Vinstri Græn
Svandís Svavarsdóttir
Formaður
Atvinnumál
Markmið VG í atvinnumálum er að umbreyta atvinnulífinu í átt að sjálfbærni og stuðla að fjölbreyttri og félagslega réttlátri atvinnuuppbyggingu um land allt, sem borgi góð laun sem duga til að fólk geti lifað með reisn.
- Grunnatvinnuvegir eiga að byggja á sjálfbærri nýtingu auðlinda og samfélagslegri ábyrgð í takt við loftslagsaðgerðir. Stuðla skal að því að fyrirtæki innleiði skýr, mælanleg viðmið sem tryggja umhverfis-og náttúruvernd, kolefnishlutleysi og jákvæð áhrif á nærsamfélagið.
- Atvinnulífið á að þróast í átt að sjálfbærni með áherslu á græn störf, skapandi greinar, sjálfbæra þróun og hringrásarhagkerfið. Opinbert fé skal styðja við græn verkefni og samfélagslega ábyrg fyrirtæki.
- Stefnt skal að kolefnishlutleysi innan atvinnulífsins með því að draga úr losun, hvetja til orkuskipta og virkja betur sköpunarkraftinn
- Áhersla skal lögð á tæknimenntun, rannsóknir og þróunarstarf svo Ísland verði í fararbroddi í nýsköpun og tækni framförum til framtíðar.
- Til að tryggja fjölbreytt atvinnulíf um allt land þarf að bæta innviði svo sem samgöngur, háhraðanettengingar, menntunartækifæri og aðra grunnþjónustu.
- Fjölga skal opinberum störfum um land allt með tilliti til byggðajafnréttis og skapa staðbundin störf.
- Menningar- og listgreinar eru mikilvægar stoðir fjölbreytts atvinnulífs. Leggja skal áherslu á að styrkja stöðu Íslands í þessum greinum og styðja við menntastofnanir og rannsóknarverkefni sem miða að nýsköpun og þróun í hugverkagreinum.
- Umbætur verði gerðar á byggða- og atvinnukerfum ásamt því að tryggt sé að strandveiðar skiptist á réttlátan hátt milli byggða landsins.
- Tryggt verði að nýtt stuðningskerfi landbúnaðar virki fyrir bændur og fjárfestingarstyrkir og styrkir til nýliða verði auknir.
- Þau sem fá heimildir til að nýta auðlindir landsins verða að greiða stærri hluta af ágóðanum í sameiginlega sjóði. Gagnsæi um eignatengsl í sjávarútvegi verði eflt samhliða því að veiðigjöld á stórútgerðina séu hækkuð.
- Umfangsmikil áætlun um endurmenntun og hæfniuppbyggingu skal til að tryggja öllum jöfn tækifæri til að þróa nýja hæfni í breyttu atvinnulífi vegna áhrifa tæknivæðingar og sjálfvirknivæðingar.
- Tími með okkar nánustu er ein af undirstöðum vellíðunar. Höldum áfram að vinna að því að stytting vinnuvikunnar nái til allra og bætum samspil atvinnuþátttöku og fjölskyldulífs.
Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í atvinnumálum https://vg.is/stefna/atvinnumal/
Byggðarmál
Blómleg byggð í öllum landshlutum
- Umbætur verði gerðar á byggða- og atvinnukerfum ásamt því að tryggt sé að strandveiðar skiptist á réttlátan hátt milli byggða landsins.
- Tryggt verði að nýtt stuðningskerfi landbúnaðar virki fyrir bændur og fjárfestingarstyrkir og styrkir til nýliða verði auknir. (stefna VG í landbúnaðarmálum er nánari. Hér)
- Framlög til samgönguáætlunar verði aukin svo að unnt sé að flýta brýnum verkefnum í samgönguáætlun, jarðgangnaáætlun fjármögnuð og staðið við samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu. Nauðsynlegt er að loftslagsvænar lausnir liggi til grundvallar í samgöngum
- Tryggja þarf heilbrigðisþjónustu og aðgengi að lyfjum í heimabyggð. Efla þarf heilsugæslu um allt land í að sinna grunnheilbrigðisþjónustu við íbúa ásamt öruggum sjúkraflutningum. Til að tryggja byggðajafnrétti þarf að skilgreina lágmarksþjónustu viðmið ríkis og sveitarfélaga.
- Halda þarf áfram að efla þjónustu við eldra fólk og samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu í gegnum verkefnið Gott að eldast.
- Tryggja þarf raforkuöryggi til heimila þannig að heimili séu varin fyrir óhóflegum hækkunum á raforkuverði.
- Efla þarf byggðajafnrétti með þátttöku fulltrúa frá öllu landinu í nefndum og ráðum ríkisins og efla svæðisstöðvar RÚV um allt land. Öflug og fjölbreytt menningarstarfsemi er ein af undirstöðum íslensks samfélags og hluti af langri sögu, menningararfi og íslenskri tungu.
- Efla þarf almennt íbúalýðræði. Styðja þarf sérstaklega við lýðræðisþátttöku jaðarsettra hópa
- Hið opinbera hafi forgöngu um að auglýsa störf án staðsetningar og aðrir atvinnurekendur verði hvattir til hins sama.
- Efla námsframboð á öllum skólastigum í öllum landshlutum. Styrkja heilsugæslu, heilbrigðisstofnanir og fjarheilbrigðisþjónustu og byggja upp meira af hagkvæmu og fjölbreyttu íbúðarhúsnæði um allt land.
- Fjölga friðlýstum svæðum og störfum við náttúruvernd, en rannsóknir sýna að það skilar einnig fjárhagslegum ábata heim í hérað.
Allir landshlutar eiga að geta boðið upp á fjölbreytt og aðlaðandi búsetuskilyrði fyrir núverandi íbúa, nýja íbúa og nýjar kynslóðir. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í byggðamálum: https://vg.is/stefna/byggdamal/
Efnahagsmál
Mannsæmandi kjör - sanngjörn tekjuöflun
- Tryggjum öfluga almannaþjónustu óháð búsetu og efnahag og rétt almennings til heilnæms umhverfis og aðstæðna. VG hafnar einkavæðingu innviða og almannaþjónustu
- Efla þarf opinbera heilbrigðiskerfið, stytta biðlista og auka geðheilbrigðisþjónustu
- VG hafnar niðurskurðarstefnu í baráttu við verðbólgu. Nauðsynlegt er að uppræta kerfisbundna verðbólguhvata með samstilltu átaki ríkis, Seðlabanka og sveitarfélaga.
- Efnahagsstefnan á að draga úr ójöfnuði, tekjuöflun hins opinbera á að vera sanngjörn og stuðla að samfélagssátt, þannig að hin efna- og eignameiri leggi meira af mörkum. Framfærsla eldra fólks og fólks á örorkulífeyri á aldrei að vera lægri en lágmarkslaun.
- Fjármagnstekjuskattur á að vera þrepaskiptur þannig að stóreignafólk greiði hærra hlutfall heldur en venjulegt fólk af hóflegum sparnaði.
- Stórauka þarf skatteftirlit en skattaundanskot hafa verið metin um 100 milljarðar á hverju ári.
- Stórauka þarf vinnueftirlit með markvissum aðgerðum. Þannig verði spornað gegn launastuldi og markvisst barist gegn mansali. Þau sem fá heimildir til að nýta auðlindir landsins verða að greiða stærri hluta af ágóðanum í sameiginlega sjóði. Gagnsæi um eignatengsl í sjávarútvegi verði eflt samhliða því að veiðigjöld á stórútgerðina séu hækkuð.
- Vinstri græn vilja hækka hlutfall námsstyrks af lánum, skoða kosti þess að gera námslán vaxtalaus og að þau falli niður við starfslok, eða ef fólk fer á örorkulífeyri.
- Ríkið á áfram að vera eigandi Landsbankans. Gera þarf nauðsynlegar lagabreytingar til að skapa umgjörð um starfsemi samfélagsbanka sem starfa samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum.
- Mikilvægt er að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði. Sá stöðugleiki má ekki snúast um að halda láglaunahópum niðri og grafa undan velferðarkerfinu. Sátt á vinnumarkaði byggist á sátt um velferðarkerfið.
- Persónuafsláttur á að nýtast lág og millitekjuhópum sem best. Tryggja þarf að tekjulægstu hóparnir, sem eru undir markmiðum um grunnframfærslu, séu undir skattleysismörkum.
Endalaus hagvöxtur á kostnað náttúru og fólks er ekki valkostur. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í efnahagsmálum: https://vg.is/stefna/efnahagsmal/
Evrópumál
Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur ríka áherslu á samstarf við önnur Evrópulönd en telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Komi til þess að Ísland sæki um aðild yrði það að okkar mati eingöngu að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu um slík áfor enda er um afdrifaríka ákvörðun að ræða sem eðlilegt er að allur almenningur hafi skoðun á.
Leggja þarf mat á þá raunhæfu valkosti sem eru taldir bjóðast í gjaldmiðilsmálum. Annars vegar áframhaldandi sjálfstæð peningastefna með íslenskri krónu og hins vegar innganga í Evrópusambandið og aðild að Myntbandalagi Evrópu, með upptöku evru og þátttöku í samevrópskri peningastefnu. Hreyfingin telur að taka þurfi næstu skref í peningamálum til róttækrar skoðunar.
Ljóst er að Ísland mun nýta sér krónuna sem gjaldmiðil næstu árin og því þarf að tryggja að peningastefnan fari saman við ríkisfjármálastefnu og taki mið af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika.
Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/
Heilbrigðismál
Vinstri græn telja að greiður aðgangur að heilbrigðisþjónustu sé meðal grundvallarréttinda einstaklinga og hagur samfélagsins í heild. Þjónustan skal miða að bættum lífsgæðum óháð efnahag, búsetu eða aðstæðum og vera fjármögnuð með skattfé og starfrækt á opinberum grunni. Einkarekstur í ágóðaskyni á ekki heima í heilbrigðisþjónustu.
- Efla þarf opinbera heilbrigðiskerfið, stytta biðlista og auka geðheilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að auka áhrif notenda á þjónustuna.
- VG hafnar einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.
- Halda þarf áfram að efla þjónustu við eldra fólk og samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu í gegnum verkefnið Gott að eldast.
- Tryggja þarf heilbrigðisþjónustu og aðgengi að lyfjum í heimabyggð. Efla þarf heilsugæslu um allt land í að sinna grunnheilbrigðisþjónustu við íbúa með áherslu á þverfaglega þjónustu og aðgengi að öruggri fæðingarþjónustu.
- Tryggjum að þolendur heimilisofbeldis fái greiða og samræmda þjónustu í öllu heilbrigðiskerfinu.
- Gott aðgengi að heilnæmu umhverfi er lýðheilsumál. Lýðheilsa og forvarnir skipa mikilvægan sess í heilbrigðu samfélagi.
- Heilbrigðisútgjöld eiga að lækka sem hlutfall af tekjum heimila og sjúklingagjöld afnumin.
- Lækka þarf lyfjakostnað sjúklinga með hagkvæmari innkaupum og lyf fyrir börn og ungmenni skulu vera endurgjaldslaus.
- Nýjan Landspítala skal efla sem háskólasjúkrahús sem sinnir kennslu og öflugum vísindarannsóknum. Skýra þarf hlutverk spítalans gagnvart landsbyggðinni og fjárveitingar þurfa að taka tillit þess.
- Hvetja skal til náms í heilbrigðisgreinum með því að bæta vinnuaðstöðu og kjör heilbrigðisstarfsfólks og leita leiða til að sporna við brotthvarfi starfsfólks úr heilbrigðisþjónustu.
- Afnema þarf biðlista eftir greiningum og þjónustu við börn.
- Þörf er á markvissri stefnu í áfengis-, tóbaks- og vímuvarnarmálum og festa hana í sessi í lögum og reglugerðum.
- Úrræði skaðaminnkunar og almenn heilsuvernd fyrir fólk í neyslu eiga að vera aðgengileg sem og aðgengi að meðferða – og stuðningsrúrræðum um allt land.
Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í velferðarmálum: https://vg.is/stefna/velferdarstefna/
Húsnæðismál
Það er grundvallar réttur hvers einstaklings að hafa öruggt þak yfir höfuð. Ráðast verður í átak í húsnæðismálum til að auka framboð á húsnæði um leið og venjulegt fólk er varið fyrir samkeppni fjárfesta.
- Íbúðarhúsnæði á að vera fyrir fyrir fólk, ekki fjárfesta. Skattaafslættir af sölu aukaíbúða verði þrengdir og gildi fyrir venjulegt fólk en ekki fjárfesta. Settar verði frekari takmarkanir á skammtímaleigu (t.d. Airbnb).
- Nauðsynlegt er að bregðast við áhrifum hávaxtastefnu á almenning með sérstökum vaxtastuðningi samhliða endurskoðaðri útfærslu séreignasparnaðarleiðar, með aukinni uppbyggingu leiguhúsnæðis með auknum stofnframlögum og með leigubremsu. Efla þarf óhagnaðardrifin leigufélög Með því að auka aðgengi þeirra að lánsfé og fjölga stofnstyrkjum innan almenna íbúðakerfisins.
- Koma þarf á fót raunverulegu félagslegu eignaíbúðakerfi í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar og stórauka þarf framboð á íbúðarhúsnæði um allt land.
- Ráðast verður í átak í húsnæðismálum, auka þarf möguleika ríkisins á að styðja við innviðauppbyggingu samhliða auknu lóðaframboði sveitarfélaga.
- Fyrirkomulag hlutdeildarlána þarf að endurskoða til að tryggja að það nái markmiðum sínum, að gefa tekjulágum, þ.m.t. örorkulífeyrisþegum, kost á því að eignast heimili.
- Endurskoða þarf greiðslumat þannig að metið sé með raunhæfum hætti greiðslugetu einstaklinga til að greiða af fasteignalánum sínum.
- Standa þarf vörð um Húsnæðissjóð, sem stofnaður var að norrænni fyrirmynd, til að fjármagna húsnæði á samfélagslegum grunni.
- Tryggjum gæðahúsnæði fyrir öll án tillits til efnahags. Hverfi og skipulag taki mið af mannlífi, fjölbreytni og virkum ferðamátum.
Vinstri græn vilja húsnæði fyrir fólk en ekki fjárfesta! Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í kjara- og húsnæðismálum: https://vg.is/stefna/kjara-og-husnaedismal/
Jafnréttismál
Fordómar sem byggja á kyni, kynvitund, kynhneigð, fötlun, uppruna og trúarbrögðum verða ekki liðnir á Íslandi, né heldur orðræða og framkoma sem felur í sér hatur og tortryggni.
- Nauðsynlegt er að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis og brjóta þannig upp kynjakerfið.
- Tryggjum efnahagslegt öryggi kvenna sem hafa skert lífeyrisréttindi vegna kynbundins launamunar, vanmats á virði kvennastarfa og ólaunaðra starfa yfir ævina. Endurmetum virði kvennastarfa í því skyni að útrýma kynbundnum launamun.
- Tryggjum jafna skiptingu fæðingarorlofs foreldra og stuðlum að jöfnun umönnunarbyrði kynjanna.
- Upprætum þau viðhorf og kerfi sem leiða af sér kynbundið ofbeldi og tryggjum að öll ofbeldismál fái skjóta og faglega meðferð í réttarvörslukerfinu.
- Tryggjum að brotaþolar séu aðilar máls í kynferðisbrotamálum og að ríkið verði skaðabótaskylt gagnvart þolendum ef mál er fellt niður vegna mistaka við rannsókn eða tafa á málsmeðferð. Huga þarf sérstaklega að stöðu fatlaðs fólks í því samhengi.
- Nauðsynlegt er að tekið sé fullt tillit til þeirra einstöku aðstæðna sem þolendur kynlífsþrældóms og mansals eru í. Verklag Útlendingastofnunar við brottvísanir þarf að breytast þannig að það taki mið af þessu.
- Tryggja þarf leið á félagslegum forsendum út úr vændi eða hvers kyns mansali með því að tryggja afkomu, húsnæði og vernd mansalsfórnarlamba.
- Lögfesta þarf leikskólastigið og tryggja foreldrum óskertar tekjur í fæðingarorlofi upp að ákveðnu hámarki. Ekki á að leyfa heimgreiðslur enda eru þær ekki fallnar til þess að tryggja inngildingu eða jafnrétti.
- Tryggja þarf öllum foreldrum sömu réttarstöðu við fæðingu barns.
- Setja þarf skýran laga- og refsiramma um hatursorðræðu og hatursglæpi í garð hinsegin fólks, innflytjenda, fatlaðs fólks, kvenna og annarra hópa.
- Auka þarf vernd trans og intersex fólks, sérstaklega barna.
- Innleiða þarf samning Sþ um réttindi fatlaðs fólks
- Við getum og verðum að stuðla að inngildingu þeirra sem vilja búa hér, tryggja jöfnuð og velsæld allra borgara samfélagsins.
Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í kvenfrelsismálum: https://vg.is/stefna/kvenfrelsi/ Stefna Vinstri grænna um málefni hinsegin fólks: https://vg.is/stefna/malefni-hinsegin-folks/
Menntamál
Menntun er eitt mikilvægasta jöfnunartæki samfélagsins
- VG hafnar frekari einkavæðingu í menntakerfinu
- Vinna þarf með öllum ráðum gegn stéttaskiptingu í skólakerfinu. Tryggjum gjaldfrjálsan skóla á öllum stigum og jafnrétti til náms. Eflum námsefnisgerð á öllum skólastigum og gerum námsgögn gjaldfrjáls.
- Lögfestum leikskólastigið í áföngum.
- Metum störf kennara að verðleikum. Aukum stuðning við kennara, þ.m.t. íslenskunám innflytjendabarna, og tryggjum þeim mannsæmandi vinnuaðstæður og tryggja jöfnun launa kennaramenntaðra til jafns við almennan markað.
- Styðjum við fjölbreytt háskólanám og margvíslegt viðbótarnám framhaldsskóla, ekki síst listnám. Nemendum skal gefinn kostur á að stunda nám í fjarnámi um land allt.
- Eflum grunnrannsóknir enda eru þær undirstaða nýsköpunar og þekkingar. Öflugir og vel fjármagnaðir háskólar spila þar lykilhlutverk, auka þarf framlög svo við náum meðaltali Norðurlanda á háskólastiginu. Efla skal rannsóknasjóði og styðja við þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki.
- Allir nemendur eiga rétt á að læra móðurmál sitt. Það á líka við um börn sem eiga táknmál að móðurmáli og börn af erlendum uppruna.
- Samþætta þarf listnám, íþróttir og félagsstarf frístundastarfi sveitarfélaganna. Öll börn eiga að fá aðgengi að listnámi óháð efnahag.
- Efla þarf kennslu í umhverfislæsi, umhverfisvernd og sjálfbærni á öllum skólastigum sem þroskar getu nemenda til að taka upplýstar ákvarðanir um umhverfismál.
- Auka þarf sveigjanleika í námi á framhaldsskólastigi, sporna ber gegn brotthvarfi úr námi og tryggja fjölbreyttan stuðning, einkum við nemendur með innflytjendabakgrunn.
- Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu og styrkja raunfærnimat m.a. með menntun innflytjenda í huga.
- Tryggja skal mannsæmandi grunnframfærslu fyrir námsmenn svo jafnrétti til náms verði tryggt. Hækka þarf frítekjumark og skoða kosti þess að gera námslán vaxtalaus. Námslán skulu falla niður við ellilífeyrisaldur og við varanlega örorku lántakanda.
Menntastofnanir skulu aldrei reknar í hagnaðarskyni. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í menntamálum: https://vg.is/stefna/menntamal/
Loftslagsmál
Loftslagsaðgerðir verða að vera róttækar, tryggja þarf réttlát umskipti og styðja þarf við þróun kolefnishlutlauss hringrásarhagkerfis.
- Vinstri græn vilja að Ísland sé leiðandi í loftslagsmálum og færi fram frekari lausnir og tali skýrt á alþjóðavettvangi.
- Allar loftslagsaðgerðir skulu byggja á stoðum sjálfbærni, náttúru, vísindalegrar þekkingar og samfélags þar sem réttlát umskipti eru tryggð.
- Draga þarf verulega úr allri losun sem á sér stað á Íslandi óháð hvaðan hún kemur og neysludrifinni losun Íslands.
- Landnotkun þarf að vera sjálfbær og endurheimt vistkerfa með verndun líffræðilegrar fjölbreytni og upptöku kolefnis skal að vera leiðaljós í landnýtingarstefnu Íslands.
- Markmiðum um kolefnishlutlaust og jarðefnaeldsneytislaust Ísland þarf að ná í síðasta lagi árið 2040 og viljum við skilgreina kolefnishlutleysi með skýrari hætti og setja sterka loftslagsstefnu fyrir Ísland eins og Loftslagsráð hefur kallað eftir.
- Standa þarf vörð um rétt fólks og frjálsra félagasamtala til að sækja stórfyrirtæki til ábyrgðar vegna afleiðinga sem þau valda á líf og heilsu fólks vegna mengunar.
- Leggja skal áherslu á vernd og sérstöðu íslenskrar náttúru og líffræðilegrar og jarðfræðilegrar fjölbreytni hennar.
- Aðgangur almennings að náttúru er lýðheilsumál sem ber að tryggja. Stórauka þarf vernd og endurheimt vistkerfa og votlendis með auknum grænum hvötum og breytingu á styrkjakerfi landbúnaðarins.
- Loftslagsvænn landbúnaður þarf að verða eftirsóknarverðari og hagkvæmari valkostur sem styður við bætt kjör bænda.
- Banna skal veiðar á hvölum og öðrum sjávarspendýrum í íslenskri lögsögu í samræmi við vilja og ákall almennings.
- Stuðla skal að hringrásarhagkerfi sem nýtir allar auðlindir með sjálfbærum hætti, dregur úr myndun úrgangs, minnkar sóun, eykur endurnotkun, endurvinnslu og lágmarkar urðun. Fyrirtæki bera höfuðábyrgð á að lágmarka umhverfisáhrif sín.
- Gera ætti grænþvott refsiverðan að lögum og draga þarf úr losun vegna framleiðslu og neyslu á vörum og styðja enn frekar við nýsköpun og tæknilausnir í baráttunni við loftslagsvána, svo sem vegna kolefnisföngunar og förgunar.
Mikilvægt er að loftslagsmál og réttur fólks til heilnæms umhverfis fléttist inn í alla pólitíska stefnumótun. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í loftslagsmálum, loftslagsvá og náttúra: https://vg.is/stefna/loftslagsva-og-nattura/
Samgöngumál
Mikilvægt er að auka fjárfestingu og viðhald í samgöngum svo að unnt sé að tryggja öruggar samgöngur og stytta vegalengdir og ferðatíma milli byggða og atvinnusvæða. Þannig verði lagður grunnur af velsæld og verðmætasköpun um land allt.
- Framlög til samgönguáætlunar verði aukin svo að unnt sé að flýta brýnum verkefnum í samgönguáætlun, jarðgangnaáætlun fjármögnuð og staðið við samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu.
- Hraða þarf uppbyggingu göngu- og hjólastíga. Setja þarf lög um almenningssamgöngur, tryggja orkuskipti þeirra, efla þær um allt land og tryggja að þær séu aðgengilegar hreyfihömluðu fólki. Flýta þarf uppbyggingu Borgarlínu eins og kostur er og efla Strætó tafarlaust með stuðningi ríkisins. Grænni tengingu milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar þarf að forgangsraða.
- Stytta þarf leiðir, fækka einbreiðum brúm, gera tímasetta áætlun um gerð jarðgangna og bæta vetrarþjónustu og tryggja þannig greiðar og öruggar samgöngur um land allt.
- Mikilvægt er að hafa skýra jafnréttis- og kynjavinkla í samgöngum, bæði hvað varðar aðgengi og ákvarðanatöku
- Taka þarf mið af náttúruvernd við ákvarðanir um uppbyggingu vegakerfisins.
- Styðja þarf enn frekar við innviðauppbyggingu á flugvöllum utan suðvesturhornsins.
- Þá þarf að gera bragabót á vegum landsins. Breikka þarf vegi, setja rifflur á miðju þeirra þar sem pláss er og koma vegriði fyrir víðar.
Stuðningur við almenningssamgöngur og aðrar aðgerðir í loftslagsmálum eru fjárfesting í framtíðinni. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í orkumálum: https://vg.is/stefna/orkumal/ Stefna Vinstri grænna í byggðamálum: https://vg.is/stefna/byggdamal/
Sjávarútvegsmál
Vinstri græn leggja ríka áherslu á sjálfbæra nýtingu, ábyrga umgengni um auðlindir hafsins og mikilvægi grunnrannsókna og fræðilegrar þekkingar.
- Vinstri græn vilja standa vörð um sameign þjóðarinnar á nytjastofnum sjávar og treysta sameignina í sessi með auðlindaákvæði í stjórnarskrá.
- Þjóðin skal njóta arðs eða auðlindarentu þegar einkaaðilar fá aðgang að sameiginlegri auðlind hennar, og enginn á að geta fengið þessi gæði til eignar eða varanlegra afnota. Þau sem fá heimildir til að nýta auðlindir landsins verða að greiða stærri hluta af ágóðanum í sameiginlega sjóði. Gagnsæi um eignatengsl í sjávarútvegi verði eflt samhliða því að veiðigjöld á stórútgerðina verði hækkuð.
- Hið umhverfislega, samfélagslega og byggðalega samhengi þarf að hafa vægi ásamt hinu hagræna í nálgun á greinina. Hreyfingin telur eðlilegast að nýtingarleyfi séu í tiltekin afmarkaðan tíma í senn og gegn eðlilegu gjaldi.
- Mikilvægt er að áfram verði unnið að aukinni sátt um sjávarútveginn. Þar er lykilatriði að auka gagnsæi að því er varðar stjórnunar- og eignatengsl greinarinnar, tryggja vistkerfisnálgun og verndarhagsmuni þegar horft er til auðlinda hafsins.
- Nauðsynlegt er að tryggja réttindi sjómanna og endurskoða verðlagningarkerfi fiskveiða til að tryggja réttlátan hlut þeirra.
- Leggja þarf áherslu á innlenda verðmætasköpun og að fiskvinnsla eigi sér stað á Íslandi.
- Hreyfingin leggur áherslu á orkuskipti skipaflotans og hann verði allur knúinn af endurnýjanlegum orkugjöfum í síðasta lagi árið 2040, en mikilvægum áföngum náð fyrr.
- Endurhugsa þarf verndun og nýtingu lífríkisins á grunnslóð og hvað snertir staðbundnar tegundir.
- Fjölga þarf friðuðum svæðum í hafi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar okkar.
Það er lykilatriði að auka gagnsæi varðandi stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi og tryggja vistkerfisnálgun og verndarhagsmuni. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna um auðlindir hafs og stranda: https://vg.is/stefna/audlindir-hafs-og-stranda/
Skattamál
Vinstri græn telja að skattar eigi að þjóna markmiðum um öflugt velferðarsamfélag og aukinn jöfnuð. Framsækið skattkerfið á að færa fjármuni til þeirra sem þurfa frá þeim sem geta. Velferðarsamfélag byggir á því að sanngjarnir skattar fjármagni öflug heilbrigðis- og menntakerfi og öryggisnet sem grípa þau sem hrasa.
- Fjármagnstekjuskattur á að vera þrepaskiptur þannig að stóreignafólk greiði hærra hlutfall heldur en venjulegt fólk af hóflegum sparnaði.
- Hin efna- og eignameiri leggi meira af mörkum.
- Framfærsla eldra fólks og fólks á örorkulífeyri á aldrei að vera lægri en lágmarkslaun.
- Innleiða skal hóflegan auðlegðarskatt á eignir ríkasta eina prósentsins, að undanskildu íbúðarhúsnæði.
- Tryggja þarf aukið jafnræði með því að loka leiðum til að fela tekjur og einkaneyslu í einkahlutafélögum.
- Stórauka þarf skatteftirlit en skattaundanskot hafa verið metin yfir100 milljarðar á hverju ári.
- Skattkerfið þarf sífellt að vera til skoðunar og í víðtæku samráði stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og ýmis heildarsamtök.
- Tilfærslukerfin þurfa að tryggja að fólk með lægri laun geti lifað með reisn. Persónuafsláttur á að nýtast lág- og millitekjuhópum sem best og fylgja þróun verðlags..
- Hækka þarf veiðigjöld á stórútgerðina.
- Grænar skattaívilnanir geta nýst til að ná markmiðum í umhverfismálum. Nýfjárfestingar eiga að uppfylla loftslagsmarkmið og ekki skulu gerðir frekari ívilnandi fjárfestingasamningar um mengandi starfsemi. Skattaívilnunum ætti að beita til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum sem og til matvælaframleiðslu sem uppfyllir loftslags- og sjálfbærnimarkmið.
- Ísland á að leggja sitt lóð á vogarskálar í alþjóðlegri viðleitni til að koma böndum á fjölþjóðafyrirtæki og auðhringa sem koma sér undan eðlilegum skattgreiðslum og taka þátt í samstarfi um upplýsingaskipti og aukið gagnsæi í skattamálum.
Skattamál eru réttlætismál. Jöfnuður næst aðeins með réttlátri skattbyrði. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í efnahagsmálum: https://vg.is/stefna/efnahagsmal/
Stjórnarskrármál
Vinstri græn vilja að lokið verði við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar til að þjóðin eignist framsækna stjórnarskrá.
- Vinstri-græn leggja sérstaka áherslu á að ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd og þjóðareign á náttúruauðlindum verði innleidd í stjórnarskrá.
- Þá er tímabært að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.
- Hér eftir sem hingað til leggur VG áherslu á að byggja á fyrri vinnu, þar á meðal tillögum stjórnlagaráðs, en telur um leið að eðlilegt sé að vinna að breytingum í áföngum og taka sjálfstæða afstöðu til einstakra álitamála.
Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna um lýðræðismál: https://vg.is/stefna/lydraedismal/
Orkumál
Vinstri græn telja að orkuauðlindir og orkuinnviðir eigi að vera í almannaeign og að greiða eigi auðlindagjald til þjóðarinnar fyrir notkun orkuauðlinda.
- Greiða ber sanngjarnt gjald af nýtingu auðlinda í þjóðareign, hvort sem það er land, orka, vindur, sjávarauðlindin eða annað.
- Styrkja þarf flutningskerfi raforku þannig að allir landsmenn búi við gott aðgengi að raforku, fullnægjandi afhendingaröryggi, jafnan dreifingarkostnað og jafnt aðgengi til orkuskipta með það að markmiði að draga úr losun. Setja skal lög um ábyrgð orkufyrirtækja til að uppfylla orkuþörf fólksins í landinu. Stórnotendur skulu greiða tilhlýðilegt verð fyrir orkuna, kostnað við flutning og afhendingu. Lækka skal raforkukostnað innlendrar matvælaframleiðslu.
- Orkuvinnsla í almannaeigu á að fá forgang fram yfir orkuvinnslu á vegum einkafyrirtækja og draga verður úr eignarhaldi erlendra fyrirtækja í orkufyrirtækjum á Íslandi.
- Gæta þarf þess að íslenskum vistkerfum, óbyggðum víðernum, náttúruminjum og ásýnd landsins sé ekki fórnað að óþörfu í nafni grænnar orku. Bæta þarf nýtingu í virkjunum sem fyrir eru.
- Vinna skal gegn öllum hugmyndum varðandi orkusölu um sæstreng til annarra landa.
- Banna skal rafmyntargröft og takmarka nýja orkufreka starfsemi, s.s. gagnaver.
- Nýta skal orku til orkuskipta innanlands og flýta útfösun á jarðefnaeldsneyti með það markmið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
- Marka þarf stefnu hið fyrsta um nýtingu vindorku á landi og hafi í íslenskri lögsögu og setja þarf skýrar reglur um innheimtu auðlindagjalds af vindorkuvirkjunum sem renna á til samfélagsins alls. Vindorka skal áfram heyra undir rammaáætlun.
- Koma ætti í veg fyrir að erlendir aðilar fái að nýta vind til raforkuframleiðslu í hagnaðarskyni.
- Vindorkuver á landi eiga aðeins heima á þegar röskuðum svæðum með tengingu við orkuinnviði sem fyrir eru í almannaeigu.
Náttúran er friðhelg og nýting hennar er undantekning ekki sjálfsögð regla. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna um orkumál: https://vg.is/stefna/orkumal/
Umhverfismál
VG stendur vörð um ósnortna náttúru. Þau sem nýta auðlindir í þjóðareign, hvort sem það er land, orka, sjávarauðlindin eða annað, eiga að greiða sanngjarnt gjald af þeirri nýtingu.
- Alþingi þarf að tryggja auðlindaákvæði í stjórnarskrá ásamt skýru ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd.
- Festa þarf mengunarbótaregluna betur í sessi.
- Banna þarf olíuleit og -vinnslu innan lögsögu Íslands og vinna áfram að banni við flutningi og bruna svartolíu á Norðurslóðum.
- Ísland getur náð einstökum árangri í náttúruvernd á alþjóðavísu með því að vernda óbyggð víðerni. Stefna ber að verndun a.m.k. 30% lands og hafsvæða fyrir árið 2030.Til þess þarf m.a. að efla þarf stjórnsýslu náttúruverndarmála og landvörslu.
- Stofna ber þjóðgarð á miðhálendi Íslands og á Vestfjörðum. Slíkir þjóðgarðar eru mikilvægir einkum til að tryggja vernd jarðfræðilegrar og líffræðilegrar fjölbreytni.
- Endurskoða þarf löggjöfina um rammaáætlun með náttúru- og minjavernd að leiðarljósi, alþjóðlegar skuldbindingar um líffræðilega fjölbreytni og landslagsheildir og byggja jafnframt á mati á framkvæmd gildandi löggjafar í samráði við hagaðila og sérfræðinga.
- Endurskoða þarf stærðarviðmið virkjanaframkvæmda þar sem megavött eru ómarktækur mælikvarði á umhverfisáhrif og halda þarf áfram vinnu við endurskoðun á regluverki vegna vindorku.
- Almenningur, sér í lagi ungt fólk, á að hafa beina aðkomu að ákvörðunum um umhverfis- og auðlindamál og tryggja þarf réttarstöðu náttúruverndarsamtaka samkvæmt Árósarsamningnum.
- Koma þarf á heildstæðri lagaumgjörð um lagareldi, fjölga friðuðum svæðum, þ.m.t. Í Eyjafirði, Seyðisfirði og Öxarfirði, setja inn hvata til umhverfisvænni framleiðslu og tímasetja útfösun á eldi í opnum sjókvíum.
- Bændur eru vörslumenn landsins. Styrkja þarf möguleika þeirra til að byggja afkomu sína á náttúruvernd, t.a.m. með varðveislu og endurheimt landgæða og umsjón friðaðra svæða.
- Landnýtingarstefna Íslands á að byggjast á sjálfbærri nýtingu þar sem vernd og endurheimt vistkerfa spilar stórt hlutverk, þ.m.t. skóglendis og kjarrlendis, mólendis og votlendis.
Ísland á að vera í forystu um róttækar, raunhæfar og réttlátar aðgerðir í umhverfismálum á alþjóðavettvangi.Náttúran er friðhelg og skal alltaf njóta vafans! Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna um loftslagsvá og náttúru: https://vg.is/stefna/loftslagsva-og-nattura/
Útlendingamál
Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að fjölbreytileiki sé styrkur hvers samfélags og að íslenskt samfélag eigi taka þeim fagnandi sem hingað koma óháð uppruna þeirra eða þeim forsendum sem dvölin byggir á. Vinna þarf að markvissri inngildingu í samfélaginu og valdeflingu jaðarsettra hópa.
- Öllum innflytjendum þarf að vera tryggð íslenskukennsla þeim að kostnaðarlausu, á vinnutíma og án launataps. Einstaklingar skulu ekki líða fyrir tungumálakunnáttu sína og uppruna í samskiptum við stjórnvöld og stofnanir. Mikilvægt er að auðvelt aðgengi sé að upplýsingum, túlkun, þjónustu og ráðgjöf, réttindi og skyldur að frumkvæði stjórnvalda. Konur af erlendum uppruna eru oft útsettari fyrir kerfisbundinni mismunun og ofbeldi og skal sérstaklega gætt að réttindum þeirra í allri upplýsingagjöf, stefnumótun og opinberri þjónustu.
- Endurskoða verður skipulag og vinnubrögð Útlendingastofnunar þannig að starfsemi stofnunarinnar taki fullt tillit til Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og annarra alþjóðlegra mannréttindasamninga.
- Við eigum að taka vel á móti fólki á flótta og umsækjendum um alþjóðlega vernd. Skilvirkni kerfisins á aldrei að vera á kostnað mannúðar- og réttlætissjónarmiða, og afgreiðsla umsókna á að vera skjót og fagleg. Ef aldur barns er á reiki skal barnið ætíð njóta vafans. Sé nauðsynlegt að leggja mat á aldur barns skal gera það með heildstæðu mati og aldrei skal notast við aldursgreiningar á tönnum.
- Mikilvægt er að taka undir ítrekaðar ábendingar Sameinuðu þjóðanna um heimild ríkja til að taka umsóknir til efnismeðferðar. Standa vörð um upphaflegan tilgang Dyflinnarsamstarfsins.
- Vinnumarkaðurinn þarf að meta þá menntun og reynslu innflytjenda og flóttafólks svo flest geti starfað við sitt fag, sjálfu sér og samfélaginu öllu til góða.
- Skapa þarf aðstæður svo innflytjendur hafi jafnan kost á að taka þátt í stjórnmálum.
Fólk sem hingað leitar hefur sömu mannréttindi og aðrir í okkar samfélagi. Fordómar, hatur og tortryggni gagnvart innflytjendum eða útlendingum verða ekki liðnir á Íslandi. Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í málefnum innflytjenda og fólks á flótta: https://vg.is/stefna/innflytjendur-og-folk-a-flotta/
Velferðarmál
Aðgengi að velferðarþjónustu eru mannréttindi.
- Vinnum markvisst gegn fátækt barna. Bætum hag tekjulægri fjölskyldna með því að halda áfram að styrkja barnabótakerfið, með áherslu á einstæða foreldra.
- Útrýmum biðlistum í þjónustu við börn þar sem hvorki efnahagur né búseta mega vera hindranir. Styrkja þarf verulega meðferðarúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda.
- Klárum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með tímasettri áætlun í samstarfi við sveitarfélögin. Afnema þarf skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og hækka fæðingarstyrk.
- Einfalda þarf bótakerfið, lífeyrisþegum til hagsbóta og hækka framfærslu tekjulægstu lífeyrisþega. Grípa þarf snemma inn í þegar fólk tapar starfsgetunni og tryggja í auknum mæli þjónustu og stuðning strax á fyrstu stigum.
- Lögfesta þarf Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
- Tryggja þarf nægt fjármagn til málaflokks fatlaðra og greiðan aðgang að hjálpartækjum. Auka þarf sérstaklega tækifæri fatlaðs fólks á vinnumarkaði.
- Vinna þarf áfram að notendasamráði og valdeflingu notenda velferðarþjónustunnar.
- Forvarnarstarf þarf að styrkja. Efling heilbrigðrar sjálfsmyndar barna og fræðsla um holla lífshætti og gagnkvæma virðingu, eru bestu forvarnirnar. Efla þarf forvarnir í geðheilbrigði og stuðning og ráðgjöf í skólum.
- Móta þarf markvissa stefnu í áfengis-, tóbaks- og vímuvarnarmálum. Tryggja þarf fólki með vímuefnavanda öruggt og tryggt meðferðarúrræði.
- Snúa þarf af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn sölu, innflutningi og framleiðslu.
- Brýnt er að endurskoða lög og bæta aðstæður langveikra og alvarlega fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra.
- Réttur fólks til grunnþjónustu á að vera tryggður með skilgreiningu á lámarksþjónustuviðmiði ríkis og sveitarfélaga. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á að vera mannsæmandi.
Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://x24.vg.is/kosningaaherslur-vg/ Stefna Vinstri grænna í velferðarmálum: https://vg.is/stefna/velferdarstefna/ Stefna Vinstri grænna um jöfnuð og félagslegt réttlæti: https://vg.is/stefna/jofnudur-og-felagslegt-rettlaeti/