Sóttvarnarmál

Framsóknarflokkurinn

  • Heimsfaraldurinn hefur sett mark sitt á íslenskt samfélag síðustu misseri og gerir enn. Framsókn leggur áherslu á að vinna áfram að því að samfélagið þróist hratt í eðlilegt horf en undirstrikar að vernda verður viðkvæmustu hópana. Markmiðið er að samfélagið búi aftur við það frjálsræði sem ríkti fyrir heimsfaraldurinn við fyrsta mögulega tækifæri. Framsókn vill nýta allar leiðir til að tryggja að daglegt líf okkar, atvinnulíf og menningarlíf geti gengið sinn vanagang, til dæmis með notkun hrað- og sjálfsprófa.
  • Framsókn vill að þriðji skammtur bóluefnis standi þeim sem vilja til boða.

Viðreisn

Löngu er orðið ljóst að heimsfaraldurinn er ekki tímabundið verkefni og lausnirnar geta ekki lengur verið nýtt regluverk á nokkurra vikna fresti. Við þurfum nálgun sem lítur á heimsfaraldurinn sem langtímaverkefni. Nálgun sem sem byggð er á vísindum og markmiðum um að lágmarka takmarkanir að daglegu lífi fólks og atvinnulífi. Nálgun sem byggir á virðingu fyrir frelsi fólks og meðalhófi. Við þurfum að lifa með veirunni, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Það er mikilvægt að hlúa að heilbrigðiskerfinu og gera því kleift að takast á við stöðuna. Ótækt er að sóttvarnaraðgerðir séu óhóflega íþyngjandi vegna fjárskorts heilbrigðiskerfisins. Skólaganga barna og ungmenna verður að fá að vera tryggð. Létta þarf á takmörkunum með stórauknu aðgengi að hraðprófum.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að í frjálsu samfélagi er mikilvægt að stjórnvöld virði grunnréttindi borgaranna. Í upphafi faraldursins var gripið til umfangsmikilla sóttvarnaaðgerða til að verja líf og heilsu landsmanna og tryggja um leið að heilbrigðiskerfið gæti sinnt nauðsynlegri þjónustu. Íslendingar hafa verið í forystu þjóða í baráttunni við veiruna. Nú þegar nær öll þjóðin er bólusett verður að slaka á sóttvarnaaðgerðum þannig að daglegt líf færist í eðlilegt horf. Nauðsynlegt er að halda áfram að vega hagsmuni út frá sóttvörnum og efnahags- og samfélagslegum áhrifum. Leggja á aukna áherslu á einstaklingsbundnar varnir. Um leið verður að huga sérstaklega að þeim sem glíma við undirliggjandi sjúkdóma eða eru af öðrum sökum í viðkvæmri stöðu. Sóttvarnaaðgerðir til lengri tíma geta ekki tekið mið af stöðu Landspítala heldur þarf skipulag og stjórnun spítalans að taka mið af aðstæðum á hverjum tíma. Auka verður svigrúm heilbrigðiskerfisins til að bregðast við, jafnt fjárhagslega sem skipulagslega. Standa verður áfram vörð um fleira en sóttvarnir þegar kemur að heilsu landsmanna.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins telur rétt að farið sé að ráðum fagfólks, þar með talið sóttvarnalæknis, varðandi aðgerðir gegn COVID-19. Ákvarðanataka og ábyrgð hlýtur þó ávallt að hvíla á framkvæmdavaldinu, ríkisstjórn og ráðherrum hennar.

Við viljum sjá meira samráð við löggjafann, Alþingi, en verið hefur í þessum efnum. Hlutverk löggjafans er að koma með tillögur og veita stjórnvöldum aðhald m.a. með umræðu. Öll umræða um þessi mál er af hinu góða. Baráttan gegn COVID-19 er samfélagslegt verkefni. Flokkur fólksins hefur frá upphafi stutt strangar aðgerðir í þeirri vinnu svo halda megi smiti innanlands í algeru lágmarki og helst útrýma þeim.

Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkurinn er ekki með stefnu í sóttvörnum, enda er það hlutverk sóttvarnaryfirvalda að móta stefnu í sóttvörnum.

Miðflokkurinn

Miðflokkurinn hefur stutt tillögur sóttvarnaryfirvalda í baráttunni við faraldurinn en um leið gagnrýnt ákvarðanir og framkvæmd ríkisstjórnarinnar á ýmsum þeim efnahagslegu aðgerðum sem ráðist hefur verið í. Miðflokkurinn áréttar að mikilvægt sé að tryggja heilsu og öryggi landsmanna með það að markmiði að koma samfélaginu sem fyrst í skjól og tryggja að líf landsmanna komist sem fyrst aftur í eðlilegt form.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Heilsan er alltaf númer 1. Flokkurinn vill ná landinu aftur í grænan lit og halda því grænu með tilheyrandi og nauðsynlegum sóttvörnum á landamærunum.

Píratar

Grunnstefna Pírata hefur reynst gott leiðarljós í faraldrinum. Í grunnstefnunni er þrennt sem kom sérstaklega að góðum notum á fordæmalausum tímum:

  • Píratar leggja áherslu á gagnrýna hugsun og vel upplýstar ákvarðanir.
  • Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda.
  • Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku.

Grunnstefna Pírata, sem allar aðrar stefnur okkar byggja á, hafði því þau áhrif í faraldrinum að:

  • Við vildum að vísindin væru í fyrirrúmi, í samræmi við kröfuna um vel upplýstar ákvarðanir.
  • Við lögðum áherslu á að ekki yrði gengið lengra á frelsi fólks en brýn nauðsyn krefðist, í samræmi við verndun borgararéttinda.
  • Við kölluðum stöðugt eftir öllum gögnum og rökum frá stjórnvöldum, í samræmi við kröfuna um að almenningur gæti verið upplýstur um stöðuna og forsendur aðgerða.

Þessa dagana er grasrót Pírata að greiða atkvæði um sérstaka sóttvarnastefnu fyrir flokkinn til framtíðar. Þegar niðurstöðurnar liggja fyrir munum við uppfæra þetta svar.

Samfylkingin

Í baráttunni við COVID-19 hefur Samfylkingin haft það að leiðarljósi að fylgja fyrirmælum sóttvarnarlæknis og hlusta á raddir sérfræðinga. Nú er stór hluti þjóðarinnar bólusettur sem minnkar líkur á dauðsföllum og smitum en smit berast áfram milli einstaklinga. Sá litli hópur sem er óbólusettur er ásamt viðkvæmum hópum ennþá útsettur fyrir veikindum en ljóst er að grípa þarf til aðgerða sem eru til þess fallnar að hægt sé að lifa með þeim til lengri tíma.

Ungt fólk og sérstaklega framhaldsskólanemar hafa fundið hvað mest fyrir afleiðingum harðra aðgerða og við viljum því að gripið sé til úrræða sem eru til þess fallin að tryggja að nám og félagslíf ungs fólks og framhaldsskólanema geti farið fram með sem eðlilegustum hætti.

Vinstri Græn

VG telur að stefna stjórnvalda í faraldrinum hafi verið skynsamleg en þar hefur verið fylgt tveimur leiðarljósum; að vernda líf og heilsu landsmanna og lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif.

  • Mikilvægt er að vísindin verði áfram í fyrirrúmi og að komið verði í veg fyrir að heilbrigðiskerfið verði fyrir of miklu álagi vegna smita.

  • Hlúa verður áfram að viðkvæmustu hópum samfélagsins og þeim sem kunna að vera jaðarsettir án þess að það sé beitt meira íþyngjandi aðgerðum en nauðsyn krefur hverju sinni.

  • Í þessu samhengi skiptir jafnframt máli að athygli sé beint að börnum og brýnt að halda skólastarfi gangandi eins og unnt er.

  • Styðja þarf fólk, heimili og fyrirtæki til að tempra áhrif faraldursins í efnahagslegum skilningi eins og mögulegt er.

  • Alþjóðlegt samstarf spilar mikilvægt hlutverk í baráttunni við faraldurinn þá einkum við rannsókn, framleiðslu og dreifingu á bóluefni en bólusetning meginþorra heimsbyggðarinnar er lykillinn úr faraldrinum.

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki