Sósíalistaflokkurinn

sosialistaflokkurinn.is

Sósíalistaflokkurinn's Formaður: Sanna Magdalena Mörtudóttir

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Formaður

Logo

Atvinnumál

Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Fólk skal njóta virðingar, mannsæmandi kjara, góðra vinnuaðstæðna og öryggis á vinnustað. Styrkur launafólks felst í einingu þess í gegnum öflug verkalýðs- og stéttarfélög. Setja þarf fram framfærsluviðmið og tryggja að grunntaxti lágmarkslauna og skattleysismörk fari aldrei undir það viðmið. Sósíalistar leggja áherslu á að hið opinbera leiði með góðu fordæmi í kjaraviðræðum og komi í veg fyrir kennitöluflakk og launaþjófnað með öflugri lagasetningu og viðurlögum. Koma skal í veg fyrir að ríki og sveitarfélög útvisti störfum (t.d. þrifum og mötuneyti) sem keyrir niður kjör og réttindi starfsfólks. Sósíaistaflokkurinn leggur áherslu á að vinnustaðir og stjórnir fyrirtækja verði lýðræðisvæddir. Þá þarf að endurskoða tryggingargjald sem leggst þyngra á smáfyrirtæki og meðalstór þar sem launakostnaður er almennt hlutfallslega stærri hluti útgjalda þeirra en hjá stórfyrirtækjum. Til að ýta undir sköpun starfa er skynsamlegt að lækka mjög tryggingargjald hjá fyrstu starfsmönnum hvers fyrirtækis. Slík ráðstöfun væri í reynd nýsköpunarframlag til smárra fyrirtækja og hvati til einstaklinga um að stofna sín eigin fyrirtæki. Eyða þarf samkeppnisforskoti stórfyrirtækja og vernda smærri fyrirtæki fyrir ásælni þeirra. Það er mikilvægt að atvinnulífið hafi seiglu og hana má byggja upp með styrkingu smárra fyrirtækja og fjölgun samvinnufyrirtækja. Sósíalistaflokkurinn er með ítarlega stefnu í vinnumarkaðsmálum og einnig er fjallað um þennan málaflokk í öðrum stefnum flokksins.

Byggðarmál

Sósíalistaflokkur Íslands vill vernda byggðina um landið og náttúruna. Takmarkanir skulu settar á eignarhald jarða þannig að einstaklingar eða fyrirtæki geti ekki safnað upp jörðum. Þá skal fiskveiðikvóti endurheimtur og byggðum sem áður blómstruðu en hafa orðið fyrir tjóni vegna kvótaframsals braskara bætt það upp, sjá nánar m.a. í stefnu Sósíalistaflokksins í auðlindamálum. Sósíalistaflokkurinn leggur til að fiskveiðistefna verði mótuð til lengri tíma þar sem sjómenn, fiskverkafólk og almenningur mótar fiskveiðistefnuna. Þá þarf að leggja áherslu á mjög góðar samgöngur innan hvers sveitarfélags þannig að allir íbúar geti notið þjónustu innan þess án mikils kostnaðar og fyrirhafnar. Þá skal styrkja alla innviði svo hver landsfjórðungur verði sjálfbær og ekki þurfi að sækja mikilvæga þjónustu annað. Stefna Sósíalistaflokksins er að íbúar landsins búi við sem líkust skilyrði frá hinu opinbera og geti sótt sér þjónustu í heimabyggð. Þannig verði opinber þjónusta veitt af sveitarfélögum og staðbundnum stjórnvöldum og þjónustu sem ríkið veitir verði einnig dreift um landið. Tryggja skal öryggi íbúa landsbyggðarinnar með uppbyggingu þeirra innviða sem þarf svo sem með betri heilbrigðisþjónustu svo að hver fjórðungur sé til þess bær að sinna lækningum, endurhæfingu og almennri heilsu íbúanna með sjúkrahúsum og heilsugæslum og hjúkrunarrýmum íbúum að kostnaðarlausu eins og segir í stefnu Sósíalistaflokksins um heilbrigðismál. Tryggja þarf öryggismál á landsbyggðinni með nauðsynlegum orkuverum, fjarskiptabúnaði, snjóflóðavörnum og annarri nauðsynlegri þjónustu og að rafmagn og varaaflsstöðvar séu til staðar í öllum byggðum. Þá þurfa að liggja fyrir skýrar og þekktar viðbragðsáætlanir með rýmingaráætlunum þar sem hætta er á eldgosum eða öðrum náttúruhamförum. Gera þarf öllum byggðarlögum jafn hátt undir höfði með réttlátri valddreifingu. Þá er stefna Sósíalistaflokksins sú að vægi atkvæða til kosninga verði jafnt og óháð búsetu þegar kemur að kosningum til Alþingis. Sjá nánar í byggðastefnu og öðrum stefnum.

Efnahagsmál

Sósíalistaflokkurinn leggur höfuðáherslu á að tekjuöflun ríkissjóðs verði gerð réttlátari. Það er forsenda þess að hægt sé að stöðva skuldasöfnun ríkisins sem dregur niður lífskjör almennings bæði til lengri og skemmri tíma. Undanfarna áratugi hefur stefna stjórnvalda í ríkisútgjöldum leitt til aukins kostnaðar almennings í þjónustu hvort heldur heilbrigðis-, mennta- eða annarri grunnþjónustu t.d. með allskyns greiðsluþátttökukerfum. Nýfrjálshyggjan og dekur hins opinbera við fjármagnseigendur og stórfyrirtæki hefur leitt af sér aukna misskiptingu í samfélaginu og er bilið á milli auðugra og þeirra sem búa við fátækt sístækkandi. Í kjölfar skattalækkana á hátekju- og stóreignafólk myndaðist gat í ríkissjóði sem leiddi til hallareksturs. Það er eitt af því sem ýtir undir verðbólgu. Til að ná niður verðbólgunni vilja Sósíalistar reka ríkissjóð í jafnvægi, það þarf að draga til baka umræddar skattalækkanir sem hafa átt sér stað frá árinu 1991, ekki bara vegna hallareksturs heldur til þess að lækka skatta á þorra almennings. Skortur á húsnæði hefur leitt til hækkunar húsnæðisverðs, sem keyrir áfram verðbólgu. Hið opinbera verður að koma að húsnæðisuppbyggingu til þess að lækka húsnæðisverð til lengri tíma. Sjá nánar inni á vefsíðu Sósialistaflokksins.

Evrópumál

Ójöfnuður fer vaxandi í heiminum og ríkasta eina prósentið verður æ ríkara og valdameiri á meðan almenningur verður valdalausari. Þannig hefur kapítalisminn og græðgisvæðing heimsins náð undirtökunum í gegnum stórfyrirtækin, sem stjórnvöld einstakra ríkja og alþjóðlegar stofnanir þjóna. Afleiðingin er niðurbrot samfélaga og lýðræðis, náttúrugæða og loftslags. Vinnuvernd og sú verkalýðsbaráttu, sem víða var byggð upp á síðustu öld, hefur verið veikt og almenn grunnmannréttindi og velferð lúta í lægra haldi. Við stöndum frammi fyrir mestu fólksflutningum sögunnar þar sem fólk flýr heimalönd sín vegna, lífsgæða, loftslagsvár eða styrjalda. Sósíalistaflokkurinn hafnar því alþjóðavæðingu hins fjármálavædda kapítalisma en styður alþjóðlega samvinnu sem hefur það að markmiði að vinna gegn auðvaldi og kúgun. Að landið tryggi tengsl við næstu nágrannaþjóðir, auki samskipti við aðrar smáþjóðir og vinni að því að koma á stofnun friðarbandalags meðal þjóða í stað hernaðarbandalags. Að staðið sé með lýðræði og mannréttindum hvar sem er og baráttunni gegn auðvaldi og kúgun á alþjóðavettvangi. Að Ísland sé herlaust land, fari aldrei með ófriði á hendur öðrum ríkjum né styðji slíkar aðgerðir heldur vinni að friðsælum lausnum deilumála. Að auka lýðræðislega aðkomu almennings að ákvarðanatöku varðandi veigamestu þætti heildstæðrar utanríkisstefnu og allar stærri ákvarðanir sem komi til álita og varða alþjóðlegt samráð og þátttöku í stærri bandalögum verði settar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að styðja við alþjóðasamvinnu en hafna alþjóðavæðingu á forsendum auðvaldsins. Að styðja við verkalýðsbaráttu um allan heim og samvinnu verkalýðshreyfingarinnar milli landa, vinna gegn mansali og kúgun verkafólks. Ef að vilji þjóðarinnar er til að kjósa um aukið samstarf og stórra samninga á milli evrópuríkja er eðlilegt að leggja slíkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Heilbrigðismál

