Samfylkingin
Kristrún Frostadóttir
Formaður
Atvinnumál
Í útspili Samfylkingarinnar Krafa um árangur setti flokkurinn fram kröfu um íslensk kjör og atvinnustefnu fyrir Ísland. Samfylkingin boðar framsækna atvinnustefnu um allt land með áherslu á sjálfbæran vöxt atvinnugreina, háa framleiðni, vel launuð störf og sterkt velferðarkerfi. Atvinnustefnu sem stendur undir íslenskum kjörum. Mikilvægt er að tryggja fyrirtækjum á Íslandi aukinn fyrirsjáanleika og auka á samfellu milli hinna ýmsu ríkisstofnana.
Á Íslandi hefur hagvöxtur á mann verið minni en gengur og gerist á Norðurlöndunum og Evrópu frá árinu 2017, þrátt fyrir vöxt hagkerfisins í heild. Þunginn í hagvextinum hefur orsakast af hröðum vexti vinnuaflsfrekra greina og mikilli fólksfjölgun án þess að nauðsynlegir innviðir hafi haldið í við þá þróun – slíkur vöxtur er ekki sjálfbær. Þessi mikli munur milli vaxtar hagkerfisins og hagvaxtar á mann hefur leitt af sér gríðarlegt álag á innviði og er ein helsta ástæða þess að fólk hér á landi upplifir ekki endilega aukin lífsgæði vegna hagvaxtar heldur þenslu, sem birtist í hárri verðbólgu, vöxtum, hækkandi húsnæðisverði og álagi á aðra innviði. Þessu vill Samfylkingin breyta og byggja hagvöxt fyrst og fremst á aukinni framleiðni.
Þá verður það forgangsmál hjá Samfylkingunni að taka fast á félagslegum undirboðum. Samfylkingin styður eindregið nýsköpun á öllum sviðum atvinnulífsins og vill ýta undir vöxt atvinnugreina sem byggja á hugviti og sköpunargáfu, tækni og verkkunnáttu enda er nýsköpunar- og frumkvöðlastarf lykill að samkeppnishæfni fyrirtækja og þjóða.
Byggðarmál
Samfylkingin lítur á Ísland sem eina heild. Jafna verður tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Lífæðar allra samfélaga eru sterkir grunninnviðir, án þeirra verða hvorki framfarir né framþróun. Samfylkingin leggur áherslu á jafnt aðgengi allra landsmanna að grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu. Til þess þarf að efla samgöngur verulega og auka niðurgreiðslu ferðakostnaðar til þeirra sem þurfa að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu um langan veg.
Skapa þarf aðstæður til fjölbreyttrar atvinnusköpunar og gefa landshlutum tækifæri til þróast á grunni styrkleika hverrar byggðar. Stjórnvöld eiga að vera í fararbroddi í að stuðla að fjölbreyttum og verðmætum störfum um allt land. Til að styðja við byggðaþróun og búsetufrelsi verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega. Samfylkingin leggur áherslu á góða samvinnu milli borgar og byggða á grundvelli jafnvægis og gagnkvæmrar virðingar.
Samfylkingin vill draga úr ójöfnuði og aðstöðumun í íslensku samfélagi. Það kallar á aukna samvinnu við að tryggja jöfn tækifæri og möguleika allra landsmanna óháð búsetu, svo sem til atvinnu, menntunar, menningar og hvers kyns þjónustu. Huga þarf sérstaklega að því að börn alls staðar á landinu njóti jafnra tækifæra til menntunar og íþrótta- og tómstundastarfs. Samfylkingin leggur áherslu á öflugt sveitarstjórnarstig og nauðsyn þess að bæta samskipti ríkis og sveitarfélaga og skapa þannig farsæl samskipti og traust á milli aðila. Sérstaklega mikilvægt er að efla efnahagssamráð og samstarf vegna húsnæðisuppbyggingar á milli ríkis og sveitarfélaga.
Efnahagsmál
Forgangsmál Samfylkingar er að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Stýrivextir hafa verið um og yfir 9% í meira en ár, verðbólga yfir markmiði í 4 ár og samkvæmt áætlunum fráfarandi ríkisstjórnar stefnir í að ríkið verði rekið með halla samfleytt í 9 ár. Þessi óstjórn í efnahagsmálum hefur leitt til þess að heimili landsins borguðu 40 milljörðum meira í húsnæðisvexti í fyrra en þau gerðu árið 2021. Þessir háu vextir eru ekkert annað en ofurskattur á heimili og fyrirtæki og leggst þungt á ungt fólk. Samfylkingin vill kveða niður vexti og verðbólgu. Lykillinn að því er að við náum aftur styrkri stjórn á fjármálum ríkisins, komum húsnæðismarkaðnum í fastari skorður og leggjum grunn að hagvexti sem er ekki knúinn áfram af fólksfjölgun heldur aukinni framleiðni. Því minna sem ríkisstjórnin og ríkisfjármálin gera til að vinna gegn verðbólgu, því meira gerir Seðlabankinn og því hærri verða vextirnir. Við viljum breyta lögum um opinber fjármál og taka upp stöðugleikareglu um jafnvægi tekna og rekstrarútgjalda með tilliti til hagsveiflunnar, í samræmi við tillögur fjármálaráðs ESB.
Samfylkingin telur nauðsynlegt að auka fé til velferðarmála og grunninnviða. Undanfarinn áratug hafa kerfin okkar smátt og smátt látið undan, nú er komið að því að snúa þróuninni við. Það verður ekki gert án tekjuöflunar og hagræðingar í ríkisrekstri. (Stjórnmálaflokkar sem halda því fram að hægt sé að auka fé til velferðarmála án tekjuöflunar tala í raun fyrir auknum hallarekstri og aukinni skuldasöfnun ríkisins, því einhvers staðar verður peningurinn að koma. Sú leið eykur verðbólgu og hækkar vexti.) Við vitum öll að það er dýrt að skulda og eftir því sem skuldirnar hækka verður kostnaðurinn hærri og svigrúmið til frekari fjárfestinga og útgjalda minni. Skuldir bera vexti og í tilfelli ríkissjóðs er áætlaður vaxtakostnaður fyrir næsta ár nú kominn upp í 120 milljarða króna. Samfylkingin hyggst hagræða í rekstri ríkisins, koma á réttlátum og skynsamlegum auðlindagjöldum og innleiða hóflegar hækkanir á fjármagnstekjuskatti. Ásamt þessu er nauðsynlegt að koma á bráðaaðgerðum á húsnæðismarkaði og sporna við stjórnlausum verðhækkunum á húsnæðismarkaði.
Evrópumál
Samfylkingin er Evrópusinnaður flokkur og hefur frá stofnun talað fyrir því að hagsmunir Íslands séu best tryggðir með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru. Samfylkingin leggur ekki áherslu á framhald aðildarviðræðna Íslands og ESB á næsta kjörtímabili. Flokkurinn mun beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna á réttum tímapunkti, til dæmis undir loka næsta kjörtímabils. Mikilvægt er að skapa góða samstöðu meðal þjóðarinnar um svo mikilvægt mál. Samfylkingin leggur áherslu á að íslensk stjórnvöld nýti með markvissari hætti þau tækifæri sem felast í samstarfinu innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), efli hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu og bæti framkvæmd EES-samningsins.
Heilbrigðismál
Kosningaáherslur Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum byggja á Öruggum skrefum - útspili flokksins um heilbrigðismál sem hægt er að lesa hér: https://xs.is/orugg-skref Þar er að finna fimm þjóðarmarkmið í heilbrigðismálum sem Samfylkingin mun setja í forgang. Samfylkingin telur að þegar umræddum markmiðum verði náð muni það hafa víðtæk jákvæð áhrif á heilbrigðiskerfið í heild sinni. Markmiðin eru eftirfarandi: Að fólk fái fastan heimilislækni, þjóðarátak verði gert í umönnun eldra fólks, fólki verði tryggt öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu um allt land, heilbrigðisstarfsfólki verði gert mögulegt að verja stærri hluta vinnudagsins í umönnun sjúklinga og síðast en ekki síst þá þarf að taka ábyrgð á rekstri heilbrigðiskerfisins í heild.
Það er sérstaklega aðkallandi að tryggja eldra fólki og fólki sem glímir við langvinn veikindi heimilislækni. Skortur á heimilislæknum eykur álag á sjúkrastofnanir en innlagnir á sjúkrahús eru um 30% algengari hjá þeim sem ekki hafa fastan heimilislækni. Samfylkingin telur að með innleiðingu svokallaðra heimilisteyma heilbrigðisstarfsfólks á heilsugæslum megi tryggja fleirum fastan heimilislækni, auka samvinnu milli heilsugæslustöðva og tryggja þar með aukna sérfræðiþekkingu, líka í fámennum byggðalögum. Markmiðinu um að allir íbúar landsins fái fastan heimilislækni má ná á tveimur kjörtímabilum en í fyrstu viljum við setja viðkvæmustu hópana í forgang.
Tryggja þarf eldra fólki örugga þjónustu sem virkar. Einn liður í því er að stórauka fjármagn til heimahjúkrunar, þannig að fólk geti búið lengur við öryggi heima hjá sér. Með þessu verður líka mögulegt að draga úr innlögnum á sjúkrahús, flýta útskriftum og stuðla þannig að hagkvæmari meðferð fjármuna og betri líðan. Eldra fólk og aðstandendur þurfa að upplifa öryggi þegar kemur að þjónustu við eldra fólk. Setja þarf aukinn kraft í styrkingu sjúkraflutninga og niðurgreiðslu ferðakostnaðar til að taka á áhrifum samþjöppunar í heilbrigðiskerfinu undanfarin áratug.
Mikilvægt er að stytta viðbragðstíma og bæta öryggi fólks um land allt. Efling samganga er einnig órjúfanlegur þáttur í því að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Að tryggja mönnun heilbrigðiskerfisins er mikilvægasta verkefnið til framtíðar. Óviðunandi mönnun leiðir af sér vítahring versnandi starfsaðstæðna og þjónustu, sem síðan stuðlar að enn verri mönnun. Skapa þarf aðstæður þar sem tryggt er að heilbrigðisstarfsfólk geti varið auknum tíma í umönnun sjúklinga og minni tíma í skriffinnsku.
Samfylkingin mun taka ábyrgð á heilbrigðiskerfinu í heild, bæði einkarekstur og opinberan rekstur. Rammi um sérfræðiþjónustu utan sjúkrahúsa þarf að grundvallast á kröfunni um jafnt aðgengi – enda er þjónustan greitt með skattfé. Ákvarðanir um útvistun til einkarekstrar mega ekki leiða til veikingar á getu sjúkrahúsanna til að veita bráðaþjónustu og aðra flókna þjónustu. Endurskoða þarf greiðsluþátttöku einstaklinga í kerfinu, með það að markmiði að lækka kostnað fólks. Veita þarf sjúkrahúsum aukið svigrúm til að ákveða hvernig þau vinna með einkarekstri með það að markmiði að auka gæði, stytta biðlista og jafna aðgengi.
Húsnæðismál
Samfylkingin hefur lagt fram framkvæmdaplan í húsnæðismálum sem finna má inni á http://xs.is/framkvaemdaplan. Þar eru settar fram tillögur að bráðaaðgerðum í húsnæðismálum og kerfisbreytingum til lengri tíma til að stuðla að betra jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði. Á sama tíma og húsnæðisuppbygging hefur ekki haldið í við fólksfjölgun hefur orðið samþjöppun á húsnæðismarkaði þar sem sífellt fleiri íbúðir hafa ratað í hendur fjárfesta og fyrirtækja.
Þær bráðaaðgerðir sem flokkurinn leggur til í húsnæðismálum snúa að því að tryggja að fleiri íbúðir nýtist sem heimili fólks, það gerum við með því að taka stjórn á Airbnb-væðingu húsnæðismarkaðarins og heimila sveitarfélögum að leggja á fasteignaskattsálag á heimili þar sem enginn hefur lögheimili og enginn greiðir þar af leiðandi útsvar til sveitarfélagsins. Í sveitarfélögum þar sem húsnæði skortir endurspeglast kostnaðurinn af tómum íbúðum í aukinni þörf til að brjóta upp nýtt land til nýbygginga og uppbyggingu innviða í nýjum hverfum. Það er því eðlilegt að sveitarfélögum þar sem skortur er á húsnæði verði gert heimilt að leggja fasteignaskattsálag á tómar íbúðir. Þá þarf að liðka fyrir uppbyggingu færanlegs húsnæðis ásamt því að skapa hvata til að breyta vannýttu atvinnuhúsnæði í íbúðir og fjölga þannig íbúðum hraðar til að bregðast við þeim bráðavanda sem blasir við á húsnæðismarkaði.
Til lengri tíma litið þarf ríkið að styðja betur við sveitarfélögin þegar kemur að innviðauppbyggingu í nýjum hverfum, t.d. með því að bjóða hagstæð innviðalán, afslátt eða niðurfellingu á virðisaukaskatti við byggingu leikskóla- og skólahúsnæðis. Færa þarf skipulagslöggjöf sveitarfélaganna til nútímans með einfaldari ferlum, styttri tímafrestum og skýrari undanþáguheimildum. Setja þarf heildstæð lög um lóðarleigusamninga í þágu jafnræðis og fyrirsjáanleika við lóðarúthlutun, skerpa á tímabindingu bygginga- og framkvæmdaleyfa til að koma í veg fyrir lóðabrask og frestun framkvæmda. Síðast en ekki síst þarf að innleiða framboðshvetjandi stuðning sem gagnast íbúðakaupendum og ívilnanir til uppbygginga leiguíbúða og fjölbreytts búsetuforms. Veita ætti óhagnaðardrifnum bygginga- og húsnæðisfélögum 60% endurgreiðslu á virðisaukaskatti og tryggja slíkum félögum byggingarétt á ríkislóðum. Að lokum mun Samfylkingin styðja við uppbyggingu félagslegs eignaríbúðakerfis eins og verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir og liðka fyrir aðkomu lífeyrissjóða að slíkum verkefnum.
Jafnréttismál
Samfylkingin vinnur gegn hvers kyns mismunun sem tilkomin er vegna kyns, uppruna, þjóðernis, fötlunar, kynvitundar, kyneinkenna eða annarra þátta. Samfylkingin er femínískur flokkur sem vill jafna stöðu allra kynja og ráðast af alefli gegn kynbundnum launamun eða launamunar vegna uppruna, þjóðernis, fötlunar, kynhneigðar og fleira. Samfylkingin vill ráðast í endurmat á virði starfa með launajöfnuð að markmiði. Í þeirri vinnu þarf að greina sérstaklega mun á ævitekjum milli kynja, lífeyrisgreiðslum og eignum til þess að jafna eða draga verulega úr þessum mun, m.a. með leiðum eins og kynjaðri fjárlagagerð og samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða inn í stefnumótun og ákvarðanatöku hins opinbera.
Menntamál
Menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri er lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarstefnunnar. Góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust auk þess að skapa kjörskilyrði fyrir samfélag víðsýni og lýðræðis. Samfylkingin beitir sér fyrir jöfnum tækifærum allra til náms. Menntastofnanir eiga að vera aðgengilegar, vettvangur þar sem enginn hópur er skilinn eftir og þar sem öll eiga möguleika á að rækta hæfileika sína og afla sér þekkingar á eigin forsendum og í þágu samfélagsins alls. Allt skólastarf á að byggjast á virðingu fyrir margbreytileika og mannréttindum.
Samfylkingin leggur sérstaka áherslu á að bæta starfsaðstæður kennara og skólastjórnenda, með það að markmiði að laða hæft fólk til starfa í menntakerfinu. Mikilvægt er að rætt sé um starfið af þeirri virðingu sem það á skilið. Ljóst er að menntakerfið á Íslandi stendur frammi fyrir áskorunum. Á undanförnum árum hafa bekkjarstærðir stækkað til muna, nemendahóparnir eru fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr og stuðningur í bekkjum oft ekki nægilegur. Það þarf að vera hægt að bregðast við í tæka tíð ef vísbendingar vakna um frávik í námsárangri í tilteknum skólum. Samfylkingin vill jafnframt efla stoðþjónustu, stuðla að aukinni fagþekkingu og tryggja betri geðheilbrigðisstuðning á öllum skólastigum.
Forgangsraða þarf íslenskukennslu á öllum skólastigum, lestri og líðan í skólastarfi og tryggja að jafnt fjármagn fylgi börnum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Leggja þarf sérstaka áherslu á inngildingu innflytjenda innan skólakerfisins en menntun er áreiðanlegasta leiðin til virkrar þátttöku í íslensku samfélagi.
Samfylkingin vill efla nýsköpun í grunn- og framhaldsskólum með öflugum styrktarsjóðum og rannsóknum. Við viljum einnig að sí- og endurmenntun verði aðgengileg fyrir alla á vinnumarkaði, með sérstaka áherslu á þá sem eru í atvinnuleit eða þurfa aðlögun vegna tækniþróunar.
Menntakerfið skal vera í stöðugri þróun, með áherslu á fjölbreytta kennsluhætti sem mæta þörfum ólíkra hópa. Við leggjum grunn að betra samfélagi með því að fjárfesta í fólki og menntun, þar sem hugvit og tækni leika lykilhlutverk í framtíð íslensks samfélags.
Loftslagsmál
Samfylkingin leggur áherslu á að mælanleg loftslagsmarkmið séu lögfest til skemmri og lengri tíma, þak sé sett á losun og að tímasettar aðgerðaráætlanir fylgi markmiðunum sem taki meðal annars á orkuskiptum á landi, hafi og í lofti. Markmið og aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum verða að tryggja að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar. Þá þarf að tryggja að nákvæmt kolefnisbókhald og fullnægjandi eftirlit með losunarmarkmiðunum og aðgerðunum. Stjórnvöldum ber að bregðast við ef fyrirséð er að áætlanir eða markmiðin standast ekki. Þá verða markmiðin og aðgerðaráætlanir að taka bæði á beinni losun á ábyrgð stjórnvalda og losun frá landnotkun, stóriðju og alþjóðaflugi. Styrkja þarf stjórnsýslu loftslagsmála, forgangsraða opinberum fjármunum til loftslagsmála, tryggja fjármagn og mannafla í málaflokkinn og efla Loftslagsráð í þessum tilgangi.
Loftslagsmál hafa snertiflöt við alla málaflokka og vill Samfylkingin sjá samhæfingu þvert á ráðuneyti og málaflokka, þar á meðal að mat verði lagt á frumvörp með tilliti til loftslagsáhrifa jafnt og gert er með tilliti til fjárhagslegra áhrifa, auk þess að stefnur og aðgerðir ráðuneyta verði samhæfðar með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda. Aðlögun að loftslagsbreytingum er nauðsynlegur þáttur til að lágmarka tjón samfélagsins af loftslagsbreytingum og er ábyrgt að styðja við aðlögun og baráttu fátækari landa við loftslagsbreytingar og uppbyggingu orkuinnviða.
Samgöngumál
Í útspili Samfylkingarinnar – Krafa um árangur – sem kom út síðastliðið vor voru settar fram þrjár grundvallarkröfur fyrir Ísland. Sú fyrsta snýr að framförum í orku- og samgöngumálum. Samgöngur eru forsenda öryggis og öflugs atvinnulífs um allt land. Á sama tíma og notkun á vegakerfinu hefur margfaldast að umfangi hafa fjárfestingar í samgöngum á Íslandi dregist aftur úr og eru þær nú einungis 0,5% af vergri landsframleiðslu en meðaltalið í öðrum ríkjum OECD er um 1%. Þetta birtist m.a. í viðhaldsskuld í vegakerfi landsins, algjöru framkvæmdastoppi við gerð jarðganga og skorti á vilja til þess að styrkja Strætó á meðan beðið er eftir Borgarlínu. Samfylkingin vill auka fjárfestingar í samgöngum og stefnir á að Íslandi nái aftur upp í meðaltal OECD-ríkja fyrir árið 2030. Í strjálbýlu landi þar sem allra veðra er von og færð spillist stóran hluta árs eru jarðgöng ekki einungis mikilvæg samgöngubót heldur í mörgum tilvikum klárt öryggismál og forsenda þess að byggð verði viðhaldið. Samfylkingin vill hefja framkvæmdir við jarðgangagerð og stefnir að því að á hverjum tíma verði framkvæmdir í gangi við að minnsta kosti ein jarðgöng á hverjum tíma.? Afstaða Samfylkingarinnar til flugvallar í Vatnsmýri er í samræmi við samkomulag ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 2019 þar sem fram kemur að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni þar til annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn. Efling almenningssamgangna á þéttbýlissvæðum er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál sem stuðlar að jöfnuði. Stór hluti heimlisbókhaldsins fer í rekstur einkabíls sem er því miður nauðsynlegur á flestum stöðum á landinu en öflugar almenningssamgöngur eru ekki síður mikilvægar milli byggða á landi, í flugi og með ferjum þegar landleið er ekki fær. Styrkja þarf strætó á meðan framkvæmdir standa yfir við Borgarlínu svo íbúar höfuðborgarsvæðinu fái raunverulegan valkost þegar kemur að samgöngumátum.
Sjávarútvegsmál
Ein megintillagan í útspili Samfylkingarinnar Krafa um árangur er krafan um skynsemi í auðlindastefnu. Þar er fjallað um skynsamlega og réttláta auðlindastefnu sem skapar sterkan ramma fyrir vöxt og verðmætasköpun um land allt. Sjávarútvegurinn hefur lengi verið okkar meginatvinnugrein og sjávarútvegurinn er forsenda byggðar í fjölmörgum byggðalögum. Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Aðgangsstýring kvótakerfisins í sjávarútvegi er nauðsynleg til að hámarka virði fiskistofnanna en takmarkanir á veiðum mynda um leið auðlindarentu sem rennur nú nær óskipt til þeirra sem fara með nýtingarleyfi. Samfylkingin einsetur sér að tryggja að hagsmunir þjóðarinnar og almennings verði í forgrunni og að fullt og sanngjarnt gjald verði innheimt fyrir fiskveiðiauðlindina. Samfylkingin leggur til hækkun veiðigjalds í sjávarútvegi með þrepaskiptingu til að sporna við enn frekari samþjöppun á eignarhalds í greininn. Þannig má hlífa smærri útgerðum en ná strax stærri hluta af auðlindarentu til þjóðarinnar án þess að ráðast í meiri háttar kerfisbreytingar.
Fiskeldi í sjó verður að standast kröfur um umhverfisvernd til að eiga framtíð á Íslandi. Erfðablöndun á villtum laxi er mikið áhyggjuefni, slysasleppingum þurfa aðfylgja þung viðurlög fyrir fiskeldisfyrirtæki. Byggja þarf framtíðarþróun og verðmætasköpun í greininni á sjálfbærri nýtingu með áherslu á traust eftirlit, vöktun og rannsóknir.
Skattamál
Samfylkingin vill koma á réttlátara skattkerfi á Íslandi. Tilgangur skattkerfisins er annars vegar að skapa svigrúm til sameiginlegra útgjalda og hins vegar að draga úr ójöfnuði og aðstöðumun í íslensku samfélagi. Til að hvort tveggja takist með sem minnstum tilkostnaði er mikilvægt að skattkerfið sé skilvirkt.
Grundvallarafstaða jafnaðarfólks í skattamálum er sú að öll greiði til samfélagsins eftir getu þannig að þau sem bera mest úr býtum leggi hlutfallslega mest af mörkum. Reynslan sýnir að það er ekki aðeins réttlátt heldur einnig sú aðferð sem hefur gefist best í farsælustu samfélögum heims.
Samfylkingin vill halda aftur af skattbyrði almenns launafólks og auka þess í stað hlutdeild skattlagningar á fjármagn. Við viljum draga úr hlutfallslegu vægi flatra skatta og gjalda sem leggjast þyngra á fólk eftir því sem það hefur lægri tekjur en innheimta gjöld fyrir nýtingu náttúruauðlinda í þjóðareign. Síðast en ekki síst kallar réttlátara og skilvirkara skattkerfi á að tekið sé á skattaundanskotum af alvöru og að við skrúfum fyrir skattaglufur þannig að allir sitji við sama borð. Til þess þarf pólitískan vilja.
Stjórnarskrármál
Samfylkingin telur nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á núgildandi stjórnarskrá. Ákvæði um þjóðareign auðlinda, þjóðaratkvæðagreiðslur, framsal valds, atkvæðavægi og náttúruvernd eru á meðal þeirra fjölmörgu atriða sem m.a. tillögur stjórnlagaráðs frá árinu 2011 fjalla um og brýnt er að bundin verði í stjórnarskrá sem fyrst. Að auki þarf að gera breytingar á köflunum um Alþingi, forseta og dómstóla sem tiltölulega breið sátt ríkir um en þar er um að ræða breytingar sem snúa fyrst of fremst að því að færa ákvæði stjórnarskrárinnar nær nútímanum og í mörgum tilvikum lögfesta áratugalanga stjórnskipunarvenju sem hefur viðgengist og algjör sátt ríkir um án þess þó að fyrir því sé skýr stoð í stjórnarskrá. Nauðsynlegt er að koma af stað vinnu innan þingsins um breytingar á stjórnarskrá, sú vinna ætti að sjálfsögðu að byggja á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram en aukin aðkoma þingsins er nauðsynleg til þess að unnt verði að ná fram breytingum. Til þess að ná fram breytingum á stjórnarskrá þarf skýra verkstjórn, breiða aðkomu þingsins og samstöðu. Á þetta hefur skort verulega síðastliðin ár og því hefur ekki tekist að koma fram breytingum á stjórnarskrá þrátt fyrir að þverpólitísk sátt ríki um fjölmargar breytingartillögur. Samfylkingin telur „allt eða ekkert“ nálgun ekki farsæla í umræðu um breytingar á stjórnarskrá, reynslan hefur kennt okkur að með slíkum hugsunarhátt nást engar breytingar fram.
Orkumál
Í útspili Samfylkingarinnar Krafa um árangur er sett fram krafa um framfarir í orku- og samgöngumálum. Samfylkingin vill öryggi og öflugt atvinnulíf um alla land. Forsendur þess eru sterkir innviðir. Þar hefur hið opinbera mikilvægu hlutverki að gegna. Orka og samgöngur eru dæmi um grunninnviði sem stjórnmálafólk ber ábyrgð á að viðhalda og byggja upp. Til þess þarf stefnu um stöðugar framfarir, opinbera fjárfestingu og vilja til verklegra framkvæmda.
Samfylkingin styðja við verðmætasköpun og orkuskipti með sjálfbærri nýtingu innlendrar orku í almannaþágu. Tryggja þarf orkuframleiðslu sem stendur undir fólksfjölgun og orkunotkun fyrirtækja og heimila. Hvers kyns ákvarðanir um orkuvinnslu eiga að byggjast á heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja og til hagkvæmni ólíkra nýtingarkosta með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Með rammaáætlun, sem lögfest var í stjórnartíð Samfylkingarinnar, voru skapaðar leikreglur um þetta. Þau lög og annað regluverk þarf að bæta með langtímasjónarmið og rétt komandi kynslóða í huga.
Samfylkingin vill að markmið verði sett um orkuöflun sem byggt er á við afgreiðslu rammaáætlunar, og við höfum sett fram 10 ára markmið um að auka raforkuframleiðslu í landinu um 5 TWh til að standa undir markmiðum okkar um orkuskipti og uppbyggingu í atvinnulífi. Styrkja þarf stjórnsýslu orkumála og gera hana skilvirkari. Samfylkingin vill að meginhluti raforkuframleiðslu á Íslandi verði áfram á hendi ríkis og sveitarfélaga og leggst gegn hvers kyns hugmyndum um einkavæðingu eða uppskiptingu Landsvirkjunar.
Styrkja þarf flutnings- og dreifikerfi raforku til að auka afhendingaröryggi og aflgetu um allt land og tryggja að innviðir standi undir þeim orkuskiptum sem fram undan eru í samgöngum og iðnaði. Setja þarf upp nýja byggðalínu og útrýma einföldum tengingum við þéttbýlisstaði. Samfylkingin telur nauðsynlegt að setja í lög ákvæði um að almenningur og almenn fyrirtæki hafi aðgang að forgangsorku frá orkuveitum. Einnig er eðlilegt að sett verði þak á arðsemi raforkusölu til heimila, á sama hátt og um sölu heits og kalds vatns.
Það er réttlætismál að orkufyrirtæki greiði fyrir aðgang að auðlindum og að hluti af tekjum renni til nærsamfélags vegna staðbundinna áhrifa af nýtingunni, óháð eignarhaldi og hvort sem orkuvinnslan nýtir vatnsafl, jarðvarma, vind eða aðra orkugjafa. Ein leið til að greiða fyrir uppbyggingu á flutningskerfi raforku er að afnema undanþágu frá fasteignasköttum til sveitarfélaga af orkumannvirkjum.
Umhverfismál
Samfylkingin styður stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í nánu samráði við nærsamfélög og alla hagaðila um framkvæmd og útfærslu. Áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun) er lykilverkfæri stjórnvalda við ákvarðanir um orkuöflun, hvort sem um er að ræða nýtingu vatns, jarðvarma, vinds eða annarra orkukosta. Endurheimt vistkerfa er bæði mikilvæg náttúruverndar- og loftslagsaðgerð en ljóst er að stórefla þarf rannsóknir á vistkerfum hér á landi. Stofnanir skulu vinna í samræmi við samþykkta náttúruverndaráætlun.
Aukin þátttaka og aðkoma ungs fólks í málefnum sem varða umhverfis- og loftslagsmál er grundvallaratriði til að vinna að hagsmunum komandi kynslóða og verða orkumál og náttúruvernd að taka tillit til réttinda framtíðarkynslóða. Loftslagsbreytingar valda súrnun sjávar sem auk áhrifa á vistkerfin geta haft neikvæð áhrif á nýtingu sjávarauðlinda sem eru mikilvægar efnahag þjóðarinnar. Samfylkingin vill beita sér fyrir stórauknum rannsóknum á þeim hættum er steðja að lífríki sjávar og strandsvæða, í samstarfi við aðrar strandþjóðir. ástandi sjávar og fiskistofnum á miðum Íslands.
Útlendingamál
Samfylkingin fagnar auknum fjölbreytileika íslensks samfélags og leggur áherslu á mikilvægi inngildingar til að aðfluttir landsmenn njóti jafnræðis á við aðra íbúa. Innleiða þarf heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda. Sértækar aðgerðir til að jafna aðstöðumun aðfluttra og innfæddra eru fjárfesting til framtíðar sem skilar auknum félagslegum hreyfanleika og jöfnuði. Samfylkingin leggur áherslu á að koma í veg fyrir að til verði erlend undirstétt á Íslandi sem býr við verri stöðu, aðbúnað og launakjör en aðrir. Til þess þarf að innleiða menntastefnu sem jafnar aðstöðumun barna og atvinnustefnu sem stendur undir lífvænlegum kjörum allra sem hér búa. Taka verður fast á félagslegum undirboðum á vinnumarkaði, vinna gegn launamun og ryðja úr vegi hindrunum sem innflytjendur verða fyrir, jafnt á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera.
Þegar kemur að málum fólks á flótta eru það eru einkum þrjú viðmið sem Samfylkingin hefur haft að leiðarljósi. Í fyrsta lagi mannúð, í öðru lagi skilvirkni og í þriðja lagi samræmi við löggjöf annarra Evrópuríkja, þjóðréttarlegarskuldbindingar Íslands, tilmæli Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna og fyrirmyndir annars staðar frá sem samræmast grunngildum jafnaðarstefnunnnar. Gera þarf bragarbót á málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd og auka skilvirkni kerfisins, ekki eingöngu þegar kemur að skjótri afgreiðslu og brottvísun þeirra sem er synjað, heldur ekki síður hjá þeim sem eiga rétt á dvalarleyfi hér á landi enda stuðlar styttri biðtími að minni kostnaði og farsælli inngildingu.
Styrkja þarf Útlendingastofnun til að taka skjótar, faglegar og vandaðar ákvarðanir til að auka skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma. Þá leggur Samfylkingin áherslu á réttaröryggi og mannhelgi umsækjenda um alþjóðlega vernd og fólks í umborinni dvöl. Efla þarf innviði og verklag hins opinbera móttökukerfis flóttafólks. Mikilvægt er að virða rétt flóttafólks til fjölskyldusameiningar í samræmi við tilmæli Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna enda er fjölskyldusameining grunnforsenda farsællar inngildingar.
Samfylkingin vill fara í markvissar aðgerðir til að vinna gegn andúð, fordómum og hatursorðræðu sem á rætur að rekja til útilokandi þjóðernishyggju og tryggja þar með að aðflutt fólk upplifi sig velkomið og öruggt á Íslandi.
Velferðarmál
Öflug og þróttmikil velferðarþjónusta er ein af grunnstoðum norrænna jafnaðarsamfélaga ásamt skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði og ábyrgri hagstjórn sem miðar að fullri atvinnu. Velferðarsamfélag jafnaðarstefnunnar byggist á almennum réttindum og skyldum sem gilda jafnt fyrir alla. Andstæða þess er samfélag ójöfnuðar og ölmusu þar sem lífsafkoma almennings er háð geðþótta hinna fáu og fjársterku. Við viljum að velferðarþjónustan komi okkur öllum til góða og sé til staðar á öllum æviskeiðum.
Í Framkvæmdaplani í húsnæðis- og kjaramálum eru sett fram áherslumál Samfylkingarinnar í velferðarmálum fyrir næsta kjörtímabil með það að markmiði að tryggja landsmönnum örugga afkomu um ævina alla. Í haust lagði þingflokkur Samfylkingarinnar fram frumvarp til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, í þeim tilgangi verja afkomuöryggi foreldra og draga verulega úr þeim tekjumissi sem foreldrar verða fyrir við töku fæðingarorlofs, meðal annars með breyttu viðmiðunartímabili á útreikningi fæðingarorlofsgreiðslna. Sérstök áhersla er lögð á að tryggja afkomuöryggi þeirra tekjulægstu og auka möguleika launafólks á að verja tíma með börnum sínum eftir að fæðingarorlofi lýkur með innleiðingu sjálfstæðs réttar foreldris til vinnutímastyttingar að loknu fæðingarorlofi. Lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi verði hækkaðar og höldum 450 þús. kr. af viðmiðunartekjum óskertum.
Samfylkingin vill lögfesta rétt barna til leikskólavistar frá tilteknum aldri líka og gert hefur verið í öðrum ríkjum Norðurlanda, tryggja sveitarfélögunum fjármagn til reksturs leikskóla og koma þróun barnabóta í fastari skorður og tryggja aukinn stuðning við barnafjölskyldur í formi barnabóta.
Þegar kemur að málefnum eldra fólks vill Samfylkingin í fyrsta lagi stöðva alfarið kjaragliðnun milli launa lífeyris frá Tryggingastofnun og binda greiðslur almannatrygginga til eldra fólks og öryrkja við launavísitölu. Þá þarf að hækka frítekjumark ellilífeyris úr 25 í 60 þús. kr. á mánuði til þess að eldra fólk njóti meiri ávinnings af því að hafa greitt í lífeyrissjóð og koma frítekjumarki vaxtatekna þannig að vaxtatekjur upp að 300 þús. kr. á ári skerði ekki greiðslur almannatrygginga og fækka þar með bakreikningum frá TR.