Miðflokkurinn
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Formaður
Atvinnumál
Minnka þarf ríkisbáknið, einfalda regluverk og draga úr kerfisræði á Íslandi. Þannig er hægt að draga úr álögum á almenning og lítil og meðalstór fyrirtæki fá aukið frelsi til að skapa ný störf og ný verðmæti. Stjórnvöld eiga að þjónusta almenning, ekki öfugt.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að rekstrarstaða og samkeppnisstaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði bætt með skattalegum hvötum og einfaldara regluverki þannig að ekki séu lagðar sömu kvaðir á lítil fyrirtæki og þau stærri.
Miðflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi fjölbreyttrar atvinnustarfsemi um land allt. Miðflokkurinn styður hvers konar framþróun og nýsköpun til að efla fjölbreytta atvinnustarfsemi og útflutning hátæknivara. Mikilvægt er að stjórnvöld sinni því hlutverki sínu að tryggja fyrirtækjum stöðugt og gott rekstrarumhverfi, þannig að verðmætasköpun í samfélaginu geti aukist í takt við auknar þarfir samfélagsins.
Byggðarmál
Kjarninn í byggðastefnu Miðflokksins birtist í slagorðinu „Ísland allt“ sem gengur út á að innleiða heildarsýn í byggðamálum þar sem jafnrétti allra, óháð búsetu, verður tryggt. Byggðastefnan „Ísland allt“ hefur aldrei verið eins aðkallandi og nú. Aðeins á þann hátt getum við farið úr dýrri vörn í arðbæra sókn fyrir landið allt.
Í stað þess að reyna smáskammtalækningar hér og þar er mikilvægt að allar aðgerðir tengist saman og eitt styðji annað. „Íslandi allt“ er ætlað að ná til allra þátta sem skipta byggð í landinu miklu, svo sem samgangna, fjarskipta, orkuflutninga, heilbrigðisþjónustu, menntamála, aðstæðna atvinnurekenda og allrar annarrar þeirrar þjónustu sem allir landsmenn eiga jafnan rétt á.
Kjarninn í byggðastefnu Miðflokksins birtist í slagorðinu „Ísland allt“ sem gengur út á að innleiða heildarsýn í byggðamálum þar sem jafnrétti allra, óháð búsetu, verður tryggt. Byggðastefnan „Ísland allt“ hefur aldrei verið eins aðkallandi og nú. Aðeins á þann hátt getum við farið úr dýrri vörn í arðbæra sókn fyrir landið allt.
Í stað þess að reyna smáskammtalækningar hér og þar er mikilvægt að allar aðgerðir tengist saman og eitt styðji annað. „Íslandi allt“ er ætlað að ná til allra þátta sem skipta byggð í landinu miklu, svo sem samgangna, fjarskipta, orkuflutninga, heilbrigðisþjónustu, menntamála, aðstæðna atvinnurekenda og allrar annarrar þeirrar þjónustu sem allir landsmenn eiga jafnan rétt á.
Tímabært er að hverfa frá viðvarandi og árangurslítilli vörn í samgöngumálum og hefja sókn á því sviði og fjárfesta í öllum nauðsynlegum innviðum sem eru til þess fallnir að Ísland virki sem sterk heild í þágu samfélagsins alls.
Efnahagsmál
Ný ríkisstjórn þarf að einsetja sér að skila hallalausum fjárlögum og gefa þannig væntingar um trausta stjórn efnahagsmála. Nauðsynlegt er að taka strax á hallarekstri og skuldasöfnun ríkisins. Þannig er unnt að sigrast á verðbólgunni. Miðflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi fjölbreyttrar atvinnustarfsemi um land allt. Miðflokkurinn styður hvers konar framþróun og nýsköpun til að efla fjölbreytta atvinnustarfsemi byggða á gæðum landsins og þekkingu landsmanna. Það ásamt öflugu menntakerfi mun tryggja áframhaldandi útflutning hátæknivara en þar hafa Íslendingar nú þegar náð eftirtektarverðum árangri.
Afstaða Miðflokksins til annarra málaflokka sýnir að í verki styður flokkurinn fjölbreytt og kraftmikið atvinnulíf, hvort sem litið er til stefnu í einstökum málaflokkum eða í afstöðunni til ríkisvaldsins eða skattheimtu. Mikilvægt er að tryggja sköpunar- og framtakskraft einstaklinganna til að halda áfram að efla þjóðarhag.
Miðflokkurinn telur mikilvægt að stjórnvöld sinni því hlutverki sínu að tryggja fyrirtækjum stöðugt og gott rekstrarumhverfi, þannig að verðmætasköpun í samfélaginu geti aukist jafnt og þétt.
Evrópumál
Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á samvinnu við lönd Evrópu en hafnar aðild að Evrópusambandinu. Miðflokkurinn lítur svo á að öllum viðræðum við sambandið hafi verið slitið og verði ekki hafnar aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þjóðin verði spurð hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið. Miðflokkurinn vill endurskoðun Schengen-samstarfsins og telur að það þarfnist endurskoðunar í ljósi þess að fjölmörg Evrópulönd hafa á undanförnum árum vikið frá grundvallarreglum Schengen-fyrirkomulagsins til að verja landamæri sín. Ísland þarf að vera fært um að nýta stöðu sína sem eyja til að hafa stjórn á eigin landamærum en þó í góðu áframhaldandi samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir.
Miðflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu þar sem Ísland kemur fram sem frjáls og fullvalda þjóð. Flokkurinn vill áframhaldandi góða samvinnu við þjóðir Evrópu þó að eftir atvikum geti verið nauðsynlegt að endurmeta og skoða einstaka liði þeirrar samvinnu enda lifum við í síbreytilegum heimi. Miðflokkurinn tekur sér stöðu með fullveldi landsins sem er forsenda þess að Íslendingar geti staðið vörð um eigin hagsmuni í samskiptum við aðrar þjóðir.
Heilbrigðismál
Miðflokkurinn leggur áherslu á að hagsmunum sjúklinga sé best borgið í blönduðu kerfi undir forsjá hins opinbera. Ekki skal breyta þeirri grundvallarstefnu. Miðflokkurinn hafnar tvöföldu heilbrigðiskerfi og leggur áherslu á að eyða biðlistum. Miðflokkurinn leggur áherslu á að forvarnir verði lykilatriði þegar tryggja á aðgengi að innihaldsríku lífi á efri árum. Leggja skal áherslu á að fyrirbyggjandi aðgerðir og eftirlit verði stóraukið, meðal annars með gjaldfrjálsum heilbrigðisskimunum. Með heilbrigðisskimunum er hægt að grípa fyrr inn í þegar sjúkdómar og hættur steðja að. Við sem fámenn þjóð eigum að geta tryggt öllum Íslendingum rétt á heilbrigðisskimunum og með því sparað fjármuni í heilbrigðiskerfinu til langs tíma.
Miðflokkurinn leggur sérstaka áherslu á að aldraðir og öryrkjar fái viðeigandi stuðning og þjónustu sem miðar að þörfum hvers og eins og því vill flokkurinn setja málefni aldraðra og öryrkja í forgang. Áhersla skal lögð á endurhæfingu hvers einstaklings sama hvar sem hann kýs að búa, á eigin heimili eða á dvalar- og öldrunarheimilum.
Miðflokkurinn telur að leiðarljós breytinga verði að vera skilvirkni og öryggi þjónustunnar þar sem heilbrigðisþjónusta krefst vandaðri undirbúnings og eftirfylgni í náinni samvinnu við alla þá sem eiga í hlut. Mikilvægt er að standa vörð um réttindi íbúa landsins til þess að sækja þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem skimun fyrir krabbameinum er, í heimabyggð. Snúið verði við þeirri þróun að minnka styrk landsbyggðarsjúkrahúsa og þau verði aftur efld ásamt heilsugæslunni með nútíma tækjabúnaði og mönnun á sérhæfðari þjónustu.
Húsnæðismál
Miðflokkurinn styður séreignarstefnu í húsnæðismálum en leggur um leið áherslu á að hér þróist virkur leigumarkaður þannig að fjölskyldur geti valið sér það búsetuform sem best hentar. Miðflokkurinn leggur áherslu á að húsnæði sé hluti af grunnþörfum hverrar fjölskyldu og stjórnvöld verði að tryggja þessa þörf. Miðflokkurinn telur að of mikið bil á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði hafi leitt til síhækkandi húsnæðisverðs. Þá hefur óvenjumikil fjölgun íbúa landsins með innflutningi fólks aukið enn frekar á vandann. Miðflokkurinn leggur áherslur á aðgerðir sem auka framboð lóða og auðvelda byggingaframkvæmdir. Það þarf að ráðast í aðgerðir svo allir geti eignast þak yfir höfuðið. Ástandið nú stafar ekki síst af skorti á lóðum, óþörfum kröfum hins opinbera sem endurspeglast í óskilvirkni í afgreiðslu leyfa og óþjálum byggingareglugerðum. Mikilvægt er að aðgerðir stjórnvalda ýti undir framboð hentugra byggingarlóða af hendi sveitarfélaga og vinni gegn þeim alvarlega lóðaskorti sem hér hefur ríkt. Miðflokkurinn vill leggja áherslu á aðgerðir sem auðvelda ungu fólki að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Það verður ekki gert með þeirri áherslu á þéttingu byggðar sem höfuðborgin hefur innleitt á liðnum kjörtímabilum, með tilheyrandi hækkun húsnæðisverðs. Heimatilbúinn vandi stjórnvalda er nú að ýta almenningi til baka í verðtryggð lán, eftir að mikil aukning hefur orðið um árabil á vinsældum óverðtryggðra lána. Stjórnvöld þurfa með ábyrgum aðgerðum að sigla samfélaginu aftur í átt til lágra vaxta og stöðugleika í efnahagslífinu. Miðflokkurinn telur að ráðast verði í fjölmargar aðgerðir til að styðja við uppbyggingu húsnæðis á svæðum þar sem byggingakostnaður er hærri en markaðsverð og skal hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað í 100%. Liður í því væri að almenn endurgreiðsla virðisaukaskatts fyrir vinnu á verkstað verði 60%. Breytt útfærsla hlutdeildarlána kemur til greina í til að tryggja fólki innkomu inn á húsnæðismarkaðinn. Miðflokkurinn leggur til að stimpilgjöld verði aflögð við kaup á fyrstu íbúð.
Jafnréttismál
Miðflokkurinn bendir á að ekkert samfélag eða lýðræðisríki getur talið sig vera fullkomlega þróað án jafnrétti kynjanna. Ísland hefur verið í fararbroddi í jafnréttismálum til margra ára en alltaf er hægt að gera betur. Mikilvægt er að karlmenn séu virkir þátttakendur í því að ná fram jafnrétti kynjanna enda skiptir jafnrétti alla máli. Miðflokkurinn telur að launamun sem ekki er hægt að skýra af öðrum ástæðum en kyni vera óásættanlegan.
Menntamál
Skólakerfið er í höndum hins opinbera og því þarf að tryggja nægt fjármagn til allra menntastofnana í opinberum rekstri. Miðflokkurinn leggur áherslu á að íslenskukennsla barna og unglinga verði efld.
Skólinn skal vera stéttlaus og tryggja verður að þeir efnaminni hafi sömu tækifæri og aðrir á öllum skólastigum. Þá sé spornað gegn allri aðgreiningu sem leitt geti til jaðarsetningar svo sem aðgreiningu fátækra og ríkra, fólks af ólíkum uppruna, á grundvelli fötlunar, aldurs eða kyngervis. Þá er mikilvægt að minnka aðstöðumun þeirra sem búa á landsbyggðinni til að stunda t.d. iðn- og verknám sem eingöngu er kennt á höfuðborgarsvæðinu með framboði á heimavist eða námsíbúðum. Þá skal einnig tryggja fullorðnu fólki sem ekki hefur klárað framhaldsskólanám á tilsettum tíma skólavist og auka námsúrræði fyrir þann hóp.
Áhersla skal lögð á að nauðsynleg stoðþjónusta verði aðgengileg bæði kennurum, foreldrum og nemendum. Styrkja þarf samvinnu milli allra skólastiga um leið og styrkja þarf stöðu allra einstaklinga í skólaumhverfinu, svo að sérstaða hvers og eins fái notið sín. Sérstaklega þarf að horfa til stöðu drengja í skólakerfinu. Skólum ber að tryggja öllum nemendum félagslegt, andlegt og líkamlegt öryggi á skólatíma. Miðflokkurinn leggur áherslu á að stórefla verknám.
Miðflokkurinn vill að öllum sé gert kleift að stunda íþróttir óháð efnahag. Til þess að það sé unnt leggur Miðflokkurinn áherslu á að ríki og sveitarfélög styðji vel við skipulagða starfsemi íþróttahreyfingarinnar.
Loftslagsmál
Miðflokkurinn hafnar öllu ofstæki og hræðsluáróðri í tengslum við umræðu um loftslagsmál.
Miðflokkurinn vill nálgast loftslagsmál eins og önnur viðfangsefni samfélagsins, með skynsemina að vopni og leggja til lausnir sem stuðla að bættu umhverfi fólks og fyrirtækja án íþyngjandi gjalda. Miðflokkurinn vill endurskoða aðild Íslands að samfloti með Evrópusambandinu í tengslum við loftslagsmarkmið enda standa Íslendingar þessum löndum langt framar þegar kemur að endurnýtanlegri orku. Skoða þarf aðkomu Íslands að ETS-losunarkerfinu sem er landinu mótdrægt, enda ekki tekið tillit til stöðu landsins sem eyju sem er algjörlega háð flug- og skipaflutningum. Skoða þarf og bregðast við því hvernig núverandi fyrirkomulag bitnar á Íslandi þar sem vöruverð mun hækka og ferðakostnaður landsmanna sömuleiðis.
Miðflokkurinn vill ekki aðskilja umhverfis- og loftslagsmál og leggur því höfuðáherslu á hreint og heilbrigt umhverfi sem er forsenda fyrir heilbrigði landsmanna og sjálfbærri matvælaframleiðslu í landinu. Ljóst er að með vaxandi kröfum í umhverfismálum verða þjóðir heims hver fyrir sig að sjá um að eyða því sorpi sem til fellur með umhverfisvænum og hagkvæmum hætti. Flokkurinn vill því átak í sorp- og frárennslismálum landsmanna.
Samgöngumál
Miðflokkurinn leggur áherslu á samgöngumál til að tryggja íbúum landsins jafna stöðu, hvar sem þeir búa. Bíllinn mun áfram gegna mikilvægu hlutverki og stjórnvöld mega ekki þrengja að einkabílnum meira en orðið hefur. Miðflokkurinn leggur áherslu á að öllum hindrunum fyrir lagningu Sundabrautar verði rutt úr vegi með það fyrir augum að umferð verði komin á nýja Sundabraut; frá Sæbraut og upp á Kjalarnes. Það er óumdeilt að Sundabraut verður mikil samgöngubót fyrir stóran hluta landsins. Hún léttir á umferð í gegnum Mosfellsbæ, styttir vegalengdir landsmanna inn í höfuðborgina, skapar gott byggingarland meðfram allri leiðinni, meðal annars mörg hundruð hektara í Geldinganesi og dregur úr umferð annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Þá skiptir ekki síður máli að tryggja örugga flóttaleið frá höfuðborgarsvæðinu.
Miðflokkurinn hafnar alfarið hugmyndum um Borgarlínu eins og þær liggja fyrir. Miðflokkurinn leggur hins vegar mikla áherslu á að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu verði bættar, en það verður að gerast með skynsamlegum hætti, bæði hvað varðar fjárhagslega þætti, sem og skipulagslega.
Vegakerfið hefur lengi verið vanrækt og þarfnast stórfelldrar uppbyggingar. Til að auka hraða uppbyggingar þarf fyrirkomulag sem tryggir stöðugar endurbætur og viðbætur til framtíðar. Með stofnun almenningshlutafélags í eigu allra landsmanna getum við rofið kyrrstöðuna og sett af stað viðvarandi, gagngerar endurbætur á samgöngukerfi landsins. Umræddu félagi er ætlað að einbeita sér að uppbyggingu stofnvega. Með þessu móti getur farið fram fyrirsjáanleg og viðvarandi vinna þar sem allir stofnvegir verða kláraðir, einbreiðum brúm útrýmt af þjóðveginum, ferðamannaleiðir byggðar upp, göng lögð til að tengja byggðir og lagðar tvær akreinar í hvora átt þar sem umferðarálag er mest.
Sjávarútvegsmál
Innlend matvælaframleiðsla til sjós og lands er meðal grunnstoða samfélagsins sem ber að tryggja til framtíðar. Án hennar verður hvorki fæðu- né matvælaöryggi þjóðarinnar tryggt. Mikilvægt er að starfsöryggi þessara grunnstoða verði tryggt og heildarframlag þeirra til samfélagsins metið. Í sjávarútvegi eins og öðrum greinum þurfum við stefnu sem bitnar ekki á litlu og meðalstóru fyrirtækjunum eða ýtir undir samþjöppun.
Miðflokkurinn styður beitingu aflamarkskerfis við stjórn fiskveiða á Íslandi með sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar og stöðugleika að leiðarljósi. Miðflokkurinn telur mikilvægt að kveðið sé á um sameiginlega eign þjóðarinnar á auðlindum landsins í stjórnarskrá, þar með talið sjávarauðlindinni.
Miðflokkurinn vill að komið sé í veg fyrir fákeppni í sjávarútvegi með lögum. Litið verði þar til hámarksaflahlutdeildar einstakra útgerða og tengdra aðila í því samhengi. Miðflokkurinn vill að veiðigjöld séu gagnsæ, einföld og að við útreikning þeirra sé gætt jafnræðis.
Um leið vill Miðflokkurinn efla hafrannsóknir við Ísland og telur að aukin þekking á stærð fiskistofna, ástandi sjávar og lífríkis muni hámarka mögulega nýtingu fiskistofna. Þannig nyti þjóðarbúið aukinna tekna af sjálfbærri nýtingu fiskistofna í gegnum veiðigjaldið. Miðflokkurinn telur að tryggja megi betur öryggi sjófarenda.
Miðflokkurinn styður uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Mikilvægt er að regluverk vaxandi atvinnugreinar taki mið af aðstæðum og tryggi að umhverfið beri ekki skaða af.
Miðflokkurinn vill að þjónustuhöfnum fiskeldisfyrirtækja verði tryggðar tekjur í samræmi við umsvif fyrirtækjanna og að nærsamfélagið njóti góðs af.
Miðflokkurinn áréttar mikilvægi strandveiða fyrir byggðir landsins og að kerfið sé í stöðugri endurskoðun meðal annars til að tryggja sanngirni milli svæða.
Miðflokkurinn styður áframhaldandi hvalveiðar byggðar á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.
Skattamál
Miðflokkurinn berst gegn óhóflegri og ósanngjarnri skattheimtu og telur að í skattkerfinu séu alvarlegar brotalamir sem verði að ráðast gegn.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að lækka þurfi skatta en skatthlutfall á Íslandi er með því hæsta sem þekkist á meðal OECD-ríkja þegar tekið hefur verið tillit til þess hvernig lífeyriskerfi þjóðanna eru byggð upp. Því er nauðsynlegt að endurskoða skattkerfið með það fyrir augum að einfalda það og ná fram heilbrigðara jafnvægi hvað útgjöld heimila, ríkis og sveitarfélaga varðar. Sérstök áhersla er lögð á að lækka jaðarskatta, sem eru vinnuletjandi og ósanngjarnir séu þeir háir. Miðflokkurinn leggur áherslu á að lækka tryggingagjald og þá sérstaklega fyrir tíu fyrstu starfsmenn. Með því er komið til móts við minni og fámennari fyrirtæki sem eru að fóta sig á markaði.
Miðflokkurinn vill lækka erfðafjárskatt, verði hann ekki afnuminn með öllu. Skatturinn er ósanngjörn tvísköttun. Álagningu fasteignaskatta þarf að endurskoða. Núverandi fyrirkomulag er tilviljunarkennt og mætir ekki sjónarmiðum um að horft sé til þess að verið sé að greiða raunverð fyrir þjónustu. Miðflokkurinn leggur áherslu á aðhald í fjármálum ríkisins, forgangsröðun opinberra fjármuna og að fjármunir hins opinbera séu sem best nýttir. Þannig megi koma í veg fyrir að þyngri byrðar séu lagðar á íbúa landsins.
Stjórnarskrármál
Miðflokkurinn styður endurskoðun stjórnarskrárinnar enda hefur slík endurskoðun með einum eða öðrum hætti verið á stefnuskrá allra ríkisstjórna Íslands frá árinu 2009. Enn sem fyrr virðist skorta á samstöðu meðal þings og þjóðar um hverju á að breyta og jafnvel hvernig standa á að breytingum. Þó hefur verið ákveðin samstaða um ýmsar endurbætur er varðar stjórnarskrána og hefur Miðflokkurinn ávallt stutt að leita að því sem menn gætu náð saman um og ráðast í breytingar í samræmi við það. Miðflokkurinn leggst gegn byltingarkenndum breytingum á grunnriti stjórnskipunar okkar enda getur slíkt skapað réttaróvissu. Mikilvægt er að vel sé staðið að breytingum á þeim lögum sem ríki setja sér um grundvallarreglur varðandi skipulag og æðstu stjórn ríkisins og valdmörk þeirra sem fara með ríkisvald.
Mikilvægt er að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar í sátt og eftir þeim leiðum sem stjórnarskráin sjálf kveður á um. Ísland er í fremstu röð í heiminum þegar kemur að réttindum borgaranna og þá sérstaklega réttindum minnihlutahópa og því verður að ætla að núverandi stjórnarskrá hafi reynst vel.
Orkumál
Miðflokkurinn leggur áherslu á að rjúfa kyrrstöðu í orkuvinnslu og koma í veg fyrir yfirvofandi orkuskort. Miðflokkurinn telur að breytingar þurfi að gera á regluverki orkuframleiðslu þannig að orkukostir, sem hafa verið samþykktir í nýtingarflokki rammaáætlunar, komist til framkvæmda.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að vinna þarf gegn yfirvofandi orkuskorti sem er heimatilbúið vandamál sem skrifast á andvaraleysi stjórnvalda gagnvart þeirri stöðu sem birtist okkur nú.
Tryggja þarf með óyggjandi hætti að nýtingarréttur og umráðaréttur yfir orkuauðlindunum verði hjá þjóðinni til allrar framtíðar. Um leið þarf að tryggja að þjóðin geti áfram átt Landsvirkjun sem og þannig nýtt arðinn af nýtingu auðlindanna til samfélagslegra verkefna og um leið haft ákvörðunarrétt um verðlagningu á raforku bæði til heimila og fyrirtækja.
Miðflokkurinn telur að ráðast þurfi í endurskoðunar á þegar gerðum samningum sem tengjast orkustefnu Evrópusambandsins og tryggja að ekki verði gengið lengra á þeirri braut að afsala valdi til erlendra stofnana. Óska þarf þegar í stað eftir endurskoðun á þegar gerðum samningum, þar með talið orkupakka þrjú. Evrópusambandið hefur þegar kynnt fjórða orkupakkann til leiks og sá fimmti er einnig á teikniborðinu. Verði þeir samþykktir er ekki aftur snúið og því mikilvægt að taka málið föstum tökum.
Umhverfismál
Miðflokkurinn leggur áherslu á að nýta gæði landsins með sjálfbærni og hreinleika sem markmið. Þannig verði gert átak í meðhöndlun úrgangs og fráveitumál efld þannig að þau sæmi matvælaframleiðsluþjóð. Miðflokkurinn leggur áherslu á að það er umhverfisvænna að framleiða matvæli nálægt heimamarkaði í stað þess að flytja þau um langan veg. Aukin vinnsla á endurnýjanlegri, grænni orku skapar ótal tækifæri í matvælaframleiðslu sem getur í framtíðinni starfað í hátækniumhverfi hér á landi. Hér eru kjöraðstæður fyrir sjálfbæra matvælaframleiðslu.
Um leið er mikilvægt að gerbreyta stefnu Íslendinga í sorpmálum en Miðflokkurinn hefur talað fyrir því að hér verði reist hátæknisorpbrennslustöð. Hingað til hefur langmest af því sorpi sem fellur til verið urðað eða sent til útlanda og óljóst er hvað verður um það þar. Það er ólíðandi. Miðflokkurinn telur brýnt að könnuð verði hagkvæmni þess að við Íslendingar sjáum um okkar sorp sjálf og hættum urðun, endurvinnum þess í stað eins og unnt er og brennum það sem út af stendur á eins umhverfisvænan hátt og unnt er.
Ríki heimsins leita nú að grænum hagvexti. Miðflokkurinn styður skynsamar lausnir sem í senn auka velferð og lífsgæði og draga úr gróðurhúsalofttegundum. Það hefur gefist mannkyninu best til þessa. Miðflokkurinn leggur áherslu á að verndun og stjórnsýsla umhverfismála sé sem mest hjá heimamönnum, sé það unnt.
Útlendingamál
Miðflokkurinn telur að gæsla landamæra og málefni hælisleitenda og flóttamanna kalli á hertar aðgerðir til að vernda íslenskt samfélag. Miðflokkurinn leggur áherslu á að litið sé til reynslu Norðurlandanna varðandi málefni hælisleitenda. Mikilvægt er að útgjöld ríkissjóðs til málefna hælisleitenda og flóttamanna verði hamin og skilvirkni í málsmeðferð aukin.
Miðflokkurinn telur að bregðast verði við þróuninni en hælisumsóknum hefur fjölgað hratt á Íslandi á meðan þeim fækkar í nágrannalöndunum. Þessa þróun verður að stöðva. Aukning skipulagðra glæpa og vísbendingar um aukna starfsemi erlendra afbrotahópa hérlendis kalla á öflug viðbrögð í löggæslu. Nauðsynlegt er að taka Schengen-samkomulagið til endurskoðunar í ljósi breyttra aðstæðna og í ljósi reynslunnar.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að standa við skuldbindingar gagnvart alþjóðlegum stofnunum. Um leið er lögð áhersla á að styðja fólk á heimaslóð þar sem fé nýtist sem best og taka við kvótaflóttamönnum í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar.
Miðflokkurinn telur rétt að líta til stefnu danskra jafnaðarmanna hvað varðar endurskoðun hælisleitendakerfisins. Rétt eins og hjá þeim ætti markmiðið að vera að enginn kæmi hingað til að sækja um hæli. Íslendingar þurfa sjálfir að hafa stjórn á því hverjum yrði boðið til landsins og beina fólki í öruggan og lögmætan farveg.
Málefni útlendinga verður að skoða frá mörgum sjónarhornum. Þannig höfum við innflytjendur sem hingað koma til starfa og auðga bæði menningu og efnahag. Mikilvægt er að auðvelda hingað komu menntaðs fólks sem skilar miklu til íslensks atvinnulífs.
Velferðarmál
Í velferðarmálum leggur Miðflokkurinn sérstaka áherslu á málefni eldri borgara og öryrkja. Það þarf að koma til móts við þarfir eldri borgara en sá hópur getur ekki beðið lengur eftir réttlæti. Miðflokkurinn leggur áherslu á að núverandi fyrirkomulag skerðinga verði afnumið og þess í stað komi sanngjarnt kerfi þar sem ævistarf fólks sé virt og komið á jákvæðum hvötum sem stuðla að vinnu, verðmætasköpun og sparnaði. Þeir sem vilja vinna lengur eiga að hafa rétt á því. Það er réttlátt og hagkvæmt fyrir ríkissjóð, lífeyriskerfið og samfélagið allt.
Leggja þarf áherslu á heildstæða stefnu í málefnum aldraðra sem tekur tillit til mismunandi aldursskeiða, mismunandi aðstæðna, fjárhagslegra og heilsufarslegra. Koma þarf í veg fyrir að atvinnutekjur rýri lífeyristekjur. Fólk á að fá að vinna eins lengi og það hefur áhuga á og heilsu til. Lykilatriði í lífi allra er félagsleg virkni og hreyfing, það á einnig við um þá sem eldri eru. Stórefla þarf heimaþjónustu og tryggja að fleiri og fjölbreyttari búsetuúrræði séu í boði.
Einfalda þarf hið félagslega kerfi svo það nýtist sem best öllum þeim sem á þurfa að halda.
Áhersla skal vera á að sérstök lagaumgjörð verði um málefni aldraðra. Samhæfa þarf vinnubrögð allra þeirra sem sinna öldruðum, ríkisvalds, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Þannig sé tryggt að þjónustukeðjan rofni ekki heldur fylgi þörfum hvers og eins ævina út. Það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum um leið og tryggt er að önnur búseta sé í boði.
Í málefnum öryrkja vill Miðflokkurinn horfa til sömu viðmiða um sanngirni og eðlilegt lífsviðurværi. Um leið er lögð sérstök áhersla á jákvæða hvata til að auka virkni og sjálfstæði öryrkja. Auka þarf möguleika á sí- og endurmenntun í samræmi við þá hugsun að menntun sé ævilangt verkefni.