Sjálfstæðisflokkurinn

xd.is

Sjálfstæðisflokkurinn's Formaður: Bjarni Benediktsson

Bjarni Benediktsson

Formaður

Logo

Atvinnumál

Stefna Sjálfstæðisflokksins í atvinnumálum byggir á frelsi einstaklinga til að nýta hæfileika sína, ásamt ábyrgð á eigin athöfnum. Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og stoð velferðarkerfisins. Flokkurinn leggur áherslu á að stjórnvöld skapi heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru burðarás íslensks hagkerfis.

Áhersla er lögð á einfalt og sanngjarnt skatta- og regluverk til að bæta samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa verið tekin markviss skref til að einfalda regluverk, efla samkeppnishæfni og stuðla að nýsköpun, þó enn sé verk að vinna.

Þannig eigi að vera einfalt að stofna og reka fyrirtæki, ráða starfsfólk og tryggja jafnræði í opinberri gjaldtöku milli atvinnugreina. Stjórnvöld skulu styðja stöðugleika í rekstrarumhverfinu og hvetja til nýsköpunar, sem er forsenda aukinnar framleiðni og hagvaxtar. Einfalt og skilvirkt eftirlit, auk bættra leyfisveitinga, er einnig lykilatriði til að ýta undir frekari framþróun atvinnulífsins.

Byggðarmál

Sjálfstæðisflokkurinn telur frelsi til vals um búsetu mikilvægt og leggur áherslu á að með öflugri grunnþjónustu verði byggð um allt land best tryggð. Tækifæri landsbyggðanna til aukinna lífsgæða íbúa verða best tryggð með tryggu og nægu rafmagni, fjölbreyttri menntun, góðum samgöngum og öflugum fjarskiptum. Einnig er brýnt að forsendur skapist fyrir fjölbreyttu námsframboði, jafnt með staðbundnu námi og fjarnámi. Mótuð verði heildstæð og framsækin byggðastefna til lengri tíma með áherslu á jöfn tækifæri til atvinnu og búsetu. Grunnur að auknum lífsgæðum er lagður með því að nýta gæði landsins sem best. Uppbygging og stuðningur við nýsköpun treystir búsetuskilyrði í landinu.

Efnahagsmál

Forgangsmál Sjálfstæðisflokksins er og hefur verið að minnka verðbólgu og lækka vexti. Þær áherslur sem flokkurinn hefur sett á oddinn um sölu ríkiseigna og skynsamt aðhald eru þegar teknar að skila sér í stýrivaxtaákvörðunum Seðlabankans og eru jákvæðar horfur fyrir veturinn.

Sjálfstæðisflokkurinn er þeirrar skoðunar að viðskiptafrelsi, virk samkeppni og skilvirkt skattkerfi séu grundvallaratriði fyrir öflugt efnahagslíf. Flokkurinn vill einfalda ferlið við stofnun fyrirtækja og ráðningar í störf á Íslandi, hvetja til nýsköpunar og tryggja að ríkið auðveldi fremur en hindri frumkvöðlastarfsemi. Til að auka samkeppnishæfni vill Sjálfstæðisflokkurinn bæta regluumhverfið með hagsmuni almennings í fyrirrúmi og tryggja jafnræði í viðskiptum innan EES. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru hornsteinar efnahagslífsins, og vill flokkurinn minnka regluverk og álögur til að styðja við einstaklinga í atvinnurekstri.

Sjálfstæðisflokkurinn vill framlengja heimild til ráðstöfunar séreignar inn á húsnæðislán, leyfa fjárfestingar í eigin eignasöfnum eins og hlutabréfum og veita skattafrádrátt fyrir slíkar fjárfestingar. Afnema skal stimpilgjald fyrir fyrstu kaupendur og veita 150 þúsund króna árlegan skattaafslátt með hverju barni undir þriggja ára. Þá vill Sjálfstæðisflokkurinn leyfa foreldrum að færa allt að 2 milljónir króna af séreignarsparnaði inn á séreign barna skattfrjálst. Sjálfstæðisflokkurinn vill hækka frítekjumark fjármagnstekna í 500 þúsund krónur og miða efsta þrep skattkerfisins við tvöfaldar meðaltekjur.

