þessum breytta heimi. Flokkurinn vill efla hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu til að fylgjast betur með umræðu og hafa áhrif á komandi EES-gerðir á fyrri stigum.

EES-samningurinn er mikilvægasti og umfangsmesti efnahagssamningur Íslands og því þarf að tryggja skilvirka framkvæmd hans í aukinni samvinnu við löggjafarvaldið. Þau tækifæri sem Íslendingum hafa opnast með tilkomu EES-samningsins eru ótvíræð. Framsókn telur að Ísland eigi að vera áfram aðili að EES-samstarfinu, en með aðild að því njótum við þegar allra þeirra kosta sem Evrópusambandið hefur upp á að bjóða.

Viðreisn

Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu lýðræðisþjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að auka enn frekar þátttöku sína í Evrópusamstarfinu og gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu.

Á þeim forsendum leggur Viðreisn áherslu á að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið að undangengnu samþykki þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu. Það þýðir að haldin verði fyrst þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna og síðar um samningsdrög, þegar þau liggja fyrir.

Núverandi þátttaka Íslands í Evrópusamstarfinu í gegnum samninginn um Evrópska Efnahagssvæðið hefur reynst mjög vel í 30 ár og hefur verið undirstaða hagvaxtar og bættra lífskjara. Það er óviðunandi að Ísland taki ekki þátt í stefnumótun og ákvörðunum um eigin örlög, ákvörðunum sem við verðum að hlýta eigi að síður. Sjálfstæð og fullvalda þjóð á ekki að sætta sig við þessa stöðu heldur stíga skrefið til fulls.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn vill verja fullveldi, sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar og tryggja enn frekar efnahagslegt sjálfstæði landsins með viðskiptum og greiðum aðgangi að alþjóðamörkuðum. Flokkurinn leggur áherslu á að verja auðlindir og náttúru landsins. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa með bandalagsþjóðum gegn fjölþátta ógnum. Viðskipta-, stjórnmála- og menningartengsl við Evrópuríkin og Bandaríkin eru Íslendingum mikilvægust. Brýnt er að tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Áríðandi er að haldið verði áfram að efla hagsmunagæslu innan ramma EES og tryggja að möguleikar Íslands til áhrifa á fyrri stigum EES mála verði nýttir til fulls. Sjálfstæðisflokkurinn gerir verulegar athugasemdir við að tekin sé upp löggjöf í EES-samninginn sem felur í sér valdheimildir sem fellur utan ramma tveggja stoða kerfis samningsins og vill koma í veg fyrir hvers kyns gullhúðun. Ísland á mikið undir því að rækta góð viðskiptasambönd við sem flest ríki heimsins. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að fríverslunarsamningum við ríki utan Evrópska efnahagsvæðisins (EES) verði fjölgað, tvíhliða eða í samvinnu við önnur aðildarríki EFTA. Sjálfstæðisflokkurinn telur að hagsmunir Íslands séu best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins vill standa vörð um íslenska hagsmuni gagnvart ESB og sífelldum innleiðingum EES-gerða. Við viljum nýta þær heimildir sem EES samningurinn veitir okkur til að koma í veg fyrir upptöku reglna sem beinlínis skaða íslenskt hagkerfi. Við stöndum gegn hverskonar gullhúðun og blýhúðun. Við stöndum gegn bókun 35.

Sósíalistaflokkurinn

Ójöfnuður fer vaxandi í heiminum og ríkasta eina prósentið verður æ ríkara og valdameiri á meðan almenningur verður valdalausari. Þannig hefur kapítalisminn og græðgisvæðing heimsins náð undirtökunum í gegnum stórfyrirtækin, sem stjórnvöld einstakra ríkja og alþjóðlegar stofnanir þjóna. Afleiðingin er niðurbrot samfélaga og lýðræðis, náttúrugæða og loftslags. Vinnuvernd og sú verkalýðsbaráttu, sem víða var byggð upp á síðustu öld, hefur verið veikt og almenn grunnmannréttindi og velferð lúta í lægra haldi. Við stöndum frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar þar sem fólk flýr heimalönd sín vegna, lífsgæða, loftslagsvár eða styrjalda. Sósíalistaflokkurinn hafnar því alþjóðavæðingu hins fjármálavædda kapítalisma en styður alþjóðlega samvinnu sem hefur það að markmiði að vinna gegn auðvaldi og kúgun. Að landið tryggi tengsl við næstu nágrannaþjóðir, auki samskipti við aðrar smáþjóðir og vinni að því að koma á stofnun friðarbandalags meðal þjóða í stað hernaðarbandalags. Að staðið sé með lýðræði og mannréttindum hvar sem er og baráttunni gegn auðvaldi og kúgun á alþjóðavettvangi. Að Ísland sé herlaust land, fari aldrei með ófriði á hendur öðrum ríkjum né styðji slíkar aðgerðir heldur vinni að friðsælum lausnum deilumála. Að auka lýðræðislega aðkomu almennings að ákvarðanatöku varðandi veigamestu þætti heildstæðrar utanríkisstefnu og allar stærri ákvarðanir sem komi til álita og varða alþjóðlegt samráð og þátttöku í stærri bandalögum verði settar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að styðja við alþjóðasamvinnu en hafna alþjóðavæðingu á forsendum auðvaldsins. Að styðja við verkalýðsbaráttu um allan heim og samvinnu verkalýðshreyfingarinnar milli landa, vinna gegn mansali og kúgun verkafólks. Ef að vilji þjóðarinnar er til að kjósa um aukið samstarf og stórra samninga á milli evrópuríkja er eðlilegt að leggja slíkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lýðræðisflokkurinn

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki.
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á samvinnu við lönd Evrópu en hafnar aðild að Evrópusambandinu. Miðflokkurinn lítur svo á að öllum viðræðum við sambandið hafi verið slitið og verði ekki hafnar aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin verði spurð hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið. Miðflokkurinn vill endurskoðun Schengen-samstarfsins og telur að það þarfnist endurskoðunar í ljósi þess að fjölmörg Evrópulönd hafa á undanförnum árum vikið frá grundvallarreglum Schengen-fyrirkomulagsins til að verja landamæri sín. Ísland þarf að vera fært um að nýta stöðu sína sem eyja til að hafa stjórn á eigin landamærum en þó í góðu áframhaldandi samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir.

Miðflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu þar sem Ísland kemur fram sem frjáls og fullvalda þjóð. Flokkurinn vill áframhaldandi góða samvinnu við þjóðir Evrópu þó að eftir atvikum geti verið nauðsynlegt að endurmeta og skoða einstaka liði þeirrar samvinnu enda lifum við í síbreytilegum heimi. Miðflokkurinn tekur sér stöðu með fullveldi landsins sem er forsenda þess að Íslendingar geti staðið vörð um eigin hagsmuni í samskiptum við aðrar þjóðir.

Píratar

Píratar ætla að:

  • Leggja til að þjóðin taki upplýsta ákvörðun um áframhald aðildaviðræðna við Evrópusambandið.

Píratar telja að þjóðin eigi að fá að kjósa um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Við teljum nauðsynlegt að ljúka viðræðunum til að fá skýra mynd af því hvað aðild felur í sér fyrir Ísland. Aðeins með vitneskju um hvað kemur út úr viðræðunum er hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvort aðild sé hagstæð fyrir landið. Píratar leggja áherslu á að ferlið verði lýðræðislegt og gagnsætt, að almenningur hafi aðgang að öllum upplýsingum og geti tekið þátt í ákvarðanatökunni. Við viljum tryggja að vilji þjóðarinnar ráði för og að ákvörðunin um aðild verði byggð á staðreyndum og heildstæðum upplýsingum.

Samfylkingin

Samfylkingin er Evrópusinnaður flokkur og hefur frá stofnun talað fyrir því að hagsmunir Íslands séu best tryggðir með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. Samfylkingin leggur ekki áherslu á framhald aðildarviðræðna Íslands og ESB á næsta kjörtímabili. Flokkurinn mun beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna á réttum tímapunkti, til dæmis undir loka næsta kjörtímabils. Mikilvægt er að skapa góða samstöðu meðal þjóðarinnar um svo mikilvægt mál. Samfylkingin leggur áherslu á að íslensk stjórnvöld nýti með markvissari hætti þau tækifæri sem felast í samstarfinu innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), efli hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu og bæti framkvæmd EES-samningsins.

Vinstri Græn

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur ríka áherslu á samstarf við önnur Evrópulönd en telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Komi til þess að Ísland sæki um aðild yrði það að okkar mati eingöngu að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu um slík áfor enda er um afdrifaríka ákvörðun að ræða sem eðlilegt er að allur almenningur hafi skoðun á.

Leggja þarf mat á þá raunhæfu valkosti sem eru taldir bjóðast í gjaldmiðilsmálum. Annars vegar áframhaldandi sjálfstæð peningastefna með íslenskri krónu og hins vegar innganga í Evrópusambandið og aðild að Myntbandalagi Evrópu, með upptöku evru og þátttöku í samevrópskri peningastefnu. Hreyfingin telur að taka þurfi næstu skref í peningamálum til róttækrar skoðunar.

Ljóst er að Ísland mun nýta sér krónuna sem gjaldmiðil næstu árin og því þarf að tryggja að peningastefnan fari saman við ríkisfjármálastefnu og taki mið af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki.
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.