Sjávarútvegsmál

Framsóknarflokkurinn

  • Auðlindir hafsins eru sameign íslensku þjóðarinnar. Sjávarútvegur er ein af grundvallar atvinnugreinum þjóðarinnar og þýðing hans fyrir efnahag landsins er ótvíræð.
  • Mikilvægt er að sjávarútvegurinn uppfylli þau þrjú skilyrði sem sett voru í lög um stjórn fiskveiða til þess að um greinina ríki sátt. Í fyrsta lagi að auðlindin sé nýtt á sjálfbæran hátt, í öðru lagi að nýting auðlindarinnar sé arðbær og skili arði til þjóðarinnar og í þriðja lagi að treysta atvinnu og byggð um land allt. Þýðingarmikið er að gagnsæi sé meira í álagningu og útreikningi veiðigjalda.
  • Byggðaúrræði fiskveiðistjórnunarkerfisins þarf að nýta áfram á ábyrgan hátt. Þau 5,3% aflaheimilda sem ríkið hefur árlega til afnota til atvinnu-. félags- og byggðaúrræða þurfa að vera markvisst nýtt til að tryggja byggðafestu í viðkvæmustu byggðunum
  • Mikilvægt er að regluverk um allar tegundir sé skýrt til að tryggja aukna arðsemi af fjölbreyttari nýtingu þeirra auðlinda sem finnast í sjó hér við land. Framsókn leggur því til að allar tegundir sjávarnytja verði settar undir hið almenna auðlindastjórnunarkerfi til að auka fyrirsjáanleika fyrir fyrirtæki sem stefna á aukna nýtingu nýrra eða minna nýttra tegunda sjávarfangs. Fyrirsjáanleiki er mikilvægur er kemur að nýtingu, þá sérstaklega vegna uppbyggingar innviða í kringum nýtingu á sjávarfangi.

Viðreisn

Viðreisn vill skapa sátt um sjávarútveginn til framtíðar. Við viljum að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindunum okkar og að samningar um auðlindanýtingu séu tímabundnir.

Núverandi fyrirkomulag gjaldtöku er bæði flókið og ógagnsætt. Ríkisstjórnir hafa ákvörðunarvald um það hvernig veiðigjald er reiknað hverju sinni. Veiðigjaldið nam á síðasta ári um 5 milljörðum króna en markaðsverð kvótans er um 1200 milljarðar króna.

Viðreisn vill að greiðsla fyrir afnotin verði ákveðin með því að setja hluta aflaheimilda á markað á hverju ári. Viðreisn vill sjá markaðslausnir í sjávarútvegi, eins og í öllum öðrum atvinnugreinum. Þannig yrði réttlæti og sanngirni tryggð og almenningur fengi sinn skerf af arðsemi greinarinnar.

Viðreisn vill að stjórnarskráin verði með skýru auðlindaákvæði sem tryggir eignarhald og þar með tekjur þjóðarinnar af sjávarútveginum. Skýrt auðlindaákvæði um tímabundna samninga og markaðsgjald fyrir notkun myndi gefa hugtakinu þjóðareign raunverulegt inntak.

Markmiðin sem nást eiga eru að greitt sé sanngjarnt gjald fyrir aðgang að auðlindinni, að gjaldið sé markaðstengt og að nýliðun í sjávarútvegi sé möguleg. Það er bæði almenningi og útgerðinni nauðsynlegt að ná sáttum í þessu máli þar sem reynt er að nálgast nokkur einföld meginsjónarmið.

Sjálfstæðisflokkurinn

Íslenskur sjávarútvegur er burðarás í atvinnulífi um land allt og leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi. Atvinnugreinin er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg. Nauðsynlegt er að gjaldheimta í sjávarútvegi dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni. Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs og gefur aukin tækifæri til verðmætasköpunar. Við frekari uppbyggingu ber að leggja áherslu á góða umgengni ásamt mótvægisaðgerðum, svo álag á vistkerfi sé lágmarkað og sjálfbærni tryggð.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins vill fá kvótann aftur heim og að greitt sé fullt verð fyrir aðgang að sjávarauðlindinni!

Við viljum nýja nýtingarstefnu fiskimiðanna þar sem auðlindirnar okkar eru sameign þjóðarinnar en ekki einkaeign fárra útvalinna sægreifa eins og nú háttar til.

Við munum beita okkur fyrir því að íbúar sjávarbyggða njóti aukins réttar til að nýta sjávarauðlindina með jákvæðum áhrifum á sjávarplássin víðs vegar um land.

Við ætlum að stórefla strandveiðar og gera handfæraveiðar frjálsar. Við krefjumst þess að þjóðin fái fullt verð fyrir sameiginlegan aðgang að auðlindum hennar.

Við styðjum lögfestingu ákvæðis um þjóðareign á auðlindum í stjórnaskrá.

Sósíalistaflokkurinn

Útfærsla landhelginnar og yfirráð landsmanna yfir auðlindum sjávar var forsenda þess að hér byggðist upp öflugt samfélag. Þorskastríðin sem landsmenn háðu á síðustu öld voru hin eiginlega sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar. Með sigri í þeim var sjálfstæði landsins tryggt og grunnurinn lagður að efnahagslegri uppbyggingu. Yfirráð yfir fiskimiðunum var forsenda fyrir því að hér væri hægt að byggja upp trausta innviði og grunnkerfi samfélagsins og forsenda þess að hægt væri að stefna að almennri velferð og velsæld. Sannfæring almennings um mikilvægi þessara markmiða tryggði samstöðu landsmanna í þorskastríðunum og samstaðan tryggði sigur.

Þær kynslóðir sem háðu þorskastríðin börðust ekki til þess að fáum áratugum seinna væru fiskimiðin færð í hendur örfárra en lokuð öllum öðrum landsmönnum. Það var ekki markmið almennings að hrekja stórútgerðir annarra þjóða af miðunum til þess eins að þau yrði eign örfárra fjölskyldna og arðurinn rynni fyrst og fremst til örfárra auðkýfinga. Markmiðið var að Íslendingar nýttu fiskimiðin til að byggja hér upp öflugar byggðir, sterk samfélög og blómlegt mannlíf.

Við skuldum þeim kynslóðum sem unnu þorskastríðin að leiðrétta þessi rangindi. Og við skuldum komandi kynslóðum að skila þeim frumburðarétti þeirra, auðlindunum sem eiga að vera sameign fólksins í landinu og nýttar í þágu samfélagsins alls. Íslenskt samfélag er ekki fullvalda þegar fiskimiðin eru undir yfirráðum örfárra.

Sósíalistar gera kjósendum tilboð um að hefja fjórða þorskastríðið á kjördag 25. september. Sjá nánar

Miðflokkurinn

Innlend matvælaframleiðsla til sjós og lands er meðal grunnstoða samfélagsins sem ber að tryggja til framtíðar. Án hennar verður hvorki fæðu- né matvælaöryggi þjóðarinnar tryggt. Mikilvægt er að starfsöryggi þessara grunnstoða verði tryggt og heildarframlag þeirra til samfélagsins metið. Í sjávarútvegi eins og öðrum greinum þurfum við stefnu sem bitnar ekki á litlu og meðalstóru fyrirtækjunum eða ýtir undir samþjöppun.

Áfram skal byggt á aflamarks- og aflahlutdeildarkerfi. Fiskveiðar í íslenskri lögsögu eru stundaðar með sjálfbærum hætti eftir ráðgjöf fiskifræðinga og vottaðar af þar til bærum viðurkenndum aðilum. Miðflokkurinn styður markmið núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis og hafnar tilraunum til umbyltinga á því sem haft geta alvarlegar afleiðingar fyrir byggðir landsins. Miðflokkurinn styður sérstakan byggðakvóta til stuðnings svæðum sem eiga undir hög að sækja.

Miðflokkurinn vill að stjórnarskrá kveði á um sameiginlega eign þjóðarinnar á auðlindum hennar. Á Íslandi hefur fiskeldi vaxið jafnt og þétt, treyst byggð, skapað störf og önnur verðmæti. Fiskeldi er sérstaklega verðmæt viðbót við atvinnusköpun á landsbyggðinni. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að laxeldi valdi tjóni á villtum laxastofnum og öðru lífríki, m.a. með kröfum um bestu mögulegu tækni, með mótvægisaðgerðum og ströngu eftirliti. Fyrirtæki verði sérstaklega hvött til að stunda fiskeldi á landi og stuðningur við það verði skoðaður.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Handfæraveiðar í strandveiðikerfi verði frjálsar fyrir báta 10 metra að lengd og styttri. Leyfa á sölu á fiski beint frá báti. Makrílveiðar verði frjálsar innan 10 sjómílna fyrir smábáta að 15 metrum. Stórútgerðarfyrirtæki og tengd fyrirtæki gætu ekki átt í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum og rofið kvótaþakið á þann hátt, hvort sem er í einstökum fisktegundum (20%) eða heildaraflaþaki (12%). Útgerðin verður að fara eftir skattalögum og greiða 20% tekjuskatt af þeim hlunnindum sem útgerðinni er afhent árlega. Virðisaukaskattur verði settur á leiguverð kvóta. Stoppa verður hringamyndun stórútgerðar í fyrirtækjarekstri.

Píratar

Píratar telja að sjávarauðlindin sé sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Fiskurinn í sjónum tilheyrir okkur öllum og íslenska þjóðin á að fá almennilegt gjald auðlindina. Píratar ætla að ráðast í róttækar breytingar á sjávarútvegskerfinu með uppboði á aflaheimildum og nýliðun í sjávarútvegi.

Eignarhald á auðlindinni
Píratar vilja að stjórnarskráin kveði á um að þjóðin sé eigandi sjávarauðlindarinnar. Það er hægt með því að innleiða 34. grein nýju stjórnarskrárinnar.

Tímabundin nýtingarleyfi & auðlindarentan til þjóðarinnar
Píratar vilja að ríkið bjóði upp aflaheimildir til leigu á opnum markaði. Aflaheimildir verði tímabundnar og leigugjald þeirra renni að fullu til þjóðarinnar Til að koma í veg fyrir samþjöppun ætla Píratar að herða kvótaþakið og efla Fiskistofu og Samkeppniseftirlitið

Frjálsar handfæraveiðar
Píratar vilja frjálsar handfæraveiðar. Fyrsti áfanginn verður að tryggja öllum handfærabátum með fjórar rúllur 48 daga á hverri strandveiðivertíð án stöðvunarheimildar.\

Allur afli á markað
Píratar vilja að allur afli fari upphaflega í gegnum innlendan fiskmarkað til að tryggja eðlilegt markaðsverð á öllu sjávarfangi.

Vísindi og gagnsæi
Píratar vilja koma í veg fyrir pólitísk afskipti af rannsóknum, veiðiráðgjöf og eftirliti. Þá viljum við efla eftirlitsstofnanir og gera allar upplýsingar um sjávarútveg opinberar, auk þess að leggja niður verðlagsstofu skiptaverðs.

Sjávarútvegsstefnu Pírata má nálgast hér

Samfylkingin

Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Aðgangsstýring kvótakerfisins í sjávarútvegi er nauðsynleg til að hámarka virði fiskistofnanna en takmarkanir á veiðum mynda um leið auðlindarentu sem rennur nú nær óskipt til þeirra sem fara með nýtingarleyfi. Samfylkingin einsetur sér að tryggja að hagsmunir þjóðarinnar og almennings verði ofan á og að fullt gjald verði innheimt fyrir fiskveiðiauðlindina. Einfaldasta leiðin að því marki felst í árlegri innköllun hóflegs hluta aflaheimilda og útboði nýtingarleyfa til takmarkaðs tíma. Þannig skilum við auðlindarentunni til réttmæts eiganda, almennings.

Vinstri Græn

VG leggur ríka áherslu á sjálfbæra nýtingu, ábyrga umgengni um auðlindir hafsins og mikilvægi grunnrannsókna og fræðilegrar þekkingar.

  • Hreyfingin vill standa vörð um sameign þjóðarinnar á nytjastofnum sjávar og treysta sameignina í sessi með auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

  • Þjóðin skal njóta arðs eða auðlindarentu þegar einkaaðilar fá aðgang að sameiginlegri auðlind hennar, og enginn á að geta fengið þessi gæði til eignar eða varanlegra afnota. Hið umhverfislega, samfélagslega og byggðalega samhengi þarf að hafa vægi ásamt hinu hagræna í nálgun á greinina.

  • Hreyfingin telur eðlilegast að nýtingarleyfi séu í tiltekin afmarkaðan tíma í senn og gegn eðlilegu gjaldi.

  • Auka ber heimildir í félagslega kerfinu úr 5,3% í 8-10% og festa strandveiðar betur í sessi.

  • Nauðsynlegt er að tryggja réttindi sjómanna og endurskoða verðlagningarkerfi fiskveiða til að tryggja réttlátan hlut þeirra.

  • Leggja þarf áherslu á innlenda verðmætasköpun og að fiskvinnsla eigi sér stað á Íslandi.

  • Hreyfingin leggur áherslu á orkuskipti skipaflotans og hann verði allur knúinn af endurnýjanlegum orkugjöfum í síðasta lagi árið 2040, en mikilvægum áföngum náð fyrr.

  • Endurhugsa þarf verndun og nýtingu lífríkisins á grunnslóð og hvað snertir staðbundnar tegundir.

  • Hvötum þarf að beita til að færa í fiskeldi yfir í eldi í lokuðum kvíum og á dýpra vatni eða á landi, en mögulega með geldum fiski í opnum kvíum til skemmri tíma.

  • Hvorki ætti að veita ný leyfi til eldis né samþykkja aukningu nema gerð skipulags haf- og strandsvæða sé lokið.

  • Fjölga þarf friðuðum svæðum í hafi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/
Stefnan, Vinstri grænna; auðlindir hafs og stranda: https://vg.is/stefna/audlindir-hafs-og-stranda/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki