Píratar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Atvinnumál
Píratar ætla að:
- Efla nýsköpun um land allt
- Byggja upp græna og örugga innviði
- Gera Ísland að miðstöð þekkingar og grænnar nýsköpunar
- Gera sjálfbæra ferðamála- og iðnaðarstefnu
- Gera Ísland tilbúið til þess að takast á við gervigreind
- Frelsa handfæraveiðarnar og styðja við atvinnutækfæri víða um land
- Stuðlum að sjálfbærari ferðaþjónustu svo samfélagið í heild njóti góðs af ferðaþjónustunni
Sjálfvirknivæðing, gervigreind og aðrar tækninýjungar breyta bæði samfélaginu og atvinnulífinu hratt. Með öflugri, sjálfbærri og grænni uppbyggingu innviða í öllum sveitarfélögum landsins viljum við skapa framtíð sem byggir á fjölbreytni og samfélagslegri nýsköpun. Það er nauðsynlegt að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi með því að bjóða upp á nýjar leiðir, efla nýsköpun og fjölga undirstöðum íslensks iðnaðar. Píratar munu stuðla að aukinni verðmætasköpun og styrkja tekjuöflun ríkissjóðs með fjölbreyttum atvinnustoðum. Þær munu byggja á hugviti ferkar en auðlindum. Aukin framleiðni, bæði á sviði hins opinbera og í atvinnulífinu, næst með áherslu á nýsköpun og rannsóknir. Einnig þarf að byggja þarf upp fjölbreytta atvinnustarfsemi í sjávarplássum, með áherslu á frumkvæði íbúa. Píratar telja mikilvægt að líta á menningu og skapandi greinar sem eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, og sem efnahagslega og samfélagslega fjárfestingu fyrir framtíðina en ekki sem kostnað líðandi stundar.
Byggðarmál
Píratar ætla að:
- Draga úr miðstýringu og efla lýðræði.
- Efla tekjustofna sveitarfélaga.
- Styrkja innviði um allt land.
- Auka aðgengi að þjónustu óháð búsetu.
- Valdefla íbúa með beinu lýðræði.
Öll sveitarfélög landsins eiga að vera sjálfbær og geta boðið íbúum upp á þá grunnþjónustu sem þeir eiga rétt á. Þannig sköpum við aðstæður sem tryggja aukna nýsköpun og framleiðslu í heimahögum. Píratar vilja draga úr miðstýringu valds og færa ákvarðanatöku í málefnum byggða og sveitarfélaga í auknum mæli til nærsamfélagsins. Einnig þarf að tryggja að stærra hlutfall skatttekna svæðisbundinnar starfsemi renni beint til sveitarfélaganna. Píratar ætla að vinna að byggðarstefnu í samvinnu við íbúa en aukið íbúalýðræði í nærsamfélagi er grundvöllur fyrir sterku og valdeflandi samfélagi. Til að styðja við sjálfbæra þróun viljum við ljúka ljósleiðaravæðingu allra byggðakjarna landsins og tryggja örugg fjarskipti um land allt. Píratar vita að skilvirkar og umhverfisvænar samgöngur með fullfjármagnaðri samgönguáætlun virka og munu aukna áhrif hvers landshluta á forgangsröðun. Stuðla skal að umhverfisvænni uppfærslu í frárennslis-, endurvinnslu- og sorpmálum í samvinnu við sveitarfélögin. Píratar vilja trausta innviði sem styðja við framþróun um allt land. Þar á meðal frjálst internet um ljósleiðara, þriggja fasa rafmagn og öruggar samgöngur. Aðgengi að félagslegum stuðningi, heilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu, íbúðarhúsnæði og menntun við hæfi á að vera öllum tryggð. Búseta á ekki að koma í veg fyrir að fólk hafi aðgengi að nauðsynlegri þjónustu, heldur skal heilbrigðisþjónusta vera aðgengileg í heimabyggð fólks.
Efnahagsmál
Píratar ætla að:
- Vinna bug á verðbólgunni með fjölbreyttum leiðum eins og bregðast af festu við húsnæðisvandanum og stuðla að stöðugra efnahagskerfi.
- Láta Ísland vera í fararbroddi í innleiðingu velsældarhagkerfis.
- Taka á spillingu, loka skattaglufum og tryggja sanngjarnt, einfalt og réttlátt skattkerfi.
- Uppræta fátækt og tryggja lágmarksframfærslu.
- Skapa aukin verðmæti og lífsgæði með stuðningi við nýsköpun og þróun.
- Endurskoða opinberan rekstur með stafræna umbreytingu að leiðarljósi.
- Standa með hagsmunum neytenda og almennings við allar efnahagslegar ákvarðanir.
- Efla gagnsæi, ábyrga áætlanagerð, tækifæri til aðhalds og lýðræðislegrar þátttöku.
- Tryggja umhverfislega sjálfbærni og innleiða loftslagsbókhald og græn innkaup í öllum opinberum rekstri.
- Fjármagna grunninnviði velferðarsamfélagsins og standa með forvörnum, menntun og náttúrunni.
- Stuðla að sátt á vinnumarkaði.
Píratar tala fyrir nýrri sýn á hagkerfið. Sýn sem vefur samfélag og náttúru saman svo hagkerfið taki tillit til fleiri þátta en þeirra sem eru með verðmiða. Því viljum við byggja sjálfbært velsældarhagkerfi fyrir öll. Samfélag þar sem við öll blómstrum á eigin forsendum í sátt við umhverfi okkar. Píratar munu forgangsraða almannahagsmunum umfram sérhagsmuni, en það mun létta róður fjölskyldna sem glíma við verðbólguhlaðið heimilisbókhald. Draga þarf úr sveiflum hagkerfisins og skapa stöðugra efnahagsástand. Slíkt mun leiða af sér stöðugri gjaldmiðil og sjálfbæra verðmætasköpun, þannig að hægt sé að einblína á nýsköpun á öllum sviðum samfélagsins og út um allt land. Píratar eru í forystu í baráttunni gegn spillingu. Þeir vilja loka skattaglufum, auka traust og skapa sanngjarnt og réttlátt skattkerfi sem færir byrðar af þeim sem minnst hafa yfir á þau sem meira hafa. Brugðist verður við húsnæðisvandanum af festu, að fólk hafi öruggt þak yfir höfuðið með minnkandi verðbólgu sem meginmarkmið. Píratar ætla að innleiða loftslagsbókhald og græn innkaup og hafa umhverfis- og loftslagsmálin að leiðarljósi við allar ákvarðanir. Slíkt er hagkvæmt til lengri tíma og skapar verðmæti fyrir framtíðarkynslóðir.
Evrópumál
Píratar ætla að:
- Leggja til að þjóðin taki upplýsta ákvörðun um áframhald aðildaviðræðna við Evrópusambandið.
Píratar telja að þjóðin eigi að fá að kjósa um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Við teljum nauðsynlegt að ljúka viðræðunum til að fá skýra mynd af því hvað aðild felur í sér fyrir Ísland. Aðeins með vitneskju um hvað kemur út úr viðræðunum er hægt að taka upplýsta ákvörðun um hvort aðild sé hagstæð fyrir landið. Píratar leggja áherslu á að ferlið verði lýðræðislegt og gagnsætt, að almenningur hafi aðgang að öllum upplýsingum og geti tekið þátt í ákvarðanatökunni. Við viljum tryggja að vilji þjóðarinnar ráði för og að ákvörðunin um aðild verði byggð á staðreyndum og heildstæðum upplýsingum.
Heilbrigðismál
Píratar ætla að:
- Tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag
- Stefna að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu
- Stuðla að gagnsæi í uppbyggingu og þróun heilbrigðiskerfisins
- Leggja áherslu á snemmtæka íhlutun, forvarnir og tæknilausnir
- Setja heilbrigðismál í forgang í fjárlögum og tryggja fjármögnun
- Einfalda umsóknarferlin og draga úr skerðingum á örorku- og endurhæfingalífeyri
- Koma á fót embætti umboðsmanns sjúklinga
- Setja geðheilbrigðismál í forgang og tryggja fjármögnun.
- Leggja áherslu á forvarnir, valdeflingu, samvinnu og skaðaminnkun.
- Taka upp batamiðaða nálgun og þjónustu.
- Niðurgreiða sálfræðiþjónustu.
- Tryggja samfellt aðgengi að þjónustu og styðja aðstandendur.
- Leggja áherslu á sérhæfða bráðaþjónustu og búsetuúrræði við hæfi.
- Skoða notkun vímuefna út frá skaðaminnkandi nálgun.
- Stuðla að áfallamiðaðri nálgun, þjónustu og úrræðum.
- Fjölga sértækum úrræðum fyrir fólk með fjölbreyttar þarfir.
- Leggja áherslu á virðingu og mannréttindi.
- Efla félagslega velsæld með áherslu á forvarnir, félagsstarf og notendavæna þjónustu.
- Afglæpavæða neysluskammta vímuefna og tryggja lagalegan grundvöll fyrir skaðaminnkandi þjónustu.
Heilbrigðis- og félagsmál eru nátengd og þurfa að haldast í hendur til að skapa heilbrigt og réttlátt samfélag. Píratar leggja ríka áherslu á að byggja upp streitulausara samfélag þar sem einstaklingar geta lifað af launum sínum, haft nægan frítíma og notið lífsgæða. Með forvörnum, aukinni lýðheilsu og aðgengilegri heilbrigðisþjónustu í heimabyggð er hægt að stuðla að betri heilsu allra. Félagslegir þættir og geðheilbrigði eru þar lykilatriði. Píratar vilja tryggja að heilbrigðis- og félagsþjónusta sé mannúðleg, aðgengileg og byggi á gagnreyndum aðferðum. Með áherslu á forvarnir, skaðaminnkun og batamiðaða nálgun er hægt að valdefla einstaklinga og bæta lífsgæði þeirra. Markmiðið er samfélag þar sem bæði líkamlegt og sálrænt heilbrigði er forgangsmál og þar sem allir fá þá aðstoð sem þeir þurfa, óháð búsetu eða efnahag. Að tryggja mannvirðingu og mannréttindi er leiðarljós í allri stefnumótun Pírata.
Húsnæðismál
Píratar ætla að:
- Tryggja næga uppbyggingu húsnæðis með því að skilyrða að lífeyrissjóðir fjármagni að jafnaði þriðjung af uppbyggingarþörf.
- Draga úr skammtímaleigu eins og Airbnb með því að skilyrða heimagistingu við íbúðir þar sem einstaklingar eru skráðir til heimilis og herða eftirlit.
- Innleiða lögheimilisskyldu, takmarka veðsetningarhlutfall aukaíbúða við 60% og bæta 0,7% aukafasteignargjöldum á aukaíbúðir.
- Setja kvaðir um að öll sveitarfélög bjóði upp á ákveðið lágmark af félagslegu húsnæði.
- Ráðast í sérstakt átak í byggingu íbúða fyrir fatlað fólk til að vinna á allt of löngum biðlistum eftir viðeigandi íbúðarhúsnæði. Vinna með rekstraraðilum að nauðsynlegri aðlögun atvinnuhúsnæðis svo þátttaka fatlaðs fólks á vinnumarkaði eða í samfélaginu í heild strandi ekki á aðgengi.
- Efla réttindi leigjenda, innleiða hvata til fjölgunar langtímaleigusamninga og verja leigjendur gegn hástökki í upphæðum leigusamninga.
- Tryggja að byggingarreglugerð skilyrði gæði eins og birtu, vistlegt umhverfi og nægan gróður við uppbyggingu.
- Endurvekja rannsóknir á myglu í Rannsóknarmiðstöð byggingariðnaðarins og standa með réttindum mygluveikra með skýrum ramma í kringum tryggingar vegna mygluskemmda.
- Auka gagnsæi og setja skorður á ófyrirsjáanleg lánakjör eins og breytilega vexti og verðtryggingu.
Húsnæðisstefna Pírata miðar að því að tryggja öllum öruggt og viðráðanlegt húsnæði. Með aukinni uppbyggingu, félagslegri blöndun og vernd réttinda leigjenda viljum við skapa stöðugan og sanngjarnan húsnæðismarkað. Píratar leggja áherslu á að húsnæði sé nýtt sem heimili, ekki fjárfesting, og að bæta gæði byggðar með vistvænum og aðgengilegum lausnum sem þjóna þörfum allra. Markmið Pírata er réttlátt húsnæðiskerfi sem mætir þörfum fjölbreytts samfélags. Með aukinni félagslegri uppbyggingu, eflingu leigjendaverndar og skýrari reglum um lánakjör er hægt að tryggja öllum heimili við hæfi. Píratar vilja stuðla að sjálfbærni, félagslegu réttlæti og velferð í húsnæðismálum, þar sem öryggi og lífsgæði eru í forgrunni fyrir alla landsmenn.
Jafnréttismál
Píratar ætla að:
- Gera Ísland að leiðandi ríki í réttindabaráttu hinsegin fólks á heimsvísu.
- Tryggja lagalegt jafnrétti hinsegin para á við gagnkynja pör.
- Uppfæra ákvæði í stjórnarskrá til að ná yfir kyntjáningu, kynvitund og kyneinkenni.
- Bæta þjónustu í tengslum við kynstaðfestandi ferli.
- Banna öll ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna.
- Beita okkur fyrir sanngirni og skoða bótagreiðslur til þeirra sem hafa sætt óréttlátri meðferð vegna hinseginleika síns.
- Beita sér fyrir því að frjósemisfrelsi kvenna og kvára verði tryggt í stjórnarskrá.
- Leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum.
- Lögfesta rétt barna til leikskólavistar strax að loknu fæðingarorlofi.
- Afnema skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og tryggja að fæðingarorlofsgreiðslur verði aldrei lægri en lágmarkslaun.
- Tryggja brotaþolum í kynferðisbrotamálum fullnægjandi þjónustu, s.s. túlkaþjónustu og aðgengi, í samskiptum við opinberar stofnanir.
- Láta brot á nálgunarbanni hafa afleiðingar, að bannið hafi áhrif og lögreglan fái rýmri heimildir til að beita nálgunarbanni.
- Endurskoða lög um nauðganir og önnur kynferðisbrot og annað kynbundið ofbeldi, til að fanga meðal annars betur brot í netheimum og á samskiptamiðlum.
- Færa kynjafræði, hinsegin fræði og menntun um birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og samskiptafærni inn í námskrá grunn- og framhaldsskóla.
- Tryggja aðgengi ungs fólks að nafnlausri ráðgjöf og spjalli við ráðgjafa.
- Efla lög um bann við hatursorðræðu og gera hana á grundvelli kynjamisréttis og kvenhaturs refsiverða.
Píratar leggja höfuðáherslu á jafnrétti og virðingu fyrir fjölbreytileika í samfélaginu. Við viljum tryggja öllum jafnan rétt, óháð kyni, kynhneigð, uppruna eða fötlun. Með víðsýni og samstöðu stefnum við að réttlátara samfélagi þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín til fulls. Jafnrétti og mannréttindi eru hornsteinar lýðræðislegs samfélags. Píratar munu áfram berjast fyrir auknum réttindum hinsegin fólks, kvenna og jaðarsettra hópa. Með skýrum lögum og fræðslu er hægt að tryggja virðingu, öryggi og sanngirni fyrir alla, óháð bakgrunni eða aðstæðum.
Menntamál
Píratar vilja byggja upp menntakerfi sem býr nemendur undir áskoranir framtíðarinnar með áherslu á gagnrýna hugsun, sköpun og jafna möguleika. Píratar leggja áherslu á menntun sem eflir gagnrýna hugsun, skapandi lausnir og einstaklingsmiðað nám. Við viljum byggja skólastarf á þverfaglegri nálgun og verkefnamiðuðu námi þar sem ábyrgð nemenda á eigin þroska er í fyrirrúmi. Markmið okkar er að tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til náms, óháð aðstæðum. Með áherslu á opinn aðgang, tæknilausnir og lýðræðislega þátttöku nemenda verður menntakerfið öflugt afl til breytinga og framfara. Nemendur, kennarar og samfélagið allt eiga að taka þátt í mótun menntakerfis sem stuðlar að vellíðan, sjálfstrausti og samfélagslegri ábyrgð.
Píratar ætla að:
- Leggja áherslu á nám á einstaklingsmiðuðum forsendum.
- Efla þekkingu, gagnrýna hugsun og upplýsingalæsi.
- Stuðla að heildrænni nálgun og þverfaglegu námi.
- Tryggja jafnan rétt allra til náms.
- Valdefla nemendur og auka þátttöku þeirra í námsferlinu.
- Auka aðgengi að námsgögnum og tæknilausnum fyrir alla.
- Byggja upp skólakerfi sem styrkir heilsu og vellíðan.
- Leggja áherslu á öryggi gegn ofbeldi og áreitni.
- Styðja við kennara sem fagfólk.
- Efla lýðræðislega þátttöku og ábyrgð.
- Stuðla að framtíðarsýn og langtímaáætlunum.
Píratar vilja byggja upp menntakerfi sem býr nemendur undir áskoranir framtíðarinnar með áherslu á gagnrýna hugsun, sköpun og jafna möguleika. Píratar leggja áherslu á menntun sem eflir gagnrýna hugsun, skapandi lausnir og einstaklingsmiðað nám. Við viljum byggja skólastarf á þverfaglegri nálgun og verkefnamiðuðu námi þar sem ábyrgð nemenda á eigin þroska er í fyrirrúmi. Markmið okkar er að tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til náms, óháð aðstæðum. Með áherslu á opinn aðgang, tæknilausnir og lýðræðislega þátttöku nemenda verður menntakerfið öflugt afl til breytinga og framfara. Nemendur, kennarar og samfélagið allt eiga að taka þátt í mótun menntakerfis sem stuðlar að vellíðan, sjálfstrausti og samfélagslegri ábyrgð. Menntakerfi er hornsteinn lýðræðis og grunnur að samfélagi sem stuðlar að jöfnuði og virkri þátttöku allra borgara. Við leggjum áherslu á að menntakerfið sé sveigjanlegt, stuðli að heilsu og vellíðan og sé aðgengilegt fyrir alla, óháð efnahag eða bakgrunni. Með samvinnu, nýsköpun og opnum lausnum tryggjum við að námsgögn og tækni séu öllum tiltæk. Lýðræðisleg þátttaka nemenda, kennara og foreldra í ákvarðanatöku er lykilatriði. Framtíðarsýn Pírata snýst um að byggja menntakerfi sem er grundvöllur sjálfbærs, skapandi og réttláts samfélags þar sem allir fá tækifæri til að þroskast og leggja sitt af mörkum.
Loftslagsmál
Píratar ætla að:
- Halda þjóðfund á hverju kjörtímabili til að finna lausnir í baráttunni gegn loftslagsmálum.
- Draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda.
- Stórefla stjórnsýslu loftslagsmála.
- Tryggja réttlát umskipti fyrir almenning og bændur.
- Efla nýsköpun í landbúnaði.
- Koma á grunnframfærslu til bænda.
- Auka aðgengi fólks að viðgerðaþjónustu og varahlutum til að lengja líftíma tækja og hluta.
Stærstu áskoranir samtímans mætast í loftslagsmálum og náttúruvernd. Píratar eru leiðandi á Íslandi í þeim málaflokkum og tala ávallt máli náttúrunnar. Umhverfismál eiga undir högg að sækja um allan heim og því aldrei verið mikilvægara að standa vörð um náttúruvernd og sjálfbærni. Náttúruvernd, loftslagsaðgerðir og verndun líffræðilegs fjölbreytileika haldast í hendur. Aðgerðir í þágu loftslagsmála mega ekki ganga á líffræðilegan fjölbreytileika eða skaða náttúruna. Gera þarf raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar, þar sem þær samfélagsbreytingar framtíðarinnar eru hafðar að leiðarljósi. Á sama tíma verðum við að hverfa frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Grípa tækifærin sem felast í tækniframförum og grænum umskiptum og gera betur fyrir bændur og neytendur. Píratar leggja ríka áherslu á dýravernd og vilja að vistmorð verði refsivert. Meginábyrgð þess að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda liggur hjá mengandi fyrirtækjum og stjórnvöldum sem setja þeim reglurnar. Píratar ætla ekki að velta ábyrgðinni á einstaklinga heldur láta þá sem menga mest greiða fyrir slíkt í samræmi við mengunarbótaregluna. Þessi gjaldtaka á að renna að stórum hluta til grænna sprotafyrirtækja og frumkvöðla.
Samgöngumál
Píratar ætla að:
- Gera einfaldar og hraðvirkar breytingar á samgöngukerfinu, t.d. með því að stórefla Strætó strax. Koma á fót landsbyggðastrætó sem virkar og flýta Borgarlínu eins og kostur er og hækka samgöngustyrki.
- Píratar ætla að byggja upp öruggt vegakerfi um land allt.
Píratar vita að skilvirkar og umhverfisvænar samgöngur með fullfjármagnaðri samgönguáætlun virka. Píratar vilja trausta innviði sem styðja við framþróun um allt land. Þar á meðal frjálst internet um ljósleiðara, þriggja fasa rafmagn og öruggar samgöngur. Fólk verður að hafa greiðan aðgang að samgöngum um land allt, en samhliða verður að byggja upp hvata til að nota vistvæna samgöngumáta. Píratar ætla að byggja upp öruggt vegakerfi um land allt, efla vistvæna ferðamáta svo fólk geti notað hjól og strætó hvar sem það býr og tryggja aðgengi að rafhleðslu við alla þjóðvegi. Stuðningskerfi til einstaklinga sem velja sér vistvæna ferðamáta verður umbylt, að það sé ekki aðeins fyrir kaupendur rafbíla heldur einnig þá sem kjósa reiðhjól sem fararkost. Ráðast þarf í kröftuga uppbyggingu innviða og þjónustu í þágu virkra og grænna ferðamáta. Þannig aukum við hlutdeild gangandi og hjólandi umferðar og aukum notkun almenningssamgangna. Samgöngustyrkir eru einföld en mikilvæg aðgerð, því ferðir til og frá vinnu eru stór hluti af mengun samgangna. Píratar ætla að efla samgöngustyrki, sem er einfaldlega gert með því að hækka mánaðarlegar greiðslur til þeirra sem nýta sér almenningssamgöngur og virka ferðamáta. Við verðum að taka stór skref til að breyta samgöngukerfinu til að ná hröðum árangri í loftslagsmálum. Meðal þess sem hefur mikil áhrif og er hægt að gera hratt er að stórefla strætó strax, byggja upp landsbyggðarstrætó sem virkar og flýta Borgarlínu eins og kostur er.
Sjávarútvegsmál
Píratar ætla að:
- Tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sjávar og sanngjarnt auðlindagjald til þjóðarinnar
- Tryggja frjálsar handfæraveiðar og strandveiðar
- Takmarka gildistíma veiðiheimilda og stuðla að jafnræði við úthlutun heimilda
- Tryggja sjálfbærar veiðar með vísindalegri ráðgjöf
- Banna hvalveiðar
- Banna sjókvíaeldi í opnum sjókvíum
- Banna olíuleit og olíuvinnslu í íslenskri landhelgi
- Beita sér fyrir og alþjóðlegu banni gegn olíuleit og olíuvinnslu, námavinnslu á hafsbotni
- Þrýsta á að norðurskautssvæðið njóti sérstakrar friðlýsingar
Sjávarútvegsmál eru meðal mikilvægustu hagsmunamála þjóðarinnar og nauðsynlegt er að ná breiðri sátt í þessum málaflokki. Tryggja þarf að þjóðin haldi eignarhaldi sínu á sjávarauðlindinni, sem hægt er að gera með því að samþykkja almennt auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands. Sjávarauðlindin er sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Enginn getur fengið fiskveiðiheimildir eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota, og aldrei má selja þær eða veðsetja. Þjóðin skal njóta sanngjarnrar auðlindarentu af sjávarauðlindinni. Píratar vilja stuðla að sjálfbærum sjávarútveg með öflugum rannsóknum og eftirliti. Mikilvægt er að skýr skil séu á milli rannsókna á náttúruauðlindum, ákvarðana um nýtingu þeirra og eftirlits með framkvæmdinni. Fiskveiðistjórnun má ekki verða fórnarlamb úreltrar stjórnsýslu eða pólitískra átaka milli ráðuneyta. Sjávarútvegur er grunnstoð byggðar um land allt og því ber okkur að standa vörð um lífríki hafsins. Handfæraveiðar eru umhverfisvænar og fara vel með hafsbotninn. Þær skulu gerðar frjálsar til atvinnu öllum sem hana vilja stunda. Það skal gert undir eftirliti Hafrannsóknarstofnunar og í áföngum. Veiðigeta mun þannig takmarkast af tíðarfari og smæð báta. Píratar ætla að tryggja öllum handfærabátum, með fjórar rúllur, 48 daga á hverri strandveiðivertíð án stöðvunarheimildar. Fiskeldi í opnum sjókvíum hefur gríðarlega mengandi áhrif og slæmar afleiðingar fyrir náttúruna, lífiríkið og vistkerfið í heild. Byggja þarf upp fjölbreytta atvinnustarfsemi í sjávarplássum, með áherslu á frumkvæði íbúa. Byggja þarf upp samfélagið á forsendum íbúanna.
Skattamál
Píratar ætla að:
- Taka á spillingu, loka skattaglufum og tryggja sanngjarnt, einfalt og réttlátt skattkerfi.
- Slá á þensluna þar sem hún er mest með því að hækka skatta á háar fjármagnstekjur og draga úr þeim skattaafslætti sem ferðaþjónustan býr við.
Píratar eru í forystu í baráttunni gegn spillingu. Þeir vilja loka skattaglufum, auka traust og skapa sanngjarnt og réttlátt skattkerfi sem færir byrðar af þeim sem minnst hafa yfir á þau sem meira hafa. Píratar leggja áherslu á að opinbert eftirlit virki fyrir almenning gegn starfsemi sem svindlar á fólki. Efla þarf lögreglu, skattrannsóknir og samkeppniseftirlit, slíkt verndar heiðarlega starfsemi og almenning. Píratar vilja létta skattbyrði af þeim sem minnst hafa, af barnafjölskyldum og skuldsettum. Endurskoða þarf fjármagnstekjuskatt, að ekki sé hægt að nota hann til að komast hjá því að greiða hátekjuskatt. Píratar vilja að hann sé þrepaskiptur með tilliti til tegundar fjármagnstekna. Setja skal á fót auðlindagjald fyrir hagnýtingu á sameiginlegum auðlindum, vinna gegn skattasniðgöngu stórfyrirtækja með því að taka betur á þunnri eiginfjármögnun og taka á lóðréttri samþættingu í sjávarútvegi með því að aðskilja veiðar og vinnslu. Skattkerfið má ekki hafa íþyngjandi áhrif á þau sem eiga nú þegar erfitt með að ná endum saman. Píratar ætla að tryggja lágmarksframfærslu. Létta skattbyrði af þeim sem minnst hafa, hækka persónuafslátt og greiða fólki út þann persónuafslátt sem það nýtir ekki. Ísland er ríkt land sem getur upprætt fátækt því mega lágmarkslaun aldrei vera undir lágmarksframfærslu á hverjum tíma. Til lengri tíma vilja Píratar skoða kosti þess að koma á fót skilyrðislausri grunnframfærslu á Íslandi. Tryggja þarf að stærra hlutfall skatttekna svæðisbundinnar starfsemi renni beint til sveitarfélaganna. Píratar vilja að skattar á borð við gistináttagjald og hlutfall af fjármagnstekjuskatti og virðisaukaskatti renni til sveitarfélaganna. Skatttekjur sem myndast vegna seldrar vöru og þjónustu eiga að efla samfélagið sem skapaði þær.
Stjórnarskrármál
Píratar ætla að:
- Samþykkja nýja, uppfærða stjórnarskrá.
- Setja ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá.
- Uppfæra ákvæði í stjórnarskrá til að ná yfir kyntjáningu, kynvitund og kyneinkenni.
- Beita sér fyrir því að frjósemisfrelsi kvenna og kvára verði tryggt í stjórnarskrá.
- Tryggja að þjóðin haldi eignarhaldi sínu á sjávarauðlindinni, sem hægt er að gera með því að samþykkja almennt auðlindaákvæði í stjórnarskrá Íslands.
Píratar vilja nýja stjórnarskrá Íslands á næsta kjörtímabili. Sú stjórnarskrá skal byggja á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs og þeim ábendingum sem fram hafa komið síðan þá. Allar viðbætur eða breytingar á fyrirliggjandi frumvarpi yrðu gerðar í víðtæku samráði við almenning og sérfræðinga, til dæmis með borgaraþingi eða öðrum þjóðfundi. Píratar telja að dýr verði að njóta vafans og að velferð þeirra skipti máli. Það er gert með því að setja varúðarákvæði í löggjöf þannig að við ákvarðanatöku er varðar dýrahald, sé hagur dýranna ætíð hafður að leiðarljósi. Uppfæra þarf ákvæði í stjórnarskrá um að öll séu jöfn fyrir lögum sem nái ekki aðeins til kynhneigðar, heldur líka kyntjáningar, kynvitundar og kyneinkenna.
Orkumál
Píratar ætla að:
- Gera raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar
- Tryggja aðgengi almennings að áreiðanlegri og endurnýjanlegri orku
- Sjá til þess að orkuvinnsla á Íslandi nýtist til orkuskipta og til uppbyggingar á grænni nýsköpun
Gera þarf raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar. Sú áætlun þarf að taka tillit til nauðsynlegra samfélagsbreytinga og hverfa frá ósjálfbærri stóriðjustefnu. Virkjað hefur verið nóg í þágu mengandi stóriðju á Íslandi og draga þarf úr vægi hennar. Tryggt verður að ný orkuvinnsla nýtist til orkuskipta og að orkan verði nýtt til uppbyggingar í þágu grænnar nýsköpunar. Píratar munu standa með almenningi, að fólki sé tryggt aðgengi að áreiðanlegri endurnýjanlegri orku á viðráðanlegu verði og að það sitji við sama borð hvar sem er á landinu. Þetta á við um hita jafnt sem rafmagn hjá öllum íbúum landsins. Þannig forgangsraða Píratar almenningi og smærri fyrirtækjum. Ný orkuvinnsla á að nýtast til orkuskipta og orkan til uppbyggingar á grænni nýsköpun. Píratar vilja tryggja varúðarsjónarmið svo nýir orkukostir séu ekki þróaðir á kostnað umhverfis og náttúru. Vindorka krefst þess að settur sé skýr lagarammi þar sem tryggt sé að saman fari hagsmunir almennings, náttúru og nærsamfélags.
Umhverfismál
Píratar ætla að:
- Setja á fót þjóðgarð á hálendi Íslands.
- Gera vistmorð refsivert.
- Tryggja réttlát umskipti fyrir almenning og bændur.
- Efla nýsköpun í landbúnaði.
- Setja ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá.
- Friða heimskautaref, lunda, sel og hval.
Náttúruvernd, loftslagsaðgerðir og verndun líffræðilegs fjölbreytileika haldast í hendur. Aðgerðir í þágu loftslagsmála mega ekki ganga á líffræðilegan fjölbreytileika eða skaða náttúruna. Gera þarf raunhæfa áætlun um orkuþörf til framtíðar, þar sem þær samfélagsbreytingar framtíðarinnar eru hafðar að leiðarljósi. Píratar leggja ríka áherslu á dýravernd og vilja að vistmorð verði refsivert. Vinna við stofnun þjóðgarðs á að fara fram í lýðræðislegu ferli og á að vera sameiginlegt verkefni samfélagsins, enda mikilvægt að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem standa með náttúruvernd. Tryggja þarf fjármagn til að standa að uppbyggingu þjóðgarðsins og halda þar uppi öflugri landvörslu. Ráðist verður í stórátak í friðlýsingu á landi og í hafi til að ná alþjóðlegum skuldbindingum. Villidýralög verða endurskoðuð til að þau verndi betur þau dýr sem lifa í náttúru Íslands. Hvalir verða friðaðir samhliða því. Píratar ætla að innleiða rétt til viðgerða. Við munum auðvelda aðgengi fólks að viðgerðaþjónustu og varahlutum, bæði með breytingum á skattkerfinu og í formi hringrásarstyrkja. Almenningssamgöngur þurfa að vera raunverulegur kostur um allt land. Píratar ætla að byggja upp öruggt vegakerfi um land allt, efla vistvæna ferðamáta svo fólk geti notað hjól og strætó hvar sem það býr og tryggja aðgengi að rafhleðslu við alla þjóðvegi.
Útlendingamál
Píratar ætla að:
- Efla inngildingu fólks sem flyst til landsins.
- Tryggja vernd réttinda erlends launafólks.
- Efla baráttuna gegn mansali.
- Auka aðgengi fólks af erlendum uppruna að menntun.
- Efla menntakerfið til þess að hjálpa börnum með annað móðurmál en íslensku.
- Koma á skilvirkara móttökukerfi mannúðar-, atvinnu-, og dvalarleyfa.
- Auka stuðning við fólk á flótta.
Píratar vilja byggja upp fjölbreytt og farsælt fjölmenningarsamfélag með því að tryggja innflytjendum tækifæri til virkrar þátttöku og sporna gegn fordómum. Píratar leggja áherslu á að vernda réttindi erlends launafólks, berjast gegn mansali, tryggja aðgengi að menntun og einfalda móttökukerfi fyrir útlendinga. Píratar vilja mannúðlega meðferð fólks á flótta og að fólki sé leyft að vinna meðan umsókn er í ferli og að nauðsynleg þjónusta sé tryggð. Píratar leggja mikla áherslu á að vinna að inngildingu fólks sem flyst til landsins, að því sé tryggð tækifæri til að taka virkan þátt í íslensku samfélagi. Þetta krefst aðlögunar á báða bóga. Píratar vilja ráðast í samfélagsátak til að sporna við fordómum, útlendingahatri og hatursorðræðu. Píratar ætla að efla menntakerfið til þess að hjálpa börnum með annað móðurmál en íslensku. Píratar vilja einfalda umsóknarferli dvalar- og atvinnuleyfa sem er nú óþarflega flókið, óskilvirkt og kostnaðarsamt. Píratar vilja að öllum tegundum dvalarleyfa fylgi óbundið atvinnuleyfi. Píratar leggja til að færa verkefni Útlendingastofnunar til annarra viðeigandi stofnana og einfalda umsóknar- og skráningarkerfi til muna. Einnig skal unnið að því að draga úr lögfræðikostnaði bæði ríkis og umsækjenda með skýrara og einfaldara regluverki. Píratar vilja auka mannúð og lækka kostnað við móttöku flóttafólks með því að leyfa því að vinna meðan umsókn þeirra er til meðferðar og með því að straumlínulaga umsóknarferlið til að auka skilvirkni. Umsóknir um alþjóðlega vernd skulu almennt teknar til efnismeðferðar, og umsækjendum skal veitt sérstakt atvinnuleyfi.
Velferðarmál
Píratar ætla að:
- Gera úrbætur á almannatryggingakerfinu.
- Gera lífeyrisþegum kleift að afla tekna án skerðingar.
- Ráðast í heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu.
- Endurskoða umsóknarferlið um örorku- og endurhæfingalífeyri.
- Lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
- Fjölga NPA-samningum.
- Auka frelsi til búsetu.
- Bæta framboð á störfum eftir ólíkri getu fólks.
- Hafa ríkt samráð við fulltrúa öryrkja, eldra fólks og fatlaðs fólks við allar ákvarðanir sem varða hag þeirra.
- Tryggja að ellilífeyrir fylgi launaþróun og tryggja valfrjálsa frestun töku hans.
- Sjá til þess að lífeyrissjóðsgreiðslur og atvinnutekjur skerði ekki lögbundinn ellilífeyri.
- Styðja við kynslóðablöndun.
- Efla heimahjúkrun og heimaþjónustu svo fólk geti búið heima sem lengst.
- Uppræta fátækt og tryggja lágmarksframfærslu.
Píratar trúa því að með þátttöku allra í samfélaginu bætum við og eflum samfélag okkar. Við viljum valdefla einstaklinga til að athafna sig á eigin forsendum. Lífsgæði alls fólks, hvort sem þau eru öldruð, glíma við fötlun eða annað, skulu vera eins góð og þau geta verið miðað við aðstæður hvers og eins. Píratar vilja róttæka endurskoðun almannatryggingakerfisins með það að markmiði að skapa gagnsætt, mannúðlegt og notendavænt kerfi sem tryggir öllum framfærslu. Við viljum útrýma fátækt með því að létta skattbyrði á tekjulægstu hópana og tryggja að lágmarkslaun séu ávallt yfir framfærslumörkum. Auk þess viljum við skoða skilyrðislausa grunnframfærslu sem framtíðarlausn. Fyrir eldra fólk leggjum við áherslu á fjölbreytt úrræði sem styðja við sjálfstæði og lífsgæði. Með aukinni endurhæfingu og húsnæðislausnum sem endurspegla þarfir fólks, viljum við stuðla að sjálfstæði og valdeflingu þeirra sem þurfa mest á þjónustu að halda. Með lífsgæðakjörnum og kynslóðablönduðum búsetuúrræðum getum við rutt brautina fyrir samfélag þar sem allir fá að lifa með reisn, óháð aldri, efnahag eða aðstæðum.