Jafnréttismál

Framsóknarflokkurinn

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki

Viðreisn

Jafnréttismál eru samofin DNA Viðreisnar.

Kynbundið ofbeldi er ólíðandi. Við þurfum að uppræta það með opinni umræðu, forvörnum og fræðslu. Lögregla, ákæruvald og dómstólar þurfa að vera í stakk búin til að sinna þessum mikilvægu og viðkvæmu málum og þjónusta þarf að vera til staðar fyrir þolendur.

Jafnrétti á vinnumarkaði er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Kynbundinn launa- og stöðumun verður að uppræta með öllum ráðum og því er mikilvægt að jafna hlutföll kynja og ná fram félagslegri vídd á öllum sviðum.

Það er brýnt að lagaleg réttindi hinsegin fólks séu tryggð með heildstæðri og víðtækri löggjöf þar sem mannréttindi og sjálfræði einstaklingsins yfir eigin líkama eru höfð að leiðarljósi. Jafnréttislöggjöf á vinnumarkaði nái einnig til hinsegin fólks.

Við berjumst fyrir jöfnum réttindum fólks af erlendum uppruna. Gildir það jafnt um vinnumarkað, borgaraleg réttindi, möguleika til náms og þátttöku í stjórnmálum. Fordómar og mismunun á grundvelli uppruna eru með öllu ólíðandi.

Við berjumst fyrir því að samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði fylgt eftir með lögum og skýrum aðgerðum. Samfélagið á að vera þannig úr garði gert að fólk með fatlanir geti lifað eðlilegu lífi á eigin forsendum.

Atkvæðavægi á að vera jafnt um allt land.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisstefnan grundvallast á frelsi og ábyrgð, jafnrétti og samkennd. Hún er víðsýn og frjálslynd framfarastefna.

Sjálfstæðismenn hafa einstaklingsfrelsi, atvinnufrelsi og séreignarrétt í hávegum, með hagsmuni allra fyrir augum. Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja jöfn tækifæri allra og fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga sem er grundvöllur jafnréttis. Við teljum það grundvallaratriði að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri einstaklinga óháð kyni, stöðu, uppruna eða öðrum þáttum.

Flokkur Fólksins

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki

Sósíalistaflokkurinn

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn leggur áherslu á að allir einstaklingar séu jafn réttháir og skuli metnir af eigin verðleikum en ekki út frá neinum öðrum persónulegum einkennum. Miðflokkurinn telur mikilvægt að standa vörð um frelsi einstaklinga og rétt þeirra til að hafa ólíkar skoðanir og tjá sig án þess að vera látnir gjalda fyrir.

Miðflokkurinn túlkar jafnréttismál í víðum skilningi og stendur vörð um frjálslyndi og þá grundvallarhugsjón lýðræðis að allir skuli hafa jafnan rétt á að hafa áhrif á stjórn samfélagsins. Stjórnmálamenn mega því ekki gefa eftir vald til stjórnkerfis sem ekki ber ábyrgð gagnvart kjósendum. Þannig er mikilvægt að jafnræði borgaranna gagnvart ríkisvaldinu sé tryggt og stofnunum ríkisins gert að veita borgurunum þjónustu – ekki öfugt. Til að ná þessu fram vill Miðflokkurinn tryggja að stjórnvöld veiti svör innan afmarkaðs tíma leiti borgarar eftir því. Þá er mikilvægt að lagalegt og fjárhagslegt jafnrétti sé tryggt ef til ágreinings kemur. Þá skiptir miklu að almenningi verði veittur sami tímafrestur og jafnræði að öðru leyti í samskiptum við stjórnvöld. Þeir sem eru ranglega eru ákærðir eða látnir sæta þvingunum af hálfu ríkisins munu sjálfkrafa eiga rétt á skaðabótum án þess að þurfa að fara í dómsmál. Miðflokkurinn vill að öll gildandi lög séu yfirfarin með tilliti til þess hvort þau tryggi grundvallarréttindi einstaklinga og séu skiljanleg. Þá er mikilvægt að dómstólum verði heimilt að líta til þess við úrlausn mála ef lög teljast of óskýr eða illskiljanleg til þess hægt sé að fylgja þeim með góðu móti. Lykilþáttur er að jafnræði borgaranna gagnvart ríkinu fyrir dómstólum verður tryggt.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Frjálslyndi lýðræðisflokkurimn trúir á jöfnuð meðal landa sinna og eiga engir forréttindahópar heimtingu á sérkjörum umfram meðbræður sína, þar eigum við sérstaklega um alþingismenn og embættismenn. Ef við náum að uppræta eitthvað af spillingunni geta allir staðið við loforð sín um aukinn jöfnuð.

Píratar

Jafnrétti allra er Pírötum gríðarlega mikilvægt. Það sem meira er, jafnrétti er einn af hornsteinum sjálfrar grunnstefnu Pírata sem allar aðrar stefnur okkar byggja á. Í grunnstefnunni okkar segir meðal annars:

 • Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
 • Útvíkkun borgararéttinda skal miða að styrkingu annarra réttinda.
 • Standa þarf vörð um núverandi réttindi og gæta þess að þau séu ekki skert.
 • Píratar telja að borgararéttindi tilheyri einstaklingum, og að réttur hvers og eins sé jafn sterkur.

Við stofnun flokksins settum við líka sérstaka jafnréttisstefnu. Í henni kemur fram að:

 • Margt sé enn óunnið til að jafna stöðu ólíkra hópa samfélagsins; þ.m.t. kynjanna, barna, aldraðra, hinsegin fólks, innflytjenda og fatlaðra
 • Píratar berjist gegn mismunun og staðalímyndum um fólk
 • Ekki sé nóg að samfélagið sé umburðarlynt heldur sé mikilvægt að allir einstaklingar séu samþykktir, metnir að verðleikum og fái jöfn tækifæri til að njóta sín, vaxa og dafna
 • Ofbeldi skuli aldrei líðast hvorki andlegt né líkamlegt, og huga þarf sérstaklega að stöðu ólíkra hópa og sníða fræðslu, forvarnir og meðferðarúrræði að ólíkum aðstæðum fólks
 • Hvetja skuli til opinnar og upplýstrar umræðu um jafnréttismál

Þá eru Píratar jafnframt með stefnu gegn kynbundnu ofbeldi í átta liðum.

Samfylkingin

Samfylkingin er femínískur flokkur sem vill jafna stöðu kynjanna og ráðast af alefli gegn kynbundnum launamun. Við viljum vinna gegn kerfisbundinni mismunun og fordómum og tryggja jafna meðferð á öllum sviðum samfélagsins óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Ísland á að skipa sér í fremstu röð á alþjóðavísu hvað varðar réttarstöðu hinseginfólks, kynsegin fólks og fólks með ódæmigerð kyneinkenni. Vinna þarf áfram að bættri réttarstöðu þessara hópa í samvinnu við félög og fulltrúa þeirra.

Vinstri Græn

Jafnaðarhugtakið felur í sér tilvísun í efnahagslegan jöfnuð, í jafnrétti og jafnræði auk þess markmiðs að jöfnuður ríki m.a. óháð kyni, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyntjáningu, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, búsetu, stétt eða stöðu að öðru leyti. Íslenskt samfélag á að vera velferðarsamfélag sem byggir á öflugu mennta-, velferðar- og heilbrigðiskerfi þar sem öllum er tryggður jafn aðgangur og jöfn tækifæri. Slík kerfi auk réttláts skattkerfis og öruggs húsnæðis eru hornsteinn jöfnuðar í samfélaginu. Vinstrihreyfingin -- grænt framboð mun standa vörð um þessa innviði samfélagsins nú sem endranær.

Það er einnig stefna VG að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis í samfélaginu og brjóta þannig upp kynjakerfi sem er skaðlegt fyrir stöðu, tækifæri og þátttöku allra.

 • Útrýma þarf launamun kynjanna, m.a. með því að endurmeta störf kvennastétta.

 • Það þarf að útrýma kynbundnu ofbeldi og áreiti sem er böl á samfélagi okkar.

 • Tryggja þarf betur réttarstöðu brotaþola kynbundins ofbeldis með skýrum lagabreytingum og markvissri framkvæmd.

 • Innleiða þarf samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks og stofna sjálfstæða mannréttindastofnun.

 • Stíga þarf fleiri skref í hinsegin stjórnmálum, ekki síst hvað varðar transfólk og intersex, og sporna gegn hatursorðræðu í garð hinsegin fólks.

Mikið starf hefur verið unnið í að styrkja löggjöf á sviði kynbundins ofbeldis, en meðal annars hafa verið sett inn ákvæði um umsáturseinelti og stafrænt kynferðisofbeldi. Halda þarf áfram að bæta réttarstöðu brotaþola kynbundins og kynferðisofbeldis með breytingum á löggjöf. Fylgja þarf eftir forvarnaáætlun gegn kynbundnu og kynferðisofbeldi og áreitni og ná þannig fram viðhorfsbreytingu.

Ísland á að vera í fremstu röð í mannréttindamálum.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/

Kvenfrelsisstefna Vinstri grænna: https://vg.is/stefna/kvenfrelsi/

Stefna Vinstri grænna um málefni hinsegin fólks: https://vg.is/stefna/malefni-hinsegin-folks/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki