Byggðarmál

Framsóknarflokkurinn

  • Framsókn vill beita fjárhagslegum hvötum til að bæta aðgengi að opinberri þjónustu við íbúa á á skilgreindum brothættum svæðum, til að jafna aðstöðumun.
  • Framsókn vill auka fjármagn til byggðaáætlunar. Grundvallarendurskoðun hefur átt sér stað á byggðamálum síðustu ár með nýrri byggðaáætlun. Nýta þarf betur þau tæki sem hún býr yfir.
  • Framsókn vill auka við eigið fé Byggðastofnunar til að auka möguleika stofnunarinnar við að styðja við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á landsbyggðinni.
  • Framsókn vill að byggðir verði klasar í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs út um landið til að tryggja betur framgang hugmyndafræðinnar um störf án staðsetningar. Sett verði í forgang því tengt að þróa skattalega hvata til að flýta þeirri uppbyggingu. Aðstöðuleysi má ekki koma í veg fyrir að störf á vegum hins opinbera og einkaaðila verði til á landsbyggðinni.
  • Framsókn vill efla smærri þorp sem standa höllum fæti.
  • Nú þegar hillir undir að verkefnið Ísland ljóstengt, sem Framsókn var í forystu um, ljúki með því að dreifbýlið um landið hafi aðgang að ljósleiðaratengingu þá þurfum við að stíga það næsta. Ísland fulltengt verður forgangsmál hjá Framsókn þannig að minni þéttbýlisstaðir fái ljósleiðaratengingu og íbúar þeirra búi við sömu lífsgæði og aðrir íbúar landsins sem felast í góðum fjarskiptum.

Viðreisn

Fólk þarf að hafa raunhæfa valkosti um hvar það býr sér heimili og ekki vera mismunað á grundvelli búsetu. Blómleg og öflug byggð landið um kring er forsenda velsældar í íslensku samfélagi. Tryggja þarf góðar samgöngur, öfluga nettengingu og öruggt rafmagn um allt land. Það er forsenda fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar og fjölgunar tækifæra á Íslandi.

Rafræn stjórnsýsla bætir aðgengi að þjónustu og skapar tækifæri til hagræðingar og framleiðniaukningar í opinberum rekstri. Viðreisn vill að litið sé til nýrra lausna við að skapa störf og tækifæri. Uppbygging fjarvinnukjarna víða um land leika þar lykilhlutverk. Hið opinbera á að tryggja að þeir verði sem víðast um landið og bjóða þannig upp á fjölbreyttari atvinnumöguleika. Huga þarf sérstaklega að stuðningi við menningartengda starfsemi um allt land.

Viðreisn styður sameiningu og stækkun sveitarfélaga með það fyrir augum að draga úr yfirbyggingu og efla nærþjónustu á hagkvæman hátt. Tryggja þarf að fjármagn fylgi tilfærslu verkefna og auka á aðkomu íbúa á landsbyggðinni að lykilákvörðunum um uppbyggingu í heimabyggð þeirra.

Sjálfstæðisflokkurinn

Frelsi til vals um búsetu er mikilvægt. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að með öflugri grunnþjónustu verði byggð um allt land best tryggð. Tækifæri landsbyggðanna til aukinna lífsgæða íbúa verða best tryggð með tryggu og nægu rafmagni, fjölbreyttri menntun, góðum samgöngum og öflugum fjarskiptum. Einnig er brýnt að forsendur skapist fyrir fjölbreyttu námsframboði, jafnt með staðbundnu námi og fjarnámi. Mótuð verði heildstæð og framsækin byggðastefna til lengri tíma með áherslu á jöfn tækifæri til atvinnu og búsetu. Grunnur að auknum lífsgæðum er lagður með því að nýta gæði landsins sem best. Uppbygging og stuðningur við nýsköpun treystir búsetuskilyrði í landinu.

Flokkur Fólksins

Flokkur fólksins mun alltaf verja heimilin! Við ætlum að afnema verðtryggingu húsnæðislána. Við viljum að almenningi verði heimilt að endurfjármagna verðtryggð lán með óverðtryggðum lánum án þess að undirgangast lánshæfis- og greiðslumat.

Við ætlum að afnema með öllu himinhá uppgreiðslugjöld á lánasamningum sem Íbúðalánasjóður gerði á sínum tíma.

Við leggjum áherslu á þróttmikla atvinnustarfsemi um allt land í landbúnaði, iðnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og skapandi greinum.

Til þess að byggð haldist í landinu öllu er brýnt að starfsemi hins opinbera úti á landi verði í fullu samræmi við þarfir íbúanna, fjölda þeirra og samgöngur á viðkomandi svæði. Leitast skal við að koma stofnunum ríkisins fyrir úti á landi til jafns við á höfuðborgarsvæðið í samræmi við hagsmuni byggðarlaga og þjóðar.

Þjónusta hins opinbera við íbúa hvers byggðarlags skal vera sem næst notendum hennar. Stjórn opinberra stofananna skal komið fyrir úti á landi eins og framast er unnt og skynsamlegt getur talist.

Við gerum kröfu um að komið verði í veg fyrir að stórir hlutar lands færist í hendur erlendra aðila, t.d. með því að gera búsetu á Íslandi sem skilyrði fyrir eignarhaldi.

Sameining sveitarfélaga skal ekki leiða til skertrar þjónustu. Tryggja skal að fólk njóti sömu réttinda óháð búsetu.

Sósíalistaflokkurinn

Með sósíalískri byggðastefnu getum við snúið áratuga löngu hnignunarskeiði við og hafið þróttmikla uppbyggingu á landsbyggðinni. Hafið löngu tímabæra uppbyggingu velferðarkerfisins með félagslegum lausnum. Sú uppbygging miðast við þarfir fólks, vonir og væntingar og er á þeirra forsendum. Sósíalísk byggðastefna er að efla pólitískt og efnahagslegt vald byggðanna. Grundvallarstefna Sósíalistaflokksins er að fá valdið og þjónustuna heim í byggðirnar. Sósíalistaflokkurinn er landsbyggðarflokkur og sósíalísk byggðastefna er eitt af lykilstefnumálum flokksins. Sjá nánar hér

Miðflokkurinn

Kjarninn í byggðastefnu Miðflokksins birtist í slagorðinu „Ísland allt,“ sem gengur út á að innleiða heildarsýn í byggðamálum þar sem jafnrétti allra, óháð búsetu, verður tryggt. Byggðastefnan „Ísland allt“ hefur aldrei verið eins aðkallandi og nú. Aðeins á þann hátt getum við farið úr dýrri vörn í arðbæra sókn fyrir landið allt.

Í stað þess að reyna smáskammtalækningar hér og þar er mikilvægt að allar aðgerðir tengist saman og eitt styðji annað. „Íslandi allt“ er ætlað að ná til allra þátta sem skipta byggð í landinu miklu, svo sem samgöngur, fjarskipti, orkuflutninga, heilbrigðisþjónustu, menntamál, aðstæðum atvinnurekenda og allri annari þeirri þjónustu sem allir landsmenn eiga jafnan rétt á.

Miðflokkurinn hefur áhyggur af misvægi milli landsbyggðarinnar og suðvesturhornsins og telur brýnt að styðja við uppbyggingu úti á landi og efla þannig byggð um allt land. Þessi sýn nær til allra málaflokka en brýnast er að tryggja að velferðakerfi okkar Íslendinga gagnist öllum. Því hefur Miðflokkurinn lagt mikla áherslu á að styrkja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og snúa þannig við þeirri óheillaþróun sem hefur orðið þar undanfarna áratugi með síversnandi þjónustu og verra aðgengi að henni. Miðflokkurinn hyggst styrkja á ný heilsugæsluþjónustu og sérfræðilækningar utan höfuðborgarsvæðisins. Á sama hátt er mikilvægt að öllum landsmönnum standi til boða jafngóð menntun á skyldustigi en því miður er mikill misbrestur þar á. Þá þarf ekki að taka fram að samgöngumál eru byggðamál.

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn

Öll störf ríkis án staðsetningar. Allir fundir á vegum ríkisstofnana ættu að vera aðgengilegir með fjarfundabúnaði. Störf án staðsetningar minnkar losun á hættulegum gróðurhúsalofttegundum. Dreifð byggð er mikilvægur hlekkur landgræðslu að ná þeim loftslagsmarkmiðum sem við höfum lofað. Það ætti að vera raunverulegur valkostur fyrir ungt fólk að búa utan höfuðborgarsvæðisins. Meiri tími með fjölskyldunni, svegjanlegur vinnutími, betri nýting allra innviða ásamt viðráðanlegra húsnæðisverði. Minni mengun, betri nýting húsnæðis, mikill sparnaður, lægri skattar, sparar gjaldeyrir og meiri lífsgæði. Minni bílaumferð og minni þörf fyrir bílastæði.

Píratar

Allar stefnur Pírata eru í raun byggðastefna. Við viljum sjálfbær sveitarfélög, með góðu aðgengi að grunnþjónustu og skapa aðstæður fyrir aukna nýsköpun, verðmætasköpun og framleiðslu í heimahögum. Við viljum jafnframt færa ákvarðanatöku í meira mæli til nærsamfélagsins.

Völdin heim í hérað
Píratar trúa því að fólk á svæðinu viti, öðrum fremur, hvað sé svæðinu fyrir bestu. Þess vegna viljum við draga úr miðstýringu ríkisins og gera íbúum landsbyggðarinnar kleift að móta umhverfi sitt sjálf.

Sveitarfélög njóti verðmæta sem þau skapa
Píratar vilja að sveitarfélög fái meira af tekjunum sem þau skapa, t.d. af virðisaukaskatti, fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti fyrirtækja. Frjálsar handfæraveiðar, sem við berjumst fyrir, munu styrkja brothættar byggðir sem og nýsköpunarstefna Pírata.

Sterkir innviðir um land allt
Píratar vilja framþróun um land allt og til þess þarf góða innviði - eins og háhraða internet, traust rafmagn og öruggar samgöngur.

Aðgengi að þjónustu
Píratar telja að búseta eigi ekki að koma í veg fyrir aðgengi fólks að nauðsynlegri þjónustu. Ákvarðanir okkar í þessum efnum munu alltaf hvíla á þeirri sýn.

Valdið til fólksins
Píratar vilja auðvelda fólki að hafa áhrif á sveitarfélögin sín - t.d. með því að auka gagnsæi í stjórnsýslu sveitarfélaga og auðvelda íbúum að boða til íbúakosninga.

Samfylkingin

Með markvissri byggðastefnu getum við bætt aðgengi allra landsmanna að almannaþjónustu, aukið tækifæri til verðmætasköpunar og skapað framsækið, fjölbreytt og skemmtilegt samfélag. Samfylkingin lítur á Ísland sem eina heild þar sem sterkt höfuðborgarsvæði nýtur góðs af blómstrandi byggðum og bæjum um land allt og öfugt. Óábyrg stjórnmálaöfl ala á sundrungu milli borgar og byggða. Það gerir Samfylkingin ekki. Okkar markmið er að tryggja jöfn tækifæri og möguleika allra landsmanna óháð búsetu, svo sem til atvinnu, menntunar, menningar og hvers kyns þjónustu.

Meðal áherslumála Samfylkingarinnar fyrir Alþingiskosningarnar 2021:

  • Fjárfesta af krafti í grunninnviðum á landsbyggðunum, sér í lagi þeim sem stuðla að grænni umbreytingu; fjarskiptum, orkuinnviðum, samgöngum, húsnæði o.fl.
  • Efla heilbrigðisþjónustu við fólk um allt land með ákvæðum um starfsaðstæður og kjör heilbrigðisstétta og fjárfestingu í tæknilausnum til fjarlækninga.
  • Greiða allan ferðakostnað innanlands vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu við fólk fjarri heimabyggð.
  • Ráðast í stórátak í samgöngumálum til að styrkja Ísland sem heild með því að tengja landshlutana betur saman og stytta vegalengdir innan afmarkaðra vinnusóknarsvæða.
  • Byggja upp Landlínu, heildstætt almenningsvagnanet svo að það verði einfaldur og raunhæfur kostur fyrir fólk að ferðast um Ísland án einkabíls
  • Byggja nýsköpunarklasa í öllum helstu þéttbýliskjörnum í samvinnu við heimafólk.

Vinstri Græn

Vinstrihreyfingin -- grænt framboð vill tryggja blómlega byggð í öllum landshlutum. Fjölbreytt atvinnulíf, menntun og nýsköpun, heilbrigðis- og félagsþjónusta ásamt góðum samgöngum, er undirstaða jákvæðrar byggðaþróunar.

  • Tryggja þarf byggða- og búsetujafnrétti. Allir landshlutar eiga að geta boðið upp á fjölbreytt og aðlaðandi búsetuskilyrði fyrir núverandi íbúa, nýja íbúa og nýjar kynslóðir. Til að ná þessu markmiði hafa Vinstri-græn unnið að því að flýta framkvæmdum í flutningskerfi raforku og fjarskipta og jafna flutningsgjöld raforku.

  • Að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur um allt land, loftslagsvænar lausnir liggi til grundvallar í samgöngum.

  • Að réttur íbúa til grunnþjónustu verði tryggður með skilgreiningu á lágmarksþjónustuviðmiði ríkis og sveitarfélaga.

  • Efla byggðajafnrétti með þátttöku fulltrúa frá öllu landinu í nefndum og ráðum ríkisins og efla svæðisstöðvar RÚV um allt land. Öflug og fjölbreytt menningarstarfsemi er ein af undirstöðum íslensks samfélags og hluti af langri sögu, menningararfi og íslenskri tungu. Menning er líka mikilvægur þáttur í að byggja upp litríkt samfélag án aðgreiningar.

  • Hið opinbera hafi forgöngu um að auglýsa störf án staðsetningar og aðrir atvinnurekendur verði hvattir til hins sama.

  • Efla námsframboð á öllum skólastigum í öllum landshlutum. Styrkja heilsugæslu, heilbrigðisstofnanir og fjarheilbrigðisþjónustu og byggja upp meira af hagkvæmu og fjölbreyttu íbúðarhúsnæði um allt land.

  • Fjölga friðlýstum svæðum og störfum við náttúruvernd, en rannsóknir sýna að það skilar einnig fjárhagslegum ábata heim í hérað.

Kosningaáherslur Vinstri grænna: https://vg.is/kosningaaherslur-2021/
Stefna Vinstri grænna í byggðamálum: https://vg.is/stefna/byggdamal/

Ábyrg Framtíð

Ekkert svar hefur borist við þessum málaflokki