Evrópumál

Framsóknarflokkurinn

  • Framsókn telur hagsmunum Íslands best borgið með því að vera áfram sjálfstæð og fullvalda þjóð utan Evrópusambandsins. Breska þjóðin hefur yfirgefið sambandið og því er komin upp gjörbreytt staða þar. Framtíðarskipulag Evrópu mun taka breytingum á næstu misserum og því er brýnt að tryggja efnahags- og viðskiptalega hagsmuni Íslands gagnvart Bretlandi eins og samið hefur verið um. Stefnumótun í utanríkismálum á og skal miðast að þessum breytta heimi.
  • EES-samningurinn er mikilvægasti og umfangsmesti efnahagssamningur Íslands og því þarf að tryggja skilvirka framkvæmd hans í aukinni samvinnu við löggjafarvaldið. Brátt eru liðin 25 ár frá því Ísland gekk í EES. Samstarfið hefur tekið miklum breytingum á þeim tíma og frekari breytinga er að vænta. Þau tækifæri sem Íslendingum hafa opnast með tilkomu EES samningsins eru ótvíræð og mörg.

Viðreisn

Ísland á að vera virkt á alþjóðlegum vettvangi til að efla mannréttindi, jafnrétti, frjáls og réttlát viðskipti og stuðla þannig að friði. Með þeim hætti eflum við menningu og hag Íslands sem og annarra þjóða.

Ísland á í því skyni heima í samfélagi Evrópuþjóða. Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu þjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að taka þátt í því samstarfi af fullum krafti og ganga í Evrópusambandið. Við eigum landfræðilega, menningarlega og efnahagslega samleið með þeim sjálfstæðu og fullvalda ríkjum sem hafa kosið að taka þátt í þessu samstarfi.

Við eigum ekki að sitja hjá heldur setjast til borðs með Evrópuþjóðum og vinna þétt saman að umhverfis- og loftslagsmálum, mannréttindamálum, auknu viðskiptafrelsi og efnahagslegum stöðugleika.

Viðreisn vill þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald samningaviðræðna við Evrópusambandið, ganga til viðræðna með opnu og gegnsæju ferli og leggja samninginn síðan í dóm þjóðarinnar. Það er alveg á hreinu að ef samningur yrði ekki hagfelldur fyrir bætt lífskjör þjóðar, myndi Viðreisn ekki mæla með slíkum samningi. Markmið með inngöngu í Evrópusambandið er ekki samningurinn sjálfur - heldur þau bættu lífskjör og efnahagslegur stöðugleiki sem við trúum að honum fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn

Evrópa er mikilvægasta markaðs- og menningarsvæði Íslands. Mikilvægt er að tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Áríðandi er að haldið verði áfram að efla hagsmunagæslu innan ramma EES og tryggja að möguleikar Íslands til áhrifa á fyrri stigum EES mála verði nýttir til fulls. Sjálfstæðisflokkurinn gerir verulegar athugasemdir við að tekin sé upp löggjöf í EES-samninginn sem felur í sér valdheimildir sem fellur utan ramma tveggja stoða kerfis samningsins. Ísland á mikið undir því að rækta góð viðskiptasambönd við sem flest ríki heimsins. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að fríverslunarsamningum við ríki utan Evrópska efnahagsvæðisins (EES) verði fjölgað, tvíhliða eða í samvinnu við önnur aðildarríki EFTA. Áréttað er að hagsmunir Íslands eru best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins. Mikilvægt er að tryggja að aðildarviðræður verði ekki teknar upp að nýju án samþykkis í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins styður ekki aðild Íslands að ESB.

Við erum andvíg því að Ísland innleiði orkustefnu ESB og verði í orkusambandi ESB og andvíg því að Ísland innleiði ESB-lög um raforkuviðskipti yfir landamæri og að landið lúti Evrópusambandsstofnun fyrir samvinnu orkueftirlitsaðila (ACER). Rökin eru þau að á Íslandi eru engin raforkuviðskipti yfir landamæri þar landið er ekki tengt ESB með sæstreng og því ekki hægt að selja raforku til ESB-ríkja.

Mikilvægt er að Ísland hugi að sjálfstæði sínu og fullveldi í samskiptum sínum við ESB í gegnum EES-samninginn líkt og í samskiptum sínum við önnur ríkjasamböndog stórveldi. Hagsmunum Íslendinga er best borgið sem sjálfstæðri og fullvalda þjóð.

Sósíalistaflokkurinn

Ójöfnuður fer vaxandi í heiminum og ríkasta eina prósentið verður æ ríkara og valdameiri á meðan almenningur verður valdalausari. Þannig hefur kapítalisminn og græðgisvæðing heimsins náð undirtökunum í gegnum stórfyrirtækin, sem stjórnvöld einstakra ríkja og alþjóðlegar stofnanir þjóna. Afleiðingin er niðurbrot samfélaga og lýðræðis, náttúrugæða og loftslags. Vinnuvernd og sú verkalýðsbaráttu, sem víða var byggð upp á síðustu öld, hefur verið veikt og almenn grunnmannréttindi og velferð lúta í lægra haldi. Við stöndum frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar þar sem fólk flýr heimalönd sín vegna, lífsgæða, loftslagsvár eða styrjalda. Sósíalistaflokkurinn hafnar því alþjóðavæðingu hins fjármálavædda kapítalisma en styður alþjóðlega samvinnu sem hefur það að markmiði að vinna gegn auðvaldi og kúgun. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á samvinnu við lönd Evrópu en hafnar aðild að Evrópusambandinu. Miðflokkurinn lítur svo á að öllum viðræðum við sambandið hafi verið slitið og verði ekki hafnar aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin verði spurð hvort hún vill ganga í Evrópusambandið. Miðflokkurinn vill endurskoðun Schengen samstarfsins og telur að það þarfnist endurskoðunar í ljósi þess að fjölmörg Evrópulönd hafa á undanförnum árum vikið frá grundvallarreglum Schengen fyrirkomulagsins til að verja landamæri sín. Ísland þarf að vera fært um að nýta stöðu landsins sem eyja til að hafa stjórn á eigin landamærum en þó í góðu áframhaldandi samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu enda hefur inngöngu verið líkt við það að ganga inn í brennandi hús af okkar helsta pólitíska sérfræðingi um Evrópumál. Flokkurinn vill að Alþingi dragi Evrópusambandsumsóknina formlega til baka. Orkupakka 4 er hafnað og mun flokkurinn beita sér í að undið verði ofan af fyrri orkugjörningum og þeir settir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í stuttu máli var orkuauðlind Íslands dregin inn í EES samninginn og látnar gilda reglur um samkeppni á innri markaði um frelsin fjögur en þar er átt við frelsi í viðskiptum, fjármagnsflutningum, þjónustu og flutningi fólks á milli landa. Þetta er afar merkilegt, því fjórfrelsið snérist ekki um landbúnað, sjávarútveg eða orku. Sjávarútvegur er t.d. ekki inn í EES samningnum nema sem viðauki um tollaniðurfellingar.

Píratar

EES
Pírötum finnst EES-samningurinn hafa verið mikið heillaspor fyrir þjóðina. Þess vegna er áframhaldandi EES-samstarf á dagskrá hjá Pírötum og það sem meira er - Ísland myndi taka sér allt það rými sem það gæti á vettvangi EES til að tryggja enn betur stöðu og hagsmuni almennings.

Evrópusambandið
Pírötum finnast aðildarviðræður við Evrópusambandið varða heildarhagsmuni allrar þjóðarinnar og því er mikilvægt að stjórnvöld fylgi vilja almennings í þeim efnum. Píratar munu þess vegna hvorki hefja aðildarviðræður, né ljúka þeim, án þjóðaratkvæðagreiðslu. Í aðdraganda beggja atkvæðagreiðsla gerum við kröfu um að fram fari hlutlaus og heildstæð kynning á kostum og göllum aðildar, svo að almenningur eigi auðveldara með að taka upplýsta ákvörðun í kjörklefanum.

Annað Evrópusamstarf
Pírötum finnst að Ísland eigi að gerast aðili að Evrópsku geimvísindastofnuninni (ESA) og Kjarnrannsóknastofnun Evrópu (CERN). Það myndi opna margvíslegar gáttir fyrir íslenska vísindamenn. Í Evrópumálum, eins og utanríkismálum almennt, leggja Píratar jafnframt mikla áherslu á loftslagsmál, mannréttindi (t.a.m. eftirlit með mannréttindabrotum í fríverslunarsamningum) og gagnsæi - ekki síst við samningagerð, eins og sést af formennsku þingmanna Pírata í laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins og þingmannanefndar EFTA-ríkjanna.

Samfylkingin

Lykillinn að far­sæld Ís­lendinga felst í nánum sam­skiptum við aðrar þjóðir, ekki síst innan Evrópu. EES-samningurinn er grund­vallar­at­riði í því sam­hengi. Hann tekur þó ekki til mikil­vægra sviða, svo sem land­búnaðar og byggða­mála, gefur ekki færi á upp­töku evru og setur EFTA-ríkin í stöðu þiggj­enda í Evrópu­sam­starfinu í stað þess að vera jafn­gildur og burðugur aðili að sam­eigin­legum á­kvörðunum. Í því skyni að taka mögu­legt skref fram á við í þessu sam­starfi Evrópu­þjóða, er brýnt að kanna hug þjóðarinnar um að taka upp aðildar­við­ræður við Evrópu­sam­bandið á nýjan leik. Því leggjum við áherslu á það í kosningastefnu Samfylkingarinnar að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi viðræður.

Ýmis úr­lausnar­efni nú­tímans verða ekki leyst nema á al­þjóða­vett­vangi. Lofts­lags­váin er aug­ljóst dæmi. Mikil­vægt er að Ís­land taki frum­kvæði í þeim mála­flokki á al­þjóða­vísu, þar eð við getum, sökum þekkingar okkar á sjálf­bærri orku­fram­leiðslu og líf­ríki hafsins, verið leiðandi á þeim vett­vangi al­þjóð­lega og verið fyrir­mynd fyrir aðra sem vilja feta þann veg.

Vinstri Græn

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur ríka áherslu á samstarf við önnur Evrópulönd en telur ekki að Ísland eigi að ganga í ESB enda er hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan.

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki