Framsókn
Sigurður Ingi Jóhannsson
Formaður
Atvinnumál
Framsókn leggur áherslu á að byggja upp fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf með nýsköpun, græna atvinnusköpun og öflugt innviðakerfi í fyrirrúmi. Flokkurinn vill tryggja jafna dreifingu atvinnutækifæra um landið, stuðla að betri tengingu menntunar og atvinnulífs og skapa hagstætt skattaumhverfi fyrir fyrirtæki. Framsókn styður einnig sjálfbæra ferðaþjónustu, sterkan landbúnað og aðgengi að fjármagni fyrir sprotafyrirtæki, með það að markmiði að efla efnahagslífið í öllum landshlutum.
Framsókn vill stuðla að einföldu og hagkvæmu skattaumhverfi sem hvetur fyrirtæki til vaxtar og nýráðninga.
Framsókn vill styðja nýsköpun og þróun í atvinnulífinu með skattaívilnunum, fjárhagslegum stuðningi og þjálfun fyrir nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla. Flokkurinn leggur áherslu á öflugt atvinnulíf í öllum landshlutum og fjölgun atvinnutækifæra á landsbyggðinni fyrir ungt fólk. Til þess þarf m.a. að fjárfesta í grunninnviðum eins og samgöngum, fjarskiptum og orkuframleiðslu og - dreifingu, en betri innviðir styðja atvinnulíf á landsbyggðinni og bæta samkeppnishæfni landsins í heild.
Við viljum tryggja áframhaldandi vöxt í ferðaþjónustu og markmiðið er að ferðaþjónustan skapi arð fyrir samfélagið án þess að raska náttúrunni. Flokkurinn vill efla lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki, markaðssetja Ísland sem áfangastað fyrir sjálfbærar ferðir, og þróa innviði til að mæta auknum ferðamannastraumi.
Framsókn vill efla sjálfbæran íslenskan landbúnað og styðja við bændur til að tryggja matvælaöryggi landsins og fjölbreytt atvinnulíf á landsbyggðinni. Landbúnaður er mikilvægur hluti af sjálfstæði landsins og velferð samfélagsins. Bændur eiga að geta aukið arðsemi sína með því að framleiða hágæða matvæli og nýta afurðir sínar á skilvirkari hátt. Framsókn vill setja upp hvata fyrir framleiðendur sem hyggja á framleiðslu matvöru sem skortur er á hér á landi. Þetta getur falið í sér fjárhagslegan stuðning eða aðstoð við að þróa nýjar vörur.
Framsókn leggur áherslu á mikilvægi hugverkaverndar, þar sem það er grundvöllur fyrir nýsköpun og sköpun verðmæta. Flokkurinn vill tryggja að íslenskt hugvit, hönnun og framleiðsla njóti verndar bæði innanlands og á alþjóðamarkaði.
Byggðarmál
Framsókn hefur alltaf lagt mikla áherslu á byggðamál og vill tryggja jafna stöðu og tækifæri fyrir alla landsmenn, óháð búsetu. Flokkurinn vill jafna búsetuskilyrði með fjölbreyttum aðgerðum og viðurkenna að hagsæld þjóðarinnar til lengri tíma litið sé háð því að viðhalda fjölbreyttum samfélögum í bæði dreifbýli og þéttbýli um land allt.
Í því felst að m.a. tryggja aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu og fjölbreytt menntunar- og atvinnutækifæri um allt land.
Framsókn leggur áherslu á að efla samgöngukerfi landsins, bæði á landi og í lofti, með því að bæta aðgengi að dreifbýli og tryggja öruggar og skilvirkar samgöngur fyrir alla. Mæta þarf auknu umferðarálagi með uppbyggingu og viðhaldi vega, bæta umferðaröryggi, halda áfram að bæta tengivegi og bora ný jarðgöng hringinn í kringum landið og útrýma einbreiðum brúm. Flokkurinn vill auka fjárfestingu í innviðum, svo sem vegum, brúm, flugvöllum og öðrum samgöngukerfum, til að tryggja að þau séu í góðu ástandi og geti mætt þörfum landsins alls.
Framsókn vill tryggja aðgengi að háhraðaneti og öðrum fjarskiptalausnum um allt land, sérstaklega í dreifbýli, til að stuðla að jafnrétti í menntun, atvinnu og þjónustu. Flokkurinn vill stuðla að uppbyggingu sveigjanlegs náms og fjarnáms til að auka aðgengi að menntun fyrir alla, óháð búsetu.
Framsókn vill styrkja innviði heilbrigðis- og menntakerfisins, með því að auka fjárveitingar til sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og menntastofnana, svo að allir hafi aðgang að nauðsynlegri þjónustu, óháð búsetu.
Flokkurinn vill jafna tækifæri fólks á landsbyggðinni og í þéttbýli með því að skapa fjölbreytt störf víða um land. Flokkurinn vill tryggja jafna dreifingu atvinnutækifæra um landið. Markmiðið er að tryggja öflugt atvinnulíf í öllum landshlutum og stuðla að því að ungt fólk sjái sér fært að búa og starfa á landsbyggðinni. Framsókn styður einnig sjálfbæra ferðaþjónustu, sterkan landbúnað og aðgengi að fjármagni fyrir sprotafyrirtæki, með það að markmiði að efla efnahagslífið í öllum landshlutum.
Efnahagsmál
Staða hagkerfisins er sterk og við sjáum verðbólguna fara lækkandi, en Framsókn leggur áherslu á áframhaldandi vinnu við lækkun hennar með skynsömum hætti. Það er okkar mikilvægasta viðfangsefni um þessar mundir, ásamt lækkun vaxtastigs.
Framsókn leggur áherslu á að fjármunum verði forgangsraðað í þágu velferðarkerfisins, brýnna samfélagslegra verkefna og að verja barnafjölskyldur og viðkvæma hópa.
Húsnæðismál beintengjast efnahagsmálum, en mikilvægt er að tryggja nægt framboð á íbúðarhúsnæði. Þörf er á frekari uppbyggingu og sveitarfélög verða að tryggja nægt framboð lóða. Tryggja þarf hagkvæma fjármögnun á uppbyggingu séreigna- og leiguhúsnæðis.
Framsókn vill fjölga stoðum hagkerfisins, en með fleiri stoðum næst betra jafnvægi í efnahagsmálum. Á undanförnum áratugum hefur stoðum hagkerfisins fjölgað úr einni í fjórar með eflingu hugvits, nýsköpunar og skapandi greina.
Framsókn leggur áherslu á að blandað markaðshagkerfi sé skynsamlegasta og farsælasta leiðin til að tryggja hagsæld fyrir fólkið í landinu. Íslenska hagkerfið þarf að vera stöðugt, gagnsætt og öruggt. Fyrirtækjum og einstaklingum þarf að vera búið starfsumhverfi þar sem samvinna, frumkvæði, dugnaður og samfélagslegt réttlæti er í öndvegi. Í því sambandi þarf að tryggja að regluverk sé gagnsætt, einfalt og skilvirkt og hvetji fólk og fyrirtæki áfram í störfum sínum. Stöðugt efnahagsumhverfi og fyrirsjáanleiki eru forsenda þess að einstaklingar og fyrirtæki geti gert áætlanir til lengri tíma.
Framsókn leggur áherslu á sjálfstæða peningastefnu með íslenska krónu. Flokkurinn telur mikilvægt að viðhalda sjálfstæði í peningamálum til að tryggja efnahagslegan stöðugleika.
Evrópumál
Framsókn telur hagsmunum Íslands best borgið með því að vera áfram sjálfstæð og fullvalda þjóð utan Evrópusambandsins. Stefnumótun í utanríkismálum skal ætíð taka mið af hagsmunum lands og þjóðar hverju sinni.
Framtíðarskipulag Evrópu mun taka breytingum á næstu misserum og stefnumótun í utanríkismálum skal miðast að þessum breytta heimi. Flokkurinn vill efla hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu til að fylgjast betur með umræðu og hafa áhrif á komandi EES-gerðir á fyrri stigum.
EES-samningurinn er mikilvægasti og umfangsmesti efnahagssamningur Íslands og því þarf að tryggja skilvirka framkvæmd hans í aukinni samvinnu við löggjafarvaldið. Þau tækifæri sem Íslendingum hafa opnast með tilkomu EES-samningsins eru ótvíræð. Framsókn telur að Ísland eigi að vera áfram aðili að EES-samstarfinu, en með aðild að því njótum við þegar allra þeirra kosta sem Evrópusambandið hefur upp á að bjóða.
Heilbrigðismál
Framsókn leggur mikla áherslu á að heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé í fremstu röð og aðgengi að henni sé tryggt óháð búsetu eða efnahag. Til þess þurfum við að auka þjónustu í dreifbýli og tryggja aðgengi að sérfræðingum.
Framsókn vill tryggja að allir geti fengið geðheilbrigðisþjónustu innan eðlilegs tímaramma. Einnig er lögð áhersla á aukna fjárfestingu í geðheilbrigðisþjónustu og eftirfylgni með fyrirliggjandi uppbyggingaráformum um nýtt húsnæði geðdeildar Landspítala.
Lýðheilsa og forvarnarstarf eru mikilvægir liðir í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Flokkurinn vill gera samfélagssáttmála um lýðheilsu með aðkomu allra hagaðila, auka skimun og stuðla að bættu heilsulæsi. Framsókn vill innleiða skaðaminnkandi nálgun í auknum mæli í áfengis- og vímuefnamálum. Einnig vill Framsókn nýta krafta heilbrigðisfyrirtækja og félagasamtaka til að efla forvarnir í samfélaginu.
Mikilvægt er að fjárfesta í aðstöðu, tækjabúnaði, þjónustu og mannauði, svo hægt sé að tryggja að heilbrigðiskerfið sé vel í stakk búið til að mæta þörfum hvers og eins. Flokkurinn vill auka fjarheilbrigðisþjónustu til að tryggja aðgengi að sérfræðiþjónustu óháð búsetu.
Framsókn vill bæta lífsgæði eldri borgara og tryggja þeim nauðsynlega þjónustu á þeirra forsendum, sem felur í sér að fjölga fjölbreyttum úrræðum, s.s. á sviði endurhæfingar. Tryggja þarf tímanlegt aðgengi að samþættri þjónustu og félagslegum úrræðum.
Flokkurinn vill stuðla að rannsóknum og nýsköpun í heilbrigðismálum, til að bæta þjónustu og þróa nýjar aðferðir í meðferð og forvörnum. Framsókn leggur áherslur á að fjármagna nýjan Heilbrigðisvísindasjóð með myndarlegum hætti.
Mikilvægt er að stuðla að áframhaldandi umbótum í starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks og tryggja mönnun í takt við þörf og út frá þeim viðmiðum sem við setjum okkur í samvinnu með fagfélögum og stofnunum. Framsókn leggur áherslu á áframhaldandi eflingu sérnámslækna og fjölbreyttra greina á heilbrigðisvísindasviði.
Húsnæðismál
Meginmarkmiðið er langtímajafnvægi á húsnæðismarkaði. Framsókn leggur áherslu á að allir hafi aðgang að öruggu og hagkvæmu húsnæði með viðráðanlegum kostnaði, með markvissum stuðningi.
Framsókn setti fram á Alþingi fyrstu heildstæðu stefnu í húsnæðismálum á Íslandi. Áhersla er lögð á að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti eftirspurn. Húsnæðisstefnan hefur því ekki einungis áhrif á lífsgæði fólks, ráðstöfunartekjur og húsnæðisöryggi, hún hefur áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar.
Framsókn leggur áherslu á að skoða allar leiðir til að auka framboð lóða, t.d. með endurskoðuðu svæðisskipulagi, hvötum sem ýta undir framboð byggingarhæfra lóða. Land í eigu ríkisins verði nýtt til að hraða uppbyggingu íbúða með reglubundunum útboðum til að tryggja sem breiðasta þátttöku verktaka og stuðla að minni sveiflum. Framsókn leggur áherslu á skilvirka stjórnsýslu, bætt regluverk, aukinn rekjanleika og bætta neytendavernd.
Framsókn vill áfram styrkja almenna íbúðakerfið og auka framboð af óhagnaðardrifnu og öruggu leiguhúsnæði. Framsókn hefur einnig sett af stað aðgerðir til að auka hlutfall óhagnaðardrifins leiguhúsnæðis, sem nú er aðeins 2-3% af markaðnum í um 6%. Ásamt þessu hvetur Framsókn lífeyrissjóði til að nýta sér rýmkun á fjárfestingarheimildum þeirra til kaupa í leigufélögum, og taka þannig þátt í uppbyggingu leiguhúsnæðis
Tryggja þarf fjölbreytt búsetuúrræði fyrir eldra fólk með ódýru fjármagni og lóðum fyrir óhagnaðardrifin byggingafélög.
Framsókn leggur áherslu á að hærri fasteignagjöld verði sett á íbúðir sem ekki eru nýttar til búsetu og stuðlað verði að því að íbúðir í þéttbýli sem ekki eru nýttar til búsetu verði nýttar sem slíkar.
Jafnréttismál
Jafnrétti er eitt af grunnstefjum samvinnu- og framsóknarstefnunnar. Framsókn hafnar allri mismunun á grundvelli kyns, aldurs, fötlunar, kynhneigðar, kynvitundar, trúar, bakgrunns, þjóðernis og/eða stöðu að öðru leyti. Það er eitt af hlutverkum Framsóknar að ganga ávallt á undan með góðu fordæmi í jafnréttismálum og útrýma kynbundnum launamun.
Framsókn vill berjast gegn kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi með virkum aðgerðum á öllum sviðum, en Framsókn var fyrst flokka til þess að bregðast við METOO byltingunni og hefja vinnu við siðareglur gagnvart kynferðislegri áreitni í stjórnmálastarfi.
Framsókn vill efla jafnrétti í menntakerfinu og tryggja að allir hafi jafnan aðgang að námi, óháð búsetu eða félagslegum aðstæðum. Flokkurinn styður rétt til þungunarrofs og leggur áherslu á gott aðgengi að getnaðarvörnum og tíðarvörum í skólum.
Framsókn leggur áherslu á að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði, meðal annars með jöfnun launamunar og stuðningi við jafnréttisverkefni. Markmiðið er að stuðla að réttlátu og jafnréttissinnuðu atvinnulífi, þar sem fjölbreytileiki kynja og annarra hópa sé endurspeglaður í stjórnunarstöðum.
Framsókn styður réttindi hinsegin fólks og vill auka fræðslu um málefni þeirra á öllum skólastigum. Einnig er lögð áhersla á að uppfæra orðalag laga og reglna með tilliti til kynhlutleysis og að tryggja aðgengi að kynhlutlausum búningsklefum.
Framsókn hefur sýnt í verki að flokkurinn vill jafna aðgengi að íþróttum og afreksstarfi óháð búsetu og auðvelda aðgengi fatlaðra barna og barna með erlendan menningar- og tungumálabakgrunn að íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Menntamál
Framsókn vill tryggja öllum börnum og ungmennum á Íslandi jöfn tækifæri til að vaxa og dafna í öruggu og styðjandi umhverfi. Sýn okkar byggist á þeirri sannfæringu að öflugur stuðningur við börn og fjölskyldur sé einhver farsælasta fjárfesting sem samfélagið getur gert.
Framsókn setur börn og velferð þeirra í algjöran forgang. Framsókn hefur haft skýra forystu um að setja málefni barna á dagskrá í íslenskri stjórnmálaumræðu og markvisst unnið að fjölmörgum verkefnum í þágu þeirra.
Framsókn vill efla símenntunarmiðstöðvar og þekkingarsetur um allt land og halda áfram að þróa raunfærnimat til að styðja við nám fullorðinna. Við viljum efla menntun í listum og menningu í skólum til að stuðla að skapandi hugsun og menningarlegri vitund meðal ungmenna.
Framsókn leggur áherslu á bætt kjör og starfsumhverfi fyrir allar starfsstéttir sem vinna með börnum, með sérstakri áherslu á kennara. Framsókn vill tryggja að þessar mikilvægu starfsstéttir búi við aðlaðandi vinnuumhverfi sem stuðlar að fjölgun fagfólks innan þeirra mikilvægu starfsstétta sem sinna börnum og ungmennum.
Framsókn vill tryggja öllum börnum jafnt aðgengi að menntun sem er grundvöllur jafnra tækifæra í samfélaginu. Flokkurinn leggur áherslu á snemmtæk inngrip og fyrirbyggjandi aðgerðir sem tryggja börnum og fjölskyldum þjónustu við hæfi, þegar á þarf að halda. Framsókn vill innleiða þjónustutryggingu, þurfi barn að bíða lengur en tilgreindan tíma eftir úrræði greiðir ríkið fyrir sambærilega þjónustu hjá einkaaðila. Markmiðið er að útrýma biðlistum og tryggja nauðsynlega þjónustu án tafar.
Framsókn vill stórauka framboð stuðningsúrræða sem standa börnum og kennurum til boða innan skólakerfisins, til að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til menntunar og árangurs.
Framsókn ætlar að ljúka við innleiðingu Matsferils til að tryggja samræmdar mælingar á námsárangri í íslensku skólakerfi sem gefa okkur rauntímaupplýsingar um námsframvindu hvers barns.
Við viljum létta fjárhagslegar byrðar fjölskyldna með því að festa gjaldfrjálsar skólamáltíðir í sessi.
Loftslagsmál
Loftslagsváin er ein helsta ógn mannkyns og viðbrögð við henni því eitt stærsta verkefni stjórnmálanna. Framsókn gerir kröfu um að framfylgja loftslagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins. Ísland getur verið fyrirmynd annarra ríkja með stefnu um kolefnishlutleysi og virkri þátttöku á alþjóðavettvangi. Flokkurinn vill styðja við aðgerðir sem draga úr kolefnislosun og stuðla að sjálfbærni í öllum geirum samfélagsins. Markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 er vel gerlegt með víðtækri aðgerðaráætlun stjórnvalda, stefnufestu og samvinnu. Leggja þarf áherslu á orkuskipti í samgöngum og atvinnulífi, stóraukna kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu, markvissari aðgerðir til að auka endurnýtingu og hvata sem draga úr hvers kyns sóun. Mikilvægt er að halda virku samtali við atvinnulífið og samfélagið í heild sinni um aðgerðir í loftslagsmálum.
Framsókn leggur áherslu á verndun náttúruauðlinda landsins, þar á meðal loft, vatn og jarðveg, og tryggja að nýting þeirra sé skynsamleg og sjálfbær. Vill efla fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál, auk þess að hvetja til nýsköpunar í grænni tækni og lausnum sem draga úr umhverfisáhrifum.
Framsókn vill stuðla að hringrásarhagkerfi þar sem endurnýting og endurvinnsla auðlinda eru í forgrunni, til að draga úr sóun og auka nýtingu takmarkaðra auðlinda.
Framsókn vill að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og stuðla að samvinnu við aðrar þjóðir um lausnir.
Framsókn vill að innviðir, svo sem flutningskerfi fyrir orku, sé öflugt og aðgengilegt, til að tryggja að nýting innlendra, grænna orkugjafa sé hámörkuð.
Framsókn leggur áherslu á að samfélagið beri ábyrgð á umhverfinu og að allir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, taki þátt í að vernda náttúruna og draga úr umhverfisáhrifum.
Samgöngumál
Framsókn vill sjá áframhaldandi uppbyggingu samkvæmt Samgönguáætlun, halda þarf áfram með samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum og samstarfi á milli hins opinbera og atvinnulífs. Framsókn vill halda áfram að bæta umferðaröryggi m.a. með því að fækka einbreiðum brúm á hringveginum og halda áfram að skilja að akstursstefnur á umferðarþyngstu vegköflum landsins.
Framsókn leggur áherslu á að stytta ferðatíma milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Framsókn vill tryggja framgang Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins til að liðka fyrir umferð og vinna að kolefnishlutlausu Íslandi. Sundabraut hefur verið á dagskrá allt kjörtímabilið og verður stórkostleg samgöngubót sem losar um umferðarhnúta. Á kjörtímabilinu hefur verið unnið að undirbúningi svo framkvæmdir geti byrjað eins og áætlanir gera ráð fyrir árið 2026.
Framsókn vill að í uppbyggingu innviða á hálendinu verði hugað að því til framtíðar að rafmagnsbílar komist um. Þá verði sérstök áhersla lögð á vegina um Kjöl og að Fjallabaki, ekki síst vegna mögulegs öryggishlutverks þeirra ef náttúruvá ber að dyrum.
Framsókn vill halda áfram að styrkja og efla innanlandsflugvelli og hafnir í þeim tilgangi að fjölga tækifærum í ferðaþjónustu og skapa atvinnu heima fyrir.
Framsókn leggur áherslu á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sem miðstöð innanlands- og sjúkraflugs. Flokkurinn telur að flugstöðina þurfi að endurnýja til að bæta þjónustu við flugfarþega. Framsókn vill tryggja að Reykjavíkurflugvöllur haldi áfram að þjóna mikilvægu hlutverki sínu þar til raunhæfur og jafn hentugur kostur kemur fram.
Framsókn vill að á hverjum tíma sé unnið að gerð að minnsta kosti einna jarðganga á landinu.
Sjávarútvegsmál
Framsókn leggur áherslu á sjálfbæran og réttlátan sjávarútveg sem tryggir langtímaafkomu bæði fiskistofna og sjávarbyggða. Mikilvægt er að efla rannsóknir og nýsköpun í greininni, stuðla að góðri umgengni um auðlindir og vinna gegn brottkasti. Auk þess að leggja áherslu á að efla samkeppnishæfni fyrirtækja og að fiskveiðistjórnunarkerfið virki til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.
Framsókn styður einnig ábyrgt fiskeldi með skýrri lagaumgjörð og vísindalegu eftirliti. Auk þess eru nýsköpun og fullnýting sjávarfangs, eins og þangs og þörunga, áherslur sem styrkja atvinnu og nýsköpun. Sjávarútvegur á að vera byggður á traustum vísindalegum grunni og skapa störf í öllum landshlutum. Sýn Framsóknar í sjávarútvegi snýst um að tryggja sjálfbærni, nýtingu auðlinda og efnahagslegan vöxt í sjávarútvegi.
Flokkurinn leggur áherslu á að styrkja strandbyggðir og sjávarbyggðir, þar sem sjávarútvegur er oft grundvöllur efnahagslífsins.
Framsókn vill auka fjárfestingar í innviðum tengdum sjávarútvegi, eins og hafnarmannvirkjum og rannsóknarstofnunum, til að efla atvinnusköpun og nýsköpun.
Framsókn vill leggja áherslu á verndun sjávarumhverfisins, þar á meðal aðgerðir gegn mengun og stuðning við rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á sjávarútveg.
Framsókn vill veita smáfyrirtækjum í sjávarútvegi aukinn stuðning, til að tryggja að þau geti blómstrað og skapað störf.
Framsókn vill efla menntun og þjálfun í sjávarútvegi, til að tryggja að starfsfólk hafi nauðsynlega þekkingu og færni.
Framsókn vill auka samstarf milli ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs í sjávarútvegi, til að tryggja samræmda stefnu og aðgerðir.
Framsókn vill stuðla að auknum útflutningi á sjávarafurðum, með því að efla markaðssetningu og stuðla að gæðastjórnun.
Framsókn vill tryggja réttindi sjómanna og að þeir njóti sanngjarnra launa og viðunandi starfsaðstæðna.
Skattamál
Framsókn leggur þunga áherslu á að auka tekjuöflun ríkisins með auknum vexti og verðmætasköpun í stað þess að auka skattheimtu á fólk og fyrirtæki. Í því samhengi skiptir meðal annars máli að fyrirsjáanleg, fjármögnuð og skilvirk hvatakerfi til aukinnar verðmætasköpunar verði fest í sessi, má þar nefna endurgreiðslur vegna rannsókna, þróunar og kvikmyndagerðar og fjármunum til markaðssetningar á Íslandi sem áfangastaðar verði tryggðir.
Framsókn leggur áherslu á að skattkerfið sé skýrt, réttlátt og samkeppnishæft ásamt því að það sé nýtt til að tryggja öflugt velferðarkerfi og jöfn tækifæri fyrir alla í samfélaginu.
Flokkurinn vill skapa hagstætt skattaumhverfi fyrir fyrirtæki með frekari stuðningi við nýsköpun og þróun í atvinnulífinu með skattaívilnunum, fjárhagslegum stuðningi og þjálfun fyrir nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla. Markmiðið er að skapa ný störf og styrkja samkeppnishæfni Íslands. Flokkurinn vill stuðla að einföldu og hagkvæmu skattaumhverfi sem hvetur fyrirtæki til vaxtar og nýráðninga. Þetta felur í sér skattaívilnanir fyrir smærri fyrirtæki og frumkvöðlastarfsemi.
Framsókn styður þrepaskipt tekjuskattkerfi einstaklinga til þess að stuðla að sanngjarnri tekju- og eignaskiptingu líkt og tíðkast í helstu samanburðarlöndum Íslands. Þá styður Framsókn að skattkerfið og fyrirkomulag persónuafsláttar sé áfram nýtt til tekjujöfnunar. Skattaumhverfi þarf að vera skýrt, réttlátt og samkeppnishæft við nágrannalönd. Mikilvægt er að skattkerfið vinni með hagsveiflunni.
Efla þarf skilvirkt skattaeftirlit til að draga úr svarti atvinnustarfsemi og stuðla að eðlilegri samkeppni og þátttöku í uppbyggingu samfélagsins. Mikilvægt er að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga með það að markmiði að auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra.
Stjórnarskrármál
Framsókn leggur áherslu á endurskoðun stjórnarskrár Íslands og telur hana vera samfélagssáttmála þeirra sem byggja landið. Flokkurinn vill að stjórnarskráin endurspegli sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og sé í takt við nútímann. Framsókn leggur áherslu á að ferlið við endurskoðun stjórnarskrárinnar sé gagnsætt og byggt á skýru lýðræðislegu umboði, þar sem grunngildi þjóðarinnar eru í forgrunni.
Framsókn vill tryggja að stjórnarskráin verndi mannréttindi og lýðræðislegar stofnanir landsins. Framsókn leggur til að ítarlegri ákvæði um dómsvaldið verði fest í stjórnarskrá til að tryggja betur sjálfstæði dómsvalda. Sjálfstæði dómsvaldsins er talið mikilvægt til að tryggja réttlæti og réttaröryggi í samfélaginu. Með því að festa þessi ákvæði í stjórnarskrá er markmiðið að styrkja stoðir réttarríkisins og tryggja að dómsvaldið sé óháð öðrum greinum ríkisvaldsins.
Framsókn vill að auðlindaákvæði verði fest í stjórnarskrá Íslands. Slíkt ákvæði ætti að tryggja að auðlindir landsins séu í þjóðareign og að sanngjarn arður af nýtingu þeirra renni til samfélagsins.
Forseti gegnir mikilvægu hlutverki í stjórnskipan Íslands. Hann hefur vel skilgreind og virk úrræði til að þjóna sem öryggisventill í þágu almennings, til dæmis með því að skjóta umdeildum málum í atkvæði þjóðarinnar.
Forseti þarf að hafa skýrt umboð meirihluta þjóðarinnar sem meðal annars væri hægt að ná fram með tveimur umferðum kosninga eða varaatkvæðiskerfi. Endurmeta ætti ákvæði um lágmarksaldur forseta. Framsókn vill að meðmælafjöldi vegna forsetaframboðs verði endurskoðaður..
Flokkurinn styður áframhaldandi stuðning við trú- og lífsskoðunarfélög, en telur mikilvægt að stjórnarskráin tryggi trúfrelsi og réttindi allra trúar- og lífsskoðunarfélaga.
Framsókn vill að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og að handhafar valdsins stjórni í umboði hennar. Með því að endurskoða stjórnarskrána vill Framsókn tryggja að hún sé í takt við nútímann og endurspegli sameiginleg grunngildi þjóðarinnar. Þetta felur í sér að stjórnarskráin verði skýr, aðgengileg og auðskilin fyrir alla borgara, þannig að hún geti þjónað sem raunverulegur samfélagssáttmáli.
Orkumál
Orkuöryggi er ein grunnstoða samfélagsins. Framsókn leggur mikla áherslu á að við séum sjálfum okkur nóg þegar það kemur að orkuframleiðslu og að mæta eftirspurn heimila og atvinnulífs. Það gerum við með aukinni orkuframleiðslu, bættu dreifikerfi orkunnar og sjálfbærri nýtingu hennar. Flokkurinn vill auka framleiðslu á endurnýjanlegri orku, svo sem vatns- og vindorku, til að tryggja orkuöryggi og draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti. Markmiðið er að Ísland verði sjálfbært í orkuframleiðslu og geti mætt fjölbreytilegum þörfum samfélagsins um allt land.
Framsókn styður orkuskipti í samgöngum og atvinnulífi með því að hvetja til notkunar á rafmagns- og vetnisbílum og efla innviði fyrir hleðslu og dreifingu grænna orkugjafa. Flokkurinn vill sjá Ísland ná sínum metnaðarfullu markmiðum um kolefnishlutlaust Ísland, eigi síðar en árið 2040.
Framsókn leggur einnig áherslu á að nýta innlenda, hagkvæma og græna orkugjafa og tryggja að nauðsynlegir flutningsinnviðir séu til staðar. Framsókn vill stuðla að nýsköpun og fjárfestingu á sviði endurnýjanlegrar orku, sem er grundvöllur hagvaxtar í jafnvægi við umhverfið.
Vindorkan á að vera viðbót við í sameiginlegum orkuauðlindum landsmanna, en beislun vindsins þýðir ekki að við þurfum ekki að virkja meira hvað varðar hefðbundna orkukosti, þ.e. vatnsafl og jarðvarmi. Vindorkuna þarf t.d. að sveiflujafna með stöðugum orkukostum, sem getur reynst erfitt skv. umfjöllun Landsvirkjunar. Mikilvægt er að vindorku sé búið gott lagaumhverfi sem liðki fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfi um leið til umhverfisins og framtíðarþróunar. Samhliða því þarf að vinna áfram að skýrari stefnu um eignarhald og auðlindagjald í vindorku. Mikilvægt er að skýra hvar á landinu verði heimilt að koma fyrir vindorkuveri.
Tryggja þarf að auðlindir okkar séu nýttar á skynsaman og sanngjarnan hátt og að ábati þeirra renni til samfélagsins.
Umhverfismál
Grunnstef í stefnu Framsóknar er virðing fyrir náttúrunni. Íslendingar byggja sína tilveru á skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar. Mikilvægt er að arður af nýtingu auðlindanna renni til samfélagsins og að nýting sé ávallt út frá viðmiðum hringrásarhagkerfisins. Hreint loft, land og haf, ásamt fjölbreytni íslenskrar náttúru, ber að vernda til framtíðar. Framsókn leggur mikla áherslu á umhverfismál og sjálfbæra þróun.
Framsókn telur veruleg tækifæri liggja í útflutningi á þekkingu í formi ráðgjafar og fjárfestinga á erlendum vettvangi þar sem menntun og þekking á hlutum eins og endurnýjanlegri orku skipta miklu máli.
Framsókn styður aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og vill að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegum aðgerðum á þessu sviði. Framsókn hvetur til samstarfs við atvinnulífið um aðgerðir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að sjálfbærni í framleiðsluferlum.
Framsókn vill einnig efla innviði, svo sem flutningskerfi fyrir orku, til að tryggja nýtingu innlendra, grænna orkugjafa. Flokkurinn leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð og vill að bæði einstaklingar og fyrirtæki taki þátt í að vernda náttúruna og draga úr umhverfisáhrifum. Framsókn vill að innviðir séu hannaðir með umhverfisvernd í huga, þar sem sjálfbærni og græn orka eru í forgrunni. Þetta felur í sér að nýta endurnýjanlega orku og draga úr kolefnislosun.
Útlendingamál
Framsókn vill inngildandi nálgun í málefnum útlendinga, sem snýr að því að virkja allt fólk til þátttöku, viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum. Inngilding er samvinnuverkefni alls samfélagsins. Það kallar á vinnu að inngildingu á flestum sviðum samfélagsins til að stuðla að virkri þátttöku fólks af erlendu bergi brotnu jafnt í samfélaginu sem og á vinnumarkaði. Framsókn leggur áherslu á að lykill að inngildingu er betra aðgengi að íslensku og samfélagsfræðslu fyrir innflytjendur á öllum aldri og á öllum skólastigum, sem og viðurkenning á þekkingu og reynslu innflytjenda.
Framsókn vill innleiða hvata til íslenskunáms og tryggja rétt innflytjenda til íslenskunáms á vinnutíma, þeim að kostnaðarlausu. Þá vill Framsókn að ríkið leggi áherslu á að styðja við tækniframþróun sem auðveldar fólki að læra íslensku.
Framsókn leggur áherslu á stuðning við börn af erlendum uppruna, með móðurmálskennslu og stuðning við leik- og grunnskóla. Markmiðið er að tryggja samræmda þjónustu og viðeigandi stuðning fyrir alla.
Huga þarf að farsæld barna sem hingað flytja. Framsókn leggur áherslu á að tryggja börnum af erlendum uppruna nauðsynlegan stuðning til virkar þátttöku í samfélaginu, hvort sem er í skólakerfinu, tómstundastarfi eða á öðrum sviðum samfélagsins. Framsókn vill tryggja aukna þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi, enda gegnir það mikilvægu hlutverki hvað varðar aðlögun að samfélaginu.
Framsókn vill bæta móttöku og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd með auknu samráði við sveitarfélög til að dreifa álagi á innviði þeirra. Flokkurinn vill einnig auðvelda innflytjendum að fá menntun sína erlendis frá viðurkennda með raunfærnimati. Jafnframt á náms- og starfsráðgjöf að standa fullorðnum innflytjendum til boða.
Framsókn vill herða eftirlit á landamærunum og samræma heimildir til brottvísana á einstaklingum sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi og hafa framið alvarleg afbrot sem ógna allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði.
Velferðarmál
Framsókn hefur ávallt staðið fyrir því að fjárfesta í fólki. Það er besta fjárfesting samfélagsins til framtíðar. Flokkurinn vinnur að því að efla velferðarkerfið með áherslu á jafnt aðgengi.
Framsókn leggur áherslu á að þær aðgerðir sem fram koma í aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum verði fjármagnaðar og komið til framkvæmda. Í takt við stefnu Framsóknar þá er lagt til í áætluninni að geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga. Þá er einnig lögð áhersla á notendamiðaða þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustunnar.
Framsókn leggur áherslu á að bæta lífsgæði og aðstæður öryrkja með því að tryggja þeim jafnan rétt og tækifæri til þátttöku í samfélaginu. Tryggja þarf að öryrkjar hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðis- og félagsþjónustu, óháð búsetu. Flokkurinn leggur áherslu á að þjónustan sé einstaklingsmiðuð og aðgengileg.
Flokkurinn vill stuðla að aukinni atvinnuþátttöku öryrkja með því að skapa fjölbreytt atvinnutækifæri og veita stuðning við atvinnuleit og starfsendurhæfingu. Styrkja þarf aðgengi öryrkja að menntun og þjálfun, með áherslu á sí- og endurmenntun.
Flokkurinn vill tryggja að fjárhagslegur stuðningur við öryrkja sé sanngjarn og nægjanlegur til að mæta grunnþörfum þeirra.
„Gott að eldast“ er verkefni sem Framsókn hefur lagt áherslu á til að bæta þjónustu við eldra fólk. Því er ekki lokið og flokkurinn vill halda áfram vinnunni.
Framsókn vill frekari uppbyggingu heimahjúkrunar og dagþjálfunarrýma, bæta og fjölga endurhæfingarúrræðum og skapa fjölbreyttari þjónustu sem styður eldra fólk til að búa sem lengst heima hjá sér, eftir því sem það vill og heilsa leyfir.
Framsókn leggur áherslu á aukna og samhæfða heimaþjónustu, sveigjanleg dagþjálfunarúrræði, aukna tæknivæðingu og markvissan stuðning við aðstandendur eldra fólks.
Framsókn vill skoða möguleika á hlutdeildarlánum fyrir eldra fólk. Hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur og þá sem hafa verið eignarlausir lengi hafa nýst umfram væntingar og við viljum leita leiða til að nýta þau fyrir eldra fólk.