Evrópumál

Sjálfstæðisflokkurinn vill verja fullveldi, sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar og tryggja enn frekar efnahagslegt sjálfstæði landsins með viðskiptum og greiðum aðgangi að alþjóðamörkuðum. Flokkurinn leggur áherslu á að verja auðlindir og náttúru landsins. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa með bandalagsþjóðum gegn fjölþátta ógnum. Viðskipta-, stjórnmála- og menningartengsl við Evrópuríkin og Bandaríkin eru Íslendingum mikilvægust. Brýnt er að tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Áríðandi er að haldið verði áfram að efla hagsmunagæslu innan ramma EES og tryggja að möguleikar Íslands til áhrifa á fyrri stigum EES mála verði nýttir til fulls. Sjálfstæðisflokkurinn gerir verulegar athugasemdir við að tekin sé upp löggjöf í EES-samninginn sem felur í sér valdheimildir sem fellur utan ramma tveggja stoða kerfis samningsins og vill koma í veg fyrir hvers kyns gullhúðun. Ísland á mikið undir því að rækta góð viðskiptasambönd við sem flest ríki heimsins. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að fríverslunarsamningum við ríki utan Evrópska efnahagsvæðisins (EES) verði fjölgað, tvíhliða eða í samvinnu við önnur aðildarríki EFTA. Sjálfstæðisflokkurinn telur að hagsmunir Íslands séu best tryggðir með því að standa utan Evrópusambandsins.

Heilbrigðismál

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að bæta heilbrigðisþjónustu með öflugu samstarfi ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Sjálfstæðisflokkurinn vill innleiða þjónustutryggingu þannig ekki skipti máli hver veiti þjónustuna heldur að hún sé góð og aðgengileg öllum óháð efnahag. Til að efla heilbrigðiskerfið vill flokkurinn hvetja heilbrigðismenntað fólk erlendis til þess að snúa aftur heim úr námi með skattaívilnunum og bjóða fjárhagslega hvata til starfs á landsbyggðinni. Sjálfstæðisflokkurinn vill hvetja heilbrigðismenntað fólk til þess að snúa aftur heim úr námi með skattaívilnunum. Eins vill flokkurinn innleiða fjárhagslega hvata fyrir heilbrigðisstarfsfólk vegna starfa á landsbyggðinni. Sjálfstæðisflokkurinn vill virkja einstaklingsframtakið og nýsköpun í heilbrigðistækni. Efling heilsugæslu og heimaþjónustu er forgangsmál, ásamt því að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og einfalda niðurgreiðslukerfið. Áhersla er lögð á fjölbreytt rekstrarform með aukinni skilvirkni og jafna aðstöðu landsbyggðar með þátttöku í ferðakostnaði og tryggingu fæðingarþjónustu nær heimabyggð. Flokkurinn vill fjölga nemendum í heilbrigðisgreinum og bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks til að laða að hæft starfsfólk. Einnig á að leggja áherslu á forvarnir, aukna geðheilbrigðisþjónustu í skólum og að líta á fíkn sem heilbrigðisvanda. Sjálfstæðisflokkurinn styður nýsköpun og stafrænar lausnir í heilbrigðisþjónustu, með það að markmiði að auka hagkvæmni, útflutning og hagvöxt.

Húsnæðismál

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á öruggt íbúðahúsnæði, hvort sem er til eignar eða leigu. Að hafa þak yfir höfuðið er ein af grunnþörfum mannsins og leggja ber áherslu á fjölbreytt og hagkvæm húsnæðisúrræði. Sjálfstæðisflokkurinn vill fjarlægja hindranir og auðvelda ungu fólki að eignast eigið húsnæði enn frekar, en einnig stuðla að virkum leigumarkaði eins og þekkist víðast hvar í nágrannalöndunum með hagkvæmum úrræðum. Þannig verður til valkostur og valfrelsi enda vill Sjálfstæðisflokkurinn tryggja frelsi einstaklingsins til að ákveða ráðstöfun sinna fjármuna. Lögð skal áhersla á að brjóta nýtt land með því að skylda sveitarfélög til að tryggja nægt framboð á lóðum í takt við fjölgun íbúa. Þá vill Sjálfstæðisflokkurinn víkka út vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins, breyta skipulagslögum og fella niður neitunarvald Reykjavíkurborgar. Með því að einfalda byggingarreglugerð og hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað er unnt að lækka byggingarkostnað á nýju húsnæði.

Að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins var lögfest til 10 ára skattfrjáls ráðstöfun séreignasparnaðar vegna fyrstu íbúðakaupa. Sjálfstæðisflokkurinn vill að tímabundin heimild annarra til að ráðstafa séreignasparnaði inn á íbúðalán verði til frambúðar, samkvæmt sömu reglum og gilda um fyrstu kaup.

Byggingarkostnaður íbúðarhúsnæðis á Íslandi er mjög hár. Sú umgjörð sem yfirvöld hafa mótað fyrir byggingariðnaðinn er óskilvirk, tímafrek og dýr. Allar hindranir sem hamla því að framkvæmdaaðilar geti brugðist tímanlega við markaðsaðstæðum magna sveiflur, ýta undir óstöðugleika og auka þannig húsnæðiskostnað sem getur svo valdið ólgu á vinnumarkaði. Fasteignaverð hér á landi er hærra en það þyrfti að vera. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leiða útgönguna út úr frumskógi reglugerða og hamlandi opinberra afskipta af byggingariðnaðinum.

Jafnréttismál

Sjálfstæðisstefnan grundvallast á frelsi og ábyrgð, jafnrétti og samkennd. Hún er víðsýn og frjálslynd framfarastefna. Það er afstaða sjálfstæðisflokksins að allir eigi að búa við jöfn tækifæri óháð kynferði, kynhneigð, uppruna, trú eða öðrum þáttum. Fjölbreytileiki þrífst best í frjálsu samfélagi.

Sjálfstæðisflokkurinn vill áfram vera í fararbroddi þeirra sem vilja tryggja mannréttindi og auka réttindi hinsegin fólks. Þarft er að stíga áfram skref sem tryggja jöfn réttindi og jafna stöðu þeirra. Stjórnvöld þurfa að móta sér heildstæða stefnu í málefnum hinsegin fólks, í samstarfi við samtök þeirra, þar sem sérstaklega verði skoðað að styrkja stöðu hinsegin fjölskyldna, einkum með tilliti til ættleiðinga, skráningar og sjálfkrafa viðurkenningar samkynja foreldra. Ísland er, og á að vera í fararbroddi þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Fólki á að vera frjálst að skilgreina kyn sitt að vild. Brýnt er að fræðsla um málefni hinsegin fólks verði efld og veitt á öllum skólastigum og að umfjöllun um þau verði beitt við menntastefnu.

Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinga sem er grundvöllur jafnréttis. Við teljum það grundvallaratriði að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri einstaklinga óháð kyni, stöðu, uppruna eða öðrum þáttum.

Menntamál

Leggja þarf grunn að jöfnum tækifærum allra til menntunar, það er forsenda framfara og velferðar. Þjóðir sem ná árangri í menntamálum búa við fleiri tækifæri og betri lífskjör. Sjálfstæðisflokkurinn boðar stórsókn og umbreytingu á menntakerfinu.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á fjölbreytt og jöfn tækifæri til menntunar, og að auk opinbers rekstrar séu kostir einstaklingsframtaksins nýttir með öflugum sjálfstætt starfandi skólum og nýsköpun á sem flestum sviðum. Hið opinbera á að greiða það sama með hverjum nemanda, óháð rekstrarformi skólans sem hann sækir.

