Viðreisn
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Formaður
Atvinnumál
Viðreisn leggur áherslu á samkeppni, sjálfbærni, nýsköpun og jafnrétti í öllum atvinnurekstri og treystir frjálsum markaði almennt til að skila mestum ábata fyrir Ísland. Hlutverk stjórnvalda er að búa fyrirtækjum hagstæð rekstrarskilyrði og draga úr efnahagssveiflum. Í því ljósi þarf að einfalda regluverk, tryggja virka samkeppni og minnka flækjustig í leyfisveitingum á vegum hins opinbera.
Ísland er þekkingarland. Uppbygging alþjóðlegs þekkingariðnaðar og atvinnulífs er leiðin að aukinni hagsæld. Móta þarf atvinnu- og iðnaðarstefnu til lengri tíma þar sem skýrt kemur fram í hvaða atvinnu og grænum iðnaði sækja skal fram og hvernig verður stutt við þá sókn.
Viðreisn styður aukna framleiðslu endurnýjanlegrar orku, græna atvinnuuppbyggingu og framleiðslu rafeldsneytis.
Leyfum bændum að blómstra. Draga þarf úr miðstýringu í landbúnaði og auka frelsi, bæði neytendum og bændum til hagsbóta. Losa þarf um krafta nýsköpunar og auka fjölbreytni í landbúnaði. Endurskoða þarf styrkjakerfi landbúnaðarins til að efla hag bænda og gera greinina sjálfbærari.
Við þurfum að byggja upp faglega og trausta ferðaþjónustu. Fjárfesta þarf í innviðum á ferðamannastöðum um allt land til verndar umhverfi og náttúru og tryggja jafnari dreifingu ferðamanna um landið.
Viðreisn vill að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindum okkar og að samningar séu tímabundnir. Með afnotasamningum til langs tíma yrði óvissu eytt og fyrirsjáanleiki mikill, á sama tíma og eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindum sé staðfestur.
Byggðarmál
Fólk þarf að hafa valkosti um hvar það býr sér heimili. Með því að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu er stuðlað að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Efling allra landsbyggðarkjarna með öflugum innviðum gerir sveitarfélögum kleift að laða til sín íbúa og atvinnuskapandi fyrirtæki.
Viðreisn vill gera starfsfólki í stjórnsýslu og hjá stofnunum ríkisins mögulegt að vinna í sinni heimabyggð. Á stærri þéttbýlisstöðum ýmist eru eða er auðvelt að setja upp vinnurými fyrir starfsfólk ríkisins þaðan sem það getur unnið sín daglegu störf í fjarvinnu. Þannig styrkist landsbyggðin.
Viðreisn styður sameiningu og stækkun sveitarfélaga með það fyrir augum að draga úr yfirbyggingu og efla nærþjónustu á hagkvæman hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að fela þeim fleiri verkefni sem nú er sinnt af ríkisvaldinu, enda séu það hagsmunir íbúa.
Efnahagsmál
Heimilin eiga betra skilið. Við finnum öll fyrir verðbólgunni. Ekki síst heimilin. Það kostar venjulegt fjölskyldufólk hálfan handlegginn að kaupa í matinn.
Og núna stressa sig margir, jafnvel fólk með ágætar tekjur, á því hvort þvottavélin bili, fresta viðhaldi á heimilinu og jafnvel að neita sér um heimsókn til tannlæknis.
Vextir á Íslandi eru sambærilegir vöxtum í stríðshrjáðum löndum. Fyrir þessu finna heimili og fyrirtæki. Ríkisstjórn síðustu sjö ára hefur rífist sín á milli en ekki sameinast um mikilvæg verkefni. Óstjórnin skilar því að ekki er reiknað með að verðbólga nái eðlilegum markmiðum fyrr en 2026. Háir vextir hafa fylgt í kjölfarið.
Ungt fólk getur ekki keypt íbúð í ástandi sem einkennist af ójafnvægi og ófyrirsjáanleika. Háir vextir og ónógt lóðaframboð hafa hægt á byggingu nýrra íbúða sem eykur enn vandann. Við viljum tryggja að ungt fólk upplifi að lífskjör og lífsgæði á Íslandi standist samanburð við önnur lönd.
Það verður ekki meira lagt á heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki sem nú þegar glíma við þunga byrði vegna verðbólgu og vaxta. Skattahækkanir á vinnandi fólk og lítil og meðalstór fyrirtæki koma ekki til greina.
Við þurfum nýja ríkisstjórn sem setur í forgang að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og greiða niður skuldir ríkissjóðs og gera þannig sitt til að ná niður verðbólgu og vöxtum fyrir heimili og fyrirtæki. Raunverulegur sparnaður næst ekki með því að skera flatt niður um 2% eða 10% heldur þegar mótuð er skýr sýn á það sem skiptir mestu máli. Það felur í sér að sumt fær aukin framlög en öðru er frestað eða því einfaldlega sleppt.
Viðreisn ætlar að
- Lækka verðbólgu og vexti.
- Greiða niður skuldir og lækka vaxtabyrði ríkisins.
- Fara betur með opinbert fé, fækka stofnunum og verkefnum þeirra.
- Framlengja heimild til að nýta séreignarsparnað sem innborgun á húsnæðislán.
- Losa ríkisjarðir fyrir húsnæðisuppbyggingu.
Evrópumál
Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu lýðræðisþjóða er kjarni í stefnu Viðreisnar. Ísland á að auka enn frekar þátttöku sína í Evrópusamstarfinu og gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu.
Á þeim forsendum leggur Viðreisn áherslu á að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið að undangengnu samþykki þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu. Það þýðir að haldin verði fyrst þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna og síðar um samningsdrög, þegar þau liggja fyrir.
Núverandi þátttaka Íslands í Evrópusamstarfinu í gegnum samninginn um Evrópska Efnahagssvæðið hefur reynst mjög vel í 30 ár og hefur verið undirstaða hagvaxtar og bættra lífskjara. Það er óviðunandi að Ísland taki ekki þátt í stefnumótun og ákvörðunum um eigin örlög, ákvörðunum sem við verðum að hlýta eigi að síður. Sjálfstæð og fullvalda þjóð á ekki að sætta sig við þessa stöðu heldur stíga skrefið til fulls.
Heilbrigðismál
Biðlistar í heilbrigðiskerfinu eru allt of mikið vandamál. Sérstaklega þegar kemur að heimilislæknum. Fátt er dýrara fyrir samfélagið en að láta fólk bíða eftir þjónustu. Öll eigum við að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag. Bráðavandi og biðlistar í heilbrigðis- og velferðarkerfinu undanfarin ár hefur í raun skapað skilyrði fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi, þar sem þeir efnameiri geta keypt sig fram fyrir röð.
Í heilbrigðiskerfinu leggur Viðreisn áherslu á valfrelsi og þjónustumiðaða nálgun. Heilbrigðisþjónusta er okkur mjög persónuleg og því eigum við að hafa mikið um það að segja hver þjónustar okkur. Það skiptir meira máli að hafa aðgang að þjónustunni en hvernig ríkið greiðir sinn hlut.
Það þarf að setja aukið fjármagn í að mæta bráðaþjónustu í heilbrigðisþjónustu. En það þarf líka að klára að kostnaðarmeta verk innan heilbrigðiskerfisins, svo að fjármagn byggi á réttri greiningu og þörf.
Sérstaklega skal líta til Landspítalans og styrkja stoðir hans. Mikilvægt er að létta undir með spítalanum og fela öðrum verkefni sem falla utan skilgreinds ramma.
Húsnæðismál
Ein mikilvægasta efnahagsaðgerðin felst í að koma á jafnvægi á húsnæðismarkaði.
Á framboðshlið hafa verktakar ekki byggt nóg. Verð fasteigna hefur rokið upp. Erfiðara er nú að komast inn á markaðinn en oftast áður, sérstaklega fyrir ungt fólk. Til að vinna gegn þessu þarf að tryggja að byggingarmagn anni eftirspurn og jafnvægi sé á markaðnum. Verðbólgu verður að hemja og koma á stöðugleika, sem eykur fyrirsjáanleika. Við eigum að hafa vissu um hverjar afborganir verða næstu árin.
Viðreisn styður að fólki verði áfram gert kleift að ráðstafa séreignarsparnaði inn á íbúðalán og fyrstu kaupendur geti ráðstafað séreignarsparnaði við útborgun á fyrstu eign.
Í ríkisstjórn mun Viðreisn hafa forgöngu um eftirfarandi aðgerðir til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði:
- Fjölga lóðum á eftirsóknarverðum stöðum Ríkið á fjölda lóða sem Viðreisn vill selja til framkvæmdaaðila. Þar má byggja 2.000 – 2.500 íbúðir. Við gerðum þetta síðast þegrar við vorum í ríkisstjórn og munum gera það aftur.
- Lækka vexti Viðreisn leggur höfuðáherslu á jafnvægi í ríkisfjármálum. Til að Seðlabankinn geti lækkað vexti verður að reka ríkissjóð með afgangi. Lægri vextir lækkar kostnað framkvæmdaaðila og eykur framboð á húsnæðismarkaði. Samhliða því minnkar greiðslubyrði heimila með húsnæðislán og fjölgar þeim sem fá greiðslumat.
- Einfalda byggingareglugerð Kröfur til húsnæðis eru orðnar of strangar og ítarlegar. Byggingareglugerðir verða í samstarfi við fagfólk endurskoðaðar með það fyrir augum að lækka byggingarkostnað, án þess það komi niður á gæðum húsnæðis. Þetta gerir fleirum kleift að komast í eigið húsnæði.
- Séreignarsparnaður Viðreisn styður að fólki verði áfram gert kleift að ráðstafa séreignarsparnaði inn á íbúðalán og fyrstu kaupendur geti ráðstafað séreignarsparnaði við útborgun á fyrstu eign.
Jafnréttismál
Frjálslyndi, frelsi og jafnrétti er leiðarstef Viðreisnar á öllum sviðum. Skapa þarf öllum landsmönnum jöfn tækifæri og styðja þau sem ekki geta nýtt tækifærin.
Viðreisn vill tryggja jöfn réttindi fyrir öll, óháð kyni, kynþætti eða kynvitund, með heildstæðri löggjöf sem byggir á mannréttindum og sjálfræði einstaklingsins.
Við munum standa vörð um rétt kvenna til að stjórna eigin líkama og berjast gegn kynbundnu ofbeldi.
Við viljum uppræta kynbundinn launamun og jafna stöðu kynja á vinnumarkaði með sérstakri áherslu á bætingu kjara kvennastétta. Við viljum tryggja að jafnréttislöggjöf á vinnumarkaði nái til hinsegin fólks og stuðli að jöfnum tækifærum, óháð kyni, kynhneigð eða kyneinkennum.
Menntamál
Menntun er undirstaða jafnréttis, tækifæra og velferðar í samfélagi okkar og er um leið forsenda framþróunar. Eitt aðal verkefni stjórnvalda hvers tíma er að tryggja að hér sé öflugt menntakerfi sem undirbýr fólk fyrir verkefni framtíðarinnar.
Til þess að hér þrífist öflugt menntakerfi þá þurfa skólar og kennarar að hafa burði til þess að sinna mismunandi þörfum nemenda. Borið hefur á því á undanförnum árum að skólar hafa ekki verið studdir nægjanlega til að sinna hlutverki sínu. Sem dæmi þurfa kennarar í auknum mæli að sinna námsgagnagerð fremur en að fá að nýta tíma sinn í kennslu og undirbúning og úrvinnslu hennar. Við þessu þarf að bregðast. Það þarf að veita kennurum og öðru starfsfólki gott starfsumhverfi, með áherslu á starfsþróun og tæknivætt starfsumhverfi. Það þarf einnig að efla stuðning við nemendur og kennara innan skóla til að mæta þörfum nemenda með öflugu teymissamstarfi fagfólks á sviðum velferðar, heilbrigðis og menntastofnanna, líkt og þroskaþjálfa, stuðningsfulltrúa og talmeinafræðinga. Stoðþjónusta innan menntakerfis er nauðsynleg nemendum og því vill Viðreisn tryggja gott aðgengi að sálfræðiþjónustu og náms- og starfsráðgjöf á öllum skólastigum. Sérstaklega þarf að huga að því að auka stuðning við kennara vegna nemenda með litla færni í íslensku og útbúa handa þeim námsgögn.
Viðreisn vill gera það eftirsóknarvert að sinna kennslu á öllum skólastigum og við vitum að til þess þarf að skapa gott starfsumhverfi og góð starfskjör en líka að það sé hvati að fara í kennaranám.
Nám fer fram alla ævi og því er mikilvægt að byggja brýr milli allra skólastiga og tryggja frelsi einstaklinga til að stunda nám sem hentar hverjum og einum.
Námslán og skólagjöld taki mið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Viðreisn vill efla enn frekar styrkja- og lágvaxtalánakerfi námslána.
Loftslagsmál
Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því neyðarástandi sem vofir yfir heimsbyggðinni. Við verðum að taka stór skref strax og koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga.
Loftslagsvá af mannavöldum og hnignun vistkerfa er raunverulegt ástand. Við eigum að virða alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum og setja okkur mælanleg markmið.
Það þarf að stuðla að hröðum orkuskiptum á öllum sviðum. Öflugasta og skilvirkasta verkfæri stjórnvalda til þess eru hagrænir hvatar á borð við kolefnisgjald sem leggist á alla losun og græn áhersla í skipulagsmálum. Viðreisn leggur áherslu á tekjuhlutleysi í stað aukinnar skattheimtu þannig að kolefnisgjöldum verði mætt með samsvarandi lækkun á öðrum sköttum og gjöldum. Þannig verði hægt að ná mikilvægri sátt um loftslagsaðgerðir og tryggja að þeir borgi sem mengi.
Samgöngumál
Við þurfum að fjárfesta í samgöngukerfinu öllu, þ.m.t. höfnum og flugvöllum. Innviðaskuld í samgöngukerfinu hefur byggst upp og tryggja þarf framkvæmdir eftir að afgreiðslu samgönguáætlunar hefur ítrekað verið frestað.
Nútímavæðing innviða, í þágu samfélags, umhverfis og öryggis þarf að verða forgangsmál nú og í náinni framtíð. Horfa ber til aðkomu einkaframtaksins í slíkum fjárfestingum og útgáfu grænna skuldabréfa í verkefnum sem stuðla að vistvænum samgöngum.
Viðreisn styður beina gjaldtöku af vegamannvirkjum til að kosta framkvæmdir og koma þeim hraðar að veruleika.
Valfrelsi skal vera forsenda gjaldtöku, þannig að það sé valkostur að greiða gjaldið ekki. Borgarlína og þjóðvegastokkar á höfuðborgarsvæðinu, ásamt aðskilnaði akstursstefna á þjóðvegum við höfuðborgarsvæðið, verði sett í forgang.
Sjávarútvegsmál
Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar. Við viljum að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindunum okkar og að samningar um auðlindanýtingu séu tímabundnir. Í stað veiðigjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári og boðinn út sem nýtingarsamningur til 20 ára, með því yrði pólitískri óvissu eytt og fyrirsjáanleiki greinarinnar þar með meiri auk þess sem eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni væri staðfest.
Með þessu fyrirkomulagi fæst sanngjarnt markaðsverð sem ræðst hverju sinni af framboði og eftirspurn innan greinarinnar, og umgjörð sjávarútvegs verður skýr, gagnsæ og stöðug til frambúðar. Stöðug pólitísk óvissa er neikvæð fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein.
Viðreisn vill að hluti markaðsgjaldsins renni til sjávarútvegsbyggða til að styrkja innviði á þeim svæðum.
Skattamál
Í núverandi vaxta- og verðbólguumhverfi kemur ekki til greina að auka skatta á einstaklinga og lítil og meðalstór fyrirtæki.
Tekjuöflun ríkissjóðs á að byggja á réttlátri og hóflegri skattlagningu, þar sem allir bera réttlátar byrðar. Viðreisn leggur áherslu á að við endurskoðun skattlagningar fjármagnstekna sé mikilvægt að taka tillit til raunávöxtunar.
Unnið skal markvisst gegn skattaundanskotum bæði innanlands, jafnt sem erlendis í formi skattaskjóla. Efla þarf skattrannsóknir og styðja alþjóðlegt samstarf til að tryggja að einstaklingar og fyrirtæki greiði sanngjarna skatta þar sem tekjur verða til.
Finna þarf leiðir til að skattleggja erlend tæknifyrirtæki sem selja þjónustu, áskriftir eða auglýsingar hér á landi.
Stjórnarskrármál
Stjórnarskrá skal tryggja eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum til framtíðar.
Með breytingum á stjórnarskrá skal tryggja jöfnun atkvæðavægis og einnig jafnræði meðal trú- og lífsskoðunarfélaga með fullum aðskilnaði ríkis og kirkju.
Orkumál
Til að orkuskipti geti orðið að veruleika þarf að tryggja nægt framboð endurnýjanlegrar orku og öfluga innviði. Viðreisn styður aukna framleiðslu endurnýjanlegrar orku, græna atvinnuuppbyggingu og framleiðslu rafeldsneytis.
Tryggja þarf orkuöryggi um allt land með uppbyggingu og styrkingu flutningskerfis raforku og koma í veg fyrir að orkuskortur hamli byggðaþróun. Auka þarf gagnsæi og skilvirkni á raforkumarkaði til að skapa jafnvægi á milli eftirspurnar og framboðs og koma í veg fyrir offjárfestingu í raforkuvinnslu.
Skoða verður einföldun laga og reglna til að flýta ákvarðanatöku um virkjanakosti og legu háspennulína.
Fjárhagslegur ávinningur af nýtingu orkuauðlinda á að renna til samfélagsins í ríkara mæli en tíðkast hefur. Nýting vindorku er kjörið tækifæri til þess að skilgreina og tryggja að gjaldtaka sé á þann hátt að samfélagið sjái hag í nýtingu auðlindarinnar. Vindorkuver geta nýst til að auka orkuöryggi einstakra svæða og unnið gegn hættu á að orkuskortur hamli byggðaþróun
Mikilvægt er að taka ferli rammaáætlunar til gagngerrar endurskoðunar svo hún virki sem skyldi og eyða þarf óvissu um reglur og lög sem gilda um uppbyggingu vindorku.
Umhverfismál
Stærstu áskoranir samtímans eru á sviði umhverfismála. Ísland á að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og því neyðarástandi sem vofir yfir heimsbyggðinni. Leið Viðreisnar í ríkisstjórn er að koma á hvötum þannig að þeir borgi sem menga. Sjálfbær og ábyrg umgengni við náttúruauðlindir, þar sem náttúruvernd helst í hendur við nýtingu, er lykillinn að grænni framtíð. Öll mál eru umhverfismál.
Móta þarf heildstæða stefnu, í samráði við sérfræðinga, um sjálfbæra landnýtingu sem byggir á vernd vistkerfa- og jarðminja, tekur tillit til bættrar vatnsverndar, og rýrir ekki náttúrugæði landsins. Draga þarf almennt úr losun frá landi og stórauka bindingu í jarðvegi og gróðri.
Náttúra Íslands, með sína líffræðilegu og jarðfræðilegu fjölbreytni, er ein okkar dýrmætasta auðlind. Okkur ber því skylda til að vernda villta íslenskra náttúru og fjölbreytni landslagsins fyrir komandi kynslóðir. Besta leiðin til að halda utan um vernd og nýtingu villtrar náttúru er markviss auðlindastjórnun.
Útlendingamál
Ísland á að vera fjölbreytt og opið samfélag þar sem að fólk, óháð uppruna á að njóta jafnræðis og tækifæra. Á undanförnum árum hefur töluverður fjöldi fólks af erlendum uppruna flust til Íslands, til að vinna og finna ný tækifæri til að blómstra í góðu samfélagi. Við eigum að njóta góðs af menningarlegum fjölbreytilega landsins. Viðreisn vill auðvelda fólki utan EES, sem hingað vill koma, að fá atvinnuleyfi að kanadískri fyrirmynd.
Tilvera fólks af erlendum uppruna á ekki að vera pólitískt þrætuefni og Viðreisn tekur ekki þátt í þeim harkalega málflutningi sem tíðkast í auknum mæli um fólk af erlendum uppruna. Viðreisn telur mikilvægt að stjórnmálaflokkar á Íslandi myndi sér sameiginlega stefnu sem allir geti sætt sig við og hefur ekki í för með sér að fólk í mjög viðkvæmri stöðu verði ítrekað skotspónn í harkalegri pólitískri umræðu.
Ísland getur hvorki verið galopið né algerlega lokað. Við þurfum að geta tekið vel á móti þeim sem þurfa vernd og vilja koma hingað og verða hluti af íslensku samfélagi. Af því leiðir að fjöldinn verður því að vera viðráðanlegur og málsmeðferð má ekki taka of langan tíma.
Mikilvægt er að útlendingum sé auðveldað að læra íslenskuog hafa skal íslenskunámið aðgengilegt og á forsendum hvers og eins. Þetta gerir nútímatækni vel mögulegt. Kunnátta í tungumálinu er lykill að virkri og helbrigðri þáttöku í samfélaginu. Við eigum að læra af reynslu annara þjóða, bæði þeirra sem gert hafa mistök og þeirra sem gert hafa vel í innflytjendamálum.
Velferðarmál
Faraldur vanlíðunar hefur geysað meðal barna og ungmenna undanfarið. Kvíði og þunglyndi er vaxandi vandi samkvæmt rannsóknum. Ofbeldi, ótti og fíkniefnaneysla færast í aukana sem við sjáum á skelfilegum atburðum sem hafa snert við okkur öllum.
Biðlistar eftir greiningum og annarri þjónustu eru langir og bið eftir viðeigandi aðstoð sömuleiðis. Þetta eru mál sem við sem samfélag þurfum að leysa. Börn eiga ekki að vera á biðlistum.
Við þurfum að styðja við alla sem koma að uppeldi og umönnun barna og unglinga. Við viljum efla skólana okkar, forvarnir og fræðslu, bjóða ókeypis sálfræðiþjónustu og tryggja að öll börn hafi jöfn tækifæri. Viðreisn vill að opnuð verði fleiri úrræði og tryggt að börn og fjölskyldur þeirra sem þurfa á stuðningi að halda detti ekki á milli kerfa.
Viðreisn leggur áherslu á að einfalda þau kerfi sem eiga að halda utan um fólk og að þau verði sveigjanlegri. Enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Lífeyriskerfi almannatrygginga skal einfaldað og dregið úr vægi skerðinga.
Framboð af hjúkrunarheimilum og öðrum úrræðum verður að vera í samræmi við fyrirsjáanlega þörf. Tryggja þarf fjölbreytt búsetuúrræði fyrir eldra fólk, þar sem fólki sé gert kleift að búa lengur heima hjá sér með góðum stuðningi. Samhæfa þarf stuðning ríkis- og sveitarfélaga.
Viðreisn leggur áherslu á að starfslok miðist við færni og starfsvilja, fremur en aldur.
Sköpum samfélag sem byggir á þátttöku allra og virðum frelsi fólks til að stjórna eigin lífi. Styðjum fólk með skerta starfsgetu til starfa með aukinni starfsendurhæfingu og bættri geðheilbrigðisþjónustu.
Fjarlægja á þær hindranir sem standa í vegi þess að tryggja mannréttindi og samfélagsþátttöku fatlaðs fólks. Fjölga á samningum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) og tryggja gæði þjónustunnar. Viðreisn telur löngu tímabært að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.