Loftslagsmál
Framsókn
Loftslagsváin er ein helsta ógn mannkyns og viðbrögð við henni því eitt stærsta verkefni stjórnmálanna. Framsókn gerir kröfu um að framfylgja loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins. Ísland getur verið fyrirmynd annarra ríkja með stefnu um kolefnishlutleysi og virkri þátttöku á alþjóðavettvangi. Flokkurinn vill styðja við aðgerðir sem draga úr kolefnislosun og stuðla að sjálfbærni í öllum geirum samfélagsins. Markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 er vel gerlegt með víðtækri aðgerðaráætlun stjórnvalda, stefnufestu og samvinnu. Leggja þarf áherslu á orkuskipti í samgöngum og atvinnulífi, stóraukna kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu, markvissari aðgerðir til að auka endurnýtingu og hvata sem draga úr hvers kyns sóun. Mikilvægt er að halda virku samtali við atvinnulífið og samfélagið í heild sinni um aðgerðir í loftslagsmálum.
Framsókn leggur áherslu á verndun náttúruauðlinda landsins, þar á meðal loft, vatn og jarðveg, og tryggja að nýting þeirra sé skynsamleg og sjálfbær. Vill efla fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál, auk þess að hvetja til nýsköpunar í grænni tækni og lausnum sem draga úr umhverfisáhrifum.
Framsókn vill stuðla að hringrásarhagkerfi þar sem endurnýting og endurvinnsla auðlinda eru í forgrunni, til að draga úr sóun og auka nýtingu takmarkaðra auðlinda.
Framsókn vill að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og stuðla að samvinnu við aðrar þjóðir um lausnir.
Framsókn vill að innviðir, svo sem flutningskerfi fyrir orku, sé öflugt og aðgengilegt, til að tryggja að nýting innlendra, grænna orkugjafa sé hámörkuð.
Framsókn leggur áherslu á að samfélagið beri ábyrgð á umhverfinu og að allir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, taki þátt í að vernda náttúruna og draga úr umhverfisáhrifum.
Viðreisn
Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því neyðarástandi sem vofir yfir heimsbyggðinni. Við verðum að taka stór skref strax og koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga.
Loftslagsvá af mannavöldum og hnignun vistkerfa er raunverulegt ástand. Við eigum að virða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og setja okkur mælanleg markmið.
Það þarf að stuðla að hröðum orkuskiptum á öllum sviðum. Öflugasta og skilvirkasta verkfæri stjórnvalda til þess eru hagrænir hvatar á borð við kolefnisgjald sem leggist á alla losun og græn áhersla í skipulagsmálum. Viðreisn leggur áherslu á tekjuhlutleysi í stað aukinnar skattheimtu þannig að kolefnisgjöldum verði mætt með samsvarandi lækkun á öðrum sköttum og gjöldum. Þannig verði hægt að ná mikilvægri sátt um loftslagsaðgerðir og tryggja að þeir borgi sem mengi.
Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á markaðshagkerfi, samkeppnishæft atvinnulíf og takmörkuð ríkisafskipti. Til að draga úr kolefnislosun telur Sjálfstæðisflokkurinn farsælast að nýta markaðslausnir og tækni í stað íþyngjandi boða og banna. Atvinnulífið ætti að hafa frelsi, sveigjanleika og hvata til að þróa og innleiða nýja tækni og aðferðir sem minnka kolefnislosun á hagkvæman hátt, með áherslu á lágkolefnishagkerfi.
Til að ná loftslagsmarkmiðum er nauðsynlegt að stórauka grænorkuframleiðslu. Krafa bæði hérlendis og erlendis er að einfalda ferla, eins og leyfisveitingar, og tryggja skilvirkni opinberra stofnana. Því hefur Sjálfstæðisflokkurinn unnið að einföldun leyfisveitingaferla og sameiningu stofnana til að auðvelda orkuskipti.
Helstu verkfæri ríkisins til að stuðla að lágkolefnishagkerfi eru:
- Skattalegir hvatar fyrir atvinnulífið sem leggja áherslu á græna tækni og minni losun.
- Virkjun markaðskerfa eins og viðskiptamarkaði með kolefniseiningar.
- Áhersla á nýsköpun í grænni tækni sem miðar að minni losun kolefnis.
Samvinna atvinnulífs og stjórnvalda er lykillinn að árangri í loftslagsmálum. Slík samvinna, ásamt einföldun regluverks og aukinni skilvirkni, tryggir að ákvarðanir byggist á bestu mögulegu upplýsingum og hvetur fyrirtæki til að taka frumkvæði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Dæmi um slíkt samstarf er vegvísir um vistvæna mannvirkjagerð frá 2022, þar sem byggingariðnaðurinn setti sér markmið um 43% samdrátt í kolefnislosun bygginga fyrir árið 2030.
Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur verið unnið að landsáætlun um aðlögun vegna hlýnunar loftslags og súrnunar sjávar. Í þeirri vinnu er litið til loftslagsþols byggða, innviða, atvinnuvega og seiglu fólks og lífríkis. Á næsta ári mun Loftslagsatlas Veðurstofunnar birtast, sem sýnir breytingar á hita, úrkomu og sjávarflóðum—grunnur að mati á áhrifum loftslagsbreytinga við Ísland.
Sjálfstæðisflokkurinn vill stórauka græna orkuöflun og tryggja næga orku til heimila og fyrirtækja. Græn orka er hornsteinn efnahagslegs árangurs þjóðarinnar. Með frekari orkunýtingu tryggjum við orkuöryggi og áframhaldandi lífskjaravöxt. Flokkurinn vill tryggja raforkuöryggi heimila og minni fyrirtækja, stórauka orkuöflun, flýta uppbyggingu virkjanakosta, stórbæta flutningskerfi raforku, endurskoða rammaáætlun og einfalda leyfisveitingar.
Flokkur Fólksins
Við erum ekki hrifin af loftslagssköttum. Ísland er með sérstöðu á heimsvísu þegar kemur að hlutfalli grænnar orku af orkunotkun þjóðarinnar.
Sósíalistaflokkurinn
Eyðilegging náttúru af mannavöldum, loftslagsbreytingar og mengun eru afleiðing kapítalismans, þess að auðvaldið hefur fengið að ráða ferðinni og farið sínu fram. Umhverfisváin á því sömu rót og sú hætta sem vofir yfir samfélögunum, sem er alræði auðvaldsins. Eina leiðin til að byggja upp gott samfélag og verja náttúrugæðin er að almenningur taki völdin af auðvaldinu. Auðvaldið er hin ríku sem lifa ofan við samfélag alþýðu manna og telja sig ekkert hafa að sækja í þau grunnkerfi sem byggð voru upp á síðustu öld til að bæta lífskjör og réttindi almennings. Þau telja sig heldur ekki bundin af reglum samfélagsins, starfa eftir því eina boðorði að það sem þau græða á hljóti að vera rétt. Og hin ríku telja sig einnig geta varist náttúruhamförum og loftslagsbreytingum, keypt sér herragarða á svæðum þar sem minni líkur eru á afleiðing loftslagsbreytinga valdi skaða. Kaupa sér jafnvel jarðir á Íslandi til að eiga hér skjól fyrir þeim skaða sem þau sjálf valda. Það er því óhugsandi að lausn finnist á eyðileggingu umhverfis og samfélags án þess að að breyta valdajafnvæginu í samfélögunum. Undir alræðisvöldum auðvaldsins munu samfélögin verða brotin og náttúrugæðin eyðilögð. Frumforsenda þess að vinna gegn loftslagsbreytingum og stöðva eyðileggingu náttúrugæða er því að taka völdin af auðvaldinu. Það er stærsta aðgerðin í loftslagsmálum. Sjá nánar
Lýðræðisflokkurinn
Kolefnisskattar verði felldir niður í ljósi þess að Ísland hefur skilað sínu framlagi nú þegar.
Miðflokkurinn
Miðflokkurinn hafnar öllu ofstæki og hræðsluáróðri í tengslum við umræðu um loftslagsmál.
Miðflokkurinn vill nálgast loftslagsmál eins og önnur viðfangsefni samfélagsins, með skynsemina að vopni og leggja til lausnir sem stuðla að bættu umhverfi fólks og fyrirtækja án íþyngjandi gjalda. Miðflokkurinn vill endurskoða aðild Íslands að samfloti með Evrópusambandinu í tengslum við loftslagsmarkmið enda standa Íslendingar þessum löndum langt framar þegar kemur að endurnýtanlegri orku. Skoða þarf aðkomu Íslands að ETS-losunarkerfinu sem er landinu mótdrægt, enda ekki tekið tillit til stöðu landsins sem eyju sem er algjörlega háð flug- og skipaflutningum. Skoða þarf og bregðast við því hvernig núverandi fyrirkomulag bitnar á Íslandi þar sem vöruverð mun hækka og ferðakostnaður landsmanna sömuleiðis.
Miðflokkurinn vill ekki aðskilja umhverfis- og loftslagsmál og leggur því höfuðáherslu á hreint og heilbrigt umhverfi sem er forsenda fyrir heilbrigði landsmanna og sjálfbærri matvælaframleiðslu í landinu. Ljóst er að með vaxandi kröfum í umhverfismálum verða þjóðir heims hver fyrir sig að sjá um að eyða því sorpi sem til fellur með umhverfisvænum og hagkvæmum hætti. Flokkurinn vill því átak í sorp- og frárennslismálum landsmanna.
Píratar
Píratar ætla að:
- Halda þjóðfund á hverju kjörtímabili til að finna lausnir í baráttunni gegn loftslagsmálum.
- Draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda.
- Stórefla stjórnsýslu loftslagsmála.
- Tryggja réttlát umskipti fyrir almenning og bændur.
- Efla nýsköpun í landbúnaði.
- Koma á grunnframfærslu til bænda.
- Auka aðgengi fólks að viðgerðaþjónustu og varahlutum til að lengja líftíma tækja og hluta.
Stærstu áskoranir samtímans mætast í loftslagsmálum og náttúruvernd. Píratar eru leiðandi á Íslandi í þeim málaflokkum og tala ávallt máli náttúrunnar. Umhverfismál eiga undir högg að sækja um allan heim og því aldrei verið mikilvægara að standa vörð um náttúruvernd og sjálfbærni. Náttúruvernd, loftslagsaðgerðir og verndun líffræðilegs fjölbreytileika haldast í hendur. Aðgerðir í þágu loftslagsmála mega ekki ganga á líffræðilegan fjölbreytileika eða skaða náttúruna. Gera þarf raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar, þar sem þær samfélagsbreytingar framtíðarinnar eru hafðar að leiðarljósi. Á sama tíma verðum við að hverfa frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Grípa tækifærin sem felast í tækniframförum og grænum umskiptum og gera betur fyrir bændur og neytendur. Píratar leggja ríka áherslu á dýravernd og vilja að vistmorð verði refsivert. Meginábyrgð þess að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda liggur hjá mengandi fyrirtækjum og stjórnvöldum sem setja þeim reglurnar. Píratar ætla ekki að velta ábyrgðinni á einstaklinga heldur láta þá sem menga mest greiða fyrir slíkt í samræmi við mengunarbótaregluna. Þessi gjaldtaka á að renna að stórum hluta til grænna sprotafyrirtækja og frumkvöðla.
Samfylkingin
Samfylkingin leggur áherslu á að mælanleg loftslagsmarkmið séu lögfest til skemmri og lengri tíma, þak sé sett á losun og að tímasettar aðgerðaráætlanir fylgi markmiðunum sem taki meðal annars á orkuskiptum á landi, hafi og í lofti. Markmið og aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum verða að tryggja að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar. Þá þarf að tryggja að nákvæmt kolefnisbókhald og fullnægjandi eftirlit með losunarmarkmiðunum og aðgerðunum. Stjórnvöldum ber að bregðast við ef fyrirséð er að áætlanir eða markmiðin standast ekki. Þá verða markmiðin og aðgerðaráætlanir að taka bæði á beinni losun á ábyrgð stjórnvalda og losun frá landnotkun, stóriðju og alþjóðaflugi. Styrkja þarf stjórnsýslu loftslagsmála, forgangsraða opinberum fjármunum til loftslagsmála, tryggja fjármagn og mannafla í málaflokkinn og efla Loftslagsráð í þessum tilgangi.
Loftslagsmál hafa snertiflöt við alla málaflokka og vill Samfylkingin sjá samhæfingu þvert á ráðuneyti og málaflokka, þar á meðal að mat verði lagt á frumvörp með tilliti til loftslagsáhrifa jafnt og gert er með tilliti til fjárhagslegra áhrifa, auk þess að stefnur og aðgerðir ráðuneyta verði samhæfðar með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda. Aðlögun að loftslagsbreytingum er nauðsynlegur þáttur til að lágmarka tjón samfélagsins af loftslagsbreytingum og er ábyrgt að styðja við aðlögun og baráttu fátækari landa við loftslagsbreytingar og uppbyggingu orkuinnviða.
Vinstri Græn
Loftslagsaðgerðir verða að vera róttækar, tryggja þarf réttlát umskipti og styðja þarf við þróun kolefnishlutlauss hringrásarhagkerfis.
- Vinstri græn vilja að Ísland sé leiðandi í loftslagsmálum og færi fram frekari lausnir og tali skýrt á alþjóðavettvangi.
- Allar loftslagsaðgerðir skulu byggja á stoðum sjálfbærni, náttúru, vísindalegrar þekkingar og samfélags þar sem réttlát umskipti eru tryggð.
- Draga þarf verulega úr allri losun sem á sér stað á Íslandi óháð hvaðan hún kemur og neysludrifinni losun Íslands.
- Landnotkun þarf að vera sjálfbær og endurheimt vistkerfa með verndun líffræðilegrar fjölbreytni og upptöku kolefnis skal að vera leiðaljós í landnýtingarstefnu Íslands.
- Markmiðum um kolefnishlutlaust og jarðefnaeldsneytislaust Ísland þarf að ná í síðasta lagi árið 2040 og viljum við skilgreina kolefnishlutleysi með skýrari hætti og setja sterka loftslagsstefnu fyrir Ísland eins og Loftslagsráð hefur kallað eftir.
- Standa þarf vörð um rétt fólks og frjálsra félagasamtala til að sækja stórfyrirtæki til ábyrgðar vegna afleiðinga sem þau valda á líf og heilsu fólks vegna mengunar.
- Leggja skal áherslu á vernd og sérstöðu íslenskrar náttúru og líffræðilegrar og jarðfræðilegrar fjölbreytni hennar.
- Aðgangur almennings að náttúru er lýðheilsumál sem ber að tryggja. Stórauka þarf vernd og endurheimt vistkerfa og votlendis með auknum grænum hvötum og breytingu á styrkjakerfi landbúnaðarins.
- Loftslagsvænn landbúnaður þarf að verða eftirsóknarverðari og hagkvæmari valkostur sem styður við bætt kjör bænda.
- Banna skal veiðar á hvölum og öðrum sjávarspendýrum í íslenskri lögsögu í samræmi við vilja og ákall almennings.
- Stuðla skal að hringrásarhagkerfi sem nýtir allar auðlindir með sjálfbærum hætti, dregur úr myndun úrgangs, minnkar sóun, eykur endurnotkun, endurvinnslu og lágmarkar urðun. Fyrirtæki bera höfuðábyrgð á að lágmarka umhverfisáhrif sín.
- Gera ætti grænþvott refsiverðan að lögum og draga þarf úr losun vegna framleiðslu og neyslu á vörum og styðja enn frekar við nýsköpun og tæknilausnir í baráttunni við loftslagsvána, svo sem vegna kolefnisföngunar og förgunar.
Mikilvægt er að loftslagsmál og réttur fólks til heilnæms umhverfis fléttist inn í alla pólitíska stefnumótun. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í loftslagsmálum, loftslagsvá og náttúra: https://vg.is/stefna/loftslagsva-og-nattura/
Ábyrg Framtíð
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.