Heilbrigðisþjónusta tekur til allra þátta heilbrigðis: líkamlegs, tilfinningalegs og geðheilbrigðis. Þar með talið tannlækningar og tannréttingar, sálfræðiþjónusta, sjúkra-og iðjuþjálfun sem og þjónusta talmeinafræðinga, áfengis- og fíkniefnameðferðir auk ráðgjafar og stuðnings fyrir fólk sem orðið hefur fyrir ofbeldi og öðrum áföllum.Að á Íslandi verði gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta rekin af skattfé borgaranna. Vinna þarf gegn markaðsvæðingu í heilbrigðisþjónustu og koma jafnvægi á þjónustuna miðað við þarfagreiningu. Að unnið verði markvisst að eflingu heilsugæslunnar. Að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði notuð í þjónustu við fatlaða, óverjandi er að fjöldi fólks sé á bið eftir lögbundnum stuðningi. Að unnið verði samkvæmt langtímamarkmiðum í heilbrigðisþjónustu og fjármagn til heilbrigðismála og reksturs Landspítala Háskólasjúkrahúss verði í samræmi við kröfur um nútímavædda heilbrigðisþjónustu. Að lyfjakostnaður verði að fullu niðurgreiddur og lyfjaverslun almennings sett á fót, með sterku gæðaeftirliti og bestu lyfjum sem völ er á. Að forvarnir og lýðheilsa verði efld og stuðlað að því að ríkið veiti þá þjónustu.Að komið verði á fót embætti umboðsmanns sjúklinga. Að geðsvið Landsspítala Háskólasjúkrahúss, sem og Barna- og unglingageðdeild verði efld og geti sinnt eðlilegri neyðarþjónustu. Að endurhæfing sé ávallt í boði fyrir langveika, sem vilja bæta heilsu sína og lífsskilyrði. Að öldruðum sé tryggð þjónusta við hæfi hvort heldur með heimahjúkrun, plássi á hjúkrunarheimili eða sjúkrastofnun. Að heilsugæsla og sjúkrahúsþjónusta á landsbyggðinni verði efld. Bæta þarf starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna og efla teymisvinnu. Að grundvöllur velferðar og heilbrigðis sé einnig tryggður með öðrum nauðsynlegum umhverfisþáttum svo sem réttlátu og góðu húsnæðiskerfi, menntakerfi, atvinnulífi og launastefnu sem og almannatryggingakerfi. Geðheilbrigðisþjónustu þarf að efla innan spítala og á heilsugæslu sem og neyðarúrræði fyrir börn og unglinga. Nauðsyn er að huga að skólakerfum og geðheilbrigði. Rannsóknir sýna að því fyrr sem brugðist er við því meiri líkur eru á að koma megi í veg fyrir alvarlegri afleiðingar síðar. Skólar á öllum menntastigum skulu hafa aðgang að geðheilbrigðisstarfsfólki í gegnum heilsugæsluna.

Húsnæðismál

Sósíalistaflokkur Íslands lagði fram tillögu undir heitinu Stóra húsnæðisbyltingin fyrir síðustu Alþingiskosningar, sú nálgun gildir enn og mikilvægt að framtíðaruppbygging verði unnin á þeim forsendum þar sem m.a. er gert ráð fyrir stofnun húsnæðissjóðs almennings.

Jafnréttismál

Sósíalistaflokkur Íslands telur að félagsleg staða, kyn, uppruni, kynferði, kynverund, fátækt eða fötlun skuli ekki skerða réttindi fólks að nokkru leyti og að sá stuðningur félags- eða heilbrigðisþjónusta sem langveikir eða fatlað fólk þarf að nýta sér til að sitja við sama borð og aðrir séu mannréttindi sem beri að virða samanber samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og um réttindi geðfatlaðra sem ríkisstjórn Íslands ber að samþykkja og staðfesta. Virða skal allar alþjóðlegar mannréttindastefnur sem Ísland er aðili að og samþykkja hina ýmsu viðauka sem gerir yfirvöld raunverulega ábyrg og skyldar þau til að bregðast við óréttlæti svo sem húsnæðisleysi eða órétti á vinnumarkaði.

Taka skal upp samvinnu við alla minnihluta- og eða notendahópa og miða alla áætlanagerð ríkis og sveitarfélaga út frá stéttavinkli og fjölbreytileika en ekki einungis út frá kynjum. Þar er mikilvægt að skoða hvernig þættir eins og efnahagsleg staða , uppruni, hinseginleiki eða fötlun móta veruleika fólks. Að öll lögbundin þjónusta við börn sé með öllu gjaldfrjáls og sérstaklega sé hugað að þörfum, réttindum og vernd barna.Börn eiga að njóta sérstakrar verndar þegar kemur að kynrænu sjálfræði, aðgerðir séu ekki gerðar á börnum undir lögaldri.

Huga þarf að og laga regluverk er varðar kynbundið ofbeldi innan lands og utan og að unnið sé gegn hvers kyns ofsóknum, hatursorðræðu og heimilisofbeldi, ofbeldi gegn fólki af ákveðnu kyni, uppruna, fötluðu fólki og hinsegin fólki. Að sjálfsákvörðunarréttur fólks sé fyllilega virtur þegar kemur að þungunarrofi, ófrjósemisaðgerðum eða öðrum inngripum sem tengjast líkama þess og eða kyni.

Að slagorðið „Ekkert um okkur án okkar“ sé ávalt haft í heiðri í öllum stjórnvaldsákvörðunum og alltaf leitað samvinnu við þá sem málin varða. Ítarlega stefnu í jafnréttismálum má finna inni á vef flokksins. Sjá nánar

ATH stefnuyfirlýsingu Sósíalískra femínista sem nálgast má hér: https://sosialistaflokkurinn.is/2021/03/08/sosialiskir-feministar-stefnuyfirlysing/

Menntamál

Sósíalistaflokkur íslands telur að menntun barna og ungmenna skuli vera gjaldfrjáls sem og háskóla- og framhaldsnám á vegum hins opinbera. Að skólamáltíðir á grunn- og framhaldsskólastigi séu gjaldfrjálsar.

Að komið sé í veg fyrir stéttskiptingu milli skóla og innan þeirra með aðgerðum til jöfnuðar og stuðlað að vellíðan nemenda og starfsfólks,með því að draga úr samkeppni og tryggja smærri hópa í námi. Að lýðræðisvitund nemenda og starfsfólks á öllum skólastigum sé virkjuð.

Að börnum og ungmennum séu tryggðar gjaldfrjálsar tómstundir og menningartengt nám og að þær séu færðar inní skólahúsnæðið eins og kostur er og metnar til náms,þá má einnig nýta skólabyggingar betur til að mynda með að innflytjendum á öllum aldri sé tryggt það val að fá íslenskukennslu og innflytjendabörnum einnig móðurmálskennslu. Að börnum á flótta sé tryggð menntun til jafns við önnur börn og að allir skólar bjóði upp á þann stuðning sem nemendur þurfa á að halda óháð biðlistum og greiningum. Tryggja þarf að störf kennara séu metin að verðleikum og gerð eftirsóknarverð og að tengsl menntunar og vinnumarkaðar séu í samstarfi við verkalýðsfélög. Sósíalistar vilja tryggja virkt rannsókna-, vísinda- og fræðaumhverfi á Íslandi.

Tekið verði upp styrkjakerfi fyrir stúdenta í stað námslaunakerfis og kerfið gert manneskjulegra þar sem allir hafi færi á að mennta sig hvort heldur er á iðn-, tækni-, háskóla- eða sérskólastigi. Endurskoða þarf gamla námslánakerfið með leiðréttingu í huga og gera fólki kleift að gera upp lánin sín með eðlilegri greiðslubyrði og fella þau niður þegar við á. Mikilvægt er að styðja í auknum mæli við rannsóknir og stofnun nýrra námsbrauta einkum í grunnnámi á háskólastigi til að búa okkur undir framtíðina. Þá verði boðið upp á fjölbreytt framhaldsnám á háskólastigi og tryggt að ný þekking berist til landsins. Tryggja þarf sjálfstæða rannsóknarsjóði og koma í veg fyrir að hægt sé að greiða arð úr þeim. Endurskoða skal ráðningarferli háskólakennara og tryggja nægilegt fjármagn fyrir lausráðið akademískt starfsfólk. Þá skal auka og efla styrki til rannsóknar- og doktorsverkefna.

Loftslagsmál

Eyðilegging náttúru af mannavöldum, loftslagsbreytingar og mengun eru afleiðing kapítalismans, þess að auðvaldið hefur fengið að ráða ferðinni og farið sínu fram. Umhverfisváin á því sömu rót og sú hætta sem vofir yfir samfélögunum, sem er alræði auðvaldsins. Eina leiðin til að byggja upp gott samfélag og verja náttúrugæðin er að almenningur taki völdin af auðvaldinu. Auðvaldið er hin ríku sem lifa ofan við samfélag alþýðu manna og telja sig ekkert hafa að sækja í þau grunnkerfi sem byggð voru upp á síðustu öld til að bæta lífskjör og réttindi almennings. Þau telja sig heldur ekki bundin af reglum samfélagsins, starfa eftir því eina boðorði að það sem þau græða á hljóti að vera rétt. Og hin ríku telja sig einnig geta varist náttúruhamförum og loftslagsbreytingum, keypt sér herragarða á svæðum þar sem minni líkur eru á afleiðing loftslagsbreytinga valdi skaða. Kaupa sér jafnvel jarðir á Íslandi til að eiga hér skjól fyrir þeim skaða sem þau sjálf valda. Það er því óhugsandi að lausn finnist á eyðileggingu umhverfis og samfélags án þess að að breyta valdajafnvæginu í samfélögunum. Undir alræðisvöldum auðvaldsins munu samfélögin verða brotin og náttúrugæðin eyðilögð. Frumforsenda þess að vinna gegn loftslagsbreytingum og stöðva eyðileggingu náttúrugæða er því að taka völdin af auðvaldinu. Það er stærsta aðgerðin í loftslagsmálum. Sjá nánar

Samgöngumál

Að vegakerfi landsbyggðarinnar verði bætt án veggjalda og að almenningssamgöngur verði á samfélagslegum forsendum, niðurgreiddar og stórbættar út frá hverjum landshluta fyrir sig. Vinna markvisst að umhverfisvænum lausnum í samgöngumálum svo sem með aukinni notkun rafvæddra ökutækja, strætó/borgarlínu og að hvetja til samnýtingar á bílum. Almenningssamgöngur þarf að efla um allt land og gera aðgengilegri fyrir alla hópa en einnig að gjaldfrjálst verði í strætó/borgarlínu.

Að launakjör og starfsumhverfi starfsmanna í almenningssamgöngum séu bætt.

Að þjónusta fólks í nærumhverfi sínu sé bætt þannig að hægt sé að draga úr löngum akstursleiðum sér í lagi á landsbyggðinni en einnig að almenningur geti tekið þátt í uppbyggingu samgangna í sínu nærumhverfi og lagt til lausnir að betri hverfum með samvinnu við stjórnvöld.

Að Internetið sé hluti af samgöngumálum og innviðir fjarskipta séu í almannaeigu.

Að strandflutningar verði efldir og að þungaflutningar fari sjóleiðina eftir því sem kostur er og hafnir rafvæddar en daglegar nauðsynjavörur fari landleiðina.

Samgöngur eru grunnþjónusta sem allir eiga að hafa góðan aðgang að hvort heldur landfræðilega eða efnahagslega svo fólk komist leiðar sinnar innan lands, innan borgar, bæja og á landsbyggðinni.

Sósíalistaflokkur Íslands vill að öll helstu samgöngumannvirki á landinu séu í eigu þjóðarinnar en ekki einkarekin eða rekstri þeirra útvistað. Þannig skal vegagerðin sem slík vera í eigu almennings og fjármögnun vega og allra samgöngumannvirkja ávallt vera í lagi. Þá sé tryggt að skattar sem eyrnamerktir eru vegagerðinni skili sér í þann málaflokk og ekki lögð veggjöld eða önnur gjöld á göng eða brýr.

Samgöngukerfið skal byggt upp með samgönguöryggi allra að leiðarljósi hvort sem er með hjólastígum, göngustígum, eða sérakreinum fyrir strætó og aðra sérumferð innan borgar, bæja eða milli staða á landsbyggðinni. Þá sé hugað að almannavörnum um allt land og öllum gefinn kostur á gjaldfrjálsum öryggisbúnaði eins og endurskinsmerkjum eða borðum.

Sjávarútvegsmál

Að leyfi til auðlindanýtingar leiði aldrei til eignarréttar af nokkru tagi né annarskonar óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum. Að fiskveiðistjórnunarkerfið í núverandi mynd sé afnumið og undið ofan af þeim ójöfnuði og spillingu sem það hefur valdið. Að nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi verði sett á laggirnar og allur kvóti verði innkallaður. Að leyfi til fiskveiða og nýtingar sjávarnytja innan íslenskrar lögsögu séu veitt tímabundið, til hóflegs tíma í senn, gegn gjaldi svo þjóðinni sé tryggt sanngjarnt verð fyrir auðlindina. Að auðlindanýting fiskveiða og annarra sjávarnytja sé háð leyfum sem skulu vera skilyrt staðbundið til að viðhalda byggð um landið og þau ekki framseljanleg. Að umhverfisvernd verði innleidd að meira marki en nú er í kringum sjávarútveginn.

Skattamál

Setja ber í lög að óheimilt sé að innheimta tekjuskatt eða útsvar hjá fólki sem er með lægri tekjur en sem nemur eðlilegum framfærslukostnaði. Breyta þarf skattkerfinu með því að lækka lægsta skattþrepið og hækka persónuafslátt en hækka skattprósentuna í efri þrepum á móti svo skattalækkun til fólks undir fátæktarmörkum lækki ekki skattbyrðina upp eftir öllum skattstiganum.Tilboð sósíalista er að vinda ofan af skattabreytingum nýfrjálshyggjuáranna og lækka skattbyrði tekjuskatts á miðlungs og lægri tekna um 700 þús. kr. á ári. Þetta er ekki byltingarkenndari hugmynd en svo, að hún myndi aðeins færa okkur til þess réttlætis sem ríkti fyrir þrjátíu árum og hafði ríkt þá áratugum saman. Eitt af einkennum nýfrjálshyggjuáranna var niðurbrot barnabóta. Það kostar um 52,9 milljarða króna að veita öllum börnum á landinu persónuafslátt sem væri útgreiðanlegur ef foreldrarnir nýttu hann ekki. Þangað eigum við að stefna í fáum öruggum skrefum svo öll börn fái barnabætur upp á rúmlega 50 þús. kr. á mánuði, sömu upphæð og fullorðnir fá í persónuafslátt. Að hluta til yrði hækkunin fjármögnuð með brattari skattstiga og hátekjuþrepum, svo að foreldrar með tekjur í þriðja skattþrepi væru jafnsett á eftir en allar barnafjölskyldur með góðar miðlungstekjur og þar undir væru mun betur settar. En gjaldfrjálsir innviðir eru líka mikilvægir fyrir atvinnulífið. Þeir ýta undir samkeppni með því að lækka stofnkostnað fyrirtækja, þar sem öll fyrirtæki hafa jafnt aðgengi að innviðum. Gjaldfrjáls opinber þjónusta útvegar fyrirtækjum menntaðra og heilsubetra starfsfólk og gætir barnanna meðan foreldrarnir eru við vinnu. Það var reynsla allra landa í okkar heimshluta að kröftug uppbygging gjaldfrjálsra opinberra innviða og þjónustu var forsenda aukinnar velmegunar. Niðurbrot þessara innviða á tímabili nýfrjálshyggjunnar er ógn við samfélagið. Að börn fái ekki á sig skattaálagningu innan 18 ára aldurs, mörk séu sett á eignir þeirra svo ekki sé hægt að misnota kennitölur þeirra í fjárhagslegum tilgangi. Þá verði dregið úr hvata til að borga ofurlaun t.a.m. með skattkerfi.

Stjórnarskrármál

Þjóðaratkvæðagreiðslur ber að nýta í mikilvægum málum er varða almannaheill og skal Alþingi virða þær eins og krafist er í nýrri stjórnarskrá. Ný stjórnarskrá skal taka gildi strax samkvæmt því ferli sem hófst með kosningu til stjórnlagaráðs árið 2010, sem lagði fram drög sem kosið var um og samþykkt með 66.9% greiddra atkvæða. Þá ber í framhaldinu að virða stjórnarskrána en jafnframt að umgangast hana sem lifandi samfélagssáttmála, sem getur tekið breytingu með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Orkumál

Stefna Sósíalistaflokksins snýr m.a. að því að orkuframleiðsla landsins verði ekki aukin að óþörfu umfram orkuþörf almennings, með tilheyrandi náttúruspjöllum og jarðraski. Að einkavæðing í orkuframleiðslu landsins verði lögð af með öllu. Gripið sé til ráðstafana svo að sú orkuframleiðsla sem nú er í einkaeigu sé færð í eigu þjóðarinnar. Að yfirvöld tryggi að orkuveita um landið allt sé í lagi og skilgreini raforku sem grunnþörf til búsetu á Íslandi.

Uppbygging Hitaveitu Reykjavíkur er eitt af afrekum Íslendinga. Í stað þess að brenna kol var borað eftir heitu vatni og byggt upp nýtt hitakerfi um allan bæ og síðar í nágrannabyggðum. Þetta var samfélagslegt verkefni sem af stærð, framsýni og getu var langt umfram það sem einkafyrirtæki réðu við. Hitaveitan sparaði gjaldeyri og losaði Reykjavík við óhollustu kolaryks og kolareyks. Uppbygging Hitaveitunnar ætti að vera landsmönnum fyrirmynd um frábæra auðlindanýtingu með samfélagsleg markmið. Samhliða Hitaveitunni voru byggðar upp vatnsveitur og rafmagnsveitur með sama hætti og sömu markmiðum. Almenningur tók sameiginlega lán og greiddi viðunandi verð fyrir orkuna svo veiturnar stæðu undir lánunum. Framtíðarsýnin var sú að með tíð og tíma væri framkvæmdakostnaðurinn greiddur niður og Reykvíkingar og nærsveitafólk gæti þá búið við ódýra, örugga og umhverfisvæna orku til allrar framtíðar. Sósíalistar vilja hverfa aftur til fyrri hugmynda; um að auðlindirnar séu notaðar til að byggja upp gott samfélag en séu ekki settar inn í opinber hlutafélög sem hegða sér eins og þau væru arðsemisdrifin fyrirtæki í eigu kapítalista með gróðann einan að markmiði. Sósíalistar hafa líka markað þá stefnu að allar orkuauðlindir skuli vera almenningseign og í opinberum rekstri ef frá eru skyldar borholur og smávirkjanir sem fólk byggir til eigin þarfa. Orkukerfið er grunnkerfi samfélagsins og uppbygging þess og rekstur skal vera á samfélagslegum grunni og með samfélagslegum markmiðum. Meginnýting orkunnar skal fara í að byggja hér upp sterkt samfélag með skýrum samfélagslegum áætlunum. Eins og til dæmis stórfelldri matvælaframleiðslu til að skapa störf, treysta byggðir, spara gjaldeyri, draga úr mengandi flutningum landa á milli og auka lífsgæði. Eins og til dæmis orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýtanlega hreina orku í samgöngum, flutningum, fiskveiðum og öðrum þeim atvinnugreinum sem enn nýta olíu, kol eða gas. Markmið þessa er að draga úr mengun, verjast loftslagsbreytingum, spara gjaldeyri, skapa störf og auka lífsgæði.

Umhverfismál

Að litið sé á umhverfis- og loftslagsmál sem mannúðarmál er varðar réttindi komandi kynslóða til lífs. Það skal því vera skylda stjórnvalda að vernda náttúru og lífríki og löggjafinn nýttur til þessa í hvívetna.

Að lýst sé yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og skulu íslensk yfirvöld bregðast við þeim vanda hratt og örugglega og í samvinnu við umheiminn. Að náttúran og lífríki hennar sé ávalt í fyrirrúmi í öllum ákvarðanatökum sem hana varða og að réttur komandi kynslóða til heilsusamlegs lífs sé ávalt sett ofar sjónarmiðum um fjárhagslegan gróða einstaklinga og fyrirtækja. Að róttæk skref séu tekin til að hætta notkun á einnota plasti og koma í veg fyrir plastmengun og ofpökkun með öllum tiltækum ráðum.Að stöðva frekari stóriðju og auka eftirlit með þeim stórfyrirtækjum sem fyrir eru með því markmiði að draga úr mengun. Ekki skal hleypa að í stofnun og rekstur,þeim fyrirtækjum innlendum sem erlendum sem sýnt hafa af sér virðingaleysi gagnvart náttúrunni.

Útlendingamál

Að útlendingalög landsins verði endurskoðuð frá grunni með mannúð og mannréttindi í öndvegi. Innflytjendabörn skulu eiga rétt á námi í venjulegum hverfisskóla svo í kringum þau myndist eðlilegt tengslanet. Íslenskukennsla sem og móðurmálskennsla skal vera í boði fyrir fólk af erlendum uppruna einnig þau sem komin eru af skólaskyldualdri. Þá skuli börn og ungmenni innflytjenda fá stuðning á öllum skólastigum, ekki síst framhaldsskólastigi. Túlkaþjónusta þarf að vera tryggð af hinu opinbera. Börn á flótta skulu eiga rétt á námi á sama hátt og önnur börn í landinu og séu þeim búnar viðunandi aðstæður. Móttöku flóttafólks skal sinna af alúð og veita fólki hraða og mannúðlega málsmeðferð. Endurskoða þarf þau lög sem við störfum eftir svo sem þeim sem kveða á um svokölluð örugg ríki en virða skal lög sem ríkið hefur sett sér þegar kemur að vernd barna og fólks í viðkvæmri stöðu.

Þá þarf ríkari áhersla að vera lögð á þvermenningu, samtali á milli ólíkra menningarheima innanlands. Yfirvöld eigi ekki viðskipti við fyrirtæki sem brjóta á mannréttindum fólks hvar sem er í heiminum liggi grunur fyrir um slíkt. Einnig skulu yfirvöld tjá sig opinberlega um hverskyns misrétti í alþjóðasamfélaginu til að undirstrika ábyrgð sína. Sósíalistaflokkur Íslands fordæmir aðgerðar- og sinnuleysi íslenskra stjórnvalda á meðan Ísraelsríki fremur skipulagt þjóðarmorð í Palestínu og fremur fjöldamorð í Líbanon með fulltingi Bandaríkjanna. Almennir borgarar og börn eru svelt, skotin, sprengd og brennd lifandi á meðan vestræn stjórnvöld horfa á og aðhafast ekkert til að stöðva stríðsglæpina eins og þeim ber skylda til samkvæmt stofnsáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Með afstöðu sinni eru þau samsek. Við krefjumst þess að Ísland slíti stjórnmála- og viðskiptasambandi við Ísrael. Einnig krefjumst við þess að engin hergögn verði flutt til Ísraels um íslenska lögsögu. Íslensk stjórnvöld eiga sömuleiðis umsvifalaust að styðja málsókn Suður Afríku gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag.

Velferðarmál

Á Íslandi er velferð lögbundin og skal vera aðgengileg öllum án skilyrða, óháð kyni, uppruna, aldri, trú, fötlun eða kynhneigð einnig þeim sem hingað koma vegalausir. Velferðarkerfið snýst um að skapa þær aðstæður sem þarf til að fólk finni til öryggis og líði vel, tryggja að grunnþörfum allra sé mætt svo fólk geti lifað með reisn og notið almennra mannréttinda í samræmi við ákvæði íslenskra laga og alþjóðlegra skuldbindinga.

Tryggja skal samstarf milli ríkis og sveitarfélaga svo grunnþjónusta velferðarmála sé ávallt áreiðanleg. Þá skal vera lögbundið að sveitarfélög veiti þjónustu í velferðarmálum hvort heldur er um húsnæði eða aðra grunnþjónustu að ræða. Þá skal ríkið sem og sveitarfélög reikna út og birta raunhæf neysluviðmið sem opinberar stofnanir og aðrir geta notast við í útreikningum sínum.

Opinberar stofnanir í þjónustu almennings skal ekki einkavæða og skal ríkið ekki styrkja hagnaðardrifna velferðarþjónustu. Þá skulu gilda ströng lög um hvaða eignar- og rekstrarform verði heimilt að nota í slíkri þjónustu og eftirlit haft þar með.

Notendur eiga að hafa virka og gilda aðild að stjórn velferðarkerfis í gegnum hagsmunahópa notenda. Þá sé hlustað á kröfur og ályktanir slíkra hópa en einnig sé hlustað á þarfir og vilja barna og í tilfelli barnaverndar sé einnig hlustað á fólk sem hafði reynslu af kerfinu á barnsaldri. Sjá nánar