Skólastarfið þarf að miða meira að þörfum hvers og eins þannig að nemendur nái árangri á sínum forsendum. Sérstaklega þarf að huga að börnum með erlent móðurmál og drengjum, en þeir standa höllum fæti samkvæmt rannsóknum og alþjóðlegum samanburði. Grunnskólar eiga að leggja aukna áherslu á list- og verkgreinar til að búa nemendum betri grunn fyrir nám á þeim sviðum á framhaldsskólastigi. Taka ætti upp samræmd próf á ný og setja skýr markmið um betri árangur í PISA og læsi auk þess sem innleiða þarf nýja og gagnlegri aðalnámskrá, stórbætt námsgögn og nýsköpun með menntatækni og gervigreind.

Hér má lesa nánar um þær aðgerðir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað í menntamálum: https://xd.is/menntamal/

Loftslagsmál

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á markaðshagkerfi, samkeppnishæft atvinnulíf og takmörkuð ríkisafskipti. Til að draga úr kolefnislosun telur Sjálfstæðisflokkurinn farsælast að nýta markaðslausnir og tækni í stað íþyngjandi boða og banna. Atvinnulífið ætti að hafa frelsi, sveigjanleika og hvata til að þróa og innleiða nýja tækni og aðferðir sem minnka kolefnislosun á hagkvæman hátt, með áherslu á lágkolefnishagkerfi.

Til að ná loftslagsmarkmiðum er nauðsynlegt að stórauka grænorkuframleiðslu. Krafa bæði hérlendis og erlendis er að einfalda ferla, eins og leyfisveitingar, og tryggja skilvirkni opinberra stofnana. Því hefur Sjálfstæðisflokkurinn unnið að einföldun leyfisveitingaferla og sameiningu stofnana til að auðvelda orkuskipti.

Helstu verkfæri ríkisins til að stuðla að lágkolefnishagkerfi eru:

  • Skattalegir hvatar fyrir atvinnulífið sem leggja áherslu á græna tækni og minni losun.
  • Virkjun markaðskerfa eins og viðskiptamarkaði með kolefniseiningar.
  • Áhersla á nýsköpun í grænni tækni sem miðar að minni losun kolefnis.

Samvinna atvinnulífs og stjórnvalda er lykillinn að árangri í loftslagsmálum. Slík samvinna, ásamt einföldun regluverks og aukinni skilvirkni, tryggir að ákvarðanir byggist á bestu mögulegu upplýsingum og hvetur fyrirtæki til að taka frumkvæði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Dæmi um slíkt samstarf er vegvísir um vistvæna mannvirkjagerð frá 2022, þar sem byggingariðnaðurinn setti sér markmið um 43% samdrátt í kolefnislosun bygginga fyrir árið 2030.

Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hefur verið unnið að landsáætlun um aðlögun vegna hlýnunar loftslags og súrnunar sjávar. Í þeirri vinnu er litið til loftslagsþols byggða, innviða, atvinnuvega og seiglu fólks og lífríkis. Á næsta ári mun Loftslagsatlas Veðurstofunnar birtast, sem sýnir breytingar á hita, úrkomu og sjávarflóðum—grunnur að mati á áhrifum loftslagsbreytinga við Ísland.

Sjálfstæðisflokkurinn vill stórauka græna orkuöflun og tryggja næga orku til heimila og fyrirtækja. Græn orka er hornsteinn efnahagslegs árangurs þjóðarinnar. Með frekari orkunýtingu tryggjum við orkuöryggi og áframhaldandi lífskjaravöxt. Flokkurinn vill tryggja raforkuöryggi heimila og minni fyrirtækja, stórauka orkuöflun, flýta uppbyggingu virkjanakosta, stórbæta flutningskerfi raforku, endurskoða rammaáætlun og einfalda leyfisveitingar.

Samgöngumál

Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að bæta samgöngur með hraðari uppbyggingu og skynsamlegri nýtingu fjármuna, meðal annars í samstarfi við einkaaðila. Með þessu stuðlum við að auknu öryggi, bættu loftslagi, sterkari byggðum, atvinnusköpun og auknum hagvexti. Við viljum auka frelsi fólks í vali á samgöngumáta—hvort sem um er að ræða almenningssamgöngur, einkabíla, gangandi eða hjólandi—án þess að einn samgöngumáti þrengi að öðrum.

Mikilvægt er að tryggja arðbæra nýtingu fjármuna til að ná markmiðum um greiðari samgöngur, aukin lífsgæði og valfrelsi í samgöngum. Aukin áhersla verður lögð á uppbyggingu stofn- og tengivega um land allt. Móta skal áætlun um gerð jarðganga til lengri tíma, styrkingu ferjuleiða og viðhald flugvalla, auk uppbyggingar varaflugvalla. Greiðar og öruggar samgöngur eru mikilvægar undirstöður atvinnulífs og styrkja samkeppnishæfni byggðarlaga landsins.

Sjálfstæðisflokkurinn kallar eftir skýrari framkvæmd samgöngusáttmálans. Áhersla er lögð á verkefni eins og nýjar ljósastýringar, mislæg gatnamót á Bústaðavegi og Reykjanesbraut, Arnarnesveg og tengingu við Breiðholtsbraut. Ráðast þarf í flýtiframkvæmdir með fjölbreyttri fjármögnun og samstarfi við einkaaðila, til dæmis við Sundabraut sem er forgangsverkefni.

Til að auðvelda orkuskipti í samgöngum þarf að skapa raunverulega skattalega hvata fyrir einstaklinga og fyrirtæki og tryggja raforkuöryggi og -framboð um land allt. Endurskoða þarf vegalög og innleiða alþjóðlega staðla í vegagerð til að mæta aukinni umferð og stuðla að bættum umhverfisáhrifum.

Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir allt landið, og því er brýnt að hann verði óbreyttur í Vatnsmýri þar til annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar. Öruggar flugsamgöngur eru lífsnauðsynlegar fyrir landsbyggðina, og því þarf að efla sjúkraflug og tryggja áætlunarflug til og frá Vestmannaeyjum.

Sjávarútvegsmál

Íslenskur sjávarútvegur er burðarás í atvinnulífi um land allt og leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi. Atvinnugreinin er í daglegri samkeppni við erlendan ríkisstyrktan sjávarútveg. Nauðsynlegt er að gjaldheimta í sjávarútvegi dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni. Fiskeldi er vaxandi hluti íslensks sjávarútvegs og gefur aukin tækifæri til verðmætasköpunar. Við frekari uppbyggingu ber að leggja áherslu á góða umgengni ásamt mótvægisaðgerðum, svo álag á vistkerfi sé lágmarkað og sjálfbærni tryggð.

Skattamál

Við lofum lækkun skatta – í þágu heimila og fyrirtækja. Skattakerfisbreytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um allt frá 2013, samanlagt um 300 milljónir, hafa miðað að því að létta byrðar launafólks og auka kaupmátt, styrkja afkomu fyrirtækja, hvetja þau til fjárfestinga og byggja undir nýsköpun og þróun. Sjálfstæðisflokkurinn talar fyrir einföldu og sanngjörnu skattkerfi sem ekki treystir á sértækar ívilnanir til að viðhalda alþjóðlegri samkeppnishæfni. Tillögur Sjálfstæðisflokksins fela í sér endurskoðun tekjuskatts samhliða barnabótakerfinu til að skapa gegnsætt kerfi og innleiðingu eins skattþreps. Flokkurinn vill einfalda virðisaukaskatt með sameiningu skattþrepa og niðurfellingu skatts á nauðsynjavörur, eins og matvæli. Einnig er lögð áhersla á að afnema sértæka skatta á fjármálafyrirtæki til að bæta lánskjör.

Stjórnarskrármál

Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipunar landsins. Stjórnarskráin kveður á um grundvallarreglur lýðveldisins og mannréttindi borgaranna og hefur tekið nauðsynlegum breytingum á lýðveldistímanum. Tilefni er til endurskoðunar ákveðinna þátta stjórnarskrárinnar en hyggja þarf vel að þeim breytingum og ráðrúm þarf að gefast, bæði innan þings og utan, til að gaumgæfa tillögur að breytingum á henni. Heildarendurskoðun sem umturnar öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi og fyrirsjáanleika. Mikilvægt er að fylgja ákvæðum stjórnarskrár um hvernig standa skuli að breytingum á grunnlögum landsins. Að sama skapi telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að breytingar á stjórnarskrá séu gerðar í víðtækri pólitískri sátt.

Orkumál

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki skilað inn umfjöllun um orkumál.
Hér er hægt að nálgast svör úr alþingiskosningunum 2021.

Umhverfismál

Mikilvægt er að Ísland innleiði hringrásarhagkerfi hratt til að breyta auðlindum úr úrgangi í verðmæti. Þótt Íslendingar hafi náð árangri í nýtingu sjávarafurða, er þörf á markvissum aðgerðum til að bæta úrgangsstjórnun á öðrum sviðum. Það krefst nýrrar hugsunar og betri úrgangsstjórnunar sem styður við nýsköpun og býður upp á heildstæðar lausnir.

Markvisst þarf að finna nýjar lausnir til að nýta úrgang, virkja íslenskt hugvit og skapa aukin verðmæti. Sérstaklega þarf að hætta að urða lífúrgang og nýta hann betur, til dæmis sem áburð. Við getum lært af árangri Sjávarklasans og stofnað hringrásarklasa til að efla þessa þróun. Mikilvægt er að loka ekki á nýjar lausnir varðandi úrgangsstjórnun, til dæmis með löngum samningum sem takmarka nýtingarmöguleika úrgangs og hindra verðmætasköpun. Opin og frjáls markaður með úrgang, þar sem besta lausnin fær hæsta verð, er æskilegur til að hvetja til nýsköpunar og betri nýtingar.

Náttúruvernd hefur alltaf verið hornsteinn í stefnu Sjálfstæðisflokksins og hefur fengið aukið vægi undanfarið. Vernd náttúrulegra landsvæða, bæði lífríkis og landslags, er mikilvæg til að tryggja líffræðilega fjölbreytni og vistkerfaþjónustu. Einnig er mikilvægt að við og komandi kynslóðir getum notið ósnortinnar náttúru, sem stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan.

Flokkurinn hefur lagt áherslu á aukna aðkomu heimamanna við stjórnun þjóðgarða, sem hefur leitt til frumkvæðis um stofnun nýrra þjóðgarða á svæðum eins og Langanesi, Vestfjörðum, Dalabyggð og Þórsmörk. Þessi stefnubreyting er farsæl og stuðlar að sjálfbærri náttúruvernd til framtíðar.

Verndun náttúrunnar útilokar ekki nýtingu; innan friðlýstra svæða eru mörg dæmi um þetta. Mikilvægt er að standa vörð um frelsi landsmanna til að ferðast um landið og njóta náttúrunnar. Til að finna jafnvægið milli verndar og nýtingar þarf að stunda rannsóknir og eiga samtal við alla hagsmunaaðila. Samstarf stjórnvalda við landeigendur á viðkvæmum og fjölsóttum svæðum er lykillinn að árangri, eins og sýnt hefur verið í Fjaðrárgljúfri. Með sameiginlegu átaki getum við tryggt sjálfbæra nýtingu og vernd náttúrunnar fyrir komandi kynslóðir.

Útlendingamál

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur tekist að ná stjórn á landamærunum. Umsóknum um alþjóðlega vernd hefur fækkað gríðarlega og brottvísunum fjölgað. Við munum tryggja áframhaldandi stjórn á landamærunum og auka öryggi fólks með öflugri löggæslu. Útlendingalöggjöfin á að taka mið af löggjöf nágrannalandanna og má ekki innihalda séríslenskar reglur. Löggjöf og reglur um útlendingamál eiga að vera skýrar, sanngjarnar og stuðla að skilvirku ferli við umsóknir og útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa.

Ísland á að taka þátt í móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd og veita þeim vernd sem á þurfa að halda í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Samhliða þarf að standa vörð um félagslega innviði.

Sjálfstæðisflokkurinn vill koma upp öruggum búsetuúrræðum og setja upp greiningarmiðstöð á landamærunum. Þeim sem ekki fá alþjóðlega vernd skal gert að yfirgefa landið. Þeir sem ekki eiga í góðri samvinnu við yfirvöld skulu sæta vistun í búsetuúrræði með takmörkunum þar til brottvísun á sér stað. Þá vill Sjálfstæðisflokkurinn vísa þeim úr landi sem hlotið hafa alþjóðlega vernd og brjóta alvarlega af sér. Þeir hælisleitendur sem hingað koma sem þegar hafa hlotið vernd í öðru öruggu ríki skal snúið við innan sjö daga.

Taka á á móti þeim sem vilja koma til landsins til að lifa og starfa. Fólki utan EES, sem hefur fengið starf hér á landi og er með hreint sakavottorð, verði leyft að koma hingað og starfa.

Farsæl aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi felst í því að efla menntun, atvinnuþátttöku og samfélagslega þátttöku þeirra. Bæta þarf aðgengi að íslenskukennslu fyrir útlendinga til að auðvelda þeim að taka þátt í samfélaginu og á vinnumarkaði.

Sjálfstæðisflokkurinn vill setja á fót móttökuskóla fyrir börn af erlendum uppruna þar sem áhersla er lögð á samræmda tungumálakennslu og hæfnimat.

Velferðarmál

Eldri borgarar: Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að mæta áskorunum vegna öldrunar þjóðarinnar með því að lengja starfsaldur, gera starfslok sveigjanlegri og hækka frítekjumark ellilífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna í 350 þúsund á mánuði. Forvarnir og heilsuefling verði efld í félags- og heilbrigðisþjónustu og skólum með lýðheilsuátaki í samstarfi við almenning og félagasamtök.

Flokkurinn vill bæta þjónustu við eldra fólk með samþættingu heimahjúkrunar og félagsþjónustu. Fjölga þarf þjónustuíbúðum og bjóða fjölbreytt búsetuform til að eldra fólk geti búið sem lengst heima. Tryggja á sjálfsákvörðunarrétt og fjárhagslegt sjálfstæði eldra fólks með endurskoðun á lífeyrissjóða- og almannatryggingakerfinu.

Öryrkjar: Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema krónu-á-móti-krónu skerðingar, hækka viðmiðið til að tryggja lágmarkstekjur og auka hvata til atvinnuþátttöku í samræmi við starfsgetu. Endurskoða þarf starfsemi TR með ofangreint í huga og hægt sé að gera samninga við öryrkja sem gefi þeim hvata til vinnu sem tekur mið af starfsgetu hvers og eins.

Endurskoða þarf frá grunni fjármögnun sveitarfélaga/þjónustusvæða á þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Finna þarf leiðir til þess að sveitarfélög/þjónustusvæði geti sinnt þjónustu sinni eins og lög kveða á um. Mikilvægt er að endurskoða í því samhengi framlög til málaflokksins þar sem þau standa ekki undir þjónustuþörf.

Auka ber sjálfstæði fatlaðra einstaklinga og þeirra sem búa við mikla skerðingu þannig að þau hafi val um að stýra sinni þjónustu sjálf, m.a. með notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA).