Flokkur Fólksins

flokkurfolksins.is

Flokkur Fólksins's Formaður: Inga Sæland

Inga Sæland

Formaður

Logo

Atvinnumál

Við viljum að atvinnuvegum þjóðarinnar séu búin góð skilyrði, ásamt því að heimilum sé tryggð örugg afkoma. Heilbrigð verðmætasköpun er undirstaða velferðar. Flokkur fólksins vill efla atvinnumál í brothættum sjávarbyggðum með því að gefa handfæraveiðar frjálsar. Við viljum efla gróðurhúsarækt með því að tryggja gróðurhúsum raforku á kostnaðarverði. Efla þarf fjölbreytni í atvinnuvegumþjóðarinnar, fjölga eggjunum í körfunni.

Byggðarmál

Flokkur fólksins vill efla okkar brothættu byggðir með því að gefa handfæraveiðar frjálsar. Flokkur fólksins vill einnig efla samgöngur milli landshluta með því að ráðast í mikilvægar vegaúrbætur og jarðgangnagerð. Við viljum jafnframt leggja áherslu á að efla heilbrigðisþjónustu í hinum dreifðu byggðum. Til þess að byggð haldist í landinu öllu er brýnt að starfsemi hins opinbera úti á landi verði í fullu samræmi við þarfir íbúanna, fjölda þeirra og samgöngur á viðkomandi svæði. Við gerum kröfu um að komið verði í veg fyrir að stórir hlutar lands færist í hendur erlendra aðila, t.d. með því að gera búsetu á Íslandi sem skilyrði fyrir eignarhaldi.

Efnahagsmál

Flokkur fólksins vill hækka skattleysismörk í 450.000 kr. með upptöku fallandi persónuafsláttar. Við viljum hætta við stefnu fráfarandi ríkisstjórnar um að hækka á hverju ári alla nefskatta og öll krónutölugjöld. Við viljum draga úr óþarfa sóun í ríkisfjármálum með því að fækka markvisst launuðum starfshópum og sýna hófsemi í opinberum innkaupum. Við viljum afnema húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs, enda er húsnæði ekki neysluvara heldur mannréttindi, auk þess sem húsnæðisliðurinn er stærsti orsakavaldur verðbólgunnar.

Evrópumál

Flokkur fólksins vill standa vörð um íslenska hagsmuni gagnvart ESB og sífelldum innleiðingum EES-gerða. Við viljum nýta þær heimildir sem EES samningurinn veitir okkur til að koma í veg fyrir upptöku reglna sem beinlínis skaða íslenskt hagkerfi. Við stöndum gegn hverskonar gullhúðun og blýhúðun. Við stöndum gegn bókun 35.

Heilbrigðismál

Flokkur fólksins vill stórefla heilbrigðiskerfið, tryggja viðhlítandi fjármögnun þess og tryggja að kjör og starfsaðstæður heilbrigðisstarfsfólks séu í samræmi við það sem þekkist í nágrannalöngum okkar. Við viljum leysa útskriftarvanda Landspítalans með þjóðarátaki í uppbyggingu hjúkrunarheimila og við viljum halda gjaldtöku fyrir hverskonar heilbrigðisþjónustu í algjöru lágmarki. Við viljum stórefla geðheilbrigðiskerfið, hefja strax uppbyggingu nýs húsnæðis fyrir geðheilbrigðisþjónustu og fjármagna almennilega meðferðarúrræði svo hægt sé að útrýma biðlistum. Grunnheilbrigðisþjónusta á að vera gjaldfrjáls. Það er allt of dýrt að fá alvarlega sjúkdóma á Íslandi. Nauðsynlegt er að draga úr kostnaðarbyrði vegna krabbameinsmeðferða og meðferða vegna annarra alvarlegra sjúkdóma

Húsnæðismál

Flokkur fólksins hefur sett sér nýja húsnæðisstefnu þar sem stefnt er að því að íbúðalánakjör verði sambærileg því sem gildir í nágrannalöndum okkar, þ.e. lán með viðráðanlegum föstum vöxtum til allt að 30 ára. Við viljum brjóta land og byggja til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf. Nauðsynlegt er að hefja strax uppbyggingu á Keldnalandinu og hraða uppbyggingu í Úlfarsárdal og Blikastaðalandi. Við viljum byggja upp nýtt eignaíbúðakerfi á félagslegum grunni. Við viljum afnema verðtryggingu á neytendalánum.

Jafnréttismál

Flokkur fólksins telur mikilvægt að stjórnvöld hugi ávallt að jafnrétti kynjanna og stuðli að því að útrýma kynbundnum launamun.

Menntamál

Menntun er mannréttindi. Skólastarf á Íslandi á að vera þróttmikið með áherslu á jafnræði, sjálfsstyrkingu og samskipti þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín. Flokkur fólksins vill stuðla að bættu menntakerfi á öllum stigum og að læsi ungmenna sé tryggt. Flokkur fólksins vill gera kennslu að eftirsóknarverðu starfi með því að bæta kjör kennara og bæta starfsaðstæður þeirra. Efla þarf lestrarkennslu og endurskoða áherslur og aðferðir. Efla þarf íslenskukennslu fyrir innflytjendur og börn þeirra. Auka þarf aðstoð við nemendur með sérþarfir. Fjölga þarf kennurum í „skóla án aðgreiningar“ til þess að stefnan skili tilætluðum árangri, annars þarf að hverfa frá henni.

Loftslagsmál

Við erum ekki hrifin af loftslagssköttum. Ísland er með sérstöðu á heimsvísu þegar kemur að hlutfalli grænnar orku af orkunotkun þjóðarinnar.

Samgöngumál

Flokkur fólksins leggur áherslu á að tryggja greiðar samgöngur landshluta á milli allan ársins hring. Flokkur fólksins vill að stöðugt sé unnið að því að bæta umferðaröryggi á þjóðvegum landsins meðal annars með bættu viðhaldi, breikkun vega, fækkun einbreiðra brúa og frekari lagningu bundins slitlags. Tryggja þarf að frekari tafir verði ekki á mikilvægum verkefnum eins og Teigskógarleið og Sundabraut. Ráðast þarf í gangnagerð af mun meiri krafti, enda sýna dæmin frá t.d. Færeyjum að það er samfélaginu í heild til góðs ef við byggjum jarðgöng. Flokkur fólksins er andvígur Borgarlínu.

Sjávarútvegsmál

Flokkur fólksins vill að stórútgerðirnar greiði fullt verð fyrir aðgang að sjávarauðlindinni. Við viljum gefa handfæraveiðar frjálsar og endurskoða byggðakvótakerfið. Við viljum tryggja að allur fiskur fari á markað. Við viljum efla okkar yndislegu sjávarbyggðir í stað þess að brjóta þær niður.

Skattamál

Flokkur fólksins vill hækka skattleysismörk í 450.000 kr. með upptöku fallandi persónuafsláttar. Við viljum afnema virðisaukaskatt af hjálpartækjum, hvort heldur hjólastólum eða heyrnatækjum. Við munum aldrei skattleggja fátækt. Við viljum alls ekki hækka nefskatta og krónutölugjöld þegar við erum í baráttu við verðbólgu og reynum að ná niður okurvöxtum.

Stjórnarskrármál

Flokkur fólksins vill fá auðlindaákvæði inn í stjórnarskránna sem tryggir að greiða þurfi fullt verð fyrir aðgang að auðlindinni. Flokkur fólksins vill virða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýja stjórnarskrá og að lagt verði fram frumvarp þess efnis af næstu ríkisstjórn.

Orkumál

Flokkur fólksins vill tryggja að Landsvirkjun verði ævarandi þjóðareign. Við viljum ráðast í enn frekari uppbyggingu á flutnings- og dreifikerfinu svo að landið allt fái notið okkar grænu orku. Við viljum virkja meira, en við viljum ekki að hér spretti upp, eins og gorkúlur, vindmyllugarðar í eigu einkafjárfesta.

Umhverfismál

Flokkur fólksins vill að Ísland nýti þá sérstöðu sem við búum við, og felst í okkar grænu orku og hreina vatni, til að stórefla gróðurhúsarækt. Við viljum niðurgreiða rafmagnskostnað og hitunarkostnað við grænmetisræktun í stað þess að verið sé að fljúga til landsins með grænmeti, sem myglar eftir nokkra daga í búðinni. Við viljum að horfið verði frá áformum um stórfellda niðurdælingu efna í Straumsvík á vegum Carbfix.

Útlendingamál

Flokkur fólksins vill aðlaga íslenska löggjöf í málefnum hælisleitenda að löggjöf hinna Norðurlandanna. Við viljum taka fulla stjórn á landamærunum og tryggja eftirlit með farþegalistum flugfélaga. Við viljum veita stjórnvöldum heimild til að víkja úr landi einstaklingum með alþjóðlega vernd sem fremja glæpi. Við viljum engu að síður að tekið verði utan um þá sem hingað koma og fá alþjóðlega vernd. Við viljum að stjórnvöld efli íslenskukennslu til innflytjenda og hjálpi þeim að aðlagast íslensku samfélagi.

Velferðarmál

Flokkur fólksins vill koma á fót nýju almannatryggingarkerfi og tryggja með lögum að öryrkjar og ellilífeyrisþegar fái 450.000 kr. á mánuði skatta- og skerðingarlaust. Við viljum tryggja að lífeyrir almannatrygginga fylgi launavísitölu og koma í veg fyrir kjaragliðnun. Við viljum að öryrkjar fái að reyna fyrir sér á vinnumarkaði í tvö ár án skerðinga eða endurmats örorku. Við viljum að allir öryrkjar og þeir ellilífeyrisþegar sem hafa lágar tekjur fái skattfrjálsan og skerðingarlausan jólabónus 1. desember ár hvert. Við viljum fella úr lögum starfsgetumatið sem taka á gildi næsta haust. Við viljum að lífeyrisþegar búsettir erlendis haldi persónuafslætti sínum. Við viljum stofna embætti hagsmunafulltrúa eldri borgara. Við viljum að frítekjumark ellilífeyris vegna lífeyristekna verði 100.000 kr. á mánuði. Við viljum ráðast í uppbyggingu á sérútbúnu húsnæði fyrir öryrkja og eldra fólk. Einnig viljum við ráðast í átak við uppbyggingu hjúkrunarrýma.

Við krefjumst þess að Alþingi gangi tafarlaust frá lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.