Sjávarútvegsmál

Framsókn
Framsókn leggur áherslu á sjálfbæran og réttlátan sjávarútveg sem tryggir langtímaafkomu bæði fiskistofna og sjávarbyggða. Mikilvægt er að efla rannsóknir og nýsköpun í greininni, stuðla að góðri umgengni um auðlindir og vinna gegn brottkasti. Auk þess að leggja áherslu á að efla samkeppnishæfni fyrirtækja og að fiskveiðistjórnunarkerfið virki til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.
Framsókn styður einnig ábyrgt fiskeldi með skýrri lagaumgjörð og vísindalegu eftirliti. Auk þess eru nýsköpun og fullnýting sjávarfangs, eins og þangs og þörunga, áherslur sem styrkja atvinnu og nýsköpun. Sjávarútvegur á að vera byggður á traustum vísindalegum grunni og skapa störf í öllum landshlutum. Sýn Framsóknar í sjávarútvegi snýst um að tryggja sjálfbærni, nýtingu auðlinda og efnahagslegan vöxt í sjávarútvegi.
Flokkurinn leggur áherslu á að styrkja strandbyggðir og sjávarbyggðir, þar sem sjávarútvegur er oft grundvöllur efnahagslífsins.
Framsókn vill auka fjárfestingar í innviðum tengdum sjávarútvegi, eins og hafnarmannvirkjum og rannsóknarstofnunum, til að efla atvinnusköpun og nýsköpun.
Framsókn vill leggja áherslu á verndun sjávarumhverfisins, þar á meðal aðgerðir gegn mengun og stuðning við rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á sjávarútveg.
Framsókn vill veita smáfyrirtækjum í sjávarútvegi aukinn stuðning, til að tryggja að þau geti blómstrað og skapað störf.
Framsókn vill efla menntun og þjálfun í sjávarútvegi, til að tryggja að starfsfólk hafi nauðsynlega þekkingu og færni.
Framsókn vill auka samstarf milli ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs í sjávarútvegi, til að tryggja samræmda stefnu og aðgerðir.
Framsókn vill stuðla að auknum útflutningi á sjávarafurðum, með því að efla markaðssetningu og stuðla að gæðastjórnun.
Framsókn vill tryggja réttindi sjómanna og að þeir njóti sanngjarnra launa og viðunandi starfsaðstæðna.

Viðreisn
Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar. Við viljum að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindunum okkar og að samningar um auðlindanýtingu séu tímabundnir. Í stað veiðigjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári og boðinn út sem nýtingarsamningur til 20 ára, með því yrði pólitískri óvissu eytt og fyrirsjáanleiki greinarinnar þar með meiri auk þess sem eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni væri staðfest.
Með þessu fyrirkomulagi fæst sanngjarnt markaðsverð sem ræðst hverju sinni af framboði og eftirspurn innan greinarinnar, og umgjörð sjávarútvegs verður skýr, gagnsæ og stöðug til frambúðar. Stöðug pólitísk óvissa er neikvæð fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein.
Viðreisn vill að hluti markaðsgjaldsins renni til sjávarútvegsbyggða til að styrkja innviði á þeim svæðum.

Sjálfstæðisflokkurinn
Íslenskur sjávarútvegur er burðarás í atvinnulífi um land allt og leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi. Atvinnugreinin er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg. Nauðsynlegt er að gjaldheimta í sjávarútvegi dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni. Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs og gefur aukin tækifæri til verðmætasköpunar. Við frekari uppbyggingu ber að leggja áherslu á góða umgengni ásamt mótvægisaðgerðum, svo álag á vistkerfi sé lágmarkað og sjálfbærni tryggð.

Flokkur Fólksins
Flokkur fólksins vill að stórútgerðirnar greiði fullt verð fyrir aðgang að sjávarauðlindinni. Við viljum gefa handfæraveiðar frjálsar og endurskoða byggðakvótakerfið. Við viljum tryggja að allur fiskur fari á markað. Við viljum efla okkar yndislegu sjávarbyggðir í stað þess að brjóta þær niður.

Sósíalistaflokkurinn
Að leyfi til auðlindanýtingar leiði aldrei til eignarréttar af nokkru tagi né annarskonar óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum. Að fiskveiðistjórnunarkerfið í núverandi mynd sé afnumið og undið ofan af þeim ójöfnuði og spillingu sem það hefur valdið. Að nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi verði sett á laggirnar og allur kvóti verði innkallaður. Að leyfi til fiskveiða og nýtingar sjávarnytja innan íslenskrar lögsögu séu veitt tímabundið, til hóflegs tíma í senn, gegn gjaldi svo þjóðinni sé tryggt sanngjarnt verð fyrir auðlindina. Að auðlindanýting fiskveiða og annarra sjávarnytja sé háð leyfum sem skulu vera skilyrt staðbundið til að viðhalda byggð um landið og þau ekki framseljanleg. Að umhverfisvernd verði innleidd að meira marki en nú er í kringum sjávarútveginn.

Lýðræðisflokkurinn
Leiðrétta þarf valdaójafnvægi milli stórútgerðar og almannahagsmuna. Búa sjávarútvegi skilyrði til að sækja fram, á jafnræðisgrunni. Allur fiskur sem veiddur er á Íslandsmiðum verði seldur á fiskmarkaði.

Miðflokkurinn
Innlend matvælaframleiðsla til sjós og lands er meðal grunnstoða samfélagsins sem ber að tryggja til framtíðar. Án hennar verður hvorki fæðu- né matvælaöryggi þjóðarinnar tryggt. Mikilvægt er að starfsöryggi þessara grunnstoða verði tryggt og heildarframlag þeirra til samfélagsins metið. Í sjávarútvegi eins og öðrum greinum þurfum við stefnu sem bitnar ekki á litlu og meðalstóru fyrirtækjunum eða ýtir undir samþjöppun.
Miðflokkurinn styður beitingu aflamarkskerfis við stjórn fiskveiða á Íslandi með sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar og stöðugleika að leiðarljósi. Miðflokkurinn telur mikilvægt að kveðið sé á um sameiginlega eign þjóðarinnar á auðlindum landsins í stjórnarskrá, þar með talið sjávarauðlindinni.
Miðflokkurinn vill að komið sé í veg fyrir fákeppni í sjávarútvegi með lögum. Litið verði þar til hámarksaflahlutdeildar einstakra útgerða og tengdra aðila í því samhengi. Miðflokkurinn vill að veiðigjöld séu gagnsæ, einföld og að við útreikning þeirra sé gætt jafnræðis.
Um leið vill Miðflokkurinn efla hafrannsóknir við Ísland og telur að aukin þekking á stærð fiskistofna, ástandi sjávar og lífríkis muni hámarka mögulega nýtingu fiskistofna. Þannig nyti þjóðarbúið aukinna tekna af sjálfbærri nýtingu fiskistofna í gegnum veiðigjaldið. Miðflokkurinn telur að tryggja megi betur öryggi sjófarenda.
Miðflokkurinn styður uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Mikilvægt er að regluverk vaxandi atvinnugreinar taki mið af aðstæðum og tryggi að umhverfið beri ekki skaða af.
Miðflokkurinn vill að þjónustuhöfnum fiskeldisfyrirtækja verði tryggðar tekjur í samræmi við umsvif fyrirtækjanna og að nærsamfélagið njóti góðs af.
Miðflokkurinn áréttar mikilvægi strandveiða fyrir byggðir landsins og að kerfið sé í stöðugri endurskoðun meðal annars til að tryggja sanngirni milli svæða.
Miðflokkurinn styður áframhaldandi hvalveiðar byggðar á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Píratar
Píratar ætla að:
- Tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávar og sanngjarnt auðlindagjald til þjóðarinnar
- Tryggja frjálsar handfæraveiðar og strandveiðar
- Takmarka gildistíma veiðiheimilda og stuðla að jafnræði við úthlutun heimilda
- Tryggja sjálfbærar veiðar með vísindalegri ráðgjöf
- Banna hvalveiðar
- Banna sjókvíaeldi í opnum sjókvíum
- Banna olíuleit og olíuvinnslu í íslenskri landhelgi
- Beita sér fyrir og alþjóðlegu banni gegn olíuleit og olíuvinnslu, námavinnslu á hafsbotni
- Þrýsta á að norðurskautssvæðið njóti sérstakrar friðlýsingar
Sjávarútvegsmál eru meðal mikilvægustu hagsmunamála þjóðarinnar og nauðsynlegt er að ná breiðri sátt í þessum málaflokki. Tryggja þarf að þjóðin haldi eignarhaldi sínu á sjávarauðlindinni, sem hægt er að gera með því að samþykkja almennt auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands. Sjávarauðlindin er sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Enginn getur fengið fiskveiðiheimildir eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota, og aldrei má selja þær eða veðsetja. Þjóðin skal njóta sanngjarnrar auðlindarentu af sjávarauðlindinni. Píratar vilja stuðla að sjálfbærum sjávarútveg með öflugum rannsóknum og eftirliti. Mikilvægt er að skýr skil séu á milli rannsókna á náttúruauðlindum, ákvarðana um nýtingu þeirra og eftirlits með framkvæmdinni. Fiskveiðistjórnun má ekki verða fórnarlamb úreltrar stjórnsýslu eða pólitískra átaka milli ráðuneyta. Sjávarútvegur er grunnstoð byggðar um land allt og því ber okkur að standa vörð um lífríki hafsins. Handfæraveiðar eru umhverfisvænar og fara vel með hafsbotninn. Þær skulu gerðar frjálsar til atvinnu öllum sem hana vilja stunda. Það skal gert undir eftirliti Hafrannsóknarstofnunar og í áföngum. Veiðigeta mun þannig takmarkast af tíðarfari og smæð báta. Píratar ætla að tryggja öllum handfærabátum, með fjórar rúllur, 48 daga á hverri strandveiðivertíð án stöðvunarheimildar. Fiskeldi í opnum sjókvíum hefur gríðarlega mengandi áhrif og slæmar afleiðingar fyrir náttúruna, lífiríkið og vistkerfið í heild. Byggja þarf upp fjölbreytta atvinnustarfsemi í sjávarplássum, með áherslu á frumkvæði íbúa. Byggja þarf upp samfélagið á forsendum íbúanna.

Samfylkingin
Ein megintillagan í útspili Samfylkingarinnar Krafa um árangur er krafan um skynsemi í auðlindastefnu. Þar er fjallað um skynsamlega og réttláta auðlindastefnu sem skapar sterkan ramma fyrir vöxt og verðmætasköpun um land allt. Sjávarútvegurinn hefur lengi verið okkar meginatvinnugrein og sjávarútvegurinn er forsenda byggðar í fjölmörgum byggðalögum. Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Aðgangsstýring kvótakerfisins í sjávarútvegi er nauðsynleg til að hámarka virði fiskistofnanna en takmarkanir á veiðum mynda um leið auðlindarentu sem rennur nú nær óskipt til þeirra sem fara með nýtingarleyfi. Samfylkingin einsetur sér að tryggja að hagsmunir þjóðarinnar og almennings verði í forgrunni og að fullt og sanngjarnt gjald verði innheimt fyrir fiskveiðiauðlindina. Samfylkingin leggur til hækkun veiðigjalds í sjávarútvegi með þrepaskiptingu til að sporna við enn frekari samþjöppun á eignarhalds í greininn. Þannig má hlífa smærri útgerðum en ná strax stærri hluta af auðlindarentu til þjóðarinnar án þess að ráðast í meiri háttar kerfisbreytingar.
Fiskeldi í sjó verður að standast kröfur um umhverfisvernd til að eiga framtíð á Íslandi. Erfðablöndun á villtum laxi er mikið áhyggjuefni, slysasleppingum þurfa aðfylgja þung viðurlög fyrir fiskeldisfyrirtæki. Byggja þarf framtíðarþróun og verðmætasköpun í greininni á sjálfbærri nýtingu með áherslu á traust eftirlit, vöktun og rannsóknir.

Vinstri Græn
Vinstri græn leggja ríka áherslu á sjálfbæra nýtingu, ábyrga umgengni um auðlindir hafsins og mikilvægi grunnrannsókna og fræðilegrar þekkingar.
- Vinstri græn vilja standa vörð um sameign þjóðarinnar á nytjastofnum sjávar og treysta sameignina í sessi með auðlindaákvæði í stjórnarskrá.
- Þjóðin skal njóta arðs eða auðlindarentu þegar einkaaðilar fá aðgang að sameiginlegri auðlind hennar, og enginn á að geta fengið þessi gæði til eignar eða varanlegra afnota. Þau sem fá heimildir til að nýta auðlindir landsins verða að greiða stærri hluta af ágóðanum í sameiginlega sjóði. Gagnsæi um eignatengsl í sjávarútvegi verði eflt samhliða því að veiðigjöld á stórútgerðina verði hækkuð.
- Hið umhverfislega, samfélagslega og byggðalega samhengi þarf að hafa vægi ásamt hinu hagræna í nálgun á greinina. Hreyfingin telur eðlilegast að nýtingarleyfi séu í tiltekin afmarkaðan tíma í senn og gegn eðlilegu gjaldi.
- Mikilvægt er að áfram verði unnið að aukinni sátt um sjávarútveginn. Þar er lykilatriði að auka gagnsæi að því er varðar stjórnunar- og eignatengsl greinarinnar, tryggja vistkerfisnálgun og verndarhagsmuni þegar horft er til auðlinda hafsins.
- Nauðsynlegt er að tryggja réttindi sjómanna og endurskoða verðlagningarkerfi fiskveiða til að tryggja réttlátan hlut þeirra.
- Leggja þarf áherslu á innlenda verðmætasköpun og að fiskvinnsla eigi sér stað á Íslandi.
- Hreyfingin leggur áherslu á orkuskipti skipaflotans og hann verði allur knúinn af endurnýjanlegum orkugjöfum í síðasta lagi árið 2040, en mikilvægum áföngum náð fyrr.
- Endurhugsa þarf verndun og nýtingu lífríkisins á grunnslóð og hvað snertir staðbundnar tegundir.
- Fjölga þarf friðuðum svæðum í hafi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar.
Það er lykilatriði að auka gagnsæi varðandi stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi og tryggja vistkerfisnálgun og verndarhagsmuni. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna um auðlindir hafs og stranda: https://vg.is/stefna/audlindir-hafs-og-stranda/

Ábyrg Framtíð
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.